15.2.2003

Átakalínur skýrast

Vettvangur í Morgunblaðinu, 15. febrúar, 2003.

 

 

 

 

Atlantshafsbandalagið (NATO) glímir nú við mesta ágreining innan eigin vébanda síðan á sjöunda áratugnum. Þá dró Charles de Gaulle Frakklandsforseti franska herinn undan sameiginlegu herstjórnakerfi bandalagsins og krafðist þess, að höfuðstöðvar þess færu frá París. Var ákveðið, að flytja þær til Belgíu. Síðan hefur bandalagið verið í hálfgerðu bráðabirgahúsnæði þar í 35 ár. Um sömu mundir og ákveðið er að ráðast í smíði nútímalegri og varanlegri höfuðstöðva, lendir allt í uppnámi innan bandalagsins, að nýju vegna afstöðu Frakka, nú með Belga og Þjóðverja í liði með sér.

 

Deilan snýst um viðbúnað í Tyrklandi til að treysta öryggi landsins við landsmæri Íraks. Vegna ágreinings Bandaríkjamanna og Breta annars vegar og Frakka og Þjóðverja hins vegar um hvaða leið eigi að fara til að afvopna Saddam Hussein, ágreinings, sem gera verður upp innan vébanda öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, hafa hinir síðarnefndu beitt neitunarvaldi á vettvangi NATO til að hindra sameiginlegar aðgerðir í þágu Tyrkja.

 

Frakkar leiða þessa andstöðu við Bandaríkjamenn. Gerhard Schröder Þýskalandskanslari berst fyrir pólitísku lífi sínu með því að slá sér upp á kostnað bandamanna sinna. Frökkum er mikið í mun að minna á pólitísk áhrif sín en þeir mega sín lítils, ef herafli þeirra er borinn saman við hinn bandaríska.

 

Sjálfstraust Frakka og sjálfsmynd kann að styrkjast við þessa framgöngu en að sjálfsögðu grefur það aðeins undan NATO, ef  ekki er unnt að efla öryggi Tyrkja vegna andstöðu bandamanna þeirra. Veikist NATO af þessum sökum eykst gildi tvíhliða varnarsamninga við Bandaríkin á borð við þann, sem við Íslendingar gerðum árið 1951.

 

***

 

 

Síðastliðinn sunnudag dró Ingibjörg Sólrún Gísladóttir átakalínur gagnvart Sjálfstæðisflokknum vegna þingkosninganna 10. maí með ræðu í Borgarnesi. Þótti ræðan ekki fréttnæm vegna skýrrar póltískrar stefnu heldur vegna árása Ingibjargar Sólrúnar á Davíð Oddsson forsætisráðherra. Gaf hún til kynna, að hann drægi fyrirtæki í landinu í dilka, réðist að sumum og hyglaði öðrum, en öll bæru þau skaða af afskiptum hans!

 

Í rökréttu framhaldi af ræðunni spurði Morgunblaðið Ingibjörgu Sólrúnu, hvort hún væri að saka ríkislögreglustjóra og skattrannsóknastjóra um að hafa önnur sjónarmið en fagleg í huga við rannsóknir sínar á þeim fyrirtækjum, sem hún nefndi eða eigendum þeirra, það er Baugi og Norðurljósum. Sagðist hún ekki hafa verið að ræða það heldur skortinn á trausti í íslensku samfélagi. „Fólk treystir ekki stofnunum samfélagsins, það treystir ekki stjórnmálamönnum, það treystir ekki ríkisstjórn, ráðherrum, það treystir ekki lögreglu, kirkju, fjölmiðlum,“  sagði hún í Morgunblaðsviðtalinu.

Svör Ingibjargar Sólrúnar í viðtalinu gefa Morgunblaðinu tilefni til að spyrja í forystugrein á fimmtudag,  hvort ástæða sé fyrir hana að ýta undir grunsemdir um annarlegan tilgang með aðgerðum stjórnvalda. Hvort hana og aðra skipti engu, hvað sé rétt og hvað rangt, hvað eigi sér stoð í raunveruleikanum. Forystugreininni lýkur með þessari spurningu: „Getur ábyrgur stjórnmálamaður leyft sér að styðjast við almannaróm en láta staðreyndir lönd og leið?“

 

Í sjálfu sér er ekki frumlegt hjá Ingibjörgu Sólrúnu að gera traustið í þjóðlfélaginu að umræðuefni. Hún er í því efni að feta í fótspor Davíðs Oddssonar, sem sagði meðal annars í ávarpi sínu í ríkisútvarpinu um síðustu áramót:

 

„Fáir eiga þó meira undir því en stjórnmálamenn að njóta trausts fólksins í landinu. En hinu er ekki að neita að sumt af því sem fyrir augu ber af vettvangi stjórnmálanna er tæplega til þess fallið að vekja mönnum traust. Furðu margir segja hálfsatt eða ósatt og virðast ekki leiða hugann eina örskotsstund að heiðri sínum og orðstír og það sem lakara er, enginn hermir framkomuna upp á viðkomandi og ótrúlega mörgum virðist sama. Menn yppta öxlum og láta kyrrt liggja. Slíkt kann að standast um skamma hríð, en verður að þjóðarböli, þegar til lengdar lætur.“

 

Er þess skemmst að minnast, að áköfustu stuðningsmenn Ingibjargar Sólrúnar töldu þessi orð Davíðs árás á hana. Um áramótin var hún nefnilega að ganga á bak orða sinna um að sitja sem borgarstjóri til ársins 2006. Vondar eru átölur samviskunnar.

 

***

 

 

 

Í ræðu á viðskiptaþingi skýrði Davíð Oddsson átakalínur af sinni hálfu meðal annars með þessum samanburði á stjórn fjármála ríkisins og Reykjavíkurborgar: „ Á síðastliðnum sjö árum hafa hreinar skuldir ríkissjóðs lækkað úr 34,5% af landsframleiðslu í 19% samkvæmt því fjárlagafrumvarpi sem nú gildir. Á meðan hafa skuldir stærsta sveitarfélags landsins ellefufaldast!“ Ræðu sinni lauk hann með þessum viðvörunarorðum: „Við erum nú að komast í efnahagslega óskastöðu. En dæmin úr sögunni sýna, að jafnvel slíkri stöðu má klúðra á örstuttum tíma, ef þeir sem til slíks eru hæfastir fá tækifæri til.“

Í þingumræðum um rúmlega 6 milljarða króna ný útgjöld ríkissjóðs til að bæta atvinnuástandið, einkum með stórfelldum samgönguframkvæmdum, minnti Davíð á þá staðreynd, að við útfærslu tillagna um ráðstöfun fjárins hefðu menn staðið frammi fyrir þeim vanda í Reykjavík, að ekki væri unnt að ráðast í stórframkvæmdir með skömmum fyrirvara þar vegna aðgerðarleysis R-listans í skipulagsmálum.

Sérstaklega er þá bent á mislæg gatnamót, þar sem Miklabraut og Kringlumýrarbraut mætast. Mikil umferðar- og slysagatnamót, en R-listinn ákvað einfaldlega að taka út úr skipulagi, að þau yrðu mislæg. Var það gert til að árétta andstöðu listans við einkabílinn. Þegar hún dugði ekki til að draga úr áhuga borgarbúa eða annarra landsmanna á að eignast og aka á eigin bíl, voru mislægu gatnamótin tekin inn í skipulagstillögur að nýju.

***

Í ræðunni  á viðskiptaþingi lýsti forsætisráðherra glæsilegum árangri við efnahagsstjórn þjóðarinnar  undanfarin ár og góðum horfum og komst síðan þannig að orði: „Sterk staða ríkissjóðsins nú og tekjuaukinn sem sannarlega mun fylgja hagvextinum gerir það að verkum að það er engin goðgá að huga að breytingum á sköttum í rétta átt, til lækkunar, en ekki hækkunar…. Þó margt sé á reiki í hagvísindunum þá er það þó margsannað að almenningur fer að jafnaði mun betur með peningana heldur en stjórnmálamennirnir. Þessi möguleiki til skattalækkana sem við nú stöndum frammi fyrir, sé rétt haldið á málum, möguleiki sem við eigum svo sannarlega að nýta okkur, sýnir svo ekki verður um villst hversu mikilvægt það er að tryggja að þjóðarframleiðslan vaxi jafnt og þétt.“

Með þessum orðum dregur Davíð Oddsson skýrust skil á milli stefnu Sjálfstæðisflokksins annars vegar og annarra stjórnmálaflokka hins vegar. Samfylkingin getur aldrei viðurkennt, að farsæl hagstjórn undanfarinna ára veiti nú svigrúm til lækkunar á sköttum einstaklinga. Undir forystu talsmanns Samfylkingarinnar, Ingibjargar Sólrúnar, sem borgarstjóra í Reykjavík hefur aldrei komið til álita að lækka skatta eða álögur á borgarbúa. Síðastliðið haust snerist hún eindregið gegn lækkun fasteignaskatta á eldri borgara og öryrkja, þegar sjálfstæðismenn fluttu um hana tillögu í borgarstjórn. Holræsaskattinn illræmda, sem hún lagði á Reykvíkinga,  vill hún ekki heldur lækka, þrátt fyrir loforð um hið gagnstæða.

Viðbrögð Ingibjargar Sólrúnar við skattalækkunartillögum Davíðs eru einnig síður en svo málefnaleg. Hún lætur eins og ekkert hafi verið gert á undanförnum árum til að lækka skatta á einstaklinga. Má í því sambandi rifja upp, að hún notaði tækifærið um árið til að hækka útsvarið, þegar ríkisstjórnin lækkaði tekjuskatt á einstaklinga.

Átakalínur hafa skýrst undanfarna daga í stjórnmálum innan lands og utan. Mismikið er í húfi, þegar litið er til heimsfriðar annars vegar og þingskosninga hér hins vegar. Í báðum tilvikum ræður þó úrslitum um farsæla niðurstöðu, að unnt sé að treysta þeim, sem halda um stjórnvölinn, og þeir leggi sig fram um að efla traust í samskiptum manna með heiðarlegum málflutningi í stað þess að grafa undan því með hálfkveðnum vísum ef ekki hreinum blekkingum.