26.10.2002

Landsbankinn, Moody's og OR - vettvangur í Morgunblaðinu.

Landsbankinn, Moody´s og OR


Sala Landsbankans, lánshæfismat Íslands, og deilur um Orkuveitu Reykjavíkur (OR) – hvað er sameiginlegt með þessu? Jú, í öllum tilvikum er um grundvallaratriði að ræða, sem staðfesta þróun eða umskipti. Margt í fréttum eru dægurflugur. Fer fram hjá okkur eins og fiðrildi, vekur athygli stutta stund og hverfur. Annað skilur eftir varanleg spor.

Sala Landsbankans markar stærri tímamót en við skynjum á líðandi stundu. Fyrir fáeinum áratugum þótti goðgá á stjórnmálavettvangi að leiða hugann að slíkri ráðstöfun. Nú er ekki lengur deilt um hvort selja eigi ríkisbanka heldur fyrir hvaða verð, hverjum, hvenær og hvernig. Söluferlið og aðferðafræðin vekur umræður en ekki sjálf ákvörðunin um að selja.

Of fast er þó að orðið kveðið, ef sagt er, að ekki heyrist lengur í neinum talsmanni ríkisbanka. Í stjórnmálum er þá helst að finna meðal vinstri/grænna. Þar er sú trú enn ríkjandi, að ríkið standi betur að bankarekstri og líklega öllum rekstri en einkaaðilar. Stundaður er hræðsluáróður í þágu ríkisrekstrar og á móti framtaki einstaklinga og fyrirtækja þeirra. Ótti ræður ferðinni gagnvart breytingum en ekki viljinn til að nýta ný tækifæri.

***


Töluvert hefur verið rætt um, hvernig skynsamlegt sé að haga hlutabréfaeign í bönkum. Í sumum löndum er dreift eignarhald lögbundið. Rökin gegn kjölfestufjárfesta eru stjórnmálalegs eðlis. Hætta sé á því, að einn öflugur eigandi neyti aðstöðu sinnar með óhæfilegum hætti. Reynsla af ríkiseign á bönkum með pólitísku íhlutunarvaldi hræðir.

Á bakvið ríkisrekstur stendur stjórnmálavaldið, í lýðræðisríkjum þjóðkjörnir fulltrúar. Þróunin hefur þó orðið sú, að þetta vald má helst ekki beita sér. Stundum er engu líkara en starfsmenn ríkisfyrirtækja telji sig í hlutverki eigandans. Einmitt sú þróun skapar rök fyrir að selja opinber fyrirtæki til þeirra, sem axla raunverulega ábyrgð á rekstrinum.

Ef margir eiga litla hluti, kann sú staða hæglega að skapast, að enginn hafi hag af að taka af skarið við erfiðar aðstæður. Enginn eigi svo mikið í húfi, að hann vilji taka slaginn fyrir fyrirtækið.

Viðbrigðin eru mikil í ríkisfyrirtækjum að komast á hinn frjálsa markað, jafnvel eftir meira en 100 ár í ríkisviðjum. Ef kjölfestan er ekki þung við þær aðstæður, kann að verða tekin of mikil áhætta. Síðan er þeirra, sem stýra skútunni á nýjum forsendum að ákveða, hvernig best er að ferðbúa hana til langframa.

Kostir þess, að geta skírskotað afdráttarlaust til ábyrgðar einhvers, blöstu við, þegar þrír eigendur Samsonar eignarhaldsfélags ehf. sátu fyrir svörum í Þjóðmenningarhúsinu í byrjun vikunnar. Þeir svöruðu spurningum og skýrðu frá því, hvernig þeir ætluðu að reka Landsbankann með 45,6% eignarhaldi sínu, sem þeir keyptu fyrir 12.259 milljónir króna. Fyrirsögn Viðskiptablaðsins af frásögn af blaðamannafundinum var þessi: Landsbankinn áfram banki allra landsmanna – þótt aðaleigendurnir verði þrír einstaklingar.


***

Mælistikur á ábyrga efnahagsstjórn þjóða er meðal annars að finna í mati aðila, sem votta um lánshæfi þeirra. Í vikunni skýrði Seðlabanki Íslands frá því, að bandaríska matsfyrirtækið Moody’s Investors Service hefði hækkað lánshæfismat skuldabréfa og bankainnistæðna í erlendri mynt vegna Íslands í Aaa. Er þetta hæsta einkunn, sem fyrirtækið gefur. Ísland hafði áður verið með Aa3. Jafnframt hækkaði fyrirtækið einkunnir Ástralíu og Nýja-Sjálands úr Aa2 í Aaa.

Með einkunnagjöf sinni metur fyrirtækið, hve mikil hætta er á að ríkisstjórn viðkomandi lands stöðvi greiðslur vegna afborgana af erlendum skuldum, til að koma í veg fyrir að gjaldeyrisvarasjóðir þverri. Hærri einkunn til Íslands er ekki rakin til einstaks atburðar í efnahagsstjórn hér, heldur er þetta áfangi í þróun. Ber hún vott um vaxandi traust á stjórn íslenskra efnahagsmála.

Þessi ágætiseinkunn Moody’s var gefin, áður en tilkynnt var um söluna á Landsbanka Íslands fyrir rúma 12 milljarði króna í dollurum, sem að mestu verða notaðir til að greiða erlendar skuldir ríkisins. Með því treystir Ísland enn stöðu sína á lánamörkuðum, sem leiðir til hagstæðari láns- og vaxtakjara.

Skiptir þetta mat á lánshæfi Íslands miklu fyrir alla, sem héðan eiga viðskipti við erlendar lánastofnanir. Það auðveldar til dæmis Landsvirkjun lántökur vegna framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun og tryggir betri lánskjör en ella væri. Matið bendir ekki til þess, að Moody’s telji fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir stefna íslensku efnahagskerfi í voða.

Við núverandi aðstæður á alþjóðlegum fjármála- og fjárfestingamörkuðum er staðreyndin sú, að erlendir aðilar, sem vilja fjárfesta í öruggum og arðbærum skuldabréfum, kaupa íslensk verðbréf í vaxandi mæli, einkum hús- og húsnæðisbréf ásamt bankavíxlum og ríkisbréfum. Í ár hafa hrein kaup erlendra fjárfesta í slíkum bréfum numið 9,2 milljörðum króna, sem er tvöfalt meira en á sama tímabili í fyrra. Í þessum kaupum felst ekki síður viðurkenning á íslenskri efnahagsstjórn en einkunn Moody’s.

***

Í upphafi þessa árs tóku lög um Orkuveitu Reykjavíkur (OR) gildi og er hún nú sameignarfyrirtæki einkarekstrarlegs eðlis í eigu sex sveitarfélaga: Reykjavíkurborgar (92,22%), Akraneskaupstaðar (5,45%), Hafnarfjarðarkaupstaðar (0,94%), Garðabæjar (0,47%), Borgarbyggðar (0,75%) og Borgarfjarðarsveitar (0,17%). Lýtur fyrirtækið stjórn sex manna. Fimm eru kjörnir af borgarstjórn Reykjavíkur og einn af bæjarstjórn Akraness.

Vegna ágreinings innan R-listans var fallið frá áformum um að breyta OR í hlutafélag í eigu sveitarfélaganna sex. Vinstri/grænir hindruðu, að skynsamlegasta skrefið í stöðunni yrði stigið. Breytingin úr hreinu borgarfyrirtæki í sameignarfyrirtæki sex sveitarfélaga er of lítil til að stjórnendur OR átti sig í raun á því, hvað í henni felst. Atburðir síðustu daga sýna það.

OR er með lík í lestinni, frá því að R-listamenn ráðskuðust með það sem borgarfyrirtæki. Dýrasta líkið er Lína.net, en fyrirtækið var andvana fætt. Tilraun þess til að tengja almenning við Netið í gegnum rafmagnslínur misheppnaðist. Í stað þess að viðurkenna mistökin og pakka saman, var tekið til við að fjárfesta í því, sem fyrirtækið ætlaði að gera óþarft með raflínum, ljósleiðaranum.

OR hefur eytt milljörðum króna í Línu.net á kostnað áskrifenda að heitu vatni, köldu vatni og raforku. Vinnubrögðin við stjórn Línu.nets hafa einkennst af afneitun á staðreyndum, leyndarhyggju og hroka. Með öllum ráðum verður að hindra, að sömu stjórnarhættir verði teknir upp í OR og tíðkast hafa í Línu.net.

Í umræðum síðustu daga er staðreyndum afneitað með útúrsnúningi. Tölur úr reikningum OR um eigið fé fyrirtækisins eru hundsaðar við lögfræðilega álitsgerð til að útiloka umræður um fjárfestingu fyrirtækisins á vettvangi stærsta eigandans, borgarstjórnar Reykjavíkur. Óskir um gögn til að skýra fjárhagslegar skuldbindingar vegna kaupa OR á ljósleiðaraneti Línu.nets eru hafðar að engu.

OR er einokunarfyrirtæki og þarf ekki að höfða til viðskiptavina sinna með sama hætti og til dæmis Landsbanki Íslands. Óvandaðir starfshættir í stjórn fyrirtækisins munu spilla innra starfi þess og bitna á viðskiptavinum. Bæði þeir og eigendur OR þurfa að lokum að standa undir kostnaði vegna skorts á traustri forystu og óforsjálni við fjárfestingar.

Miklu varðar, að fyrstu mánuðir OR á nýjum starfsgrundvelli nýtist til að móta farsælt samstarf um forystu í málefnum þess. Deilur um augljós grundvallaratriði í stjórnarháttum sýna, að stjórnarformanni og nánustu samstarfsmönnum hans hefur gjörsamlega mistekist að skapa nauðsynlegan sóknar- og samstarfsanda.

***

Þótt kjölfestufjárfestir ráði miklu í krafti eignar sinnar, kemst hann ekki langt með fyrirtæki sitt, hundsi hann meðeigendur sína eða hagsmuni annarra óhjákvæmilegra þátttakenda í velgengni fyrirtækisins. Að stjórna með skotgrafahernaði gegn þeim, sem þarf að virkja, til að mál þróist friðsamlega til réttrar áttar, leiðir að lokum til glötunar. Spurningin er aðeins, hvað það tekur langan tíma.

Einkavæðing ríkisbankanna er liður í þeirri þróun, sem tryggir Íslandi hæstu einkunn á alþjóðlegum lánamörkuðum. Viðskipti OR vegna Línu. nets hafa vakið spurningu um, hve mikil áhrif ábyrgð Reykjavíkurborgar vegna kaupanna á ljósleiðarakerfi Línu. nets hafi á lánskjör borgarinnar. Spurningin minnir á nauðsyn þess að sýna varkárni, sigla ákveðið og örugglega að skýru marki til að hljóta ágætiseinkunn hjá þeim, sem meta skynsamlega fjármálastjórn og lánshæfi.