2.4.2002

Málið Skjáeinum - kosningastefna


Málið 2.04.02 - Skjáreinn

Reykjavík er góð borg – en hún gæti verið betri! Það ætti hvergi að vera betra að búa en í Reykjavík.

Þetta höfum við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins að leiðarljósi og þetta setur svip sinn á stefnuskrá okkar, sem við kynntum fyrir páska.

Reykjavík á að vera í fyrsta sæti en borgin hefur um stundarsakir tapað forystuhlutverki sínu. Því vilja allir Reykvíkingar breyta.

Við ætlum að setja nýjan kraft í borgarlífið.

Við ætlum að gera borgina aftur að miðstöð menningar og þjónustu, höfuðborg, sem vekur stolt borgarbúa og allra Íslendinga. Borg sem stenst alþjóðlegan samanburð og styrkir samkeppnisstöðu þjóðarinnar.

Við ætlum að treysta fjárhagsstöðu Reykjavíkur með hagræðingu og sparnað í rekstri að leiðarljósi.

Við ætlum hreinsa til í borginni, tryggja öryggi íbúanna og stuðla að því að þeim líði vel í borginni sinni.

Við ætlum að lækka skatta, sérstaklega á eldri borgara.

Við ætlum að bjóða reykvískum börnum bestu menntun.

Við ætlum að gera miðborgina fjölskylduvæna og fallega.

Stefnan, sem við kynnum, er skýr og ótvíræð og hún tekur á öllum þáttum borgarlífsins. Við erum stolt af henni og leggjum áherslu á að hún nái eyrum allra borgarbúa fyrir kosningarnar, svo að þeir átti sig vel á þeim kostum, sem eru í boði.

Í hópi okkar frambjóðendanna er fólk með mikla reynslu af borgarmálum og nýtt fólk með ný sjónarmið. Við komum úr ólíkum áttum en höfum sameinast um góðan málstað. Stefna okkar endurspeglar þetta og við bjóðum okkur fram til að starfa fyrir alla Reykvíkinga.

Að baki hinnar víðtæku og skýru kosningastefnu er mikil samstaða og fyrir mig er ánægjulegt að leiða svo samhentan hóp.

Ég vil, að kosningabaráttan og keppnin um menn og málefni næstu vikur verði jákvæð og upplýsandi fyrir kjósendur. Málstaðurinn sé kynntur á traustum efnislegum forsendum.

Í stjórnmálastörfum mínum hef ég lagt mig fram um að standa við orð mín og það, sem ég lofa.

Mér er annt um að kynna mér ólík sjónarmið við úrlausn mála og leiða þau til lykta í sátt, sé þess nokkur kostur.

Ég býð mig ekki fram til að smíða loftkastala með óraunhæfum kosningaloforðum heldur til að starfa af einurð í þágu allra borgarbúa og í nánum tengslum við þá.



Reykvíkingar, - setjum okkur skýr sameiginleg markmið og vinnum að þeim með bjartsýni og öryggi að leiðarljósi!

Tryggjum, að hvergi sé betra að búa en í Reykjavík!