6.5.2003

Höfnum kollsteypum

Grein í DV, 06. 05. 03

Í meira en átta ár hef ég haldið úti vefsíðu, bjorn. is,  og birt þar vikulega pistla, ræður og greinar. Í fernum kosningum hafa samskipti við kjósendur hér heima og erlendis á síðunni gefið mér góða vísbendingu um það, sem mörgum er efst í huga, þegar þeir greiða atkvæði sitt eða taka afstöðu til þess, sem um er tekist í kosningabaráttunni.

Núna um helgina barst mér bréf frá námsmanni erlendis, þar sem sagði meðal annars:

„Ég get ekki orða bundist vegna þessarar kosningabaráttu sem nú stendur yfir. Ég og sambýlismaður minn erum í framhaldsnámi í Bandaríkjunum um þessar mundir of höfum verið undanfarin ár og fylgjumst með þessari baráttu úr fjarlægð. Nú líður að lokum okkar náms og okkur hryllir við þeirri tilhugsun að koma til baka til Íslands ef vinstri stjórn kemst að. Það skiptir gríðarlegu máli fyrir okkur sem getum valið að koma heim með menntun sem fáir búa yfir heima og vinna okkar þjóð gagn, að þar ríki stöðugleiki. Við munum ekki eiga í vandræðum með að fá vinnu hér ytra, en við viljum koma heim aftur með okkar fjölskyldu. Í mínum huga er það ekki aðlaðandi kostur ef meiriháttar uppstokkanir verða í þjóðfélaginu ef kvótakerfinu verður kollsteypt (sem í mínum huga er eignaupptaka og endurdreifing auðs), skattahækkanir, og almennur óstöðugleiki.“

Skrýtinn andróður.

Enginn þarf að efast um hvernig þetta unga menntafólk kýs. Það leggur þeim ekki lið, sem telja Sjálfstæðisflokkinn ekki gjaldgengan í ríkisstjórn bara vegna þess að honum hefur lengi verið treyst til að leiða þjóðina. Raunar er sú röksemdafærsla með ólíkindum, að ekki megi veita flokki eða stjórnmálamönnum stuðning til áframhaldandi starfa, af því að þeir hafa ekki brugðist trausti í mörg ár og unnið að því með góðum árangri að leiða þjóðina inn á nýjar brautir á öllum sviðum.

Gefi menn sér tíma til að greina andróðurinn gegn Sjálfstæðisflokknum og Davíð Oddssyni sjá þeir fljótt, að hann byggist ekki á því, að þjóðinni hafi verið illa stjórnað. Ekki hafi tekist að leiða hana til öndvegis á alla mælikvarða um velgengni í samfélagi þjóðanna. Nei, andróðurinn byggist á því, að betra sé að taka áhættu og fara inn á sömu brautir og R-listinn hefur leitt Reykjavík með hækkun skulda um 1100% og hækkun skatta.

Kvótakerfið.

Kvótakerfið kallar á gagnýni vegna velgengni þess. Það hefur skapað auð í atvinnugrein, sem áður barðist í bökkum. Kvótanum var úthlutað fyrir 20 árum til þeirra, sem þá stunduðu fiskveiðar á grundvelli veiðireynslu þeirra. Síðan hefur hann gengið kaupum og sölu.

Stóryrði um að núverandi kerfi á stjórn fiskveiða sé ranglátt eiga sér hljómgrunn, vegna þess að í hugum margra tengist kvótakerfið samfélagsbreytingum, sem hafa orðið á síðastliðnum tuttugu árum. Nýlega hlustaði ég á fyrirlestur Ásgeirs Jónssonar hagfræðings, sem hefur sérstaklega kynnt sér orsakir byggðaþróunar undanfarna áratugi. Að hans mati er kvótakerfið enginn sökudólgur vegna þeirrar þróunar.

Rannsóknir Ásgeirs sýna, að samfélagsbreytingarnar hafa stuðlað að betri lífskjörum fyrir þorra fólks og bjartari framtíð fyrir börnin í landinu.  Þær hafa þó ekki verið sársaukalausar og með því að ýfa sömu sárin aftur og aftur er hægt að viðhalda urg út í kvótakerfið. Þetta gera andstæðingar kerfisins með því að tala í hálfkveðnum vísum og spila á misjafnlega rökrétt tilfinninga- og hugrenningatengsl.

Mikið í húfi.

Það er mikið í húfi í kosningunum á laugardag. Ekki fyrir þá, sem eru í framboði, heldur fyrir þá, sem veita þeim umboð sitt. Ef tekin er áhætta á veikum grunni og atkvæðinu ráðstafað á þeirri forsendu, að allt í lagi sé að breyta, því að þetta reddist hvort sem er einhvern veginn, sitja menn uppi með veika forystu, óljós markmið og stjórnmálamenn, sem sjá þann kost vænstan að fleyta sér áfram með því að safna skuldum og hækka skatta.