21.11.2002

Útboð byggingarréttar í Grafarholti.

Borgarstjórnarfundur, 21. nóbember, 2002

 

 

 

 

Ég vísa til 12. liðar í fundargerð borgarráðs frá 12. nóvember varðandi útboð byggingarréttar í Grafarholti ásamt úthlutunar- og útboðsskilmálum.  Þar kemur réttilega fram, að við sjálfstæðismenn greiddum atkvæði gegn þessu útboði, eins og við höfum ávallt gert síðan R-listinn mótaði útboðsstefnu sína.

 

Neikvæðar afleiðingar þessarar stefnu sjást alls staðar.

 

Íbúum Reykjavíkur fækkar um leið og fjölgar mikið í nágrannasveitarfélögum.

 

Þrátt fyrir mikla fækkun borgarbúa er mikill húsnæðisskortur í Reykjavík.

 

Leiguverð á íbúðum er komið upp úr öllu valdi og fólk leitar sér húsaskjóls, sem er svo illa úr garði gert, að það fellur ekki undir ákvæði laga um húsaleigubætur, sem eiga þó að vera til hagsbóta fyrir hina verst settu.

 

Þessi stefna hefur verið reynd og framkvæmd í Grafarholti – og þar var ekki aðeins staðið þannig að verki að bjóða út byggingarrétt heldur voru einnig sett  óskynsamleg skilyrði um íbúðastærð.

 

Hvort tveggja alltof hátt verð og stærð íbúða á skjön við þarfir markaðarins valda stórvandræðum hjá þeim, sem keypt hafa byggingarrétt.

 

Þessi vandi birtist hvað skýrast í þeirri staðreynd, að Frjálsi fjárfestingabankinn hf. er nú orðinn einn stærsti lóðarhafi og íbúðaeigandinn í Reykjavík með eignarhald á 284 íbúðum í Grafarholti. Í skjóli bankans vinna fjárvana verktakar að því að reisa og smíða íbúðir, sem þeir ætluðu sjálfir að selja. Til að forða þeim frá greiðsluþroti hefur bankinn fengið lóðir þeirra framseldar með samþykki R-listans.

 

Er einsdæmi í allri byggingarsögu Reykjavíkur, að sú staða hafi myndast, að lánardrottinn verktaka hafi eignast lóðir og 284 íbúðir vegna fjárhagsvanda skuldunauta sinna.

 

Við sjálfstæðismenn viljum, að horfið sé af þessari braut og tekin upp skynsamlegri vinnubrögð. Þess vegna greiðum við atkvæði gegn þessari tillögu.