1.2.2003

Kíkirinn fyrir blinda augað

Vettvangur í Morgunblaðinu 1. febrúar 2003.

FYRSTA skrefið, vilji menn takast á við vanda, er að viðurkenna tilvist hans. Þetta er lykilsetning til skilnings á pólitískum ágreiningi vegna skuldabagganna, sem R-listinn hefur hlaðið á Reykvíkinga undanfarin ár undir stjórn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, sem lét af störfum borgarstjóra í gær. Sjálfstæðismenn í borgarstjórn hafa um árabil varað við vaxandi skuldum Reykjavíkurborgar en talsmenn R-listans hafa látið öll viðvörunarorð sem vind um eyru þjóta. Raunar hafa þeir stundum hælst um af skuldasöfnuninni.

Hin kæruleysislega afstaða R-listans til skuldabaggana kemur á óvart, þegar haft er í huga, að Ingibjörg Sólrún og félagar höfðu sterk orð um hættulega skuldastöðu Reykjavíkurborgar árið 1994. Þá sagði í stefnuskrá R-listans: „Gerð verði áætlun til langs tíma um að greiða upp skuldir borgarinnar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur safnað.“

 

Þegar þetta kosningaloforð var gefið, hafði verið kaupmáttarrýrnun, stöðnun, samdráttur og atvinnuleysi í landinu um nokkurt árabil. Þá var framkvæmdum lokið við Perluna og ráðhúsið. Reykjavíkurborg hafði ráðist í átaksverkefni af ýmsum toga til að draga úr atvinnuleysi. Í árslok 1993 var hrein skuld hvers Reykvíkings vegna skuldbindinga Reykjavíkurborgar (án lífeyrisskuldbindinga) 40 þúsund krónur á árslokaverðlagi 2002.

 

Síðan árið 1994 er mikið vatn til sjávar runnið og þjóðarbúskapurinn hefur tekið stakkaskiptum undir efnahagsstjórn sjálfstæðismanna. Kaupmáttur hefur aukist meira en nokkru sinni fyrr og þjóðin notið efnahagslegs góðæris. Skuldir ríkisins hafa lækkað um 13%.

 

Ef litið er á skuldaþróun Reykjavíkurborgar á þessum tíma, er engu líkara en hún hafi verið rekin í öðru hagkerfi en ríkið eða stórfyrirtæki í landinu. Skuld hvers Reykvíkings, sem var 40 þúsund krónur árið 1993, er orðin að 415 þúsund krónum árið 2003. Á sama tíma og skuldir ríkisins hafa lækkað um 13% hafa hreinar skuldir Reykjavíkurborgar (án lífeyrisskuldbindinga) hækkað um 1100%.

 

***

 

Talsmenn R-listans treysta sér ekki til að andmæla þessum tölum, enda eru þær fengnar úr ársreikningum og fjárhagsáætlunum Reykjavíkurborgar og gögnum frá Seðlabanka Íslands. Hið sérkennilega við málið er, að undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur hefur R-listinn ekki viljað viðurkenna, að þessi þróun sé óeðlileg hjá Reykjavíkurborg. Þar stendur hnífurinn í kúnni.

 

Í umræðum um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar á fundi borgarstjórnar hinn 2. janúar 2003 var því haldið fram, að áætlunin sýndi, að skuldabyrðin á hvern Reykvíking væri með því hæsta í landinu. Þá sagðist Ingibjörg Sólrún ekki vilja fara að skattyrðast um þetta mál og bætti við: „ En ég vil hinsvegar segja það og andmæla því mjög sterklega sem fram kom í hans máli, að Reykjavíkurborg væri með skuldsettustu sveitarfélögum landsins. Þetta er einfaldlega rangt...“

 

Nú er unnt að bera saman nýjustu tölur um þetta efni með því að skoða fjárhagsáætlanir sveitarfélaganna hér á höfuðbogarsvæðinu (Hafnarfjarðar, Mosfellsbæjar, Garðabæjar og Seltjarnarnesbæjar), Akureyrar og Reykjanesbæjar fyrir árið 2003 og bera saman við Reykjavík. Hvað kemur í ljós, þegar litið er á heildarskuldir þessara sveitarfélaga (það er með lífeyrisskuldbindingum)? Jú, hver Reykvíkingur skuldar 733 þús. krónur, næst kemur Akureyringur með 715 þús. krónur, lægstur er Seltirningur með 212 þús. króna skuld.

 

Ljóst er, að í byrjun þessa árs, hinn 2. janúar 2003, var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi borgarstjóri, enn þeirrar skoðunar, að sjálfstæðismenn færu villir vega í mati sínu á skuldastöðu Reykvíkinga gagnvart öðrum sveitarfélögum. Hún vildi með öðrum orðum ekki viðurkenna staðreyndir, þótt hún treysti sér ekki til þess þá frekar en endranær að andmæla þeim tölum, sem nefndar voru málstað andstæðinga hennar til stuðnings.

 

Að fyrrverandi borgarstjóri taki á skuldamálunum með þessum hætti, kemur þeim ekki á óvart, sem veit, að í kosningauglýsingu vorið 1998 sagði hún um fjármál Reykjavíkurborgar: „Skuldasöfnun hefur verið stöðvuð.“ Og í Fréttablaðinu 11. júní 2001 sagði Ingibjörg Sólrún blákalt: „Það er rangt hjá sjálfstæðismönnum að skuldir Reykjavíkurborgar hafi aukist.“ Þá sagði hún einnig, að staðan í samanburði á skuldum ríkisins og Reykjavíkurborgar yrði önnur, ef til dæmis Landsvirkjun og Íbúðalánasjóður yrðu með í myndinni. Þessi fullyrðing hennar stenst ekki frekar en aðrar um þetta mál. Reykjavíkurborg á um 45% í Landsvirkjun og ríkið rúm 50%, ef fyrirtækið yrði tekið inn hjá bæði ríki og Reykjavíkurborg mundi það litlu sem engu breyta. Væri Íbúðalánasjóður tekinn inn hjá ríkinu mundi það væntanlega frekar styrkja stöðu þess í samanburðinum en hitt.

 

***

 

 

Í sennunni miklu innan R-listans um síðustu jól kom í ljós, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir skirrist ekki við að halda hlutum¸ sem hreinlega eiga ekki við nein rök að styðjast, fram af miklum sannfæringarkrafti. Gleggst sást þetta, þegar hún sagðist víst geta boðið sig fram fyrir Samfylkinguna til þings og setið áfram sem borgarstjóri. Hún vildi með öðrum orðum ekki trúa því, að vinstri/grænir og framsóknarmenn sættu sig ekki við, að hún væri bæði í þingframboði og sæti sem borgarstjóri.

 

Þennan eiginleika sinn, að setja kíkinn fyrir blinda augað, hefur Ingibjörg Sólrún notað, þegar hún lítur á skuldastöðu Reykjavíkurborgar. Aðferðin dugar ekki til lengdar, því að það kemur að skuldadögunum fyrir Reykvíkinga eins og það kom að lokauppgjöri fyrir Ingibjörgu Sólrúnu í samskiptum hennar við samherja sína innan R-listans.

 

Spurning er, hvort hinn nýi borgarstjóri, Þórólfur Árnason, er raunsærri við mat á hinni óverjandi skuldasöfnun Reykjavíkurborgar en forveri hans. Skynsamlegasta úrræði hans til að draga skil á milli fjármálastjórnar sinnar og forvera síns er að sjálfsögðu að taka fagnandi tillögunni um úttekt á fjármálum borgarinnar, þegar hann kemur til starfa.

 

***

 

Eðlilegt er að velta því fyrir sér, þegar hugað er að þessari miklu skuldasöfnun í nafni Reykjavíkurborgar, hvort þar hafi umsvif verið eitthvað meiri en í öðrum sveitarfélögum. Þótt grannt sé skoðað, verður það ekki séð. Helst er ástæða til að staldra við ylströndina í Nauthólsvík.

 

Öll sveitarfélög hafa á undanförnum árum verið að einsetja grunnskóla eða byggja upp leikskóla. Þá hafa þau einnig verið að bregðast við nýjum kröfum um fráveitur, en í Reykjavík var lagður á sérstakur holræsaskattur til að standa undir þeim framkvæmdum, sem ekki var gert í nágrannasveitarfélögunum.

Orkuveita Reykjavíkur er stórfyrirtæki. Á vegum hennar hefur verið varið tæpum 10 milljörðum króna í Nesjavallavirkjun á undanförnum árum. Á sínum tíma stóð Hitaveita Reykjavíkur undir slíkum framkvæmdum án lántöku. Nú skýrir þessi tíu milljarða króna framkvæmd aðeins fimmtung af 50 milljarða skuldaaukningu Reykjavíkurborgar. Orkuveitan hefur einnig ráðist í smíði höfuðstöðva, sem enginn veit enn hvað kosta í raun, síðan hefur hún varið milljörðum í Línu.net.

 

Íbúum í Reykjavík hefur ekki fjölgað svo undanfarin ár, að ástæða hafi verið til þess fyrir borgaryfirvöld að auka skuldir vegna þess. Samkvæmt samantekt Hagstofu Íslands fjölgaði íbúum höfuðborgarsvæðisins á árabilinu 1992 - 2002 um 18,4%. Í Reykjavík fjölgaði þeim um 11% en í Kópavogi um 48,2%. Á árinu 2002 fjölgaði Reykvíkingum um aðeins 0,2%! Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur talið dýrkeypt að taka við nýjum íbúum af landsbyggðinni, en sú þróun hefði átt að hafa mun minni áhrif á skuldaaukningu Reykjavíkurborgar en t.d. Kópavogs.

Í tíð R-listans hefur ekki verið ráðist í neina stórframkvæmd. Mislægum gatnamótum, þar sem Kringlumýrarbraut og Miklubraut mætast, var skotið á frest vegna þess að R-listinn tók þau út af skipulagi. Enn hefur ekki fengist niðurstaða um legu Sundabrautar. Frá því að ritað var undir samkomulag ríkis og borgar um ráðstefnu- og tónlistarhús í apríl 2002 hefur málið verið í biðstöðu.

 

Stórverkefni bíða úrlausnar og hin óverjandi skuldasöfnun dregur úr svigrúmi Reykjavíkurborgar til að láta að sér kveða við framkvæmd þeirra.

 

Löngu er tímabært að taka kíkinn frá blinda auganu, viðurkenna raunverulega skuldastöðu Reykjavíkurborgar og takast á við fjármál borgarinnar í ljósi hennar.