6.2.2003

Oflof í kveðjuskyni

DV-grein, 6. febrúar, 2003

 


 


Stuðningsmenn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur kveðja hana með söknuði, þegar hún hverfur úr stóli borgarstjóra í Reykjavík. Að hennar eigin sögn réð að lokum úrslitum um, að hún ákvað að hverfa úr embætti borgarstjóra, að hún eygði með því von um að útiloka ráðandi áhrif sjálfstæðismanna á stjórn Reykjavíkurborgar.


 


Í kveðjuleiðara til Ingibjargar Sólrúnar hér í DV segir Sigmundur Ernir Rúnarsson: „Hún hefur í reynd verið R-listinn og skyggt á allt annað í starfi hans, jafnt aðra borgarfulltrúa sem embættismenn.“ R-listinn er þannig orðinn að minnisvarða um svikin kosningaloforð Ingibjargar Sólrúnar. Slíkir varðar vísa til fortíðar en ekki  framtíðar.


 


Í leiðara sínum segir Sigmundur Ernir einnig réttilega: „Sjálfstæðismenn hafa eðlilega bent á mikla skuldaaukningu borgarinnar á valdatíma R-listans og hefur meirihlutanum reynst erfitt að hrekja tölur íhaldsins. Að sama skapi hafa borgarstjóri og fylgismenn hans ekki verið trúverðugir þegar þeir hafa reynt að verja ævintýralega fjárfestingu borgarinnar í Línu.neti sem venjulegir borgarbúar fá ekki skilið með nokkru móti. Þetta tvennt, fjármálin og línuspilið, hafa verið veikleikamerki á borgarstjóraferli Ingibjargar Sólrúnar.“


 


Rangt mat


Um leið og tekið er undir þessi orð Sigmundar Ernis er ástæða til að andmæla mati hans á stöðu Ingibjargar Sólrúnar í íslenskum stjórnmálum. Hann leggur hana að jöfnu við Davíð Oddsson, stefnu hans og störf sem stjórnmálamanns. Í slíkum mannjöfnuði fellst í besta falli pólitískur dómgreindar- og þekkingarskortur.


 


Hvorki störf þeirra að stjórnmálum, hollusta við pólitískar hugsjónir, farsæl forysta fyrir samhentum hópi, þor til að axla ábyrgð og til að standa að ákvörðunum, þótt umdeildar séu, réttlæta þá niðurstöðu Sigmundar Ernis, að þar fari jafnokar, þar sem þau Ingibjörg Sólrún og Davíð Oddsson glíma á hinum pólitíska velli. Sigmundur Ernir er einfaldlega að reyna að upphefja Ingibjörgu Sólrúnu á kostnað Davíðs.


 


Fjármálalegur viðskilnaður þeirra við Reykjavíkurborg segir allt sem segja þarf um muninn á stjórnarháttum þeirra. Einnig hitt, að í tíð Davíðs sem forsætisráðherra hafa skuldir ríkisins minnkað um 13% á sama tíma og skuldir Reykjavíkurborgar hafa aukist um 1100% í borgarstjóratíð Ingibjargar Sólrúnar.


 


Ofmat vegna stjórnsýslu


 


Þegar Sigmundur Ernir tíundar kosti Ingibjargar Sólrúnar sem borgarstjóra, segir hann meðal annars: „Henni hefur tekist að sníða marga galla af stjórnsýslu borgarinnar og gert hana skilvirkari og að mörgu leyti auðskildari fyrir almenning.“


 


Þessi fullyrðing stenst ekki þrjú dæmi líðandi stundar: Skort á eftirliti og aðhaldi með fyrirtækjum á borð við Alþjóðahús. Hringlandahátt í hugmyndum um yfirstjórn innkaupamála á vegum Reykjavíkurborgar. Uppnám við skipan endurskoðunar borgarsjóðs, fyrirtæki og innra eftirlit Reykjavíkurborgar.


 


Út á við birtast vandræði í stjórnsýslu meðal annars í því, að á skipulags- og byggingarsviði borgarinnar er áreiti með þeim hætti, að leitun er að öðru eins á vinnustað að mati sérhæfðs ráðgjafafyrirtækis. Þúsundir ef ekki tugþúsundir borgarbúa þurfa að leita til þessa sviðs á ári hverju og segir þessi lýsing úr starfsáætlun þess sitt um stöðu mála þar.


 


Skortur á skýrum boðleiðum og vilja til að axla ábyrgð er frekar einkenni stjórnarhátta í Reykjavík undanfarin ár er markviss stjórn. Sigmundur Ernir ætti að upplýsa lesendur DV um opinbera silkihúfufarganið í kringum miðborgina, sem hefur magnast í réttu hlutfalli við minni umsvif hins almenna borgara þar. Hann ætti einnig að skýra frá því, hvers vegna ekki hefur verið hrundið í framkvæmd samþykkt samgöngunefndar um bílastæði fyrir fatlaða.