13.1.1997

Endurskoðun námskrár

Fundur með formönnum fagfélaga kennarasamtakanna
13. janúar 1997.

Stundum er því haldið fram, meðal annars af kennurum, að skólakerfið fái ekki að vera í friði fyrir okkur stjórnmálamönnunum og þá sérstaklega menntamálaráðherrum. Þeir komi hver á eftir öðrum og finni hjá sér þörf til að kollvarpa því, sem áður hefur verið gert, hvort sem það er gott eða vont. Hið versta sé, að hugmyndasmíðinni ljúki ekki fyrr en í sama mund og kjörtímabilinu sé að ljúka og þess vegna sjáist oft ekki annað en orð á blaði, sem aldrei komast í framkvæmd.

Á þeim tíma, sem ég hef gegnt embætti menntamálaráðherra, hefur mér verið kappsmál að falla ekki í þessa gryfju, ef ég má orða það svo. Undir þeirri leiðarstjörnu vann ég að flutningi grunnskólans til sveitarfélaganna og framgangi frumvarps um framhaldsskólana.

Í verkefnaáætlun menntamálaráðuneytisins, Menning og menntun, forsenda framtíðar, sem ég gaf út í febrúar 1996, og hefur að geyma áhersluatriði mín á kjörtímabilinu, sem lýkur vorið 1999, segir í fyrstu setningu kaflans um menntamál: “Stærsta nýja verkefnið á sviði menntamála á kjörtímabilinu er endurskoðun námskrár fyrir grunnskóla og framhaldsskóla."

Verður varla skýrar að orði kveðið. Fagna ég því, að fá hér tækifæri til að gera ykkur grein fyrir stöðu þessarar endurskoðunar og þakka samtökum kennara fyrir að gera mér það kleift.

Áherslur í skólastarfi eru lagðar með vali á námsgreinum sem kenndar eru í skólum, sérstökum námsþáttum og þeim tíma sem viðkomandi grein fær í viðmiðunarstundarskrá. Lög setja skólastarfi ytri ramma en námskrá tilgreinir hvernig stjórnvöld á hverjum tíma telja að markmiðum skólalöggjafarinnar sé best náð.

Aðalnámskrár beggja skólastiga hafa ekki verið endurskoðaðar um alllangt skeið. Heildarendurskoðun á aðalnámskrá grunnskóla lauk síðast árið 1989 en á aðalnámskrá framhaldsskóla árið 1990. Í kjölfar nýrra laga um grunn- og framhaldsskóla er þörfin á endurskoðun á aðalnámskrám beggja skólastiga orðin knýjandi bæði af lagalegum og faglegum ástæðum. Um leið hefur skapast einstakt tækifæri til að gaumgæfa námskrárstefnu menntamálaráðuneytisins með tilliti til breyttra aðstæðna og áherslna í námskrárgerð, menntamálum og samfélaginu almennt. Aðalnámskrár eru sú kröfulýsing sem skólastarf fer eftir. Allir aðilar ‹ nemendur, aðstandendur þeirra, kennarar, skólastjórnendur, vinnuveitendur og samfélagið í heild ‹ verða að vita hvaða þekkingar- og hæfniskröfur eru gerðar til nemenda.



Formlegur undirbúningur endurskoðunarinnar hófst í byrjun maí síðastliðinn. Í júlílok lagði ég skipulag og verk- og tímaáætlun endurskoðunarinnar fyrir ríkisstjórn til samþykkis og að því fengnu var verkefninu formlega hleypt af stokkunum. Samkvæmt verkáætlun er stefnt að því að ljúka verkinu á 27 mánuðum, þ.e. um mitt sumar 1998. Heyrst hafa raddir um að jafn umfangsmikið verk sé ekki unnt að vinna á svo skömmum tíma. Í því sambandi er mér er ánægja að greina frá því hér að nú, eftir sjö mánaða starf, gengur verkið samkvæmt áætlun og á þessari stundu er ekkert sem bendir til annars en svo verði áfram í veigamestu atriðum.

Til að tryggja eðlilega framvindu verkefnisins var ákveðið að ráða fólk til að halda utan um starf vinnuhópa á hverju hinna níu námssviða endurskoðuninnar. Hinir faglegu umsjónarmenn hófu störf í byrjun september. Meginverkefni þeirra í haust hefur verið almennur undirbúningur að framkvæmd verkefnisins í samvinnu við verkefnisstjóra og verkefnisstjórn, öflun gagna til notkunar í forvinnuhópum, greining okkar eigin aðalnámskráa og námskráa annarra landa og námsþáttagreining, með það fyrir augum að létta vinnu forvinnuhópa sem nú er í þann mund að hefjast.

Í allt munu hátt á annað hundrað manns koma að endurskoðun aðalnámskráa þegar mest lætur og var ljóst frá upphafi, að svo umfangsmikil starfsemi mundi ekki rúmast innan veggja menntamálaráðuneytisins. Af þeim sökum var ákveðið að nýta til verkefnisins laust húsnæði á vegum menntamálaráðuneytisins að Hallveigarstöðum.

Ljóst er að ýmsar spurningar hljóta að vakna um áherslur og stefnumótun þegar ráðist er í heildarendurskoðun aðalnámskráa. Í sumar unnu grunn- og framhaldsskóladeildir ráðuneytisins að samantekt þeirra álitamála sem nauðsynlegt er að taka afstöðu til. Verkefnisstjórn endurskoðunarinnar fékk samantektir þessar til umfjöllunar í september sl. Þau álitamál, er þar var greint frá, lögðu grunninn að skýrslu verkefnisstjórnar til stefnumótunarnefndar endurskoðunarinnar í október.

Samhliða þessu vann verkefnisstjórn að samantekt og tillögum að almennri stefnumótun ráðuneytisins í tengslum við endurskoðunina og mun ég nefna helstu atriði þeirrar stefnu hér á eftir.

Þá fól verkefnisstjórn Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála að gera samanburðarrannsókn á áherslum í aðalnámskrám grunn- og framhaldsskóla og erlendum aðalnámskrám. Slíkur samanburður á námsáherslum og skiptingu tíma á milli námsgreina og námsgreinaflokka er mikilvæg undirstaða stefnumótunar hérlendis í þeim efnum. Fyrsti hluti þessarar skýrslu lá fyrir í byrjun október og hefur m.a. verið nýttur í starfi stefnumótunarnefndar. Í ljósi árangurs íslenskra nemenda í TIMSS rannsókninni ákvað menntamálaráðuneytið að senda starfsmann RUM til höfuðstöðva IEA, sem framkvæmdi TIMSS-könnunina, til að hraða sem mest frekari greiningu á námskrám þátttökuþjóðanna, svo að þær upplýsingar megi gagnast við endurskoðunina.

Stefnumótunarnefnd endurskoðunarinnar var skipuð um miðjan október samkvæmt tilnefningum allra stjórnmálaflokka á Alþingi alls tíu fulltrúar en fulltrúi minn, Sigríður Anna Þórðardóttir, alþingismaður, formaður menntamálanefndar Alþingis, stýrir störfum hennar. Nefnd þessi er ráðherra til ráðgjafar um stefnumótun í endurskoðuninni og er ætlað að ljúka störfum fyrir fyrsta mars nk. Nefndin fjallar um og tekur afstöðu til þeirra námskrártengdu álitamála, sem tilgreind eru í skýrslu verkefnisstjórnar, og leggur til við ráðherra mikilvægan hluta þeirrar stefnu sem mótar endurskoðun námskránna.

Þar sem vinna við verkefnið hefur verið skipulögð, starfsmenn hafa verið ráðnir og almenn stefnumótun ráðuneytisins er vel á veg komin er næsta verkefni að hrinda hinni faglegu stefnumörkun úr vör.

Laust fyrir áramót sendi menntamálaráðuneytið HÍK og KÍ bréf þar sem óskað er eftir tilnefningum kennarasamtakanna í forvinnuhópa endurskoðunarinnar. Vonir standa til að tilnefningar þessar berist innan fárra daga og í kjölfar þess mun ráðuneytið skipa hópana með formlegum hætti.

Stefnt er að því að forvinnhópar hefji störf um 25. janúar og er það um mánuði fyrr en verkáætlun gerir ráð fyrir. Verkefni forvinnuhópa er að gera tillögur til verkefnisstjórnar að almennri stefnumótun ráðuneytisins á hverju námssviði í náinni samvinnu við þá aðila sem viðkomandi námssviði tengjast. Að starfi loknu mun ráðuneytið gefa tillögur þessar út og senda umsagnaraðilum til umfjöllunar og athugasemda en síðan mun stefnumótun á þessu stigi verða viðspyrna í starfi vinnuhópa í sumar og næsta haust. Á þessum tíma er mikilvægt að umræða um eðli og stöðu einstakra greina eða greinaflokka fari fram innan fagfélaga kennara og vil ég hvetja til þess að svo verði, m.a. innan bakhópa þeirra sem kennarasamtökin hyggjast koma á laggirnar vegna endurskoðunarinnar. Einnig mætti hugsa sér að skyld fagfélög kennara efni til málþinga um greinar sínar og hvetji þannig til umræðu og skoðanaskipta á forvinnustiginu. Menntamálaráðuneytinu yrði mikill stuðningur af slíkum viðburðum og gæti ef til vill orðið að liði í þeim efnum.

Veigamikill þáttur endurskoðunarinnar ‹ og ég vil leggja áherslu á þetta atriði ‹ er virk þátttaka samtaka kennara, skóla, atvinnulífs og fræðimanna í faglegri stefnumótun. Fulltrúar kennarasamtakanna munu eiga sæti í ritstjórn grunn- og framhaldsskóla sem brátt verður skipuð. Henni er einkum ætlað að hafa eftirlit með ritunarferli endurskoðunarinnar, samræma vinnu hinna ýmsu vinnuhópa og vera farvegur samráðs og umsagnar fag- og hagsmunaaðila.

Við þetta tækifæri langar mig aðeins að nefna þær áherslur sem ráðuneytið mun beita sér fyrir við endurskoðun á aðalnámskrám fyrir grunnskóla og framhaldsskóla. Um er að ræða þrettán atriði og tíunda ég þau hér án þess rekja efnisþættti á þessu stigi. Stefnumiðin eru:

1. Áhersla á íslensku, sögu og þjóðmenningu.
2. Áhersla á vísindalæsi.
3. Áhersla á tæknimenntun.
4. Alþjóðlegar kröfur
5. Almenn lífsleikni.
6. Símenntun.
7. Mat og eftirlit.
8. Endurskoðun kennsluhátta.
9. Efling fjarkennslu.
10. Dregið úr brottfalli í framhaldsskólum.
11. Nám við hæfi hvers og eins.
12. Jafnrétti.
13. Samfella í námi.
Ein meginviðmiðun endurskoðunarinnar nú er, að hún fari fram fyrir opnum tjöldum og mun ráðuneytið leitast við að gera sem flestum kleift að fylgjast með framvindu hennar. Fulltrúar kennarasamtakanna munu eiga sæti í ritstjórn grunn- og framhaldsskóla, eins og áður er getið. Forvinnuhópar á einstökum námssviðum verða m.a. skipaðir fulltrúum frá samtökum kennara og vinnuhópar um einstakar námsgreinar fulltrúum þeirra greina innan vébanda HÍK og KÍ. Með þessu fyrirkomulagi telur menntamálaráðuneytið að kennarastéttinni séu tryggð fullnægjandi skilyrði til beinnar þátttöku í endurskoðun aðalnámskráa.

Upplýsingahliðin hefur mikið vægi ekki síst nú þegar hin faglega vinna á námssviðum fer af stað og hyggst ráðuneytið rækja þennan þátt með margvíslegum hætti. Þegar hefur verið minnst á hið formlega umsagnarferli en þar að auki hefur verkefnisstjóri haldið rúmlega 30 kynningarfundi um skipulag og framvindu endurskoðunarinnar frá því í haust en þar við bætast fréttatilkynningar, póstsendingar, viðtöl, svör við fyrirspurnum og skrif í fréttabréf menntamálaráðuneytisins. Á döfinni að gefa út sérstakt fréttabréf endurskoðunarinnar meðan á henni stendur. Þá er þegar kominn upp heimasíða tileinkuð þessu verki en þar verða reglulega færðar inn fréttir af vinnunni á einstökum námssviðum og af verkefninu í heild. Umræður um tillögur og drög að stefnumótun verða á sérstökum spjallsíðum sem verða öllum aðgengilegar.

Með nýjum lögum og þeim breytingum sem hafa orðið á íslensku menntakerfi í kjölfar þeirra, hefur námskrárvinna og virk endurskoðun aðalnámskráa beggja skólastiga orðið eitt veigamesta hlutverk menntamálaráðuneytisins.

Ég veit, að orð mín taka af öll tvímæli um, að kennurum, fagfélögum þeirra og samtökum gefst kostur á að gegna veigamiklu hlutverki við þessa endurskoðun. Tíminn til þessa mikla verkefnis er naumur og því mikilvægt, að til staðar sé skýr stefna um hvernig skuli að verki staðið. Þessa stefnu hef ég nú kynnt. Er það von mín, að allir þeir, sem málið snertir, leggist á eitt við að ljúka verkinu á farsælan hátt.

Þeir, sem í skólum starfa, gera sér þess betur grein en nokkrir aðrir, að hér eru sjálfar forsendur alls faglegs starfs í grunn- og framhaldsskólum landsins í húfi. Ekki er gerð tillaga um að kollvarpa neinu heldur endurskoða það, sem til er, og laga það, sem betur má fara, með hliðsjón af nýjum og auknum kröfum um menntun og til skóla. Verkið verður því að vanda eins og frekast er kostur. Framtíðarheill þjóðarinnar er í húfi.

http://www.ismennt.is/vefir/namskra/