23.4.2002

Línur skýrast í Reykjavík

Línur skýrast
í Reykjavík

Morgunblaðið 23. apríl 2002

Átakalínur eru að skýrast í borgarstjórnarkosningunum. Munur á framgöngu gagnvart kjósendum sést best á því, að við, sem skipum D-listann, höfum lagt fram kosningastefnuskrá og síðan kynnt sérgreind atriði í henni sem samning við Reykvíkinga. R-listinn hefur hins vegar ekki kynnt neina stefnuskrá heldur vísar í fundargerðir, skýrslur og opinberar áætlanir Reykjavíkurborgar.

Skírskotun R-listans til opinberra skjala Reykjavíkurborgar minnir á það, hve ótæpilega aðstaðan í skjóli meirihlutavalds í borgarstjórn er notuð til að halda fram hlut R-listans. Birtist þetta í stóru og smáu, til dæmis auglýsingaherferð til að bæta ímynd Línu.nets. Er mikið lagt á sig til að fegra fyrirtækið. Alfreð Þorsteinsson, sem ráðskast mest með fjármuni borgarbúa í nafni R-listans, gefur meira að segja til kynna í Morgunblaðsgrein, að forseti Íslands hafi lagt blessun yfir fjárausturinn í Línu.net með því að tala um mikilvægi upplýsingatækni!

Skuldabaggar þyngjast.

Undanfarið höfum við frambjóðendur D-listans lagt áherslu á að kynna með skýrum og einföldum hætti, hvernig skuldabaggar hafa þyngst á okkur Reykvíkingum síðustu átta ár. Á valdatíma R-listans hafa skuldir á hvern borgarbúa, unga sem aldna, hækkað úr 39 þúsund krónum í 286 þúsund krónur.

Við sjáum og heyrum, að frambjóðendur R-listans stæra sig af þessari fjármálastjórn og þeir ætla alls ekki að hverfa frá henni, fái þeir áfram meirihlutaumboð frá borgarbúum. Þeir skjóta sér ekki aðeins á bakvið forseta Íslands heldur einnig eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaganna, sem hefur það verkefni að leggja mat á borgarsjóð Reykjavíkur en ekki hreinar skuldir hans og borgarfyrirtækja. Þær tölur veður þó að skoða til að átta sig á skuldastöðunni, því að R-listinn hefur farið þá leið að færa skuldabagga frá borgarsjóði á einstök fyrirtæki eða í nýja sjóði, auk þess sem tæpir 17 milljarðir hafa á valdatíma R-listans verið teknar frá Orkuveitunni í borgarsjóð.

Einn liður blekkinganna felst í fullyrðingum um, að það sé munur fyrir okkur borgarbúa, hvort við greiðum skuldirnar með sköttum okkar eða í gegnum gjaldskrár stofnana!

Með því að styðja D-listann geta kjósendur í Reykjavík horfið af þessari braut. Eða eins og segir í samningi okkar við Reykvíkinga: Við ætlum að stöðva skuldasöfnun og hagræða með sparnaði. Við ætlum að flytja verkefni til einkaaðila og félagasamtaka þar sem við á. Við ætlum að fækka milliliðum og draga úr skrifræði í borgarkerfinu. Hlutur Reykjavíkur í Línu.net verður seldur. Við ætlum að laða íbúa og fyrirtæki til borgarinnar og auka þar með tekjur hennar.

Stefnt að tvöföldu
umhverfisslysi

Við afgreiðslu aðalskipulags Reykjavíkur í borgarstjórn fimmtudaginn 18. apríl ákvað meirihluti R-listans að stefna að tvöföldu umhverfisslysi innan borgarmarka Reykjavíkur. Í fyrsta lagi að sprengja upp sólríkar suðurhlíðar Geldinganess og í öðru lagi að flytja þann jarðveg, sem þar er, vestur að Eiðisgranda og Ánanaustum og raska strandlengjunni þar á mjög skaðvænlegan hátt.

Furðuleg rök hafa verið notuð til að verja þennan óheillagjörning. Vinstri/grænir, sem fara hamförum á alþingi vegna umhverfis á hálendinu við Kárahnjúkavirkjun, stjórna þessari siðlausu aðför að umhverfinu hér í Reykjavík. Þeir segja, að áður hafi verið tekið grjót úr Skólavörðuholti, Öskjuhlíð og Rauðarárholti við Sjómannaskólann og þess vegna sé aðförin að Geldinganesi réttlætanleg!

Þá hafa talsmenn R-listans talið sig vera að ganga erinda KR með þessu óheillaverki og leysa úr brýnni þörf fyrir það ágæta félag. Framkvæmdir við landfyllingar á Eiðisgranda eiga þó ekki að hefjast fyrr en 2012. Framkvæmdirnar eru í andstöðu við íbúa við Eiðisgranda og Ánanaust, sem vilja vernda þær örfáu náttúruperlur, sem enn finnast í borgarlandinu og þeir sjá enga knýjandi þörf fyrir að þróa byggðina á haf út, eins og segir í mótmælaskjali íbúanna.

Í stefnu okkar á D-listanum kemur fram, að við viljum stöðva umhverfisslysið í Geldinganesi og skipuleggja þar íbúðabyggð. Við erum einnig andvíg landfyllingunum við Eiðisgranda. Við viljum ekki verja þremur til fjórum milljörðum króna úr vösum Reykvíkinga í þetta tvöfalda umhverfisslys. Það verður ekki stöðvað nema R-listanum sé hafnað.