30.10.2015

Sviptingar í utanríkismálum - forystuhlutverk sjálfstæðismanna

Morgunblaðið 30. október 2015


Tveir stjórnmálaflokkar efndu til landsfunda um síðustu helgi: Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn (VG). Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, minntist ekki á utanríkismál í setningarræðu sinni. Það gerði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hins vegar og vék að hinum miklu sviptingum sem orðið hafa varðandi stöðu Íslands undanfarin 10 ár frá því að bandaríska varnarliðið hvarf úr landi í september 2006.

Vissulega eru þessar sviptingar með nokkrum ólíkindum sé litið til áranna frá 1944 þegar íslenska lýðveldið kom til sögunnar.

Í kalda stríðinu var oft tekist hart á um utanríkismál, ekki síst öryggis- og varnarmál. Til átaka kom við nágrannaþjóðir vegna útfærslu landhelgi, fiskveiði- og efnahagslögsögu. Þetta gerðist þó allt innan ákveðins ramma sem mótaður var af spennu milli austurs, milli lýðræðisþjóða og einræðisríkja.

Þessi rammi hvarf með hruni Sovétríkjanna. Við tók nýtt tímabil sem einkennst hefur af vaxandi óvissu. Við vitum ekki enn um allar afleiðingar breytinganna eins og vandræðin vegna fólksstraumsins til Evrópu og ófriðar meðal múslima sýna.

Meginbreytingar

Í Evrópu urðu nokkur þáttaskil með aðild hlutlausra EFTA-ríkja að Evrópusambandinu í upphafi tíunda áratugarins. Íslendingar ákváðu hvorki að slást í för með þeim ríkjum né Norðmönnum þegar þeir sömdu um ESB-aðild. Norðmenn felldu síðan ESB-samning sinn í þjóðaraatkvæðagreiðslu. Eftir stóð samningur þriggja EFTA-þjóða, Norðmanna, Íslendinga og Liechtensteina, við ESB undir merkjum EES. Aðildin að EES olli harðvítugum deilum á alþingi í upphafi tíunda áratugarins. Ágreiningur um hana er nú úr sögunni.

Íslensk stjórnvöld vöruðu Bandaríkjastjórn við að hverfa með allan liðsafla sinn á brott úr Keflavíkurstöðinni. Ráðamenn í Washington höfðu viðvörunarorðin að engu. Skammsýni Íraksstríðsáranna réð þar för. Varnarsamningurinn frá 1951 hélt þó gildi sínu og viðbótarsamkomulag var gert í október 2006. Á árinu 2007 ákvað NATO að skipuleggja hér loftrýmisgæslu og senda reglulega flugsveitir til að sinna því. Snemma árs 2014 tengdust Svíar og Finnar þeirri gæslu þótt þeir standi enn utan NATO.

Mjög reyndi á stöðu Íslands á alþjóðavettvangi við hrun bankanna haustið 2008. Ofbeldisrík afstaða ríkisstjórnar breska Verkamannaflokksins verður lengi í minnum höfð en einnig hve viðbrögð Pólverja og Færeyinga voru vinsamleg. Icesave-deilan við Breta og Hollendinga var að lokum útkljáð fyrir EFTA-dómstólnum. Sannaðist þar réttmæti þeirrar skoðunar að besta skjól fullvalda smáríkja sé að lokum í alþjóðalögum. Innan ESB er markvisst þrengt að þessum fullveldisrétti, einkum gagnvart smáríkjum.

Misheppnuð ESB-umsókn

Umsóknin um aðild að ESB sem alþingi samþykkti í ágreiningi sumarið 2009 rann út í sandinn. Hún var reist á grundvallarmisskilningi. Ríkisstjórnin taldi  að enn nytu Íslendingar sömu réttastöðu gagnvart ESB og EFTA-þjóðirnar í upphafi tíunda áratugarins. Eftir að í ljós kom að ekki yrði samið um neitt við ESB nema á forsendum þess, meðal annars um ráð yfir 200 mílunum, sigldu viðræðurnar í strand. Þeim var hætt í janúar 2013, þremur mánuðum fyrir þingkosningar. ESB-stjórnarflokkarnir guldu afhroð í kosningunum.

Hatrammar deilur urðu á alþingi um afturköllun hinnar misheppnuðu umsóknar. Reyndist þingið í raun óstarfhæft um tíma vegna uppnámsins sem varð þegar afturköllun umsóknarinnar var lögð fyrir það. Utanríkisráðherra greip til þess ráðs að rita ESB afturköllunarbréf. Síðan fóru utanríkisráðherrann og  forsætisráðherrann til fundar við ráðamenn ESB í Brussel og áréttuðu afturköllunina. Er rangt að telja Ísland bundið við umsóknina að þjóðarétti.

Þeir sem hafa verið þátttakendur í umræðum um ESB-aðildarmálið á landsfundum Sjálfstæðisflokksins frá því snemma árs 2009 vita að þar hefur verið leitað málamiðlana undir því fororði að aðild að ESB félli ekki að hagsmunum Íslendinga og hvorki bæri að sækja um aðild að ESB né ræða hana án samþykkis þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu. Í ályktun landsfundar nú segir:

„Sjálfstæðisflokkurinn áréttar að hagmunir Íslands séu best tryggðir með því að standa utan Evrópusambandsins og því að aðildarviðræðum við ESB hafi verið hætt. Mikilvægt er að tryggt verði að aðildarviðræður verði ekki teknar upp að nýju án þess að þjóðin verði spurð hvort hún óski eftir aðild að Evrópusambandinu.“

Þetta orðalag fellur að samþykkt landsfundar árið 2013 og sýnir að stefnan sem þá var mörkuð hefur náð fram að ganga. Á landsfundinum var þessi ályktun samþykkt með yfirgnæfandi stuðningi fundarmanna.

ESB-málið er dautt sem pólitískt viðfangsefni auk þess sem allir flokkar hafa mótað þá stefnu að ræða ekki við ESB án umboðs frá þjóðinni. Verði aðild að ESB sett á dagskrá að nýju þegar fram líða stundir verður það að annars konar ESB en við þekkjum á líðandi stundu. Aðildarforsendur verða aðrar enda glímir ESB nú við innri erfiðleika sem eru hinir verstu í sögu þess Er óvíst að út úr þeim verði siglt án klofnings sambandsins.

Öryggis- og varnarmál

Íslensk utanríkisstefna hlýtur að taka mið af ytri breytingum. Hafi þær hnigið að því fyrir aldarfjórðungi að Ísland einangraðist vegna legu sinnar stefnir nú til allt annarrar áttar. Stafar það bæði af auknum áhuga annarra þjóða á þróun mála á norðurslóðum og augljósri nauðsyn þess að varnir- og öryggi þjóðarinnar taki mið af nýju ástandi á því sviði. Í ályktun landsfundar sjálfstæðismanna segir:

„Sjálfstæðisflokkurinn telur mikilvægt að varnarsamstarfi við Bandaríkin sé hagað þannig að varnir landsins séu ávallt í samræmi við þarfir Íslands, meðal annars fyrir loftrýmisgæslu og björgunarmál, og að reglulegar æfingar tryggi að sveitir, sem ætlað er að koma landinu til varnar, þekki staðhætti vel. Jafnframt ætti að auka varnarsamstarf við önnur nágrannaríki okkar, einkum Norðurlöndin, til þess að tryggja að eðlilegum varnarstörfum sé sinnt frá degi til dags.“

Landsfundur sjálfstæðismanna árið 2015 staðfesti forystuhlutverk Sjálfstæðisflokksins í utanríkismálum þegar litið er til stærstu viðfangsefna í samkiptum við aðrar þjóðir og öryggis- og varnarmála.