2.9.2016

Frávísa ber ESB-andvarpi Bjartrar framtíðar

Grein í Morgunblaðinu 2. september 2016


Þingmenn Bjartrar framtíðar (BF) endurfluttu tillögu á dögunum um að alþingi ályktaði að sama dag og kosið yrði til þings yrðu greidd atkvæði um hvort haldið skyldi áfram aðildarviðræðum Íslendinga við fulltrúa Evrópusambandsins. Eftirfarandi spurningu yrði svarað já eða nei:


 „Vilt þú að Ísland taki upp þráðinn í viðræðum við Evrópusambandið með það að markmiði að gera aðildarsamning sem borinn yrði undir þjóðina til samþykktar eða synjunar?“

Spurningin er vitlaus, ekki er unnt að taka „upp þráðinn“ í viðræðum sem hefur verið slitið. Með spurningunni er með öðrum orðum alið á blekkingunni um að Ísland sé í einhvers konar viðræðusambandi við ESB. Svo er alls ekki. ESB-viðræðunum hefur verið slitið af Íslands hálfu. Umsóknin frá árinu 2009 hvílir á öskuhaug sögunnar.

Afstaða Svisslendinga

Svisslendingar lögðu umsókn sína um aðild að ESB til hliðar á árinu 1992. Þeir höfnuðu einnig í þjóðaratkvæðagreiðslu að standa utan evrópska efnahagssvæðisins (EES). Svissneska þingið dró ESB-umsóknina ekki til baka af sinni hálfu fyrr en með atkvæðagreiðslu 15. júní árið 2016. Hefur verið vakið máls á því í umræðum hér að staða íslenskra stjórnvalda gagnvart ESB sé sú sama og svissneskra fram til afturköllunar svissneska þingsins. 

Þetta er ekki skilningur svissneskra þingmanna. Hannes Germann, þingmaður frá Schaffhausen, dró athygli að mikilvægi atkvæðagreiðslunnar á þinginu í Sviss með því að bera hana saman við ákvörðun Íslendinga frá árinu 2015 um draga umsókn sína til baka. Hann sagði: „Íslendingar sýndu hugrekki og drógu til baka umsókn sína um aðild, ekkert eldgos varð.“ Þannig hvatti hann til afturköllunar í Sviss þótt þar hefði engum dottið í hug að hefja aðildarviðræður við ESB að nýju án nýs umboðs frá þjóðinni.

Í fréttum erlendis um atkvæðagreiðsluna í svissneska þinginu var hún sett í samhengi við þjóðaratkvæðagreiðsluna í Bretlandi, Brexit-atkvæðagreiðsluna, 23. júní 2016. Í breskum blöðum var til dæmis mjög vitnað til þess að svissneskur þingmaður hefði sagt í umræðum um tillöguna að aðeins „few lunatics“ – fáeinum ruglukollum – dytti nú í hug að ganga í ESB.

Enginn ESB-áhugi á alþingi

Umræðan um ESB-tillögu BF tók rétt um eina klukkustund á alþingi og tóku þrír þingmenn þátt í henni: Óttarr Proppé, formaður BF, Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, og Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður pírata. 

Eins og kunnugt er hafa Frosti og Helgi Hrafn báðir tilkynnt að þeir ætli ekki að bjóða sig fram að nýju. Óttarr gefur kost á sér í komandi þingkosningum. Hann lýsti áhuga sínum á ESB-aðild í umræðunum. Frosti ítrekaði andstöðu sína. Helgi Hrafn ræddi almennt um gildi þjóðaratkvæðagreiðslu.

Miðað við hamaganginn á þingi fyrr á kjörtímabilinu vegna ESB-málsins og slita á aðildarviðræðunum vekur nokkra undrun að þeir sem þá börðu sér helst á brjóst og töldu sig tala fyrir munn þjóðarinnar um nauðsyn þess að halda í þráðinn við ESB skuli ekki láta í sér heyra um málið þegar aðeins nokkrar vikur eru til kosninga. 

Lítil ástæða er þó til að undrast. Í fyrsta lagi er ESB-málið dautt sem pólitískt átakamál hér á landi. Sama á við hér og í Sviss að aðeins fáeinum ruglukollum dettur í hug að hamra á nauðsyn aðildar. Í öðru lagi vilja samfylkingarmenn sem hafa borið ESB-málið uppi forðast umræður um það. Þær draga aðeins athygli að því hve illilega Samfylkingin klúðraði ESB-málstaðnum þegar óskastundin rann upp með umsókn illa fengins meirihluta alþingismanna. Í þriðja lagi einkennir það starfshætti ESB-aðildarsinna á Íslandi að vega úr launsátri í stað þess að rökræða opinberlega með vísan til staðreynda.

 Laumuspil Viðreisnar

Auðvelt er að færa rök fyrir fullyrðingunni um laumuspil ESB-aðildarsinna með því að benda á framboð nýja flokksins, Viðreisnar. 

Ýmsir forystumenn flokksins urðu fúlir í garð Sjálfstæðisflokksins á landsfundi hans snemma árs 2009 þegar samþykkt var málamiðlunartillaga um að ekki yrði sótt um aðild að ESB nema þjóðin tæki ákvörðun um það í atkvæðagreiðslu. Tillaga um þetta efni var felld á alþingi 16. júlí 2009 þegar aðildarumsóknin var samþykkt.

Á landsfundi sjálfstæðismanna fyrir þingkosningar 2013 rufu ESB-sinnarnir sáttina um málamiðlunina. Fyrst á fundi utanríkismálanefndar fundarins og síðan á landsfundinum sjálfum. Þeir urðu undir í atkvæðagreiðslu á fundinum og sættu sig ekki við þá niðurstöðu heldur höfðu í hótunum við flokksforystuna og frambjóðendur. Síðan ákvað þessi fámenni hópur að segja skilið við flokkinn og býður nú fram undir nafninu Viðreisn.

Flokkurinn Viðreisn er í grunninn ESB-aðildarflokkur borinn uppi af ESB-aðildarsinnum sem telja sig ekki ná fram sjónarmiðum sínum innan Sjálfstæðisflokksins. Þeir höfða því ekki til þeirra sem aðhyllast stefnu Sjálfstæðisflokksins heldur hinna sem eru í flokkum með ESB-aðild á dagskrá, það er kjósenda Samfylkingarinnar og BF. Þótt einhverjir frambjóðendur Viðreisnar hafi eitt sinn lagt Sjálfstæðisflokknum lið gera þeir það ekki lengur vegna ágreinings um ESB-aðildina.

Samfylking og Björt framtíð eru í rúst. Flokkarnir hafa ekki lengur neina burði til að endurlífga ESB-aðildartillöguna. ESB-sinnar í Samfylkingunni fengu pólitísku óskastund sína vorið og sumarið 2009. Þeir klúðruðu ESB-málinu svo eftirminnilega að nýi ESB-flokkurinn, Viðreisn, þorir ekki að flagga því nú fyrir kosningar. Fær hann atkvæði flóttafólks úr Samfylkingunni?

Nefnd Ögmundar

Í greinargerð með tillögu BF um að „taka upp þráðinn“ er gert ráð fyrir að tillögunni verði vísað til utanríkismálanefndar. Tillögunni var hins vegar vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins enda snýst hún formlega um þjóðaratkvæðagreiðslu þótt inntakið varði utanríkismál.

Miðað við algjört áhugaleysi á tillögunni þegar hún var rædd í þingsalnum þriðjudaginn 23. ágúst er óvíst að tillaga BF verði borin undir atkvæði á þinginu. Þingnefndin undir formennsku Ögmundar Jónassonar, fráfarandi þingmanns VG, ætti þó að beita sér fyrir því að meirihluti þingmanna ritaði undir rökstudda tillögu um að vísa máli BF frá dagskrá þingsins enda sé hún efnislega röng, ESB-viðræðunum hafi verið slitið og þar þráðurinn.

Ögmundur Jónasson hefur sem þingmaður og ráðherra stundum farið ótroðnar slóðir og ekki hikað við að taka áhættu vegna skoðana sinna. Það yrði sögulegur og eftirminnilegur lokapunktur á þingmennsku hans, beitti hann sér fyrir að meirihluti þingmanna hughreysti þá sem óttast falskenningar um að unnt sé að „taka upp þráðinn“ í ESB-viðræðunum með undirskrift sinni á frávísunartillögu