9.5.2002

Fleipur í stað stefnu


Fleipur í stað stefnu
Morgunblaðsgrein 9. maí 2002.

---------------------------

Við frambjóðendur D-listans fögnum því, hve mikill áhugi er á stefnu okkar, en hana höfum við kynnt undir kjörorðinu: Reykjavík í fyrsta sæti. Þá er einnig ljóst af viðbrögðum kjósenda, að þeir kunna vel að meta ákvörðun okkar um að leggja áherslu á forgangsmál í stefnunni með því að bjóða kjósendum að gera við okkur samning. Honum hefur verið dreift til allra Reykvíkinga og þeir geta skuldbundið okkur til að framkvæma samninginn með atkvæði sínu.

Fundir, umræðuþættir og blaðagreinar snúast um stefnu okkar. Menn velta fyrir sér einstökum atriðum í henni, vega og meta kostnaðarþætti og spyrja, hvernig við ætlum að framkvæma það, sem vekur sérstakan áhuga hjá hverjum og einum. Verða oft skemmtilegar og líflegar umræður um málin, þegar við förum á vinnustaði eða hittum borgarbúa á öðrum vettvangi.

Margnota loforð

Það er áberandi, að stefnuskrá R-listans hefur ekki vakið neinn sambærilegan áhuga. Afstaða fjölmiðla gagnvart R-lista stefnunni byggist á því, að fjölmiðlamenn áttuðu sig strax á því, að þarna er um margnota loforð að ræða – ekkert nýtt kemur fram.

Við kynningu á stefnu sinni sumardaginn fyrsta lét R-listinn eins og hann hefði lagt hana fram með einhverju sérstöku kostnaðarmati. Virtust einhverjir trúa þessu, áður en þeir lásu stefnuna og sáu, að hvergi er þar neina kostnaðartölu að sjá. Í DV hinn 6. maí kemur síðan fram í viðtali við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, að R-listinn hafi alls ekki slegið neinni tölu á heildarkostnaðinn af stefnuskrá sinni – hins vegar þykjast frambjóðendur listans geta sagt kjósendum, hvað stefnuskrá okkar sjálfstæðismanna kostar!

Að sjálfsögðu er R-listinn ekki að leita að því, sem sannara reynist, þegar hann leggur kostnaðarmat á stefnu D-listans. Frambjóðendur R-listans búa einfaldlega til tölur, enda sveiflast þær á milli milljarðatuganna.

Ósannindi Alfreðs

Það er ekki nóg með, að R-listinn sjái það sér helst til framdráttar að setja fram tilbúnar tölur vegna kostnaðar við stefnu okkar sjálfstæðismanna heldur leggja talsmenn listans sig einnig fram um að fara með ósannindi, þegar þeir ræða um það, hvernig eigi að fjármagna stefnuna.

Nýjasta dæmið um það er grein Alfreðs Þorsteinssonar hér í Morgunblaðinu í gær, þar sem hann heldur því blákalt fram, að það sé stefna okkar sjálfstæðismanna að selja Orkuveituna. Þess sést hvergi stað í stefnuskrá okkar. Við ætlum að selja gælufyrirtæki Alfreðs Línu.net og segjum það skýrum stöfum. Við höfum engin slík áform uppi um Orkuveituna. Hvað gengur þeim mönnum til, sem þurfa að reka kosningabaráttu sína á lygum um andstæðinga sína?

Marklaus málflutningur

Í sjálfu sér á ekki að koma á óvart, að Alfreð Þorsteinsson seilist lengra en góðu hófi gegnir í óvönduðum málflutningi. Hitt hefur komið mér meira á óvart, hve oft Ingibjörg Sólrún Gísladóttir umgengst sannleikann frjálslega, þegar við hittumst til sjónvarpsumræðna. Ætla ég að nefna nokkur dæmi máli mínu til stuðnings.

Í þættinum Silfri Egils 28. apríl leitaðist hún við að réttlæta hina vitlausu R-listahugmynd um eina flugbraut á Reykjavíkurflugvelli frá 2016 til 2024 með því, að flogið hefði verið á eina braut á vellinum í eitt ár á meðan hann var endurbyggður á árunum 2000 og 2001 og það hefði bara gengið vel. Staðreyndin er hins vegar sú, að það var aðeins í 53 daga frá maí fram í ágúst 2000, sem flogið var á eina braut og er að sjálfsögðu ekki unnt að draga þá ályktun af því, að ein braut í átta ár dugi til áætlunarflugs - enda telur Flugráð það fráleitt.

Á borgarafundi Ríkisútvarpsins 5. maí hélt hún því fram, að R-listinn hefði hreinsað strandlengjuna, en áður hefði klóakið runnið hér í fjörurnar. Hefur það farið fram hjá Ingibjörgu Sólrúnu, sem Grafarvogsbúar segja réttilega, að hjá þeim sé hreinsun strandlengjunnar alls ekki lokið, þar rennur klóakið enn í fjörurnar?

Útlistun Ingibjargar Sólrúnar á skuldastöðu Reykjavíkurborgar verður í raun einkennilegri eftir því sem umræður um það mál og 40% frávik frá áætlun ársins 2001 verða meiri. Þegar hún tekur Landsvirkjun sem dæmi er hún í raun að bera saman ólíka hluti. Um 82% af skatttekjum Reykjavíkur fara í rekstur og á undanförnum árum hafa 17 þúsund milljónir verið teknar úr Orkuveitu Reykjavíkur til að bæta stöðu borgarsjóðs, sem stendur undir þessum rekstri. Ingibjörg Sólrún ætti að
vita, að kostnaður Landsvirkjunar er að langstærstum hluta
fjármagnskostnaður vegna langtímalána, sem tekin eru vegna fjárfestinga með endingu um 100 ár og afskriftartíma upp á um 40 ár. Rekstrarkostnaður Landsvirkjunar er tiltölulega lítill. Ef það er ekki fáviska, sem ræður þessum samanburði Ingibjargar Sólrúnar við stöðu Landsvirkjunar, er um rangfærslu gegn betri vitund að ræða.

Hið sama verður uppi á teningnum, þegar hún segir stefnu okkar á D-listanum um að stöðva skuldasöfnun jafngilda því til dæmis, að ekki megi taka lán úr Íbúðalánasjóði. Skyldu menn alltaf auka skuldir með því að taka fé að láni?

Óverðskuldað stolt

Það hefur verið rauður þráður í málflutningi Ingibjargar Sólrúnar og kom enn fram í viðtalsþættinum Ísland í dag á Stöð 2 7. maí, að hún sé stolt af skuldunum sínum, af því að þær hafi runnið til að reisa skóla en Sjálfstæðisflokkurinn hafi safnað skuldum til að reisa Perluna og Ráðhúsið.

Af þessu tilefni skora ég á Ingibjörgu Sólrúnu að svara þessu: Var ekki málum háttað þannig í árslok 1991, að þá var engin nettó peningaleg skuld hjá borginni? Á þeim tíma var byggingu Perlunnar lokið og aðeins eftir innri frágangur í Ráðhúsinu. Enn spyr ég Ingibjörgu Sólrúnu: Skapaðist skuldin árin 1991 –94 ekki vegna þess að útgjöld til svokallaðra málaflokka (allt utan fjárfestinga og vaxta) jukust um 30 % að raunvirði á sama tíma og tekjur drógust saman vegna afnáms aðstöðugjaldanna? Sjálfstæðismenn sögðu þá, að þeir vildu verja fjármunum borgarsjóðs til að halda uppi atvinnu í borginni, en á þessum tíma var mikið atvinnuleysi í landinu, en minnst í Reykjavík, að öllum líkindum vegna stefnu borgarinnar. Er enn í minnum haft, að Ingibjörg Sólrún hafi sagt eitt sinn á borgarstjórnarfundi, að þessi stefna hefði verið óþörf, þar sem atvinnuástandið hefði verið gott í Reykjavík Hún lét þess auðvitað ógetið hvers vegna atvinnuástandið var gott.

Um leið og Ingibjörg Sólrún hefur talið það sér til sérstakrar virðingar, að hafa reist hér grunnskóla og leikskóla, eins og gert hefur verið í öllum sveitarfélögum landsins undanfarin átta ár, gefur hún til kynna, að engar áætlanir hafi legið fyrir um heilsdagskóla og einsetningu grunnskóla, þegar hún varð borgarstjóri 1994. Þetta eru rangar fullyrðingar, áætlun um einsetningu grunnskólans og kostnað við hana lá fyrir í ársbyrjun 1994 og var hún unnin undir forystu Árna Sigfússonar, sem þá var formaður fræðsluráðs. Síðustu fjögur árin sem sjálfstæðismenn fóru með stjórn Reykjavíkur fyrir 1994 var til dæmis sömu fjárhæð á sambærilegu verðgildi varið til þess að byggja leikskóla í Reykjavík og R-listinn hefur varið til þessa málaflokks frá 1998 eða um 1300 milljónum króna.

Á veikum grunni

Í kosningabaráttunni hafa talsmenn R-listans lagt áherslu á fleipur en ekki skýra stefnu. Dæmin um ámælisverðan málflutning forystumanns R-listans síðustu daga eru fleiri, en ég læt hér staðar numið að sinni. Þegar stefna í kosningum er byggð á jafnveikum grunni og hér er lýst, er ekki von, að henni sé fylgt fram af mikilli sannfæringu og þrótti. Einmitt þess vegna hefur stefnuskrá R-listans allt í einu hætt að skipta máli rúmum tveimur vikum fyrir kosningar.

Um leið og ég ítreka ákvæði samningsins, sem við á D-listanum höfum lagt fyrir kjósendur, vil ég hvetja þá til að átta sig á þeim hola hljómi, sem er í málflutningi andstæðinga okkar. Þeir eru í raun ótrúverðugir og ósamstæðir um allt nema að halda í völdin og þar helgar tilgangurinn meðalið eins og óvandaður málflutningur þeirra sýnir.