19.12.2002

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar, II. umræða

19. desember, 2002.

 


 


Frá því að við hittumst hér fyrir tveimur vikum og ræddum fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2003 hefur sá gleðilegi áfangi náðst, að R-listinn lét undan miklum þrýstingi hér á vettvangi borgarstjórnar og utan hennar og ákvað að falla frá áformum sínum um að skerða þjónustu við eldri borgara í Reykjavík og spara með því á annan tug milljóna króna.


Annað kom auðvitað aldrei til álita, þegar farið var yfir þetta mál, aðdraganda þess og hugmyndir um framkvæmd en að horfið yrði frá þessari aðför að eldri borgurum. Hitt er áfram áhyggjuefni, að hugmyndir eins og þarna voru kynntar skuli vera á sveimi meðal þeirra, sem eiga að gæta hags eldri borgara á vegum Félagsþjónustu Reykjavíkur.


Ruglingslegur og ómarkviss málflutningur formanns félagsmálaráðs um þjónustu við eldri borgara hér í borgarstjórn vekur ekki traust á hinni pólitísku forystu við úrlausn mála þessa fjölmenna hóps borgarbúa. Þegar saman fer veik forysta af hálfu kjörinna fulltrúa borgaranna og hugmyndir embættismanna, sem ganga þvert á hagsmuni eldri borgara, verður útkoman ekki góð og það myndast ástand, eins og það, sem við höfum kynnst undanfarnar vikur, þegar hundruð eldri borgara eru knúnir til að senda borgarráði bænarskrár og mótmæla aðför að grunnþjónustu, sem borgaryfirvöldum er skylt að veita og þeim ber að gera með myndarbrag en ekki eins og í gustukaskyni.

 

R-listinn og útburðir


Þegar litið er á stöðu Reykvíkinga gagnvart borgaryfirvöldum, blasir því miður alltof víða við ófögur mynd. Í Morgunblaðinu síðastliðinn sunnudag birtist bréf frá Jóni Kjartanssyni frá Pálmholti undir fyrirsögninni Úburðir í Reykjavík. Hann segir:


"Nýlega kom til mín krabbameinssjúklingur á sjötugsaldri vegna útburðarkröfu frá fyrirtæki R-listans í Reykjavík. Ég sagði honum að mæta í Héraðsdómi og biðja um frest meðan mál hans væri athugað. Það gekk eftir. Fyrir dóminum stóð ung kona úr Grafarvogi með þrjú börn í sömu erindum vegna kröfu frá sama fyrirtæki. Fyrir skömmu frétti ég af konu sem búið var að bera út þrisvar ásamt börnum sínum. Fólkinu er þá fleygt fram og aftur, eins og notuðum gólftuskum. Síðast er ég vissi kostaði útburður 140 þús. krónur og er þá kostnaður borgarinnar 420 þús. krónur í þessu dæmi, líklega ársleiga konunnar. Ég veit ekki til þess að fólki gangi betur að greiða skuldir sínar að loknum útburði. Útburður er ofbeldisverk, einskonar opinber handrukkun. Slíkan harmleik á að stöðva með því að banna hann með lögum enda leysir hann engan vanda heldur eykur hann líkt og önnur ofbeldisverk. Í gamla hreppsstjóraþjóðfélaginu sundruðu yfirvöld heimilum og buðu sveitarómaga upp á hreppsþingum. Kannski verður það næsta stig í fjölskyldustefnu R-listans. Stjórnmál snúast um velferð og líðan fólks og formaður VG hefur lofað velferðarstjórn eftir kosningar, komist hann að. Vonandi er barnaútburður R-listans ekki vísir að slíkri stjórn né heldur boðuð leiguhækkun sem varla fækkar útburðum. Nú bera VG líka ábyrgð á útburðum R-listans."


Svo mörg voru þau orð og eru ekki fallegur vitnisburður um þá stefnu, sem hér er fylgt undir stjórn R-listans. Hvert er svar formanns félagsmálaráðs við þessari ádrepu? Hvað segir borgarstjóri um þessa lýsingu á fjölskyldustefnu R-listans? 


Við fáum áreiðanlega ekki svör við þessum spurningum hér í dag, því að eins og endranær þegar rætt er um málefni Reykjavíkurborgar undir stjórn þessa ágæta fólks er ekkert athugavert við neitt, sem það gerir og vandamálin eru alltaf skýrð á þann veg, að þau séu þeim að kenna, sem á þau bendir.

Spólað í sama farinu

 

Í frumvarpinu að fjárhagsáætlun fyrir árið 2003 sést ekki votta fyrir neinu nýju. Spólað er áfram í sama farinu, útgjöldin halda áfram að vaxa og skattbyrðin að þyngjast. Þjónustu á að skerða,  eins og með sumarlokun leiksóla, og gjaldskrár hækka. Nú síðast varð dýrara að sækja sundstaðina og það skýrt með því, að verið væri að hækka gjaldskrána í samræmi við starfsáætlun ársins 2002, af því að það hefði ekki verið gert fyrir kosningar vegna baráttunnar gegn verðbólgu.


Með stefnu sinni og framkvæmd leggur R-listinn ekkert af mörkum til að treysta og styrkja almennar efnahagsforsendur í landinu. Það er ekki aðeins að hagur þeirra borgara, sem minna mega sín, sé fyrir borð borinn, heldur er látið eins og meirihlutinn í borgarstjórn þurfi ekki heldur að hugsa um þjóðarhag. Aðrir eiga skapa það umhverfi, að hagnaður verði hjá ofurskuldsettum fyrirtækjum borgarinnar  vegna þess að íslenska krónan styrkist.  Þegar ríkissjóður greiðir niður skuldir um tugi milljarða króna, eykst hraðinn á skuldaaukningu Reykjavíkurborgar, skuldir borgarsjóðs eins vaxa um tvo milljarði á þessu ári.


Ótrúleg skuldasöfnun


Við erum hér að fjalla um áætlun. Því miður sýnir reynslan, að áætlanir R-listans um útgjöld borgarsjóðs eða skuldir hans og hreinar skuldir Reykjavíkurborgar eru lítið annað en orð á blaði. Eftir því sem ég kynni mér sögu þessarar áætlanagerðar betur og stóru orðin, sem borgarstjóri hefur látið falla um ágæti hennar styrkist grunur minn um, að í sumum tilvikum sé vísvitandi verið að breiða yfir og blekkja ? þetta eru stór orð og skal ég nú finna þeim stað.


Deilur um fjármálastjórn hafa sett mikinn svip á umræður um borgarmál allar götur frá því að R-listinn tók við völdum í Ráðhúsinu árið 1994. Talsmenn R-listans hafa haldið því stíft að borgarbúum, að þeir hafi bætt fjármálastjórn borgarinnar til mikilla muna. Við sjálfstæðismenn höfum haldið öðru fram og bent til dæmis á ótrúlegan vöxt skulda borgarinnar, hvort sem litið er á skuldir borgarsjóðs eða heildarskuldir með eða án lífeyrisskuldbindinga.


Ef litið er á samstæðureikning Reykjavíkurborgar, sem nú liggur loks fyrir, sést, að frá árinu 1993 til ársins 2003 hafa skuldir Reykvíkinga hækkað um 12,5 milljónir króna hvern einasta dag á verðlagi í árslok 2002. Hrein skuldastaða borgarinnar á hvern íbúa hefur um það bil tífaldast á þessu tímabili.

Skuldir borgarinnar aukast nú mun meira en áætlanir gerðu ráð fyrir.  Skuldirnar vaxa með meiri hraða en nokkru sinni fyrr.  Samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir árið 2002 sem samþykkt var í borgarstjórn í desember 2001 var gert ráð fyrir því að hreinar skuldir borgarinnar í árslok 2002, án lífeyrisskuldbindinga, yrðu 33,2 milljarðir króna.  Útkomuspá fyrir árið 2002 gerir nú ráð fyrir því að niðurstaðan verði 43,1 milljarður króna eða tæpum 10 milljörðum hærri.  Frávikið er því "aðeins" 30% miðað við það sem áætlunin gerði ráð fyrir. 

Gengishagnaður


Þetta er athyglisvert í ljósi þess að borgarstjóri hefur haft mörg orð um það hve áætlanagerð borgarinnar sé orðin traust og vönduð og byggðist á nútímalegum vinnubrögðum.  Við mat á skuldaþróuninni er vert að hafa í huga að á árinu 2002 hefur gengisþróun verið afar hagstæð þeim sem skuldað hafa í erlendri mynt.  Í árslok 2001 námu erlendar skuldir borgarinnar a.m.k. um 25 milljörðum króna (Borgarsjóður 7,1 Mkr., Hafnarsjóður 0,7 Mkr. og Orkuveitan 17,1 Mkr.).  Ekki er óvarlegt að ætla að gengishagnaður borgarinnar af þessum lánum verði um 3 til 5 milljörðum kr. á þessu ári.  Ef ekki hefði komið til þessa gengishagnaðar þá má ætla að skuldir borgarinnar hefðu hækkað um 13 til 15 milljarði kr. á árinu 2002, eða 30 til 40 milljónir kr. hvern einasta dag ársins.  Skuldabyrði hvers Reykvíkings hefði þá aukist um yfir 100 þús. kr. á árinu 2002.  Skuldaabyrði hverrar fjögurra manna fjölskyldu hefði þá hækkað um 400 til 500 þús. kr. á þessu eina ári. Að þróunin er ekki þessi, er ekki borgaryfirvöldum að þakka, heldur þeim, sem fara með efnahagsstjórn þjóðarinnar.

 

Hækkun heildarskuldaSamkvæmt áætlun um efnahag borgarinnar skv. samstæðureikningi, sem nú hefur loks verið lagður fram, er gert ráð fyrir að heildarskuldir með lífeyrisskuldbindingum verði í árslok 2002 77,6 milljarðir króna eða  um 690 þús. kr. á hvern íbúa borgarinnar.  Áætlunin gerir ráð fyrir að heildarskuldirnar hækki um 5,2 milljarði króna á árinu 2003 og verði orðnar 82,8 milljarðar í árslok 2003.  Reynslan af áætlanagerð R-listans er því miður sú að skuldaaukningin er jafnan margfalt meiri en áform hans standa til.

Þegar R-listinn tók við stjórnartaumum í Ráðhúsi Reykjavíkur voru skuldir borgarinnar sáralitlar, eins og áður sagði.  Í efnahagsuppsveiflu síðustu ára hefur R-listanum hins vegar tekist að hengja um 400 til 500 þús. kr. skuldabagga á hvern Reykvíking og er þá hækkun á lífeyrisskuldbindingum ekki meðtalin. Á sama tíma hefur ríkissjóður verið að greiða niður sínar skuldir.  Þetta eru blákaldar pólitískar staðreyndir en ekki ágreiningur um bókhald eins og R-listinn vill stundum telja. Að draga fram þessar staðreyndir er ekki  karp um formsatriði. Hér er um blákaldar staðreyndir að tefla sem allir ábyrgir borgarfulltrúar verða að horfast í augu við.  Spurning er, hvort borgarstjóra sé orðið það um megn.


Fótfestu í fjármálum skortir


Við hlaupum ekki frá staðreyndunum heldur ber okkur að takast á við þær með fast land undir fótum. Vandi okkar er, að þessa fótfestu skortir, þegar rætt er um fjármál Reykjavíkurborgar.


Í greinargerð með frumvarpinu að a-hluta fjárhagsáætlunarinnar segir á bls. 4: "Rekstrargjöld hækka um 7,8% frá útkomuspá 2002, úr 28.308 mkr. í 30.510 mkr. eða sem nemur 2202 mkr." Hvað segja þessar tölur okkur? Jú, að lausatök hafi verið á rekstrarútgjöldum árið 2002, áætlun standist ekki.


Frumvarpið, sem hér er til umræðu gerir ráð fyrir áframhaldandi þenslu, útgjöldin hækka meira en tekjurnar, skuldasöfnunin heldur áfram. Hið versta er, að reynslan kennir okkur, að enginn veit, hvað skuldirnar eiga eftir að vaxa mikið á árinu 2003. Eigum við að reikna áfram með 30% fráviki? Eða enn meiri bjögun?

Samanburður við ársreikning

Forvitnilegt er að skoða útgjöld til reksturs málaflokka að frádregnum sértekjum á árinu 2001 í upphaflegri og endanlegri fjárhagsáætlun og bera þau saman við niðurstöðu í endurskoðuðum ársreikningi. Heildarútgjöld til málaflokka hækka um tæpa 2,3 milljarði króna eða um rúm 12% frá upphaflegri áætlun. Allir liðir, að tveimur undanskildum, viðhaldi og heilbrigðismálum, hækka og fyrir utan önnur útgjöld hækka útgjöld til hreinlætismála hlutfallslega mest eða um 35,8%. Útgjöld til skipulags- og byggingarmála fara 23,6% fram úr áætlun, til leikskóla um 19,1%, til félagsþjónustu um 13,1%, til gatna og holræsa um 14,2%.

Sé litið á þróun í rekstri málaflokka frá árinu 1997 er þróunin ískyggileg, því að um stöðuga hækkun er að ræða á milli ára. Rekstrarútgjöld borgarsjóðs til málaflokka hafa nærri því tvöfaldast á þessu árabili, hækkað úr 14, 5 milljarði króna í 28 milljarði. Sé áætlunin fyrir árið 2003 jafnilla úr garði gerð og fyrri áætlanir þannig að skeiki á bilinu 12% fara rekstrarútgjöld borgarsjóðs yfir 30 milljarði króna á næsta ári.


Hið einkennilega við þessa þróun er, að R-listinn viðurkennir ekki einu sinni, að um útgjaldaþenslu sé að ræða. Fullyrt var af talsmönnum hans fyrir kosningar í vor, að þessi þensla hefði verið stöðvuð. Ef menn neita að horfast í augu við vanda, er borin von, að þeir vilji taka á honum.


Þegar fjallað var um ársreikning Reykjavíkurborgar fyrir árið 2001 hér í borgarstjórn 2. maí síðastliðinn, sagði borgarstjóri með leyfi forseta: "Rekstrarútgjöld málaflokkanna eru 0,4% undir áætlun en sé hækkunin vegna áfallinna lífeyrisskuldbindinga tekin með þá voru rekstrarútgjöld borgarsjóðs 2% umfram áætlun."

Þetta eru furðuleg ummæli, þegar litið er til fráviksins frá upphaflegri fjárhagsáætlun fyrir árið 2001. Skýringuna á orðum borgarstjóra er að leita í því, að tölurnar byggjast á samanburði við svokallaða endanlega áætlun, það er þegar fjárheimildir hafa verið auknar með sérstakri samþykkt borgarráðs, sem felur í sér aukafjárveitingar. Borgarstjóri kýs einfaldlega að bera saman tölur við áætlun, sem byggist að hluta á fenginni útkomu. Hálfsannleikur er oft talin verri en hrein lygi. Borgarstjóri grípur hér til hálfsannleikans, þegar hún lætur undir höfuð leggjast að bera útkomu borgarsjóðs í ársreikningi saman við upphaflegar áætlanir.

 

Marklítið plagg

Hvað segir þetta allt okkur? Jú, að það er lítið að marka plaggið, sem við höfum hér undir höndum. Áætlanagerðin er léleg bæði varðandi útgjöld og skuldir. Síðan bætist við, að frumvarpið er lagt fyrir okkur með þeim óvandaða hætti, að ekki gefst færi á að afgreiða það nema í bútum að höfðu samráði við félagsmálaráðuneytið, sem að mínu mati skautar léttilega í túlkunum sínum á sveitarstjórnarlögunum til að gera þessa óeðlilegu málsmeðferð lögmæta.


Felst í því lítillækkun fyrir borgarstjórn Reykjavíkur að leita þurfi álits félagsmálaráðuneytisins á því, hvort meðferð á frumvarpi að fjárhagsáætlun borgarinnar sé með lögmætum hætti. Að gefnu tilefni minni ég á, að það voru embættismenn borgarinnar, sem voru upphaflega í svo miklum vafa um, hvort rétt væri að málum staðið, að þeir sneru sér til ráðuneytisins.


Breytingartillögur sjálfstæðismanna


Við sjálfstæðismenn höfum flutt breytingartillögu við fjárhagsáætlunina og kemur hún hér til afgreiðslu.


Í fyrsta lagi viljum við draga úr álögum á borgarbúa. Við ítrekum þá stefnu okkar að stórlækka eigi fasteignaskatta og holræsagjald á eldri borgara og öryrkja og viljum, að borgarsjóður afsali sér 200 milljónum króna tekna í því skyni.


Í öðru lagi viljum við tryggja, að 250 milljónir króna renni til þess að fjölga hjúkrunarrýmum fyrir eldri borgara í Reykjavík og viljum þess vegna auka útgjöld til þessa málaflokks frá því, sem segir í fjárhagsáætluninni, um 82,5 milljónir krónar.


Í þessu sambandi vil ég spyrja borgarstjóra hvað líði framkvæmd viljayfirlýsingar hennar og Jóns Kristjánssonar heilbrigðisráðherra frá því skömmu fyrir kosningar um 70% hlutdeild ríkissjóðs í byggingu hjúkrunarrýma hér í Reykjavík. Hvers vegna sést þessarar yfirlýsingar hvergi stað í því frumvarpi, sem hér er til umræðu?


Í þriðja lagi viljum við, að 13 milljónir króna renni til að tryggja félagsstarf aldraðra í þjónustuíbúðum við Dalbraut, Lönguhlíð og Furugerði.


Loks viljum við, að 12 milljónum króna verði varið til að koma í veg fyrir sumarlokun leikskóla borgarinnar.


Hér er um samtals um 307,5 m.kr. útgjöld að ræða. Til að mæta þeim viljum við minnka útgjöld til þróunar- og fjölskyldusviðs hér í Ráðhúsinu um 18,4 m.kr. Nýleg viðhorfskönnun leiddi í ljós, að sárafáir telja sig eiga nokkurt erindi við þetta svið og má því að skaðlausu minnka fjárhagsleg umsvif vegna þess um helming.


Þá teljum við, að eðlilegt sé að fresta áætlun um svonefnda mannauðsráðgjafa í Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og spara með því 9 milljónir króna.


Við viljum hætta að veita rekstrarfé úr borgarsjóði til Aflvaka. Hlutafélagið á annað hvort að standa á eigin fótum eða hverfa, enda hefur það lítið gert undanfarið annað en snúast í kringum sjálft sig í leit að verkefnum.

Við þær aðstæður, sem nú eru, viljum við, að dregið sé úr ráðstefnum og ferðalögum tíl útlanda og þannig sparaðar 19 milljónir króna. Við erum andvígir því að verja 11,3 milljónum króna til að styrkja stjórnmálaflokkana í borgarstjórn. Má leiða rök að því, að slík meðferð á skattfé borgarbúa sé andstæð sveitarstjórnarlögum. Ég varð mjög undrandi þegar ég las haft eftir forseta borgarstjórnar, að verið væri að koma til móts við óskir mínar fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins með þessum styrk. Ég hef aldrei farið fram á fé úr borgarsjóði til Sjálfstæðisflokksins heldur aðeins spurt um reglur í því sambandi og fékk þá þau svör, að R-listinn hefði fengið fjárstyrki. Væri gott að borgarstjóri eða forseti borgarstjórnar skýrði borgarstjórn frá því af hvaða liðum það fé var tekið, úr því að nú er talið nauðsynlegt að geta þessa stuðnings sérstaklega í fjárhagsáætlun.

 

Við höfum litið þannig á, að Miðborgarstjórn hafi lokið hlutverki sínu eftir að hverfisráð fyrir miðborgina kom til sögunnar og viljum að það sé staðfest með því að hætta að greiða 12 milljónir króna til hennar.


Við teljum, að nægilegt sé að verja 14 milljónum króna á næsta ári til útgáfu, kynningar og rannsókna og þannig verði sparaðar 18 milljónir króna.


Okkur sýnist alltof bratt farið af stað í útgjöldum til Höfuðborgarstofu og teljum, að hún þurfi að sanna tilvist sína betur, áður en ákveðið er að verja 78.800 milljónum króna til hennar. Viljum við spara 24 milljónir króna á þeim lið.


Hið sama á við um hverfaráðin, það er að okkar mati of í lagt að ætla þeim 15 milljónir króna á næsta ári. Við teljum, að þau geti spjarað sig með 8 milljón króna framlagi og spörum við þar 7 milljónir króna.


Þá höfum við lýst andstöðu við þá mannvirkjagerð og röskun á Víkurkirkjugarði, sem er fyrirhuguð vegna sýningarskála í Aðalstræti og viljum, að málið sé skoðað frá grunni að nýju og þess vegna ekki ákveðið að leggja til skálans 65 milljónir króna á næsta ári.


Loks erum við þeirrar skoðunar, að óvarlegt sé að ákveða að hækka útgjöld til Strætó bs. eins og ráðgert er í frumvarpinu og viljum lækka þá fjárhæð um 100 milljónir króna.


Hér er því samtals um 307,5 m.kr. sparnað að ræða.


Kostnaður við Strætó bs.


Strætó bs. er eins og kunnugt er í eigu sjö sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og er eignarhlutur Reykjavíkurborgar nærfellt 64%. Markmið Strætó bs. er að efla almenningssamgöngur, bæta þjónustu og auka hagkvæmni. Fyrirtækið starfrækir almenningsvagnaþjónustu á svæðinu með einu leiðakerfi og einni gjaldskrá og á hverju sinni að leita hagkvæmustu leiða í rekstri og starfrækslu.


Fyrirtækið hefur jafnframt yfirumsjón með allri ferðaþjónustu fatlaðra á svæðinu.


Strætó bs. lýtur sérstakri stjórn, sem samþykkir fjárhags- og starfsáætlun fyrirtækisins og hefur eftirlit með framkvæmd og rekstri. Sérstaklega skal stjórnin gæta þess að nægilegt eftirlit sé með bókhaldi og fjármunameðferð.


Það liggur fyrir sú skoðun eigenda Strætó, að framlag þeirra til rekstrarins sé of mikið, hlutfallslegur kostnaður sveitarfélaganna við ferð hvers einstaks farþega með vögnum Strætó sé of mikill. Gjaldskrá fyrirtækisins stendur aðeins undir um  40% rekstrargjalda og hefur þessi hlutur lækkað úr 70%. Farþegafjöldi Strætó hefur dregist saman um helming síðustu 30 ár á sama tíma og íbúum á vagnasvæðinu hefur stórfjölgað.


Því miður liggja ekki fyrir neinar áætlanir um það, hvernig á að leysa vanda Strætó með öðrum hætti en stórauka útgjöld til fyrirtækisins af hálfu annarra en þeirra, sem nýta sér þjónustu þess.  Á árinu 2003 eru tekjur Strætó bs. áætlaðar 2.047 mkr., þar af framlag eigenda 1231 mkr., það er að eigin tekjur standi undir 41,4% af rekstrargjöldum fyrir afskriftir.


Hlutur Reykjavíkurborgar í þessum stuðningi við Strætó bs. verður 960 mkr. á árinu 2003 á árslokaverðlagi 2002 en var 241 mkr. árið 1993. Af yfirliti yfir fjárstreymi úr borgarsjóði til fyrirtækisins síðustu 10 ár má ráða, að verulega hafi snúist á ógæfuhliðina fyrir skattgreiðendur í Reykjavík á árinu 2000 en þá var varið 719 milljónum króna til Strætó bs. í stað 588 milljón króna árið áður.


Rætt var um málefni Strætó bs. í stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu mánudaginn 9. desember síðastliðinn. Segir meðal annars í fundargerð af þessum fundi:


"Ljóst er að mörgum spurningum um fyrirtækið og stefnu þess er erfitt að svara og mikil vinna býður í því sambandi við stefnumörkun og gerð þriggja ára áætlunar fyrir það. Formaður [það er Sigurður Geirdal, bæjarstjóri Kópavogs] lét í ljós þá skoðun að fara verði mjög varlega í allar þessar áætlanir vegna mikils hallareksturs og síaukinna framlaga frá sveitarfélögunum og ekki síst hugmyndina um byggingu 2,6 milljarða króna skiptistöðvar."


Ég tek undir þessa skoðun formannsins og það er beinlínís óvarlegt að verja meira fé úr borgarsjóði til þessa reksturs að óbreyttu. Til að knýja á um úrbætur í starfsemi Strætó bs. er skynsamlegt að falla frá áformum um að hækka framlög Reykvíkinga til fyrirtækisins um 100 milljónir króna.


Fálæti vegna framhaldsskóla


Af mörgu fleiru er að taka, þegar hugað er að skynsamlegri vinnubrögðum við ráðstöfun á skattfé Reykvíkinga. Gefst tækifæri til að fara nánar yfir einstök málefni í umræðum hér síðar í dag.


Ég lýsi sérstakri undrun minni yfir fálæti borgarstjóra vegna framhaldsskólanna í Reykjavík, þrátt fyrir heitstrengingar fyrir kosningar um stuðning við Menntaskólann í Reykjavík og íþróttahús við Menntaskólann við Hamrahlíð.


Gildir hið sama um þau loforð og ýmis önnur, sem gefin voru til að ganga í augun á kjósendum, að þau eru gleymd, um leið og atkvæði hafa verið talin.


Óvissa um borgarstjóra

 

Áhugi á störfum okkar síðasta sólarhring byggist ekki á því, að við erum hér að fjalla um frumvarp að fjárhagsáætlun fyrir árið 2003. Áhuginn beinist að því að vita, hvað verði um stöðu borgarstjóra, eftir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri hefur opinberlega og endanlega ákveðið að bjóða sig fram til þings á lista Samfylkingarinnar í kosningunum 10. maí næstkomandi.


Hinn 7. september síðastliðinn sagði Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi í Morgunblaðsgrein að hann væri þess fullviss að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri færi ekki í framboð til Alþingis. ?Hún verður áfram borgarstjóri í Reykjavík," fullyrti Dagur en taldi það ekki samrýmast skyldum hennar við R-listann eða kjósendur hans að bjóða sig fram til þings.  Færði borgarfulltrúinn meðal annars þessi rök fyir skoðun sinni:


"Ástæða þess að ég tel nær útilokað að Ingibjörg Sólrún fari fram til Alþingis er einföld. Skýrar yfirlýsingar hennar um hið gagnstæða í borgarstjórakosningunum í vor. Það eru ekki aðeins pólitískir andstæðingar sem vilji höggva í trúverðugleika hennar sem spyrja hvort þær yfirlýsingar standi ekki, heldur einnig margt af harðasta stuðningsfólki hennar. Þessi spurning skiptir lykilmáli þar sem pólitískur styrkur Ingibjargar Sólrúnar byggist ekki síst á trúverðugleika. Styrk hennar til að fylgja eigin sannfæringu."


Þetta sagði hinn óflokksbundni borgarfulltrúi R-listans 7. september og hefur borgarstjóri nú ómerkt orð hans með ákvörðun sinni um framboð og jafnframt vegið að eigin trúverðugleika. Hún ákvað framboðið að eigin sögn í samtali við Össur Skarphéðinsson, formann Samfylkingarinnar, um síðustu helgi og tilkynnti Össur framboðið opinberlega á sama tíma og borgarstjóri sat á fundi með borgarstjórnarflokki R-listans og lét eins og það væri ekki fullákveðið, hvort hún byði sig fram eða ekki. Þannig talaði hún einnig við sjónvarps- og útvarpsstöðvar um klukkan 18.00 í gær en tók síðan af skarið opinberlega í Kastljósi sjónvarpsins rúmum klukkutíma síðar.


Þetta var óvenjuleg atburðarás, svo að ekki sé meira sagt um mál, sem snertir forystu í borgarstjórn Reykjavíkur, traust og trúverðugleika innan hennar.


Í mínum huga er engin tilviljun, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri tekur þessar stórpólitísku ákvaraðnir daginn áður en við komum hér saman til að ræða þetta frumvarp að fjárhagsáætlun. Eins og ég hef rakið í ræðu minni hér í dag og á fundi borgarstjórnar fyrir tveimur vikum stendur ekki steinn yfir steini í fjármálastjórn borgarinnar. Útgjaldaþenslan er komin úr böndum og sömu sögu er að segja um skuldasöfnunina. Áætlanir standast ekki, trúverðugleikinn er horfinn í málflutningi þeirra, sem láta eins og hér sé allt í himnalagi, þegar rætt er um fjárhag borgarinnar. Borgarstjóri treystir sér einfaldlega ekki lengur til að halda áfram á sömu pólitísku brautinni. Til þess að komast út úr öngstræti er oft nauðsynlegt að brjóta brýr að baki sér og að frumkvæði Össurar Skarphéðinssonar, formanns Samfylkingarinnar, ákvað borgarstjóri að gera það gagnvart R-listanum.


Við heyrðum það hér á síðasta fundi borgarstjórnar, hve ofarlega það var þá í huga borgarstjóra að ræða landsmálin og hún gaf þá sterklega til kynna, að frekari tíðinda væri að vænta af þingframboðsmálum hennar. Þegar á hana var gengið vegna þessa, sagði hún um stríðni við mig að ræða. Ég læt mér í léttu rúmi liggja, hvort borgarstjóri býður sig fram til þings eða ekki. Hins vegar hefur komið í ljós, að það er grafalvarlegt mál fyrir þá, sem vinna með henni að stjórn Reykjavíkurborgar innan R-listans. Þeim er greinilega ekki hlátur í huga, þegar borgarstjóri ákveður að stíga fyrsta skrefið út úr borgarmálunum. Fer ekki fram hjá neinum, að samstarfsmenn úr öðrum flokkum en Samfylkingunni telja borgarstjóra hafa gengið á bak orða sinna.


Því miður verður ekki sagt eftir lestur frumvarpsins að fjárhagsáætlun Reykjavíkur fyrir árið 2003, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri skili hér blómlegu búi. Við skulum vona, að haldleysi í áætlanagerð skuldagleði og útgjaldaþrá fari ekki að setja svip sinn á ríkissjóð vegna áhrifa hennar í landsmálum.

Krafa um brottvikningu

Nú í hádeginu var birt yfirlýsing fulltrúa Framsóknarflokksins og Vinstri hreyfingarinnar-græns framboðs, sem birt er undir þessari fyrirsögn á vefsíðu Morgunblaðsins: "Segja Ingibjörgu Sólrúnu í raun hafa ákveðið að hverfa úr stóli borgarstjóra." Í fréttinni á mbl.is segir enn fremur:


"Árni Þór sagði við blaðamenn að trúnaður í samstarfinu hefði brostið með þessari tilkynningu borgarstjóra. Ingibjörgu Sólrúnu hefði verið kynnt þessi afstaða á fundi í gær og boltinn væri núna hjá henni. Sagðist Árni treysta því, að Ingibjörg Sólrún kæmist að sömu niðurstöðu um að þessi tvö hlutverk væru ekki samrýmanleg í ljósi þess hvernig stofnað hefði verið til samstarfsins innan Reykjavíkurlistans."


 Í yfirlýsingunni er komist þannig að orði:


"Með ákvörðun sinni um að taka sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík hefur borgarstjóri því í raun ákveðið að hverfa úr stóli borgarstjóra."


 Herra forseti!


Hér er til umræðu fjárhagsáætlun sem er byggð á mjög veikum grunni eins og ég hef rakið í ræðu minni. Klukkutíma fyrir þessa umræðu er síðan gefin út yfirlýsing, sem vekur spurningar um, hvernig staðið skuli að framkvæmd áætlunarinnar. Í umræðum hér í dag verður að koma fram að háflu R-listans, hvernig á að standa að framkvæmd áætlunarinnar.