16.1.2003

Ábyrgð vegna Kárahnjúkavirkjunar

Borgarstjórn, 16. janúar 2003.

 


 



 


Mál þetta er hér á dagskrá vegna þess,  að samkomulag liggur fyrir milli Landsvirkjunar og Fjarðaáls fyrir hönd Alcoa um, að ráðist verður í að reisa álver í Reyðarfirði. Með þeirri framkvæmd rætist langþráður draumur Austfirðinga um öflugt átak til að styrkja forsendur byggðar í fjórðungnum. Álver á Austfjörðum mun leiða af sér betri samgöngur, menntun, heilsugæslu og aukin lífsgæði í fjórðungnum og um land allt.


Eins og við sjálfstæðismenn bókuðum í borgarráði síðastliðinn þriðjudag styðjum við það allir, að Landsvirkjun verði veitt sú ábyrgð, sem henni er nauðsynleg frá Reykjavíkurborg til að ráðast í virkjun við Kárahnjúka.


 


Mikil framkvæmd.


 


Áætlaður stofnkostnaður vegna fjárfestingar í Kárahnjúkavirkjun og álverksmiðju Alcoa á Reyðarfirði nemur um 165 milljörðum króna á verðlagi ársins 2002. Stofnkostnaður við Kárahnjúkavirkjun er talinn verða um 95 milljarðar króna miðað við verðlag og gengi í nóvember 2002. Virkjunarframkvæmdir eiga að hefjast af fullum þunga nú í vor en hafist verður handa við að reisa álverið á árinu 2004.


Er við það miðað, að byggingu álverksmiðjunnar verði lokið árið 2007, rafmagn verði afhent 1. október það ár, en fullri afkastagetu verksmiðjunnar með 322 þúsund tonna ársframleiðslu verði náð á árinu 2008. Fjárfesting vegna þessara framkvæmda nær hámarki á árunum 2005 og 2006 en þá fellur til ríflega helmingur af heildarstofnkostnaði. Áætlað er að heildarfjárfesting í þjóðarbúskapnum verði af þessum sökum rúmlega 30% meiri á framkvæmdatímanum 2003-2006 og nálægt 50% meiri árin 2005-2006 en var gert ráð fyrir í þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins frá því í byrjun desember 2002.


Árleg mannaflaþörf vegna framkvæmdanna nemur rúmlega 1.250 ársverkum að jafnaði á tímabilinu 2003-2006 eða um 0,8% af áætluðum mannafla á vinnumarkaði. Auk þess munu óbein áhrif þessara framkvæmda leiða til fjölgunar starfa sem nemur 800-900  á þessu tímabili. Að sögn Alcoa verða 455 störf í álverinu og auk þess verða 295 stöðugildi í tengdum iðnaði, þjónustu og verslun.


 Þjóðhagsleg áhrif.


Fyrirhugaðar álvers- og virkjunarframkvæmdir hafa þannig umtalsverð þjóðhagsleg áhrif á næstu árum. Jafnframt munu sveiflur í fjárfestingu milli ára valda töluverðum sveiflum í efnahagslífinu.  Frá hagfræðilegum sjónarhóli er unnt að velta því endalaust fyrir sér, hver áhrif framkvæmdanna verða á vexti, gengi og atvinnustig eða til hvaða mótvægisaðgerða þarf að grípa, svo að viðunandi þjóðhagslegt jafnvægi haldist.


Ég ætla ekki að rýna í þessar spár. Hvað sem þeim líður er ljóst, að hin þjóðhagslega framvinda ræðst ekki síst af því, hvaða stjórnmálaflokki verður treyst fyrir forystu við stjórn efnahagsmála á næstu árum. Hagfræðingarnir taka ekki afstöðu til þess en það munu kjósendur gera í þingkosningunum í vor.  Reynsla síðustu tólf ára sýnir, að í því efni skiptir mestu, að hlutur Sjálfstæðisflokksins verði sem stærstur.


 Ábyrgð Reykjavíkurborgar.


Fyrir borgarstjórn Reykjavíkur liggur að taka ákvörðun um, hvort veita eigi samþykki við lántöku Landsvirkjunar vegna Kárahnjúkavirkjunar. Er það gert á grundvelli laga um Landsvirkjun, þar sem segir í 14. grein, að fari nýjar skuldbindingar Landsvirkjunar fram úr 5% af höfuðstól á ári hverju, þurfi Landsvirkjun að leita samþykkis eignaraðila, en eins og kunnugt er á Reykjavíkurborg 44,52% í Landsvirkjun.


Sameignasamningur eigenda Landsvirkjunar er frá 1981 en honum var síðast breytt í október 1996. Í fylgiskjali F með þessum samningi segir, að stefnt skuli að því, að arðgjöf af því eigin fé sem í Landsvirkjun sé bundið verði að jafnaði 5 til 6% á ári.


Lögin og sameignasamningurinn eru grunnforsendur þeirrar ákvörðunar, sem við erum að taka hér í dag. Samningurinn er gerður í umboði borgarstjórnar af þeim borgarstjóra, sem enn situr, og þar eru sem sagt sett 5 til 6% markmið um arðgjöf af eigin fé í Landsvirkjun.


Hæsta lánshæfiseinkunn.


Þegar við blasti í haust, að samningar myndu takast milli Landsvirkjunar og Alcoa settu eigendur virkjunarinnar á laggirnar nefnd til að skila þeim áliti um mat Landsvirkjunar á arðsemi og fjárhagslegri áhættu vegna Kárahnjúkavirkjunar og sölu raforku til Fjarðaáls. Skilaði nefndin áliti hinn 7. janúar síðastliðinn.


Nefndin minnir á þá staðreynd, að í lok október 2002 hækkaði Moody's Investor Service lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar úr Aa3 í Aaa, sem er sama einkunn og ríkissjóður fær, það er hin hæsta, sem gefin er og eru Íslendingar að þessu leyti í flokki þeirra þjóða, sem njóta mesta lánstrausts á alþjóðamörkuðum og lánskjara í samræmi við það.


Í áliti borgarlögmanns, sem borgarstjóri lagði fyrir borgarráð 29. október síðastliðinn, kemur fram, að ábyrgðir þær sem Reykjavíkurborg hefur undirgengist fyrir Landsvirkjun hafi ekki haft áhrif á lánshæfi borgarinnar. Borgin njóti mjög góðra lánskjara og megi leiða líkum að því að eignarhlutinn í Landsvirkjun hafi fremur styrkt lánshæfi borgarinnar. Af þessu má draga þá ályktun að lánstraust Reykjavíkurborgar aukist enn við að Landsvirkjun eflist vegna þessara framkvæmda og lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar hækkar, en það gerðist, eftir að áformin um Kárahnjúkavirkjun og samning við Alcoa voru kunn.


Niðurstaða eigendanefndar.


Eigendanefndin segir: „Landsvirkjun getur auðveldlega aflað lánsfjár til verkefnisins og lánshæfiseinkunnin tryggir hagstæð vaxtakjör.“ Í áliti nefndarinnar segir einnig: „Landsvirkjun mun jafnframt tryggja sér lánsfé þannig að ekki komi til lausafjárskorts. Þetta er afar mikilvægt fyrir eigendur þar sem aðgangur að lánsfé og lausafé er nauðsynlegur til að tryggja að greiðslur vegna ábyrgða falli ekki á þá. Í þessu sambandi má nefna að Landsvirkjun hefur þegar fyrirliggjandi tilboð frá erlendum banka í USD 500 milljóna veltilán.“


Landsvirkjun gerir ráð fyrir, að fjárfesting hennar í Kárahnjúkavirkjun skili mun meiri arði en mælt er fyrir um í fyrrnefndum sameignarsamningi ríkisins, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar. Miðar Landsvirkjun við 11% arðsemi á eigin fé, en ávöxtunarkrafa eigendanna er 5 til 6%. Í arðsemismati Landsvirkjunar er miðað við 25% eiginfjárhlutfall og 75% lánsfjárhlutfall.


Í stuttu máli má segja, að þessir sérfræðingar eigenda Landsvirkjunar leggi blessun sína yfir forsendur Landsvirkjunar og þá aðferð, sem fyrirtækið notar til að komast að niðurstöðu um arðsemi Kárahnjúkavirkjunar. Hitt er einnig ljóst, að trúnaðarmenn eigenda telja sáralitlar ef nokkrar líkur á, að ábyrgð falli á eigendurna vegna lántöku í þágu framkvæmda við virkjunina.


Af þeim gögnum, sem fyrir okkur hafa verið lögð hér í borgarstjórn, vegna þessarar lántöku Landsvirkjunar, má færa góð rök fyrir því, að hagsmuna Reykvíkinga sé betur borgið með því að veita þessa ábyrgð en hafna henni.


Viðhorf umhverfisverndarsinna.


Oft gerist í málum sem þessum, að þeir, sem hafa ekki efnisleg rök gegn skynsamlegustu niðurstöðunni, leita að tylliástæðum til að skýra andstöðu sína.


Þeir, sem snúast gegn Kárahnjúkavirkjun og álveri í Reyðarfirði með vísan til umhverfis- og náttúruverndar gera það ekki af sýndarmennsku. Þvert á móti er ljóst, að þar ráða í mörgum tilvikum sterkar tilfinningar, sem ber að virða.


Met ég mikils sjónarmið þeirra, sem vilja hlut íslenskrar náttúru sem mestan. Í því efni er hins vegar ekki um neinn einhlítan mælikvarða að ræða eins og þegar rætt er um fjárhagslega hlið þessa mikla máls.  Hér ráða persónulegar skoðanir mestu og hef ég  til dæmis svipað viðhorf til náttúrunnar og Fjölnismenn á nítjándu öld, að okkur Íslendingum beri ekki aðeins til að njóta fegurðar hennar heldur einnig að nýta krafta náttúrunnar.


Rannsóknir, menntun og menning.


Frá upphafi byggðar í landi okkar höfum við Íslendingar treyst á gæði og krafta náttúrunnar til að auðvelda okkur lífsbaráttuna. Hefur tekist að skapa hér þjóðfélag, sem stenst samanburð við hin bestu í veröldinni.


Síðustu ár hefur verið lögð meiri áhersla á vísindarannsóknir og þróun en nokkru sinni fyrr í sögu okkar og þegar litið er til fjármagns til rannsókna erum við nú í þriðja sæti á heimsvísu. Menningar- og menntastarf er öflugra nú en nokkru sinni fyrr í sögu okkar.


Að halda því fram, að með virkjun við Kárahnjúka og álveri við Reyðarfjörð sé vegið að rannsóknum, menntun og menningu, er að mínu mati reginfirra. Þvert á móti er þetta allt hvert öðru til stuðnings og eflingar. Án virkjunar fallvatna og nýtingar orkunnar í þágu arðbærs iðnaðar stæðum við mun verr að vígi sem þjóð á öllum sviðum.


Öflugur samningsaðili


Við höfum farsæla reynslu af raforkusölusamningum til erlendra fjárfesta í álverum hér á landi. Með samningi við Alcoa hefjum við samstarf við elsta og öflugasta fyrirtækið í þessum iðnaði. Enginn getur með rökum dregið traust viðsemjandans í efa.


Alcoa segir í bréfi, sem það sendi alþingismönnum og borgarfulltrúum í tilefni þess, að stjórn fyrirtækisins ákvað hinn 10. janúar síðastliðinn að hefja starfsemi á Reyðarfirði:


„Við gerum okkur ljóst að þó svo að við leggjum okkur fram við að mæta öllum umhverfiskröfum, munum við aldrei ná að framfylgja kröfum þeirra sem vilja engar stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi. Við kunnum að meta og skiljum sérstöðu íslenskrar náttúru og munum gæta mikillar nærgætni í umgengni um hana. Sú mikla tækni sem Alcoa hefur þróað undanfarin 20 ár mun nýtast vel til að tryggja að verkefnið hafi lágmarks áhrif á umhverfið.“


Hnattvæðing og meðalhóf.


Hnattvæðingin tekur á sig ýmsar myndir, til dæmis þá, að við úrlausn eigin mála, eigi þjóðir að taka heildarhagsmuni mannkyns fram yfir eigin hagsmuni. Kemur þetta sjónarmið oft fram í umræðum um umhverfismál. Í því felst öfugmæli, sé því haldið fram, að með ákvörðun um Kárahnjúkavirkjun og álverið á Reyðarfirði séu Íslendingar að ganga á hnattræna umhverfishagsmuni. Þvert á móti er hér verið að ákveða að nýta hreina og endurnýjanlega orku til að framleiða ál við ströngustu kröfur um varnir gegn mengun.


Í umgengni okkar við náttúruna verðum við Íslendingar að gæta meðalhófs. Ef við nýtum ekki vatnsorkuna í landi okkar til að bæta þjóðarhag, verðum við að sækja af meiri þunga í auðlindir sjávar. Undan þeirri staðreynd verður ekki vikist.


Samþykkt borgarstjórnar 21. júní 2001.


Hinn 21. júní 2001 samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur tillögu borgarstjóra í tilefni af virkjanaáformum á Hellisheiði, í Þjórsá og við Kárahnjúka. Í þessari samþykkt segir meðal annars:


„Forsenda þess að virkja megi er að fyrir liggi ítarlegar rannsóknir á umhverfisáhrifum framkvæmda, þær hafi verið kynntar almenningi og kostur gefinn á athugasemdum, sbr. lög um mat á umhverfisáhrifum. Einnig að fyrir liggi vandaðir arðsemisútreikningar fyrir hverja einstaka framkvæmd, svo vega megi og meta efnahagslegan ávinning hverrar framkvæmdar andspænis þeim áhrifum sem hún hefur á umhverfi og náttúru.


Þá hvetur borgarstjórn til málefnalegrar og lýðræðislegrar umræðu um kosti og galla einstakra framkvæmda með það að markmiði að stuðla að sem víðtækastri sátt um þær ákvarðanir sem teknar verða.“


Var þetta samþykkt með 14 samhljóða atkvæðum en Ólafur F. Magnússon borgarfulltrúi sat hjá við atkvæðagreiðsluna, af því að hann taldi, að liggja yrði fyrir fjárhagslegt mat á þeim landspjöllum sem af virkjanaframkvæmdum hlytust, en samþykktin gerði ekki ráð fyrir því. Borgarfulltrúinn taldi ályktunina hins vegar fullnægjandi varðandi kröfur um upplýsingar um arðsemi virkjanaframkvæmda.


Mál vegna Kárahnjúkavirkjunar hafa gengið eftir í samræmi við þessa samþykkt borgarstjórnar. Gögn eru fyrir hendi um þá þætti, sem þar eru nefndir og unnt er að meta. Síðast á fundi með borgarfulltrúum í gær kom fram, að ekki er til nein einhlít mælistika við fjárhagslegt mat á landspjöllum vegna Kárahnjúkavirkjunar. Ólafur F. Magnússon borgarfulltrúi veit ekki frekar en aðrir, hvernig á að standa að slíku mati.


Enginn getur með vísan til þess, að skilyrði samþykktar borgarstjórnar frá 21. júní 2001 séu ekki fyrir hendi, skorast undan því hér í borgarstjórn, að taka afstöðu til þessa máls.


Upplausn í R-listanum.


Eftir að við sjálfstæðismenn skýrðum frá því í borgarráði sl. þriðjudag, að við myndum veita ósk Landsvirkjunar um ábyrgð Reykjavíkurborgar brautargengi hér í borgarstjórn, sannaðist enn, að R-listinn hefur enga burði til að takast á herðar meirhlutaábyrgð á stjórn Reykjavíkurborgar. 


Fyrst eftir að niðurstaða okkar lá fyrir og þar með meirihluti hér í borgarstjórn skýrði borgarstjóri frá því, að hún vildi samþykkja ábyrgðina. Er líklega einsdæmi í sögu Reykjavíkurborgar, að pólítískur borgarstjóri og að nafninu til leiðtogi meirihluta hafi verið sporgöngumaður í máli sem þessu.


R-listinn var stofnaður á sínum tíma til að ýta  flokkspólitískum ágreiningi á landsmálavettvangi til hliðar. Var talið, að það yrði unnt með því að hafa hagsmuni Reykjavíkurborgar að leiðarljósi.


Færa má fyrir því sterk rök, að ekkert einstakt mál hafi verið hér til meðferðar, sem snerti hagsmuni Reykjavíkurborgar og Reykvíkinga jafnmikið og þetta, frá því að R-listinn kom til sögunnar á árinu 1994. Hvað gerist innan R-listans, þegar hann stendur frammi fyrir þessu stóra máli? Hann splundrast í frumeindir.


Þrír R-listamenn ætla að styðja málið, fjórir að vera á móti og einn að sitja hjá. Samfylkingin er auk þess klofin í málinu hér í borgarstjórn, þar sem tveir af þremur fulltrúum hennar eru á móti því að veita ábyrgðina.


Hinna ólíklegustu raka er leitað til að skjóta sér undan þeirri ábyrgð meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur að leiða málið til lykta á eigin forsendum. Helgi Hjörvar, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, snerist einn stjórnarmanna gegn Kárahnjúkavirkjun í Landsvirkjun. Helgi lýsir uppgjöf R-listans í málinu með þessum orðum í samtali við fréttamann síðastliðinn laugardag:


„Reykjavíkurlistinn hefur lýst því yfir að þetta mál er landsmál fyrst og fremst, þjóðmál og við í Reykjavíkurlistanum höfum ólíka afstöðu til ýmissa þjóðmála og munum taka afstöðu til þess bara eftir sannfæringu okkar, hvert fyrir sig, og það mun ekki hafa áhrif á samstarf okkar að borgarmálum.“


 


Helgi Hjörvar rekur með þessum orðum enn einn naglann í líkkistu R-listans, hann hafi ekki þrek til að taka sameiginlega afstöðu til málsins, af því að þetta sé „þjóðmál“. Borgarstjóri og forseti borgarstjórnar hafa sagt, að upplausn R-listans sé eðlileg, vegna þess að málið megi rekja til ríkisstjórnarinnar. Þetta eru fátækleg rök.  ? Hvaða álitaefni í stjórnmálum má ekki tengja ríkisstjórninni með einum eða öðrum hætti, þegar um stórmál er að ræða? 


Hvers eiga Reykvíkingar að gjalda að búa við svo máttlaust foystuafl í málum sínum? Áhættan af  því að sitja undir slíkum glundroða í stjórn borgarinnar er meiri en af því að ábyrgjast lántöku Landsvirkjunar vegna Kárahnjúkavirkjunar. Hag Reykjavíkurborgar er meiri hætta búin af stjórnleysinu undir R-listanum en því að axla þessa ábyrgð vegna lántöku Landsvirkjunar.


Morgunblaðið fjallaði um ábyrgðarleysi R-listans í forystugrein sinni hinn 8. janúar síðastliðinn og sagði, að hann gæti ekki ætlast til þess, að sjálfstæðismenn í borgarstjórn tækju í raun á sig ábyrgð meirihlutans í þessu máli nema því fylgdu þá ákveðnar pólitískar afleiðingar. Síðan sagði blaðið orðrétt:


„Hér er um svo stórt mál að ræða, að það er ekki hægt að hafa sama hátt á og í smærri málum, sem í sumum tilvikum verða til þess að meirihlutar riðlist. Í þessu tilviki verður Reykjavíkurlistinn að axla þá ábyrgð, sem að honum snýr og standa eða falla með þeirri ákvörðun, sem þessi meirihluti stendur frammi fyrir í borgarstjórn Reykjavíkur vegna Kárahnjúkavirkjunar.“


Forseti!


Niðurstaða mín og okkar sjálfstæðismanna er skýr. R-listinn stóðst ekki prófið og féll enn og aftur með afstöðuleysi sínu. Við styðjum hins vegar heilshugar, að samþykkja ábyrgð vegna lántöku Landsvirkjunar.


Ég lýsi megnri vanþóknun á vanmætti R-listans við að leiða þetta mál til lykta í borgarstjórn Reykjavíkur. Listinn er ekki forystuafl með hagsmuni Reykvíkinga að leiðarljósi heldur sundurlaus hópur, sem hræðist erfiðar ákvarðanir og leitar allra leiða til að skjóta sér undan þeim. Vegna innbyrðis sundurlyndis er hann ófær um að gæta hagsmuna Reykvíkinga í stærsta máli í borgarstjórn á síðari tímum. Honum ber að víkja.