3.10.2002

F-listinn og skattalækkanir - ræða borgarstjórn

F-listinn og skattalækkanir
Borgarstjórn 3. október, 2002

Á borgarstjórnarfundi 5. september fluttum við sjálfstæðismenn tillögu um að stórlækka fasteignaskatta á eldri borgara og öryrkja. Þá sat fulltrúi F-lista hjá við afgreiðslu málsins og í ræðum veitti hann málinu síður en svo stuðning.

Nú flytur oddviti listans á hinn bóginn tillögu um að skora á ríkisstjórn og Alþingi að lækka skatta. Vísar hann í greinargerð sérstaklega til hagsmuna eldri borgara og öryrkja.

Í þessari afstöðu F-listans er tvískinningur. Hún sýnir, að talsmenn listans koma ekki fram að heilindum, þegar um þessi mikilvægu mál er að ræða. Þeir neita að leggja skattalækkun lið, þegar hún er til umræðu og afgreiðslu hér í borgarstjórn, þar sem þeir hafa atkvæði.

Í síðustu viku var skipuð samstarfsnefnd á vegum ríkisstjórnar og samtaka eldri borgara. Verkefni nefndarinnar er að fjalla um málefni, sem lúta að stöðu eldri borgara til að bæta hana. Erindisbréf hennar gerir ráð fyrir, að starfinu ljúki fyrir 15. nóvember. Er í því efni tekið mið af því, að unnt verði að taka tillit til niðurstöðu nefndarinnar við afgreiðslu fjárlaga vegna ársins 2003.

Á sama tíma og R-listinn, meirihluti borgarstjórnar, með hjásetu F-listans hafnaði tillögu um skattalækkun á eldri borgara og öryrkja lagði ríkisstjórnin á ráðin um það, hvernig unnt væri að koma til móts við þennan hóp með ráðstöfun á opinberum fjármunum. Er því ólíkt tekið á málum þessa fólks hér í borgarstjórn annars vegar og hjá ríkisstjórn hins vegar.

Ég tel brýnna fyrir borgarstjórn Reykjavíkur að gera raunhæfar aðgerðir á eigin starfsvettvangi í þágu þeirra, sem standa höllum fæti fjárhagslega, en álykta um það, sem önnur stjórnvöld eiga að gera – sérstaklega þegar þessi stjórnvöld hafa sýnt meiri skilning og áhuga á að bæta hag þessa fólks en R-listinn og F-listinn hér í borgarstjórn 5. september 2002.

Með vísan til þessa leggjum við sjálfstæðismenn til, að fulltrúar þeirra stjórnmálaflokka, sem hér sitja, sinni þessu málefni á Alþingi, þar sem fjallað er um skattheimtu ríkisins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram eftirfarandi bókun vegna tillögu Ólafs F. Magnússonar um hækkun skattleysismarka:

Hinn 5. september sat borgarfulltrúi F-listans hjá, þegar R-listinn felldi tillögu Sjálfstæðisflokksins um stórlækkun fasteignaskatta á eldri borgara og öryrkja. Innan borgarstjórnar Reykjavíkur hafa þessir listar ekki sýnt áhuga á því að taka skipulega á málefnum þeirra, sem standa illa að vígi fjárhagslega, með skattabreytingum. Í því felst tvískinnungur, að borgarstjórn Reykjavíkur geri kröfu á hendur ríkisstjórn og Alþingi um skattalækkun með hækkun skattleysismarka, þegar hún hafnar skattalækkun í þágu eldri borgara og öryrkja.

Eðlilegt er, að fulltrúar þeirra stjórnmálaflokka, sem hér sitja, komi að þessu málefni á Alþingi, þegar fjallað verður um niðurstöðu nefndar ríkisstjórnar og eldri borgara, sem skila á áliti fyrir 15. nóvember.