2.12.2016

Blendings-hernaður í netheimum magnast

Morgunblaðsgrein 2. desember 2016

Frásagnir af ráðstöfunum til að bregðast við gervifréttum eða tölvuárásum verða æ algengari. Þessi iðja er kennd við hernað. Innan Evrópusambandsins líta menn hana svo alvarlegum augum að sett hefur verið upp sérstakt teymi til að afhjúpa lygafréttamennsku Rússa og ESB-þingið hefur ályktað um málið.

Í bandaríska blaðinu The Washington Post (WP) var nýlega fjallað um rússneska inngripið í bandarísku forsetakosningarnar. Rússar hafi beitt öllum aðferðum sem þekktar eru til að stunda laumulega miðlun gervifrétta. Sjálfvirkt netvirki af tölvum hafi komið við sögu, einnig svonefnd nettröll, það er teymi málaliða sem valda uppnámi í netheimum. Kerfi til að leyna eigendum vefsíða og reikninga á samfélagsmiðlum hafi verið nýtt.

Hillary Clinton var úthrópuð sem glæpakvendi, hugsanlega með banvænan sjúkdóm sem hún leyndi og með áform um að afhenda dularfullum samsærismönnum með sterk ítök í alþjóðlega fjármálaheiminum stjórn bandarísku þjóðarinnar. Þá var einnig alið á ótta vegna spennu í alþjóðamálum sem gætu leitt til kjarnorkuátaka.

Í WP er vitnað í Clint Watts við Foreign Policy Research Institute sem segir að fyrir Rússum vaki einkum að grafa undan trausti í garð Bandaríkjastjórnar og almennt undan bandarískum hagsmunum. Rússar hafi gert þetta í kalda stríðinu erfiðara sé að rekja þetta nú en þá beint til þeirra vegna eðlis samfélagsmiðlanna.

Þýskaland

Árásir tölvuþrjóta frá Rússlandi eru orðnar svo algengar að Þjóðverjar verða að læra að sætta sig við þær sem hversdagslegan hlut sagði Angela Merkel Þýskalandskanslari þriðjudaginn 29. nóvember. Orð hennar féllu eftir mestu tölvuárásina í Þýskalandi til þessa. Um milljón viðskiptavinir Deutsche Telekom voru sviptir netaðgangi.

Merkel sagðist ekki vita um árásaraðilann en slíkar tölvuárásir eða blendings-átök (hybrid warfare) eins og Rússar kölluðu fyrirbrigðið væru nú hluti daglegs lífs Þjóðverja.

Deutsche Telekom segir að tilgangur árásarinnar hafi verið að komast inn í beina viðskiptavina sinna til að beita þeim til enn öflugri netárása.

Bruno Kahl, yfirmaður leyniþjónustu Þjóðverja, varaði við því í blaðaviðtali þriðjudaginn 29. nóvember að rússneskir tölvuþrjótar kynnu að blanda sér í þýsku þingkosningarnar á næsta ári til að valda ólgu og öryggisleysi.

ESB-þingið ályktar

ESB-þingið ályktaði 23. nóvember um nauðsyn gagnaðgerða á vegum Evrópusambandsins til að svara áróðri þriðja aðila gegn sér. Í ályktuninni er sérstakur kafli um Rússa og nauðsyn þess að afhjúpa lygafréttir og áróðursstríð að þeirra undirlagi. Þar segir að rússnesk stjórnvöld veiti stjórnmálaflokkum og öðrum samtökum innan ESB fjárhagslegan stuðning í því skyni að spilla fyrir pólitískri samheldni innan ESB auk þess sem áróður þeirra beinist gegn einstökum blaðamönnum, stjórnmálamönnum og óbreyttum nafngreindum borgurum innan ESB.

Í ályktuninni er minnt á að öryggis- og leyniþjónustustofnanir telji að Rússar hafi afl og vilja til aðgerða sem ætlað sé að skapa vandræði innan annarra landa. Þetta birtist oft í stuðningi við pólitíska öfgamenn og víðtækum lygafrétta- eða fjölmiðlaherferðum.

Því er haldið fram að beiting fjölmiðla, lygafrétta og undirróðurs sé liður í víðtækari neðanjarðarstarfsemi sem ætlað sé að grafa undan samvinnu innan ESB og fullveldi, pólitísku sjálfstæði og landsyfirráðum sambandsins og aðildarríkja þess. Eru ríkisstjórnir aðildarríkjanna hvattar til árvekni og varðstöðu gegn slíku eyðileggingarstarfi.

Lýst er miklum áhyggjum yfir hraðri útbreiðslu í Evrópu á starfsemi að undirlagi rússneskra stjórnvalda sem miði að því viðhalda eða auka áhrif Rússa og sundra ESB. Með áróðrinum eigi meðal annars að sanna að sum Evrópuríki séu „hluti hefðbundins áhrifasvæðis Rússa“. Í þessu skyni séu sögulegar staðreyndir hiklaust affluttar. Til að halda því til haga sem rétt er sé óhjákvæmilegt að minna fólk á glæpaverk kommúnista.

Norðurlöndin

Nokkur aðildarríki NATO og ESB hafa áform um að koma á fót rannsóknarsetri í Helsinki til að kanna leiðir til að bregðast við blendings-hernaði. Rússar tengja þá saman venjulegan herbúnað og tölvuárásir, áróður og aðrar óbeinar aðferðir.

Finnsk stjórnvöld lýstu í október yfir áhyggjum vegna þess að rússnesk stjórnvöld hefðu magnað upp áróðursstríð í Finnlandi. Jori Arvonen, aðstoðarutanríkisráðherra, sagði fréttamönnum að Finnar hefðu rætt um áform sín um öndvegissetur gegn blendings-hernaði við Bandaríkjamenn, Breta, Þjóðverja, Frakka, Ítali, Spánverja, Pólverja, Svía og fulltrúa Eystrasaltsríkjanna fyrir utan embættismenn ESB og NATO.

„Fulltrúar allra þessara aðila hafa lýst miklum stuðningi við slíkt setur. Nokkrir eiga enn eftir að staðfesta þátttöku, stuðningurinn er hins vegar nægur til að við höldum áfram. Markmið setursins er að efla mótstöðuafl viðkomandi aðila og búa þá undir blendings-ógnir með þjálfun, rannsóknum og kynningu á bestu starfsaðferðum,“ sagði Arvonen.

Svíar undrast áreitið sem þeir verða fyrir af hálfu Rússa. Í Moskvu hafi menn greinilega ákveðið að efna til áróðursstríðs gegn Svíum. Sænskir stjórnmálamenn megi ekki segja neitt sem miði að öflugri vörnum og viðbúnaði Svía, meðal annars með gerð tvíhliða samstarfssamninga við Bandaríkjamenn eða nágrannaþjóðir, án þess að Rússar taki því illa og lýsi óánægju sinni. Þetta kom meðal annars fram í erindi sænska öryggismálasérfræðingsins Önnu Wieslander á ráðstefnu Varðbergs og fleiri fimmtudaginn 27. október sl.

Alexeij Shadiskij, ráðunautur í rússneska sendiráðinu í Reykjavík, sat Varðbergsráðstefnuna og svaraði hann sænska ræðumanninum og sagði ekkert undarlegt að Rússar létu í sér heyra gagnvart Svíum enda hefði Carl Bildt, þáv. utanríkisráðherra, og fleiri Svíar komið dónalega fram við Rússa eins og birtist meðal annars á glæru (skopmynd) sem Anna Wieslander hefði notað í ræðu sinni og sýndi Rússa eins og bjarndýr, slíkur málflutningur væri ekki sæmandi!

Þetta er sami sendiráðunauturinn sem sagði reiðilega í lok september að Rússagrýlan væri greinilega að vakna að nýju þegar fréttir birtust um flug tveggja rússneskra sprengjuþotna undir Icelandair-vél á leið frá Keflavík til Stokkhólms.

Ummælin voru óvenjuleg, almennt taka rússneskir embættismenn hér á landi ekki til máls í fjölmiðlum. Ef til vill ber að túlka framgöngu sendiráðunautarins sem dæmi um nýja starfshætti í sendiráðinu hér. Full ástæða er fyrir íslensk yfirvöld að greina stöðuna og upplýsa almenning um mat sitt á hættu á tölvuárás eða annars konar blendings-stríðsaðgerðum gegn Íslendingum. 

Íslenskir stjórnmálamenn eiga hiklaust að skýra opinberlega frá hvers kyns þrýstingi af hálfu Rússa. Í kalda stríðinu notuðu rússnesk stjórnvöld viðskiptasamskipti til pólitískra ítaka hér. Þeir settu opinberlega á sig silkihanska gagnvart Íslendingum en beittu þrýstingi á bak við tjöldin. Hafa Rússar breytt um aðferð á Íslandi?