11.1.2003

Fjár krafist fyrir viðskiptafrelsi

Vettvangur í Morgunblaðinu, 11.01.03

 

Viðræður eru hafnar milli fulltrúa Íslands, Noregs og Liechtensteins annars vegar og Evrópusambandsins (ESB) og nýrra aðildarlanda þess hins vegar um stækkun evrópska efnahagssvæðisins (EES) samhliða stækkun Evrópusambandsins.

 

Samkvæmt 128. grein samningsins um evrópska efnahagssvæðið, sem var undirritaður í Oporto í Portúgal 2. maí 1992 og gekk í gildi 1. janúar 1994, er nýjum aðildarríkjum ESB skylt að sækja um aðild að EES. Byggist ákvæði greinarinnar á því, að það eru ekki einstök ESB-ríki, sem eru aðilar að EES-samningnum heldur Evrópusambandið fyrir þeirra hönd. Yrði óframkvæmanlegt fyrir ESB að koma aðeins fram fyrir hönd nokkurra aðildarríkja sinna á grundvelli EES-samningsins, þess vegna er öllum ESB-ríkjum skylt að eiga aðild að EES-samningnum,

 

Leiðtogar Evrópusambandsríkjanna samþykktu á fundi sínum í Kaupmannahöfn 13.desember 2002, að 10 ný ríki skyldu frá og með 1. maí 2004 verða aðilar að Evrópusambandinu. Til að það gangi eftir með lögformlega réttum hætti, þarf fyrir þann tíma að tryggja aðild þessara ríkja að evrópska efnahagssvæðinu með vísan til fyrrgreinds ákvæðis í 128. grein samningsins um það.

 

Tíminn til að ljúka samningaviðræðum ríkjanna í EES og ESB um stækkun EES-svæðisins er til 16. apríl næstkomandi, en þá er ráðgert að undirrita aðildarsáttmála nýju ESB-ríkjanna í Aþenu. Þessi sáttmáli verður síðan lagður fyrir þing allra 15 ESB-ríkjanna og borinn undir þjóðartakvæði í níu af 10 nýjum aðildarríkjum ESB, þar sem slík atkvæðagreiðsla verður ekki á Kýpur. Í aðildarsáttmálanum er ætlunin að gera í senn ráð fyrir aðild nýju ríkjanna að ESB og EES með vísan til 128. greinar EES-samningsins.

 

***

 

Fyrir þá, sem unnu að því að lðgfesta EES-samninginn fyrir Íslands hönd og greiddu atkvæði með honum, kemur í sjálfu sér ekki á óvart, að þingmenn, sem treystu sér ekki þá til að greiða samningnum atkvæði, vilji veg samningsins ekki mikinn. Raunar hefur þróunin orðið sú, að ýmsir, sem sátu hjá við atkvæðagreiðsluna á þingi, vegna þess að þeir vildu ekki axla ábyrgðina á þeim skyldum, sem í samningnum felast og ganga á grundvelli hans til náins samstarfs við Evrópusambandið, vilja nú gera lítið úr samningnum á þeirri forsendu, að með honum sé ekki gengið nógu langt inn í faðm Evrópusambandsins.

 

Ferlið, sem er hefjast nú vegna stækkunnar Evrópusambandsins, sýnir glöggt, að því fer víðs fjarri, að EES-samningurinn standist ekki tímans tönn og ákvæði hans gleymist hjá ráðamönnum ESB í Brussel. Þvert á móti er öllum ljóst, að aðild umsóknarríkjanna tíu að EES-samningnum er hluti ESB-aðildar þeirra. Engum innan ESB dettur í hug að sniðganga þá samningsbundnu skyldu.

 

Þegar EES-samningurinn var gerður, lá í loftinu, að ef til vill yrði hann í raun aðeins tvíhliða samningur milli Íslands og Evrópusambandsins.  Eftir undirritun samningsins í Oporto höfðu Norðmenn og Svisslendingar hug á að gerast aðilar að ESB eins og aðrar EFTA-þjóðir (fyrir utan Íslendinga), sem hófu EES-samningsferlið á árinu 1989. 

 

18 dögum eftir samningsgerðina í Oporto 1. maí 1992 sótti ríkisstjórn Sviss formlega um aðild að ESB. Í þjóðaratkvæðagreiðslu 6. desember 1992 höfnuðu Svisslendingar bæði aðild að ESB og EES í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sviss er með Íslandi, Noregi og Liechtenstein í EFTA, stendur eitt utan EES en hefur gert tvíhliða samninga við ESB.

 

Norska ríkisstjórnin sótti formlega um aðild að ESB 25. nóvember 1992. Fulltrúi hennar ritaði undir aðildarsáttmála með fulltrúum annarra fráfarandi EFTA- og  EES-ríkja, Austurríkis, Finnlands og Svíþjóðar 25. júní 1994,  hálfu ári eftir að EES-samningurinn hafði gengið í gildi.  Það er sambærilegan sáttmála og nýju ríkin eiga nú að skrifa undir í Aþenu 16. apríl. Norðmenn felldu síðan ESB-aðild öðru sinni í þjóðaratkvæðagreiðslu 28. nóvember 1994. Hinn 1. janúar 1995 urðu Austurríki, Finnland og Svíþjóð aðildarríki ESB. Ísland og Noregur urðu eftir á EES-svæðinu með ESB og 1. maí 1995 slóst Liechteinstein í EES-hópinn.

 

***

 

Mikið vatn er runnið til sjávar á alþjóðavettvangi  og í íslenskum stjórnmálum síðan þessir atburðir gerðust. Deilurnar um EES-aðild voru miklar hér á landi og hefur ekkert eitt mál verið meira rætt á alþingi í tæplega 1100 ára sögu þess. Þegar frú Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands, staðfesti lögin um EES-samninginn og aðildina að honum, gerðist það með næsta dramatískum hætti. Gerðu ýmsir sér vonir um, að hún yrði við bænaskrám um að láta gjörninginn undir höfuð leggjast.

 

EES-samningurinn er ólíkur öðrum alþjóðasamningum að því leyti, að hann tekur sífelldum breytingum með nýrri löggjöf eða reglum, sem koma til sögunnar á grundvelli EES-samstarfsins. Samningurinn er hins vegar sama eðlis og aðrir alþjóðasamningar, að hann bindur aðila sína með skýrum hætti, eins og til dæmis ákvæðið í 128. grein hans um skyldu nýrra aðildarríkja ESB til að gerast aðilar að EES-svæðinu. Í þessu efni hafa ESB-ríki ekkert val en hins vegar ráða EFTA-ríki því, hvort þau eru í EES eða ekki eins og sést af sérstöðu Sviss.

 

***

 

Á vefsíðu EFTA birtist hinn 9. janúar eftirfarandi frásögn af fundinum um stækkun EES með fulltrúum ESB fyrr um daginn:

 

„Af EFTA hálfu var lögð áhersla á að tilgangur samningaviðræðnanna væri að stækka EES en ekki að endursemja EES-samninginn. Vegna hins skamma tíma til að leiða viðræðurnar til lykta ætti ekki að taka upp flókinn efni. EES-ríkin innan EFTA lögðu auk þess áherslu á, að stækkun EES ætti ekki að leiða til nýrra hindrana í viðskiptum með fisk og fiskafurðir.”

 

Evrópusambandið sagði einnig frá viðræðunum á vefsíðu sinni hinn 9.janúar. Þar segir meðal annars:

 

„Meginviðfangsefni samningaviðræðnanna snertir tillögu [ESB] um að auka fjárframlög þessara þriggja landa [Íslands, Noregs og Liechtensteins] til uppbyggingar og félagslegrar samheldni á hinum stækkaða innri markaði. Einnig verður rætt um umþóttunartíma, sjávarafurðir og landbúnaðarafurðir.

 

Chris Patten, sem annast utanríkissamskipti í framkvæmdastjórninni, sagði: „Hinn gífurlegi, væntanlegi árangur af einum markaði ræðst af fjárhagsstuðningi, sem auðveldar fátækari þjóðum að nýta sér sem best frjálsa samkeppni. Það er einfaldlega sanngjarnt að allir, sem njóta góðs af þessum markaði, þ. á m. Ísland, Liechtenstein og Noregur, beri þennan kostnað.”

 

Framkvæmdastjórn ESB mun semja fyrir hönd ESB á grundvelli umboðs, sem ráðherraráðið hefur samþykkt. Stækkunin árið 2004 mun auka þörf fyrir ráðstafanir til að tryggja félagslega og efnahagslega samheldni innan ESB. Farið er fram á aukin fjárframlög frá Íslandi, Liechtenstein og Noregi (sem einnig eru nefnd EES-EFTA-ríkin) í fyrsta lagi vegna aukins kostnaðar ESB- ríkja til að hrinda stækkun ESB í framkvæmd og í öðru lagi til að endurspegla hag EES-EFTA-ríkjanna af því að tengjast stærri  markaði, þegar um 75 milljón nýir neytendur koma þar til sögunnar. ESB leggur þess vegna til að framlög EES-EFTA-ríkjanna skuli verða sambærileg og framlög ESB-ríkja. Til að niðurstaðan verði sanngjörn, verður tekið tillit til sérstakra aðstæðna í hverju landi, þar með landfræðilegra, efnahagslegra og félagslegra málefna. Ekki er nýtt, að EES-EFTA-ríkin leggi fé af mörkum til þróunar innan ESB. Í 115. gr. EES-samningsins eru greinileg tengsl milli „stöðugrar eflingar viðskipta- og efnahagstengsla samningsaðila” annars vegar og „þess að draga úr efnahagslegu og félagslegu misræmi” hins vegar.”

***

 

Sendiherra ESB á Íslandi hafði orð á því við Morgunblaðið á dögunum, að hagvöxtur hér hefði verið  miklu meiri en í löndum Evrópusambandsins og við hefðum vel efni á því að láta fé af hendi rakna til Evrópusambandsríkja. Þetta sjónarmið réð greinilega ferðinni á fyrsta samningafundinum vegna stækkunar ESB fimmtudaginn 9. janúar. Mörgum þótti nóg um, þegar ESB krafðist  fyrir nokkru 27-földunar á framlögum EES-ríkjanna til sjóða ESB. Á samningafundinum hafði þessi krafa ekki lækkað heldur var nú krafist 38-földunar, eða 3,8 milljarða króna.

 

Þessi krafa er með ólíkindum. Talsmenn ESB virðast ætla að nota stækkun EES til að gjörbreyta meginforsendum EES-samningsins, þvert á skýr ákvæði 128. greinar hans. Langsótt er að túlka 115. grein EES-samningsins á þann veg, að í henni felist skuldbinding af hálfu EES-EFTA-ríkjanna til að greiða fé í sjóði ESB,

 

Að ESB krefjist offjár fyrir viðskiptafrelsi kann að leiða til þess, að ekki verður unnt að stækka EES samhliða ESB. Þá stæðu ESB-ríkin frammi fyrir nýjum og áður óþekktum vanda gagnvart EES-ríkjunum.  Er sérkennilegt að tæknileg útfærsla á EES-samningnum vegna stækkunar ESB skuli sett í þennan farveg af málsvörum ESB. Skynsamlegast er að ljúka stækkuninni og ræða önnur álitamál í samskiptum ESB og EES-EFTA-ríkja undir öðrum formerkjum. Fjárkröfur ESB á hendur EES-EFTA-ríkjunum eru ekki hluti af stækkunarferli Evdópusambandsins.