27.11.2015

Varðstaða um frjálst samfélag krefst árvekni

Grein í Morgunblaðinu 27. nóvember 2015.



Að kvöldi föstudags 13. nóvember gerðust enn atburðir sem hafa kallað á viðbrögð og umræður um öryggismál. Hryðjuverkamenn réðust á almenna borgara í París og reyndu að sprengja þéttsetinn íþróttaleikvang í loft upp. 

François Hollande Frakklandsforseti sagði þetta stríðsaðgerð gegn Frökkum og henni yrði svarað af fullri hörku. Síðan hefur forsetinn gripið til aukinna öryggisráðstafana á heimavelli og fengið heimild til að lýsa þriggja mánaða neyðarástandi í landinu. Hann hefur einnig safnað liði í viðræðum við þjóðarleiðtoga. Markmið hans og þeirra er að gera út af við hryðjuverkasamtökin Ríki íslams í Sýrlandi sem sögðust bera ábyrgð á árásinni í París.


Enginn veit á þessu stigi hver framvinda mála verður í Sýrlandi. Þar er ekki aðeins tekist á við hryðjuverkamenn heldur einnig leikið valdatafl með þátttöku margra ríkja. Í því tafli er leikið djarft eins og sannaðist þriðjudaginn 24. nóvember þegar tvær tyrkneskar F-16 orrustuþotur skutu niður Su-24 orrustuþotu Rússa. 

Frans páfi telur að við séum vitni að þriðju heimsstyrjöldinni. Hún sé háð hér og þar en að baki búi sami ófriðarneistinn sem ekki hafi tekist að slökkva. Skilgreining páfa á við rök að styðjast þótt stjórnmálamenn nálgist viðfangsefni sitt á öðrum grundvelli. Þeir forðast að tala um átök milli menningarheima, kristinna og múslima. Í slíku orðalagi felist fordæming á hinu friðsama fólki um heim allan sem hefur, án tillits til trúarbragða, megna skömm á framgöngu þeirra sem ráðast á saklausa borgara í nafni trúarlegrar öfgahyggju.

Nauðsynlegt samtal

Robert C. Barber, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, flutti ræðu á fundi Varðbergs fimmtudaginn 19. nóvember og minnti á þá staðreynd (ræðuna má sjá á vefsíðunni www.vardberg.is)  að Bandaríkjamenn, NATO, Norðurlandaþjóðir og Íslendingar stæðu frammi fyrir erfiðum ákvörðunum vildu þeir standa vörð um réttarríkið, frið og stöðugleika. 

Sendiherrann hvatti alla Íslendinga til að taka þátt í umræðum um öryggismál. Þeir ættu að ræða sín á milli um hlutverk Íslendinga og skyldur vegna eigin öryggis og öryggis á Norður-Atlantshafi og í Evrópu. Sendiherrann sagði í lok máls síns:

„Hvernig munu Íslendingar sem heild standa undir kostnaði, fjárhagslegum og öðrum, vegna sameiginlegra varnarskuldbindinga sinna í breyttu og síbreytilegu öryggisumhverfi, einkum ef kostnaðinum verður ekki dreift jafnt á einstakar byggðir landsins eða hluta íslensks samfélags? Hvað munu Íslendingar samþykkja og hverju hafna þeir? Ræðið málið. Ég hvet til þess að þið takið sameiginlega ábyrgð sem borgarar þessa lands á því að eiga þetta samtal. Látið það ekki í hendur fáeinna manna innan stjórnarráðsins, sem ber skylda til að sinna þessum málum, að taka ákvarðanir um þau vegna skorts á þátttöku ykkar.[…]

Hafið samband við kjörna fulltrúa ykkar og þá sem óska eftir stuðningi í kosningum og krefjið þá skýrra svara um afstöðu þeirra til stefnu Íslands í varnar- og öryggismálum svo að þið getið sem kjósendur tekið upplýsta ákvörðun. Eigið samtalið. Verða þetta erfiðar umræður, jafnvel magnaður ágreiningur? Vafalaust. Það er eðlilegur hlutur í frjálsu samfélagi. Eigið samtalið engu að síður. Þið einir sem Íslendingar getið ákveðið framtíð þjóðar ykkar í varnar- og öryggismálum. Ég vona og raunar veit að íslenska ríkið og Íslendingar finna leið til að efna til þessa erfiða samtals, til að taka erfiðar ákvarðanir og til að varðveita hið einstæða sem hér er að finna.“

Óvenjulegt er að sendimaður erlends ríkis tali af slíkri hreinskilni. Máli sendiherrans var vel tekið og hvöttu sumir fundarmenn til þess að Bandaríkjamenn legðu, í ljósi náins samstarfs þjóðanna, sitt af mörkum til samtalsins.

Um heim allan hafa umræður um utanríkismál, öryggis- og varnarmál magnast undanfarna daga og vikur vegna hættunnar sem almenningur skynjar. Þegar stórborg á borð við Brussel er í raun lokað fyrir allri almennri umferð í fjóra daga og neyðarástand ríkir mánuðum saman í Frakklandi vaknar forvitni um rökin að baki öryggisaðgerðanna, miðlun frétta eykst og lífi er blásið í umræður.

Þjóðaröryggisstefna

Hryðjuverkin í París minna á hve samstaða þjóðar um öryggi sitt er mikilvægt. Yfirgnæfandi meirihluti Frakka styður aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Niðurstöður könnunar sem birtar voru sunnudaginn 22. nóvember sýna að 91% styðja þriggja mánaða neyðarástandið og 94% hert eftirlit á landamærum Frakklands. Könnunin var gerð 18. til 20 nóvember.

Tveimur dögum áður en bandaríski sendiherrann flutti ofangreinda hvatningu  ræddu alþingismenn tillögu til ályktunar um þjóðaröryggismál sem utanríkisráðherra lagði fram í annað sinn og reist er á sameiginlegri niðurstöðu nefndar allra þingflokka um málið. 

Umræður um tillöguna tóku um 142 mínútur í þingsalnum. Bendir það óneitanlega til meiri samstöðu um varnar- og öryggismál en við höfum oft átt að venjast.  Tillagan setur ramma en inntakið sjálft, hvernig við ætlum að framkvæma stefnuna, hvað við ætlum að verja miklu fé og til hvers, var í raun ekki viðfangsefni þingmanna í umræðunum.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hafnaði því að ábyrgð á framkvæmdinni væri óljós þótt stofnanirnar sem að því koma falli ekki undir utanríkisráðherra. Vísaði hann til þess máli sínu til stuðnings að setja ætti lög um þjóðaröryggisráð undir formennsku forsætisráðherra. Nýtt ráð um öryggismál kemur ekki í stað sérfróðra greinenda, stofnana og starfsmanna til að sinna öryggisgæslu. 

Hluti hins nauðsynlega samtals um öryggi íslensku þjóðarinnar þarf einmitt að snúast um innviði stjórnarráðsins. Brýnt er að skilgreina ábyrgð og skyldur í öryggismálum betur innan þess og koma á fót dóms- og öryggismálaráðuneyti sem taki með sér siglinga- og flugmál frá innanríkisráðuneytinu og styrki þannig sameiginlega yfirstjórn öryggismálanna.

Við njótum ekki hins frjálsa samfélags nema við sköpum því nauðsynlegar varnir eftir aðstæðum hverju sinni.

Öflun upplýsinga, greining staðreynda og nægur viðbúnaður eru lykilþættir þegar tekist er á við brýnan og aðsteðjandi vanda samtímans. Íslenska ríkið má ekki bregðast borgurum sínum, frumskyldan er að tryggja öryggi þeirra.