10.1.1997

Mímir - mikla norræna lestrarkeppnin

Mímir, stóra norræna lestrarkeppnin
- ávarp í Norræna húsinu -
10. janúar 1997.

Íslensk menning sækir styrk sinn til bókmennta. Hér á landi hefur lestur og ritun bóka tíðkast um aldir. Við sjáum þess ýmis merki, að vegna hins forna bókmenntaarfs stöndum við tiltölulega vel að vígi, þegar reynir á kunnáttu í lestri eða ritlist. Af stolti köllum við okkur bókaþjóð og samanburður við aðra sýnir, að við stöndum undir því nafni.

Við komum hér saman í dag vegna þess, að á síðasta ári gafst grunnskólanemendum á öllum Norðurlöndum í fyrsta skipti tækifæri til að taka þátt í samnorrænni lestrarkeppni. Mímir, stóra norræna lestrarkeppnin er haldin að frumkvæði norrænu bókmennta- og bókasafnsnefndarinnar (NORDBOK) og stjórnarnefndar um norrænt samstarf á sviði skólamála(NSS) , undir merkjum Norrænu ráðherranefndarinnar sem veitir fjárhagslegan stuðning til keppninnar.

Meginmarkmiðið með keppninni er að efla almennan lestaráhuga nemenda, auka áhuga þeirra á lestri bókmennta og hvetja þá til að lesa norrænar bókmenntir. Einnig er markmið með keppninni að efla og styrkja samkennd barna og unglinga á Norðurlöndum.

Íslendingar eiga hugmyndina að þessu ágæta norræna framtaki. Fyrir þremur árum var efnt til lestrarkeppni hér á landi. Þrátt fyrir lítinn undirbúningstíma tókst sú tilraun vonum framar, fjölmargir skólar tóku þátt og mikið var lesið. Með vísan til þessarar reynslu hvöttu Íslendingar í Norðurlandasamstarfi til norrænnar lestrarkeppni, og nú þremur árum seinna hefur hún orðið að veruleika.

Dagana 4.-17. nóvember síðastliðinn voru allir grunnskólanemendur á Norðurlöndum hvattir til að lesa sem mest, lifa sig inn í sögusvið bókmennta og njóta þeirra. Þeir voru ekki einungis hvattir til að lesa, heldur einnig til að mynda samstarf við jafnaldra annars staðar á Norðurlöndum, skiptast á skoðunum um norrænar bókmenntir og styrkja þannig tengsl norrænna barna og unglinga. Með nýjustu upplýsingatækni ætti að skapast grundvöllur fyrir enn nánari samskipti á þessu sviði milli Norðurlandanna en áður.

Hér á landi er Garðar Gíslason kennari við Menntaskólann í Kópavogi verkefnisstjóri Mímis og með honum hefur starfað undirbúningsnefnd með fulltrúum frá menntamálaráðuneytinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum móðurmálskennara, Skólastjórafélagi Íslands, Bókavarðafélagi Íslands, Félagi íslenskra bókaútgefenda og Ríkissjónvarpinu. Vel var staðið að öllum undirbúningi keppninnar hér á landi og eiga þeir mikið hrós skilið sem lagt hafa hönd á plóginn til að gera Mími að eftirminnilegum atburði í íslensku samfélagi og norrænni samvinnu. Einkum vil ég þakka börnum og unglingum og kennurum þeirra fyrir þátttökuna í Mími. Mjög mikill áhugi var á keppninni í grunnskólum, en meirihluti íslenskra skóla tók virkan þátt í Mími og er þátttaka okkar skóla margfalt meiri en hjá frændþjóðum okkar á Norðurlöndum.

Það sannast því hér, að við Íslendingar erum enn bókaþjóð og verðum, á meðan unga fólkið sýnir jafneinlægan áhuga á bóklestri. Hvað sem líður nýrri tækni er góð lestrarkunnátta lífsnauðsyn í upplýsingasamfélaginu og hún er undirstaða þekkingaröflunar og almennrar menntunar. Varðveisla íslenskrar tungu er mikilvægasti þáttur ræktarsemi við menningu okkar og þjóðerni. Lestur margvíslegra texta hefur áhrif á málþroska og málkennd, eykur víðsýni og skilning á samfélagi manna.

Á síðari árum hafa menn óttast að lestur eigi í vök að verjast og að lestrarkunnáttu barna og unglinga hraki. Staðreyndin er sú að rannsóknir sýna að íslensk börn og ungmenni standa mjög vel að vígi í lestri í alþjóðlegum samanburði, einkum í lestri á sögum og fræðandi textum. Íslenskir unglingar ná t.d. bestum árangri allra þátttökuþjóða í lestri á fræðandi efni, eins og fram kemur í niðurstöðum alþjóðlegrar rannsóknar sem birtar voru 1993. Að þessari rannsókn á læsi barna unnu sömu aðilar og nýlega birtu niðurstöður á kunnáttu barna og ungmenna í náttúrufræði og stærðfræði. Á þeim sviðum er árangur íslenskra nemenda slakur í alþjóðlegum samanburði, en góður árangur okkar í lestri gefur til kynna að menntakerfið hér á landi byggir á traustum grunni. Lestrarkunnáttan sýnir einnig, að enn njótum við þess arfs, sem gengið hefur mann frá manni hér á landi og á upphaf hjá þeim, sem festu lög og sögur á skinn fyrir tæpum þúsund árum.

Á undanförnum vikum hafa mér borist boð um það frá íslenskukennurum í Kennaraháskóla Íslands og framhaldsskólum, að málvitund nemenda hraki. Kennarafélag Vélskóla Íslands ályktaði einnig á þann veg 12. desember síðastliðinn, að síaukið framboð á innihaldslitlu afþreyingarefni í útvarpsstöðvum, sjónvarpsstöðvum, tölvum og nú síðast á Internetinu ylli því, að ungmenni fengju æ minni tíma og hefðu sífellt minni áhuga á lestri. Þess vegna kæmi nokkur hluti þeirra ólæs og illa skrifandi í framhaldsskóla.

Þessar ábendingar minna okkur á, að ekki má slaka á kröfum í móðurmálinu í grunnskólunum. Höfum við það svo sannarlega að leiðarljósi við gerð nýrrar námskrár. Hitt er ljóst, að keppni af hvers konar tagi er mjög vel til þess fallin að efla áhuga jafnt á lestri sem öðru námi. Með því að hvetja fólk til að skara fram úr er stuðlað að því, að öllum miði nokkuð fram á veg.

Góðir áheyrendur!

Af þátttöku skóla hér á landi í Mími er ekki unnt að draga aðra ályktun en þá, að íslensk börn og ungmenni hafi mikinn áhuga á lestri bóka, þrátt fyrir nýja tækni og aðra tímaþjófa. Mörg veggspjöldin sem nemendur unnu að loknum lestri í Mími, bera einnig vott um mikla sköpunargleði og næman skilning á norrænum bókmenntum, eins og glöggt má sjá á sýningunni hér í Norræna húsinu.

Fullyrða má að lestrarkeppni af þessu tagi hefur víðtæk áhrif á öllum Norðurlöndum og æskilegt væri að hægt væri að halda áfram norrænu samstarfi í svipuðum anda. Með því móti getum við bæði styrkt tengsl okkar við aðrar Norðurlandaþjóðir og aukið áhuga á lestri og þannig lagt lóð á vogarskálarnar til að efla þennan mikilvæga þátt skólastarfs.

Ég ítreka þakkir mínar til þeirra, sem stóðu að keppninni hér á landi og tóku þátt í henni. Reynslan af þessu ágæta framtaki sýnir, að það á fullan rétt á sér og hvetur til heilbrigðrar samkeppni meðal nemenda. Óska ég þeim innilega til hamingju, sem unnið hafa til viðurkenningar.