15.7.2017

Trump í heiðursstúku á Bastillu-degi í París

Morgunblaðið föstudagur 14. júlí 2017.

Í dag er Bastillu-dagurinn, 14. júlí, þjóðhátíðardagur Frakka. Hann er kenndur við Bastilluna, virkis- og fangelsisturn í París frá árinu 1370. Honum var ætlað að treysta varnir borgarinnar í 100 ára stríði Frakka og Englendinga. Turninn varð síðar tákn kúgunarvalds Frakkakonungs. Þennan dag árið 1789 hófst franska stjórnarbyltingin með árás almúgans á Bastilluna. Fólkið lagði hana undir sig á þremur dögum og nokkru síðar var birt yfirlýsing að fyrirmynd bandarísku stjórnarskrárinnar um borgaraleg réttindi.

Frakkakonungur Lúðvík XVI. á að hafa spurt: „Er þetta uppreisn?“ og fengið svarið: „Nei, yðar tign, þetta er bylting.“ Franska lýðveldið var stofnað 21. september 1792. Konungurinn (38 ára) var tekinn af lífi 21. janúar 1793 á Byltingartorginu sem nú heitir Concorde-torg í hjarta Parísar. Hann hafði verið sviptur tign og var dæmdur fyrir landráð undir nafninu Louis Capet borgari. Kona hans Marie Antoinette (38 ára) var líflátin á sama stað 16. október 1793.

Franska þingið samþykkti árið 1880 að 14. júlí yrði þjóðhátíðardagur Frakka en þá hafði III. lýðveldið verið stofnað. Frá og með því ári hefur hersýning á Champs Elysée-breiðgötunni verið fastur liður í þjóðhátíðarhöldunum. Sýningin, mesta í Evrópu, að þessu sinni með þátttöku 1.200 franskra og 200 bandarískra hermanna, hefst á Charles de Gaulle-torgi við Sigurbogann, efst á breiðgötunni, og lýkur á Concorde-torgi þar sem Frakklandsforseti og annað fyrirfólk er í heiðursstúku. Í ár verða bandarísku forsetahjónin Donald Trump og Melania sérlegir hátíðargestir frönsku forsetahjónanna Emmanuels Macrons og Brigitte. 

Macron bauð Trump til Parísar til að minnast þess að í ár eru 100 ár liðin frá því að Bandaríkjastjórn sendi hermenn til þátttöku í fyrri heimsstyrjöldinni.

Skjótur frami Macrons

Um það bil tveir mánuðir eru liðnir frá því að Emmanuel Macron var kjörinn forseti fimmta franska lýðveldisins. Charles de Gaulle hershöfðingi stofnaði það árið 1958. Hann vildi endurvekja stjórnfestu í Frakklandi og nota til þess forsetaræði. 

Ekki liggur í hlutarins eðli að Frakklandsforseti njóti stuðnings meirihluta á franska þinginu. Emmanuel Macron tókst hins vegar að tryggja sér hreinan meirihluta í þingkosningum í júní. Hann gerði það í krafti flokks eða hreyfingar sem hann stofnaði í fyrra með umbætur á stjórnarháttum og vinnulöggjöf í huga.

Framboð Macrons og stjórnmálahreyfing hans hefur þegar kollvarpað franska flokkakerfinu. Sósíalistar eru í sárum og hægri menn forystulausir. Í forsetakosningunum naut Macron stuðnings mið-lýðræðissinna (MoDem). Eftir að flokkur forsetans hlaut meirihluta á þingi mega MoDem-menn sín lítils. Þeir eru auk þess í sárum vegna ásakana um misnotkun á starfskostnaðarfé þingmanna flokksins á ESB-þinginu – það hafi verið notað til að forða flokknum frá gjaldþroti. Þjóðfylking Marine Le Pen logar af ágreiningi auk þess er Le Pen sökuð um að hafa misfarið með starfskostnaðarfé sem ESB-þingmaður.

Trump ekki til Bretlands


Sjö dögum eftir að Trump tók við forsetaembættinu í janúar 2017 var Theresa May, forsætisráðherra Breta, fyrst erlendra stjórnarleiðtoga til að heimsækja hann. Eftir fund þeirra sagðist hún hafa flutt honum boð Bretadrottningar um að koma síðar á árinu í opinbera heimsókn til Bretlands og hefði Trump þegið boðið.

Nú þriðjudaginn 11. júlí var tilkynnt að komu Trumps hefði verið frestað fram á næsta ár. Þetta eins og svo margt annað um þessar mundir er lagt út á versta veg fyrir May forsætisráðherra.

Tim Farron, fráfarandi leiðtogi Frjálslynda flokksins í Bretlandi, sagði að frestun heimsóknar Trumps væri til marks um veika stöðu May á alþjóðavettvangi. „Það er mjög vandræðalegt fyrir forsætisráðherrann að jafnvel úrhrak eins og Donald Trump vill ekki lengur láta sjá sig með henni,“ sagði Farron.

Þótt þetta sé dæmigerður spuni pólitísks andstæðings er allt þetta neyðarlegt fyrir May. 

Bretar óhressir

Í breskum fjölmiðlum beinast spjótin nokkuð að Macron í anda gamalgróins Frakka-óhróðurs (e. French Bashing) af hálfu Englendinga. 

Til dæmis var rækilega vakin athygli á að Frakklandsforseta líkaði ekki hvar hann átti að standa á „fjölskyldumyndinni“ sem tekin var á leiðtogafundi G20-ríkjanna í Hamborg. Til er myndskeið þar sem hann sést troða sér í gegnum hópinn í fremstu röð við hliðina á Donald Trump. Naut myndskeiðið mikilla vinsælda á vefsíðu The Telegraph.

Breski dálkahöfundurinn Charles Moore sagði stefnuræðu Macrons yfir þingmönnum beggja deilda franska þingsins í Versalahöll óhugsandi í Bretlandi – þetta gilti um efni ræðunnar, hátimbraðan stíl hennar og umgjörðina þar sem forsetinn gekk einn um marmalasali hallarinnar í þingsalinn með skrautbúinn heiðursvörð í réttstöðu til beggja handa. 

Í stefnuræðu í Bretlandi dytti engum í hug að boða fækkun þingmanna um þriðjung eða að „sigurandi“ þjóðarinnar yrði endurvakinn.  Moore sagðist hafa hlegið upphátt þegar hann fylgdist með þessu í sjónvarpi. Allt kynni þetta þó að boða mikið fall eins og þegar Louis XVI. flutti boðskapinn í Versölum 1789 sem leiddi til árásarinnar á Bastilluna.

Frábær sviðsetning, einmitt það sem lýðveldið sárvantar eru lokaorð Moores.

Macron maður sviðsetningar

Macron er maður einstakrar sviðsetningar. Ógleymanleg er myndin þegar hann gekk einn á sviðið fyrir framan gullsleginn pýramídann við Louvre-safnið að kvöldi forsetakjördags og fagnaði sigri sínum.

Að bjóða Trump-hjónunum til Parísar 14. júlí er hluti klókrar sviðsetningar þar sem Macron tryggir sér sérstakt samband við Donald Trump. 

Skömmu eftir að Macron kallaði þingmenn til að hlusta á boðskap sinn í Versölum flutti forsætisráðherra hans, Edouard Philippe, stefnuræðu sína í þinginu. Á sama tíma kaus Macron að fara um borð í franskan kjarnorkukafbát undan Atlantshafsströnd Frakklands. Þótti ýmsum það skrýtin sviðsetning.

Sunnudaginn 9. júlí var fundur í frönsku ríkisstjórninni og þar greip Macron fram fyrir hendur á Philippe forsætisráðherra vegna ríkissjóðshalla og skattamála. Hvað sú sviðsetning boðar veit enginn.

Blásið til mótmæla

Donald Trump sagði við Theresu May í vikunni að hann vildi ekki koma til Bretlands fyrr en honum þætti líklegt að sér yrði vel tekið af almenningi.

Öryggisvarsla verður gífurlega mikil í höfuðborginni og um allt Frakkland 14. júlí 2017. Þá er þess minnst að rétt ár er liðið frá því að stórum bíl var ekið inn í mannfjölda á strandgötunni í Nice. Barnafjölskyldur komu þar saman til að horfa á þjóðhátíðar-flugeldasýningu. Ódæðismanninum tókst að svipta 86 manns lífi.

Blásið verður til mótmæla í París vegna komu Trumps. Place de la République, Lýðveldistorgið, verður lýst Trump-laust svæði. Boðið til Donalds Trumps sýnir enn á ný að Emmanuel Macron fer hiklaust ótroðnar slóðir.