10.6.2016

EM 2016: Öryggisáskorun fyrir Frakka

Morgunblaðsgrein 10. júní 2016

Evrópumeistaramótið í knattspyrnu (EM 2016 eða EURO 2016) hefst á Stade de France í París í dag. EM er þriðji mest sótti íþróttaviðburður í heimi á eftir ólympíuleikunum og heimsmeistaramótinu í knattspyrnu. Í Frakklandi teygir EM sig yfir fleiri daga en mótið hefur áður gert. Leikir fara fram í tíu borgum Frakklands og mótið stendur til 10. júlí, í fjórar vikur í stað þriggja áður vegna fjölgunar keppnisliða, nú eru leikirnir 51 í stað 31 áður. Á heimsmeistaramótinu eru leikirnir 64. Talið er að alls muni um 8 milljónir manna fara á vellina og sjá leikina. Líklegt er að í hópnum verði allt að 20.000 Íslendingar. Spáð er að samtals muni um 8 milljarðar manna horfa á útsendingar á leikjunum.

Frakkar hafa alla burði til að framkvæma þetta mikla mót með sóma. Mikið er í húfi. Má til dæmis nefna að Frakkar hafa sótt um að ólympíuleikarnir verði í París árið 2024. Þeir keppa um tilnefninguna við Los Angeles, Róm og Búdapest. Umfang Ólympíuleikanna er tíu sinnu meira en EM 2016. Ráði Frakkar ekki við EM 2016 dregur það úr líkum á að þeim verði treyst til að skipuleggja Ólympíuleikana.

Stjórnmálaspenna í Frakklandi

Mikil spenna er í frönskum stjórnmálum um þessar mundir. Leiðtogar flokkanna búa sig undir prófkjör vegna forsetakosninga á næsta ári. Hart er tekist á innan flokka og milli þeirra.

Sósíalistar undir forystu François Hollandes forseta eiga verulega undir högg að sækja vegna nýrrar vinnulöggjafar sem miðar að því að auka frelsi á vinnumarkaði og slaka á kröfunni um 35 stunda vinnuviku.

Mótmæli og verkföll einkenna franskt þjóðlíf. Truflanir hafa verið á járnbrautarferðum og starfsmenn Air France hafa lagt niður vinnu. Í ýmsum atvinnugreinum nýta menn sér EM til að knýja á um kröfur sínar. Löng hefð er fyrir því í Frakklandi að unnt sé að ná einhverju fram með slíkum ofríkisaðferðum.

Manuel Valls forsætisráðherra hefur í meginatriðum staðist þrýstinginn til þessa. Hann vill færa stjórnarflokkinn til hægri og jafnvel fella tilvísun til sósíalisma úr nafni hans. Andstaða manna á vinstri væng flokksins er hörð.

Skuggi hryðjuverka

Skugginn af Ríki íslams (Daesh) hvílir yfir Frakklandi. Hryðjuverkasamtökin bera ábyrgð á að 147 manns féllu og rúmlega 430 særðust í árásum í París árið 2015.

Knattspyrnuvöllurinn Stade de France var skotmark liðsmanna samtakanna 13. nóvember 2015. Mohamed Abrini sem er grunaður um aðild að nýlegum hryðjuverkum í París og Brussel hefur sagt að upphafleg áform hryðjuverkamannanna hafi verið að vinna hryðjuverk á EM 2016.

Í lok maí birtist yfirlýsing frá Daesh þar sem hvatt var til árása á Vesturlönd í ramadan-mánuðinum sem hófst mánudaginn 6. júní. „Undirbúið ykkur, verið tilbúnir til að standa að mánuði hörmunga alls staðar meðal trúlausra,“ segir í tilkynningu sem eignuð er Abou Mohammed al-Adnani, talsmanni hreyfingarinnar, hinni fyrstu í magra mánuði.

Frönsk yfirvöld segjast ekki hafa vitneskju um neina sérgreinda aðgerð vegna EM 2016 en þau viti að Daesh skipuleggi nýjar árásir og Frakkland sé greinilega eitt af skotmörkunum.

Bandaríska utanríkisráðuneytið sendi fyrir nokkrum dögum frá sér hættumat vegna EM 2016. Þar segir að meiri líkur séu á að hættulegt atvik verði á „skemmtistað“ en á knattspyrnuvelli. Breska utanríkisráðuneytið tók næstum orðrétt undir þetta í viðvörun þriðjudaginn 7. júní.

„Við gerum allt í okkar valdi til að hindra árás hryðjuverkamanna og búum okkur einnig  undir að svara henni,“ segir Bernard Cazeneuve, innanríkisráðherra Frakka, sem hefur virkjað 77.000 lögreglumenn og björgunarliða. Auk þess sem þúsundir hermanna eru við öryggisgæslu.

Fótboltabullur

Fótboltabullur eru sérstakt vandamál í tengslum við EM 2016 eins og aðra stórleiki í knattspyrnu.

Í bandaríska hættumatinu er sérstaklega vikið að upphafsleik Englendinga á EM 2016 vegna þess að áhangendur enska liðsins kunni að verða til vandræða. Leikurinn verður að kvöldi laugardags 11. júní á Stade Velodrome í Marseille og keppa Englendingar við Rússa. Lið þessara tveggja þjóða tókust á í riðlakeppni EM 2007 og kepptu þá í London og Moskvu þar sem kom til harðra átaka milli stuðningsmanna liðanna.

Minnt er á að æði hafi runnið á stuðningsmenn Englands á heimsmeistarakeppninni 1998 eftir leik við Túnis í Marseille. Vegna slíkra atvika hafi bresk stjórnvöld meðal annars gripið til þess ráðs að svipta fótboltabullur vegabréfum þeirra og hindrað þannig ferðir þeirra til útlanda. Stundum hafa hinir vegabréfalausu skipt þúsundum en nú séu þeir nokkur hundruð.

Frá 13. nóvember 2015 hafa um 35 milljónir manna sætt skoðun við komuna til Frakklands á landamærunum, á flugvöllum og í höfnum. Rúmlega 18.000 hefur verið bannað að fara inn í Frakkland. Sérstök athygli beinist að 2.355 einstaklingum sem eru kallaðir „ofbeldisfullir stuðningsmenn“, það er fótboltabullur, í heimalöndum sínum.

Til að fylgjast sérstaklega með annarra landa mönnum óskaði franska innanríkisráðuneytið eftir að hvert ríki sem á lið á mótinu sendi að minnsta kosti átta lögreglumenn til Frakklands. Tveir þeirra eru tengslafulltrúar gagnvart frönskum yfirvöldum en sex úr liðinu hafa eftirlit á leikvellinum og þar sem áhangendur liða koma saman auk þess á brautarstöðvum og flugvöllum.

Héðan fara átta lögreglumenn og samþykkti ríkisstjórnin allt að 20 milljón króna aukafjárveitingu vegna farar þeirra.

 

Ótti við óttann

Mánudaginn 6. júní skýrði yfirmaður leyniþjónustu Úkraínu frá því að franskur maður hefði verið handtekinn við landamæri Póllands með magn vopna og sprengjuefni. Hann ætlaði að nota þetta gegn 15 skotmörkum í Frakklandi í tengslum við EM 2016. Vildi hann mótmæla straumi ólöglegra innflytjenda til Frakklands og útbreiðslu íslams þar.

Tveimur dögum síðar birtust fréttir um að ef til vill væri ekki allt sem sýndist í þessu máli. Spurning væri hvort þarna hefði verið vopnasali eða hryðjuverkamaður á ferð. Í Frakklandi hefði enginn grunur fallið á þennan 25 ára gamla mann, Grégoire M., bóndason og kúasæðingarmann. Í sex ár hefði hann búið í 80 manna smáþorpi í Meuse í norðaustur Frakklandi og almennt getið sér gott orð.

Vegna fréttarinnar var minnt á að ástæðulaust væri að láta ótta við óttann við hryðjuverk ná tökum á sér vegna EM 2016. Allt í kringum mótið er risavaxið. Illvirkjum má ekki takast að spilla gleðinni, góðu mennirnir hafa betur og besta liðið sigrar.