21.9.2002

Hafið heima og að heiman - vettvangur Morgunblaðinu



Hafið heima og að heiman

Hafið, ný kvikmynd eftir Baltasar Kormák, var frumsýnd í síðustu viku. Um frumsýningarhelgina sáu fleiri myndina en nokkra aðra íslenska kvikmynd á jafnskömmum tíma, frá því að hlutlausar mælingar hófust, eins og sagði í Morgunblaðinu. Þá virðist myndin höfða til þeirra, sem erfiðast er að ná í kvikmyndahúsin, eldri borgara. Kemur það heim og saman við hópinn, sem sat í sal 1 í Háskólabíói, þegar ég sá Hafið í upphafi vikunnar.

Hafið "ber þess vitni að íslenskt listafólk hafi náð fullkomnum tökum á hinu alþjóðlega tungumáli kvikmyndalistarinnar," segir í lofsamlegum dómi Heiðu Jóhannsdóttur, gagnrýnanda Morgunblaðsins.

Kynningarstarf vegna myndarinnar hefur verið markvisst unnið. Evrópska kvikmyndaakademían tilnefndi myndina til evrópsku kvikmyndaverðlaunanna 2002, einu íslensku myndina að þessu sinni. Myndin var sýnd á kvikmyndahátíð í Toronto fyrir skömmu og verður í næstu viku á 50. kvikmyndahátíðinni í San Sebastian á Spáni, en þar keppir Hafið ein 18 mynda.

Síðastliðið vor var skýrt frá því, að franska fyrirtækið Pyramid hefði keypt sölurétt á Hafinu. Þá kom jafnframt fram, að myndin hefði þegar verið seld til um tuttugu landa.

Hafið á eftir að bera hróður Íslands víða.


Á tímum hnattvæðingar eru smáþjóðir ekki aðeins þiggjendur heldur einnig veitendur. Nái menn tökum á hinu alþjóðlega tungumáli listarinnar, standa þeir jafnfætis, hvort sem þeir koma frá fjölmennri eða fámennri þjóð. Í alþjóðaumræðum um kvikmyndir og sjónvarpsefni er þó rík tilhneiging til að álykta sem svo, að enginn eigi í raun upp á pallborðið, nema hann komi frá Hollywood.

Aldrei hefur verið gerð íslensk kvikmynd, sem nýtur vinsælda á borð við nokkra Hollywood-mynd. Á hinn bóginn hafa Íslendingar oftar en einu sinni freistað gæfunnar í Hollywood. Frægt er, þegar Halldór Laxness fór til Los Angeles og reyndi fyrir sér við gerð kvikmyndahandrita. Spurning er, hvort lítill árangur hans hafi síðan ráðið miklu um afstöðu hans til Bandaríkjanna.

Öðrum Íslendingum hefur vegnað betur á þessum slóðum, eins og nú síðast Daða Einarssyni, sem fékk hin eftirsóttu Emmy-verðlaun fyrir framlag sitt til tækniundra með tölvum í leikinni kvikmynd.

Í Hollywood byggist styrkur kvikmyndagerðarinnar á fleirum en Bandaríkjamönnum. Um þessar mundir er til dæmis verið að sýna Hollywood-mynd í kvikmyndahúsum hér, K-19, þar sem Harrison Ford, Liam Neeson og Ingvar Sigurðsson eru meðal leikara, en Sigurjón Sighvatsson er meðal framleiðenda myndarinnar

Hin miklu umsvif og fjármunir kvikmyndaborgarinnar eru segull, sem dregur til sín hæfileikafólk frá öllum heimshornum. "Ógnin" af Hollywood stafar ekki aðeins af áhrifum einsleitra kvikmynda heldur einnig hinu, að þangað flykkjast framúrskarandi listamenn frá öllum heimshornum og skilja oft ættlönd sín eftir enn veikari en ella.


Sjálfsmynd þjóðar ræðst verulega af því, hvernig einstaklingum hennar vegnar í heimi kvikmynda, skemmtana og íþrótta. Þarf enginn að fara í grafgötur um að Björk hefur ekki aðeins mótað hugmyndir margra útlendinga um Ísland - hún hefur einnig mótað hugmyndir margra Íslendinga um þá sjálfa og land þeirra. Fordæmi Bjarkar hefur aukið öðrum Íslendingum sjálfstraust til að láta að sér kveða í alþjóðlegri samkeppni, þar sem höfðað er til milljóna eða tugmilljóna manna.

Í umræðum á alþjóðavettvangi um áhrif "ameríkaniseringar" eða menningarlegrar hnattvæðingar er gjarnan bent á Björk. Hún sanni, að ekki þurfi allir að vera steyptir í sama móti. Hún hafi náð heimsathygli, þótt hún komi frá innan við 300 þúsund manna þjóð með eigið tungumál, sem aðeins Íslendingar skilji.

Hnattvæðingin býður fleiri tækifæri en nokkru sinni fyrr til að láta að sér kveða á alþjóðavettvangi. Galdurinn er að bjóða það, sem er einhvers virði: Guðúnarkviðu eftir Hauk Tómasson í flotkví í Kaupmannahöfn; kórinn Raddir Evrópu undir íslenskri forystu Þorgerðar Ingólfsdóttur á menningarborgarárinu 2000; Sigur Rós með rímnakveðskap Steindórs Andersens, trillukarls og formanns Kvæðamannafélagsins Iðunnar, í Bretlandi og Bandaríkjunum, vöggu poppsins, svo að þrjú dæmi séu nefnd. "Þetta er einkenni á góðum listamönnum, að þora," sagði Steindór um framtak Sigur Rósar. Og hver hefði svo trúað því, að rímur gengju í endurnýjun lífdaganna í gegnum rappið, götumenningu frá New York, sem var tiltölulega nýlega markaðssett af Wu Tang Clan og fleirum. Í sumar kom út fyrsta rappsafnplatan hér, þar sem einungis er rappað á íslensku - heitir hún Rímnamín.

Við töku Hafsins miðast sjónarhornið við að gera hlut íslenskrar náttúru sem mestan og bestan. Aðdráttarafl hennar er mikið, þótt hún sé oft kuldaleg í hrikalegri fegurð sinni í þessari mynd. Með tveimur útlendingum í mikilvægum hlutverkum gefst færi á að skýra ýmislegt í íslenskri þjóðarsál og siðum; draga skil á milli okkar og þeirra.

Frá upphafi hefur verið tekið mið af því, að myndin nyti sín á alþjóðamarkaði, en hefði þó sterk íslensk einkenni. Þórður Ágústsson, útgerðarmaður og fiskverkandi, er örlagavaldurinn í sögunni í leik Gunnars Eyjólfssonar, sem hefur lýst Þórði og sagt: "Ég er svo innilega sammála Þórði í afstöðu hans til kvótamálsins. Satt best að segja dái ég hann fyrir að vilja sjá til þess að kvótinn verði áfram í byggðarlaginu. Við erum öll búin að sjá hvað getur gerst. Að kaupa og selja verðbréf er orðið að gera út í dag. Á meðan leggjast byggðir úti um allt land í eyði. Neglt er fyrir glugga og bátum lagt til að fólkið geti flust til Reykjavíkur. Ég tek hatt minn ofan fyrir hugsjónum Þórðar Ágústssonar."

Við, sem þekkjum íslenskt þjóðlíf, skiljum kvóta-broddinn í myndinni - en hvað um annarra þjóða menn? Er það til marks um að þora, að setja þetta samtíma deilumál okkar inn í þessa listrænu umgjörð fyrir alþjóðamarkað?

Kvótadeilur eru fjarlægt kvikmyndaefni á Hollywood-tímum og verða kvikmyndagestum ekki efst í huga, þegar þeir ganga út af Hafinu heldur fjölskyldudramað og mannlífið í íslensku sjávarþorpi við upphaf nýrrar aldar. "Meginþorri ungs fólks er ekki svona - er það?" spyr Gunnar í Morgunblaðsviðtali um myndina og svarar sér sjálfur, að flest ungt fólk sé ákaflega heilbrigt og rétt hugsandi.


Hnattvæðingin kallar í senn á, að menn leggi rækt við heimahaga sína, leiti rótanna, og hafi áhuga á að kynnast hinu sérstaka eða sérkennilega í fari annarra. Í þessu kann styrkur Hafsins að felast, þegar myndin hefur keppnisgöngu sína úti í hinum stóra heimi, eftir að hafa kallað á svo marga áhorfendur á fyrstu dögum sínum hér heima.

Hitt getur auðvitað einnig gerst, að veröld Hafsins sé of fjarlæg annarra þjóða mönnum. Engir nema innvígðir skilji eða hafi áhuga á átökunum og togstreitunni í myndinni. Gagnrýnandi Morgunblaðsins sagði: "Í kvikmyndinni er því á margan hátt litið um öxl, horft er á veröld sem var, og þá veröld sem kjarnar allt það sem við Íslendingar erum búin til úr og eigum eftir að bögglast með inn í okkar fjölmenningarlegu og alþjóðavæddu framtíð."

Hér er mikið sagt. Vissulega er ögrandi að horfa í þennan spegil og sársaukafullt. Hitt er spennandi að fylgjast með viðbrögðum þeirra, sem líta ekki á Hafið sem enduróm eigin þjóðfélags.