23.11.2002

Skýrar átakalínur

DV-grein - 22.11.02

Þegar dregin eru mörk á milli Sjálfstæðisflokksins og vinstri flokka á þeirri forsendu, að þeir séu félagshyggjuflokkar, er ekki alltaf auðvelt að átta sig á því, hvaða stefnu er verið að lýsa með orðinu félagshyggja. Í bókinni Jafnaðarstefnan frá 1977 segir dr. Gylfi Þ. Gíslason, prófessor og fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins: „Í þessari bók verður jafnaðarstefna hins vegar notað í merkingunni socialdemokrati, sameignarstefna í merkingunni kommúnismi og félagshyggja sem heiti á sósíalisma.”

 

Erfiðleikar verða nokkrir við að nota skilgreiningu dr. Gylfa á orðinu, þegar til þess er litið, að framsóknarmenn ekki síður en samfylkingarfólk og vinstr/grænir vilja skjóta sér undir félagshyggjuna, þegar hentar þeim. Framsóknarmenn mega hins vegar ekki heyra á það minnst, eins og við vitum, að þeir séu sósíalistar, enda skilgreina þeir sig sem frjálslynda eða miðjumenn í alþjóðlegum samtökum stjórnmálaflokka.

 

Eftir að kommúnismi og sósíalismi gengu sér til húðar við hrun Sovétríkjanna, eru þeir, sem opinberlega aðhylltust sósíalisma og kommúnisma, á harðahlaupum undan fortíð sinni. Kemur sér vel fyrir þá, að geta skotið sér á bakvið orð eins og félagshyggju til að forða sér undan hugmyndafræðilegum skilgreiningum, sem byggjast á alkunnum hugtökum.

 

Forsendur velferðar

 

Nauðsynlegt er að rifja þessi grundvallaratriði upp í deilum líðandi stundar um áherslur í velferðarmálum og þátt einstakra stjórnmálaflokka við að leggja grunn að velferðarþjóðfélagi á Íslandi og viðgangi þess.

 

Kommúnistar og sósíalistar hafa sem betur fer lengst af verið utan ríkisstjórna á Íslandi. Þær stjórnir, þar sem þeir hafa átt fulltrúa, hafa síður en svo aukið á velferð landsmanna. Þvert á móti eiga þær sammerkt, að hafa tafið fyrir eðlilegri efnahagsþróun og þeirri hagsæld, sem henni fylgir.  Í ljósi þess er um pólitísk öfugmæli að ræða, þegar vinstri/grænir láta nú eins og stuðningur við þá sé greiðfærasta leiðin til að styrkja íslenska velferðarkerfið í sessi og efla það.

 

Til að þjóðir geti búið vel að þeim, sem standa höllum fæti meðal þeirra, skiptir mestu að treysta almennar forsendur efnahags- og atvinnulífs og leyfa einstaklingum sem mest svigrúm til orða og athafna. Þar sem trúin á frumkvæði ríkisvaldsins í atvinnumálum er mest, er hagur borgaranna verstur.

 

Þar sem ekkert er til skiptanna, glíma stjórnendur ekki við vanda, sem felst í því að tryggja öllum sem best kjör. Í fátæktarríkjum eiga allir fullt í fangi með að draga fram lífið, nema valdastéttin í kringum kjötkatla ríkishítarinnar. Skýrasta dæmið um þetta er nú á tímum að finna í Norður-Kóreu. Þar framleiðir einræðisherrann kjarnorkusprengjur til að upphefja sjálfan sig enn frekar á kostnað sveltandi alþýðu.

 

Átakalínur í stjórnmálum

 

Átakalínur í íslenskum stjórnmálum eru ekki um það, að félagshyggjuflokkar vilji gera betur  en Sjálfstæðisflokkurinn fyrir þá, sem standa höllum fæti. Að sjálfsögðu er það markmið sjálfstæðismanna nú sem fyrr að treysta öryggisnet velferðarkerfisins og jafna lífskjör.

 

Átakalínur eru um stefnuna í atvinnumálum, um það hvort eigi að skapa ný störf með virkjunum og öflugum vísindafyrirtækjum; um það hvort ríkið eigi að eiga og reka banka eða einstaklingar; um það hvort beita eigi óhóflegri náttúruvernd til að hefta atvinnustarfsemi til lands og sjávar.