8.10.2002

Hvers vegna ekki dómstólaleið? - Morgunblaðsgrein




Hvers vegna ekki dómstólaleið?


VÍÐA um lönd eru deilur á milli yfirvalda menntamála og kennarasamtaka um aukinn hlut einkaaðila í skólastarfi. Til dæmis var tekist á um þetta efni á þingi Verkamannaflokksins í Bretlandi á dögunum. Forsætisráðherrann og fjármálaráðherrann tóku þar slaginn við fulltrúa kennarasamtakanna. Sögðust þeir ekki sætta sig við, að sérhagsmunir ættu að ráða ferðinni, heldur ætti að hafa að markmiði, að hið opinbera veitti sem besta þjónustu og samstarf við einkaaðila væri nauðsynlegt til þess.
Fyrir nokkrum vikum féll dómur í hæstarétti Bandaríkjanna, sem lagði blessun sína yfir ávísanakerfið svonefnda. Byggist það á því, að foreldrar geta ákveðið til hvaða skóla fjármunir til menntunar barna þeirra renni. Kennarasamtök í Bandaríkjunum snerust harkalega gegn þessu kerfi, af því að þau töldu það auðvelda stofnun einkaskóla. Bandarísku kennarasamtökin voru einnig andvíg stefnu Bills Clintons Bandaríkjaforseta um "verktakaskóla" eða "chartered schools". Í hugtakinu felst, að opinberir skólar eru leigðir einkaaðilum til reksturs.

Þegar Hafnarfjarðarbær ákvað að stofna til einkareksturs á Áslandsskóla, snerust kennarasamtök hér á landi gegn því. Vinstrisinnar á Alþingi, einkum Samfylkingarmenn, sem eru til vinstri við Tony Blair og Bill Clinton, fóru mikinn undir hinu ósmekklega slagorði "útboð á börnum".

Var málið meðal annars rætt utan dagskrár á Alþingi 12. febrúar 2001 og sagði ég þá í ræðu: ,,Ég hef aldrei verið þeirrar skoðunar að ríkið eigi að setja sveitarfélögunum strangar skorður um hvernig þau standa að því að reka grunnskólana. Ljóst er að menntamálaráðuneytið hefur skyldum að gegna vegna námskráa, mats og eftirlits og námsgagnagerðar. Einnig er efnt til samræmdra prófa undir forsjá ríkisins. Breytt fyrirkomulag á rekstri grunnskóla í Hafnarfirði raskar ekki með neinum hætti þessu hlutverki ríkisins og unnt verður að fylgjast með innra starfi í þeim skóla eins og öðrum. Ég sé ekki nein rök fyrir því að hér sé um útboð á börnum að ræða eins og háttvirtur þingmaður Guðmundur Árni Stefánsson orðar það svo ósmekklega og ég sé ekki heldur að með þeim tillögum sem bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur kynnt menntamálaráðuneytinu sé vegið að jafnræði til náms á neinn hátt. Það er skoðun þeirra sem um málið hafa fjallað innan menntamálaráðuneytisins, að hér sé um að ræða nýbreytni í rekstrarformi sem full ástæða sé til að reyna. Meðal annars færi þetta form rekstur skóla enn nær vettvangi og geti stytt allar boðleiðir í skólastarfinu."

Ábyrgð samkvæmt grunnskólalögunum er skýr. Skyldur sveitarstjórna til að veita nemendum lögboðna fræðslu samkvæmt grunnskólalögunum eru fyrst og fremst gagnvart nemendum og forsjármönnum þeirra. Sveitarstjórnum eru ekki settar strangar skorður við því hvernig þær standa að því að reka grunnskóla, svo fremi að sveitarstjórnir standi undir þeirri ábyrgð sem grunnskólalögin kveða á um gagnvart nemendum og forsjármönnum þeirra. Gekk menntamálaráðuneytið úr skugga um ábyrgð Hafnarfjarðarbæjar í þessu efni eins og liggur fyrir í öllum skjölum þessa máls. Var leyfi menntamálaráðuneytisins til Hafnarfjarðarbæjar bundið þessu skilyrði. Hvergi var farið á svig við ákvæði grunnskólalaga.

Ég rifja þetta upp hér vegna þess að Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, ritar grein í Morgunblaðið 3. október og krefur mig svara um, hvort staðið hafi verið að heimildinni til Hafnarfjarðar vegna Áslandsskóla með lögmætum hætti. Ég er ekki í neinum vafa nú frekar en áður um, að menntamálaráðuneytið fór að lögum. Ég á hins vegar ekki síðasta orð um það frekar en Eiríkur Jónsson. Kennarasambandi Íslands var auðveld sú leið að leita til réttra aðila til að fá svarið við spurningu Eiríks, það er dómstólanna.

Í málskoti til dómstóla til að fá skorið úr ágreiningi um framkvæmd þessa heimildarákvæðis í grunnskólalögunum, hefði falist málefnalegri afstaða til úrlausnar á þessu ágreiningsmáli en að gera starfið í Áslandsskóla tortryggilegt frá fyrsta degi, og beita að lokum pólitísku valdi til að binda enda á þessa tilraun. Lagaágreining á að leysa fyrir dómstólum en ekki í skólastofum.

Í Morgunblaðsgrein sinni segist Eiríkur Jónsson hafa umboð til flokkspólitískrar framgöngu sinnar í orðaskaki, sem hann hóf fyrir skömmu og óvænt við mig í útvarpsfréttum um þetta mál. Þessa framgöngu sína ver hann gagnvart umbjóðendum sínum, þeir eiga síðasta orðið um hana eins og dómstólar um lagaágreining.