16.4.2002

Skuld R-listans við kjósendur



Skuld R-listans
við kjósendur

Morgunblaðið 16. apríl


Kosningabaráttan í Reykjavík er háð á sérkennilegum forsendum, á meðan R-listinn kynnir enga stefnuskrá. Þegar oddviti listans er spurður um stefnuna er svarið á þann veg, að hana sé að finna í opinberum gögnum borgarstjórnar, skýrslum, bókunum og áætlunum.

Minnist ég þess ekki, að nokkru sinni hafi stjórnmálaflokkur gengið fram til alþingiskosninga og sagt sem svo, að stefnu hans sé unnt að finna í framlögðum þingskjölum eða ræðum þingmanna. Það er þó þetta, sem R-listinn er að segja við Reykvíkinga: Þið skulið bara kynna ykkur skjalasafn borgarstjórnar, þar má finna stefnu okkar.

Við á D-listanum höfum lagt fram skýra stefnu, þar sem tekið er á öllum þáttum borgarmálanna og lýst afstöðu til þeirra. Þessa stefnu kynnum við nú á fundum og hvarvetna, þar sem við höfum til þess tækifæri. Er henni almennt vel tekið.

Betri hagur eldri borgara

Fyrir skömmum efndum við til dæmis til fundar með forystumönnum Félags eldri borgara og fórum sérstaklega yfir þau málefni, sem snerta félagsmenn þess. Kom þar fram mikil ánægja með stefnumál okkar varðandi stórlækkun eða niðurfellingu fasteignaskatta og holræsagjalds á þá, sem eru 67 ára og eldri og búa í eigin húsnæði. Fellur stefnan vel að þeim markmiðum, sem Félag eldri borgara hefur sett sér, þar sem tekjuviðmið vegna niðurfellingar eða lækkunar þessara gjalda er hækkað um 50%.

Við ræddum einnig um heimaþjónustu við aldraða og mikilvægi þess, að hún sé skipulögð með skýr fagleg markmið. Vilji menn í raun stuðla að því, að eldri borgarar búi sem lengst í eigin heimilum, er nauðysnlegt að skapa þeim sem besta öryggisumgjörð með góðri heimaþjónustu.

Á fundum okkar með eldri borgurum minnum við hiklaust á þá stefnubreytingu í málefnum þeirra, sem varð með R-listanum, þegar stórlega var dregið úr fjárveitingum til þjónustuíbúða og hjúkrunarrýma, enda sjást merki um það óheillaspor víða.

Öryggi að leiðarljósi

Í stefnu D-listans leggjum við mikla áherslu á öryggi borgaranna.

Við viljum setja löggæslunni í borginni skýr markmið í samvinnu ríkis og borgar. Það er með ólíkindum, að engin slík markmið hafi verið skilgreind að frumkvæði borgaryfirvalda. Í stað þess að sýna frumkvæði af þessum toga lætur R-listinn sér nægja að agnúast yfir stóru sem smáu gagnvart dómsmálaráðherra og lögreglunni í Reykjavík.

Herör gegn sóðaskap

Af umræðum á þeim fjölmörgu fundum, sem ég hef átt með borgarbúum, er mér ljóst, að þeim ofbýður sóðaskapurinn víða í borginni. Þykir fólki með ólíkindum, að margt af því, sem ber fyrir augu, ekki síst í miðborginni, skuli látið líðast.

Það ýtir undir virðingarleysi fyrir opinberum eigum og annarra, þegar hirðuleysi setur mestan svip á umhverfið. Þannig er málum því miður háttað alltof víða í Reykjavík.

Ekkert gerist.

Þegar borgarmálin hafa verið rædd í nokkra stund, liggur í augum uppi, að ekkert hefur gerst í Reykjavík, sem nokkru skiptir, á átta ára valdatíma R-listans. Það hefur verið sinnt framkvæmd lögboðinna verkefna, en þó ekki betur en svo, að alls staðar eru biðlistar. Það gerist ekkert í biðlistaborgum.

Þess vegna spyrja æ fleiri Reykvíkingar þessara spurninga: Hvað hefur orðið um alla peningana, sem R-listinn hefur tekið að láni í okkar nafni? Hvað hefur hann gert við þá miklu fjármuni, sem höfum greitt í skatta á undanförnum árum?

R-listinn skuldar Reykvíkingum meira en stefnu. Hann skuldar þeim einnig svar við því, hvað hann hefur gert við alla peningana, sem hann hefur tekið af þeim eða tekið að láni í þeirra nafni.


.