26.4.2003

Evrópustefna í felum

Vettvangur í Morgunblaðinu, 26. 04. 03

Traust og trúðverðugleiki skipta mestu við val á leiðtogum hvort sem litið er til einstaklinga eða stjórnmálaflokka. Kosningabaráttan á að auðvelda kjósendum þetta val. Hún dregur til dæmis fram, hvort menn þora að standa og falla með sannfæringu sinni eða hvort þeir haga seglum eftir vindi. Hér verður þessi mælistika lögð á afstöðu Samfylkingarinnar til aðildar að Evrópusambandinu.

„Ég tel þess vegna að við eigum að ganga í Evrópusambandið. Ég tel að það bæti við fullveldi okkar....“ sagði Össur Skarphéðinsson, helsti málsvari Samfylkingarinnar á alþingi, í þingumræðum um skýrslu utanríkisráðherra hinn 27. febrúar síðastliðinn.

Við upphaf kosningaþings í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra hinn 2. október 2002 sagði hinn sami Össur:

„Í vor gefst tækifæri til að breyta. Þá verður tekist á um grundvallaratriði þar sem skilur á milli stefnu Samfylkingarinnar annars vegar og hins vegar stefnu Sjálfstæðisflokksins. Ég tel að kosningarnar í vor muni aðallega snúast um fjögur atriði: um tengslin við Evrópu, um að þróa og bæta velferðarkerfið, um kvótakerfið og um fjárfestingu í menntun. Í öllum þessum málum er stefna Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins eins og svart og hvítt. Munurinn á Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum er líklega hvergi jafnaugljós og varðandi Evrópu.“


 

Enn sagði Össur: „Ég taldi sjálfur upphaflega að við gætum ekki gengið í Evrópusambandið vegna þess að það mundi leiða til þess að við mundum tapa yfirráðum yfir auðlindinni í hafinu. Ég mundi aldrei leggja til að við gengjum í Evrópusambandið  ef svo væri. En ég braut þetta mál til mergjar og komst að því að sú niðurstaða var röng.“


 

 ***


 

 Föstudaginn 4. apríl sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í stefnuræðu á vorþingi Samfylkingarinnar: „Samfylkingin hefur mótað skýra afstöðu til Evrópusambandsaðildar, ein íslenskra stjórnmálaflokka.“ Í kosningastefnu Samfylkingarinnar samþykktri 4.-5. apríl segir svo undir kaflaheitinu „Einörð og raunsæ Evrópustefna“: „Stefna Samfylkingarinnar er að láta reyna á aðildarsamninga við Evrópusambandið.“ Í Kastljósinu sunnudaginn 6. apríl var Ingibjörg Sólrún spurð að því hvort Samfylkingin hefði mótað skýra afstöðu til Evrópusambandsaðildar: „Já, hún er afdráttarlaus þessi afstaða, það er að segja við viljum láta reyna á aðildarviðræður.“

Hvað felst í því að „láta reyna á aðildarviðræður“? Auðvitað ekki annað en að sækja um aðild að Evrópusamabandinu. Að öðrum kosti reynir aldrei á aðildarviðræður eða aðildarsamninga.

Össur Skarphéðinsson telur fullveldi Íslands aukast með aðild að Evrópusambandinu og ekkert sé að óttast varðandi stefnu þess í sjávarútvegsmálum. Ingibjörg Sólrún vill að reyni á aðildarviðræður, sem gerist ekki nema sótt sé um aðild. Í auglýsingu Samfylkingarinnar: Þetta ætlum við að gera! sem birtist í Morgunblaðinu 24. apríl er þetta viðhorf áréttað með þessum orðum: „Íslendingar eiga að skilgreina samningsmarkmið sín gagnvart Evrópusambandinu, sækja um aðild þar sem full yfirráð yfir Íslandsmiðum eru ófrávíkjanlegt skilyrði og leggja niðurstöðuna undir þjóðaratkvæði.“


 

***


 

Lagastofnun Háskóla Íslands efndi til málþings miðvikudaginn 23. apríl, þar sem Stefán Már Stefánsson prófessor og Óttar Pálsson lögmaður kynntu niðurstöður rannsókna sinna á fiskveiðireglum Evrópusambandsins og Íslands. Þeir skilgreindu einnig líklega samningsstöðu í þessum málaflokki, ef stofnað yrði til aðildarviðræðna Íslands og Evrópusambandsins. Er að sjálfsögðu mikilvægara að skilgreina samningsstöðuna en samningsmarkmiðin, eins og Samfylkingin segist vilja gera, þau hljóta að vera skýr: að öðlast aðild að Evrópusambandinu á viðunandi grundvelli.

Þeir Stefán Már og Óttar komust ekki að sömu niðurstöðu í rannsóknum sínum og Össur Skarphéðinsson lýsti, að hann hefði gert, eftir að hafa brotið málið til mergjar. Össur taldi, að við mundum ekki tapa yfirráðum yfir auðlindum sjávar. Lögfræðingarnir töldu hæpið, að Íslendingar fengju í aðildarviðræðum varanlegar undanþágur frá sameiginlegum reglum Evrópusambandsins, sem hefði svo til allt lagasetningarvald á sviði sjávarútvegsmála innan sambandsins. Gæti Evrópusambandið breytt löggjöf á sviði fiskveiðimála að vild. Þeir töldu líklegt, að Evrópusambandið myndi í aðlildarviðræðum gera kröfur um aðgang að íslenskum hafsvæðum og auðlindum. Fiskveiðireglur Evrópusambandsins hefðu í för með sér grundvallarbreytingar í íslenskum sjávarútvegi.

Lögfræðingarnir sögðu, að í grófum dráttum mætti segja, að hvorki Norðmönnum né Maltverjum hefði tekist í samningum við Evrópusambandið að semja um neinar varanlegar undanþágur frá sameiginlegri fiskveiðistefnu sambandsins. Umsamdar undanþágur og sérákvæði ættu það sameiginlegt að vera ekki varanlega bindandi í lagalegum skilningi.


 

 ***

Í hádegisfréttum ríkisútvarpsins sumardaginn fyrsta fór Össur Skarphéðinsson mikinn vegna rannsókna þeirra Óttars og Stefáns Más. Hann sagði þær sýna „ákaflega óvandaða fræðimennsku“ og ekki stæði steinn yfir steini hjá „blessuðum prófessornum“ heldur væri um „augljósan misskilning“ að ræða.

Málstofa Lagastofnunar Háskóla Íslands var haldin daginn áður en Össur Skarphéðinsson felldi þennan harða dóm.  Höfundarnir kynntu niðurstöðurnar í aðdraganda þess, að út kæmi bók þeim til frekari rökstuðnings. Össur þarf ekki að brjóta þær röksemdir til mergjar, sem hníga til annarrar áttar en vilji hans til aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Hann þarf ekki að kynna sér fræðilegar rannsóknir, sem skilgreina samningsstöðu okkar gagnvart Evrópusambandinu í sjávarútvegsmálum, heldur lýsir þær „óvandaðar“, af því að þær falla ekki að Evrópustefnu hans og Samfylkingarinnar.


 

***

Samfylkingin kom til sögunnar sem sameiningarafl vinstri manna fyrir þingkosningarnar 1999. Þá var ákveðið, að ekki skyldi setja Evrópumálin á oddinn vegna þess að forveri fylkingarinnar, Alþýðuflokkurinn, hefði ekki náð nægilega góðum árangri undir Evrópusambandsfánanum í þingskosningunum 1995.

Síðastliðið haust ætlaði Össur Skarphéðinsson að gera Evrópusambandsaðild að höfuðágreiningsmáli við Sjálfstæðisflokkinn í kosningabaráttunni núna. Össur sagði hins vegar í fréttum ríkisútvarpsins 25. mars síðastliðinn, að hann teldi Evrópumálin geta beðið, ekkert lægi á. Í útvarpsviðtalinu sagði Össur, að Evrópumálin hefðu „dofnað“ og væru „útvið sjóndeildarhring“ en ekki í „iðu hinna pólitísku átaka.“

Össur hafði áður dregið úr vægi eigin orða um muninn á Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum í Evrópumálunum í morgunumræðum á Stöð 2, þegar hann sagði það ráðast af Sjálfstæðisflokknum, hvort Evrópustefna Samfylkingarinnar næði fram að ganga!

Þessi viðleitni Össurar til að draga úr vægi Evrópumálanna í stefnu Samfylkingarinnar er einfaldlega reykbomba í kosningabaráttunni. Hún sýnir, að ástæðulaust er að treysta Samfylkingunni. Hún snýst eftir skoðanakönnunum, en þær hafa sýnt síminnkandi áhuga Íslendinga á því að ganga í Evrópusambandið. Í þessari viku birtist könnunin í Fréttablaðinu, þar sem aðeins tæplega 30% aðspurðra sögðust vilja sækja um aðild að Evrópusambandinu á næsta kjörtímabili. Hefur stuðningur við aðild minnkað jafnt og þétt undanfarið og þar með einnig áhugi Össurar á því að ræða aðildina sem höfuðágreiningsmál sitt við Sjálfstæðisflokkinn.


 

 ***


 

Feluleikurinn vegna stefnunnar á Evrópusambandsaðild er aðeins enn eitt dæmi um málefnaótta Samfylkingarinnar fyrir þessar kosningar. Að flokkurinn treysti sér ekki til að setja þetta mál á oddinn í kosningabaráttunni, eins og að var stefnt, er til marks um tækifærismennsku og ístöðuleysi gagnvart kjósendum. Forystumenn Samfylkingarinnar vilja fórna trúverðugleikanum til að þurfa ekki að standa og falla með þeirri sannfæringu sinni, að Íslendingar eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Síst af öllu vilja þeir, að þetta höfuðágreiningsmál þeirra við Sjálfstæðisflokkinn verði að kosningamáli.

Með Evrópumálin að mælistiku varðandi traust og trúverðugleika fellur Samfylkingin á prófinu. Forystumönnum hennar er síst treystandi til að leiða viðræður Íslands við Evrópusambandið eða gæta annarra hagsmuna þjóðarinnar út á við.