7.11.2002

Ábyrgð vegna Kárahnjúkavirkunar - borgarstjórnarræða


Ábyrgð vegna
Kárahnjúkavirkjunar.

Borgarstjórn Reykjavíkur,
7. nóvember, 2002.



Ég vísa til liðar 11. í fundargerð borgarráðs frá 29. október og minnisblaðs borgarstjóra frá 28. október um skipan starfshóps eigenda Landsvirkjunar til að meta arðsemi Kárahnjúkavirkjunar.

Ég tel mikilvægt að borgarráð hafi fengið þetta minnisblað varðandi heimildir Reykjavíkurborgar til þess að veita Landsvirkjun ábyrgðir vegna fyrirhugaðra virkjunarframkvæmda. Fyrir utan að lýsa stöðu Reykjavíkurborgar gagnvart Landsvirkjun minnir það einnig á stöðu borgarinnar gagnvart Orkuveitu Reykjavíkur, þar á Reykjavík 92.22% en 44,25% í Landsvirkjun. Má segja, að enginn einn aðili eigi meira í húfi en Reykjavíkurborg og borgarbúar að vel og skynsamlega sé staðið að ákvörðunum um orkuframkvæmdir og virkjun orku.

Undrast ég þess vegna, hve dregist hefur að koma á laggirnar starfshópi um heildarstefnumörkun Reykjavíkurborgar í orkumálum, sem R-listinn samþykkti að skipaður yrði á fundi borgarstjórnar 20. júní síðastliðinn.

Hlutverk hópsins er meðal annars samkvæmt þessari samþykkt að meta áhrif breytts rekstrarumhverfis í raforkumálum á starfsemi Orkuveitunnar og meta stöðu Reykjavíkurborgar innan Landsvirkjunar og móta framtíðarsýn varðandi eignarhlut borgarinnar í fyrirtækinu.

Vil ég spyrja borgarstjóra, hvað líði skipan þessa starfshóps og hvernig hún sér verkefni hans í tengslum við þann starfshóp, sem kynntur var í minnisblaðinu til borgarráðs 28. október síðastliðinn.

Hinn 31. október síðastliðinn svaraði borgarstjóri opnu bréf í Morgunblaðinu, frá Hildi Rúnu Hauksdóttur, sem spurði hvernig á því stæði að Reykjavíkurborg væri tilbúin til að taka þá áhættu sem er samfara fjárfestingu í Kárahnjúkavirkjun „og spila þannig ábyrgðarlaust með almannafé", eins og sagði í bréfinu. Einnig var spurt hvernig á því stæði að Reykjavíkurborg gerði ekki kröfu um arðsemismat vegna fórnarkostnaðar.
Miðað við umræður hér í borgarstjórn um málefni, sem verða ekki ráðin til lykta nema á alþingi kom á óvart, hvernig borgarstjóri skilgreindi R-listann í svari sínu. Hann væri kosningabandalag þriggja flokka sem hefðu ákveðið að standa saman að framboði til borgarstjórnar á grundvelli málefnasamnings og kosningastefnuskrár. Í samstarfinu í borgarstjórn væri ekki tekin afstaða til stefnumála sem eðli máls samkvæmt ætti að útkljá hjá öðru til þess kjörnu stjórnvaldi þ.e. Alþingi. Til slíkra mála gætu flokkarnir þrír haft mismunandi afstöðu og þar með líka þeir einstaklingar sem störfuðu fyrir Reykjavíkurlistann í borgarstjórn Reykjavíkur. Í orku- og stóriðjumálum, og þar með í afstöðunni til Kárahnjúkavirkjunar og álvers á Reyðarfirði, væru skiptar skoðanir í borgarstjórn Reykjavíkur rétt eins og á Alþingi. Sagðist borgarstjóri því ekki fara með málsvarshlutverk í þessu máli fyrir hönd þess fólks sem myndar Reykjavíkurlistann.
Síðan vék borgarstjóri í svari sínu að ábyrgð Reykjavíkurborgar með sama hætti og gert er í minnislaðinu til borgarráðs og gat þess loks, að starfshópurinn, sem er tilefni minnisblaðsins, ætti að skýra það út fyrir borgarstjórn hver yrði fjárhagsleg áhætta Reykjavíkurborgar vegna Kárahnjúkavirkjunar og hér yrðu ábyrgðarmörkin gagnvart Landsvirkjun metin.

Skilgreining borgarstjóra á R-listanum sem kosningabandalagi þriggja flokka með ólíka stefnu, sem ekki sé ætlunin að samræma, ef lokaorðið í málum sé á alþingi kemur á óvart, svo að ekki sé meira sagt, og gefur til kynna veikari pólitíska samstöðu í kosningabandalaginu en áður hefur verið lýst. Sérstaklega er sérkennilegt að lýsa stöðu R-listans á þennan hátt í þessu máli, þar sem Reykjavíkurborg á 45% í Landsvirkjun. Fyrir þá, sem vinna að undirbúningi vegna Kárahnjúkavirkjunar er svar af þessum toga um afstöðu R-listans auðvitað með öllu óviðunandi. Kann það eitt að hafa áhrif á þau lánskjör, sem Landvirkjun býðst vegna framkvæmdanna og snertir ábyrgðir eigenda. Óljósar yfirlýsingar af þessum toga af hálfu málsvara Reykjavíkurborgar eru síst til þess fallnar að gæta hagsmuna borgarinnar eða borgarbúa, hvað sem líður athugunum sérfræðinga.

Miðað við skuldbindingar og ábyrgð Reykjavíkurborgar vil ég spyrja borgarstjóra, hvort hún hafi ekki mótað sér skoðun á því, hvort skynsamlegt sé að ráðast í Kárahnjúkavirkjun eða hvort skoðun hennar ráðist alfarið af niðurstöðu þess starfshóps, sem kynntur var með minnisblaðinu í borgarráði 28. október síðastliðinn.

Jafnframt spyr ég borgarstjóra að nýju, hvað líði framkvæmd samþykktar borgarstjórnar frá 20. júní um skipan starfshóps til að vinna að heildarstefnumörkun Reykjavíkurborgar í orkumálum.