4.9.2015

Obama í Alaska

Gtrein í Morgunblaðinu föstudag 4. september 2015

Barack Obama fór til Anchorage í Alaska mánudaginn 31. ágúst, fyrstur 

forseta Bandaríkjanna norður fyrir heimskautsbaug. Að enginn forveri Obama hafi farið svo langt norður skilur að ráðmenn Rússlands og Bandaríkjanna þegar málefni norðurslóða ber á góma. Jósef Stalín sat í útlegð í Síberíu áður en hann varð harðstjóri Sovétríkjanna. Eftir það átti norðurhjarinn jafnan sess í hjarta hans. Undir forystu Stalíns var lagður grunnur að norðurslóðastefnu Kremlverja og Vladimír Pútín leggur mikla rækt við hana – nú síðast með hervæðingu á Norður-Íshafi.

Í tilefni af  för Obama og ráðstefnu bandaríska utanríkisráðuneytsins í Alaska um loftslagsmál í þessari viku birti bandaríska hugveitan Brookings Institute á vefsíðu sinni grein eftir Pavel K. Baev, rannsóknarprófessor við Friðarrannsóknastofnunina í Osló (PRIO). Hún ber fyrirsögnina: Tálvonir Rússa á norðurslóðum. Hann segir að rússnesk áform á norðurslóðum séu í besta falli reist á gamaldags og oftar en ekki gagnslausum geópólitískum hugmyndum.

Vissulega eru Rússar risaveldi á norðurslóðum, segir Baev. Íshafsströnd þeirra er gífurlega löng. Talsverður fjöldi fólks býr norðan heimskautsbaugs. Rússar eiga sex kjarnorkuknúna ísbrjóta á svæðinu (41 alls) og reka mjög mengandi stóriðju í Nikel og Norilsk. Rússnesk stjórnvöld hafa áréttað umsvif sín með árlegum, fjölsóttum ráðstefnum sem Vladimír Pútín hefur heiðrað með návist sinni. Nú er ekki lengur boðað til þessrar ráðstefnu, ekki aðeins vegna þess að Úkraínu-deilan hefur eitrað andrúmsloftið heldur einnig vegna þess að á tveimur mikilvægum sviðum hefur slegið í bakseglin hjá Rússum.

Bendir Baev í fyrra lagi á lækkun olíuverðs og vandræði við leit að olíu vegna viðskiptabanns Bandaríkjanna og ESB. Ríkis-risaolíufyrirtækið Rosneft hafi til dæmis orðið að hætta leit í Norður-Íshafi. Í öðru lagi sé Norðurleiðin minna notuð til alþjóðasiglinga en rússneskir ráðamenn væntu. Hið gamla sovéska þjónustukerfi við leiðina sé svo rotið að sigling á þessum slóðum sé of áhættusöm. Þá hafi Egyptar í skyndi gripið til endurbóta á Súez-skurðinum sem sé öruggari flutningsleið fyrir olíu og gáma.

Þegar í ljós kom að viðskiptalegar forsendur brugðust á Norður-Íshafi gripu Kremlverjar til þess ráðs sem þeir kunna best: að efla herinn, segir Baev. Fyrir mánuði staðfesti Pútín nýja flotastefnu þar sem sérstök áhersla er lögð á gæslu rússneskra hagsmuna á norðurslóðum. Það þurfi töluvert hugmyndaflug til að ímynda sér að þessum hagsmunum sé ógnað. Rússneska öryggislögreglan telji þó hættu af hryðjuverkamönnum. Í september 2013 efndu félagar í Greenpeace til mótmæla við borpall í Pechora-hafi. Viðbrögð Rússa voru svo harkaleg að alþjóðlegi gerðardómurinn í Haag hefur dæmt þá til að greiða skaðabætur, rússneskum stjórnvöldum til mikillar skapraunar. Grein sinni lýkur Pavel K. Baev á þessum orðum:

„Rússar virðast staðráðnir í að hervæða Norður-Íshaf. Á svæði þar sem atvinnustarfsemi er að mestu hnignandi og þar sem umhverfisvandamál vaxa, virðast Rússar stunda einhliða vígbúnaðarkapphlaup. Sérfræðingar utan Kremlar telja algjörlega augljóst að hinn mikli efnahagssamdráttur í Rússlandi kippi stoðunum undan þessari stefnu. Rússar kunna að hafa stórveldisdrauma á Norður-Íshafi en þar er lítið að hafa og ólíklegt er að Rússum takist að ná í það.“

Bandaríkjamenn úr biðstöðu

Árum saman hefur togstreita innan bandaríska stjórnkerfisins og milli stjórnmálamanna tafið fyrir nauðsynlegum fjárveitingum til verkefna á norðurslóðum. Í maí 2013 kynnti Obama þó stefnu sína fyrir svæðið og í janúar 2015 skipaði hann stýrihóp framkvæmda á norðurskautssvæðinu. 

Í Alaskaferðinni sagði hann að hraðað yrði smíði nýrra ísbrjóta fyrir strandgæsluna. Það yrði að minnka forskot Rússa. Í The New York Times (NYT) var 1. september vitnað í Bill Walker, ríkisstjóra Alaska sem lýsti áhyggjum yfir því að fækkað væri í herafla Bandaríkjanna á norðurslóðum þegar Rússar ykju hernaðarmátt sinn. Ríkisstjórinn sagði: „Þetta er mesta uppbygging herafla Rússa síðan í kalda stríðinu. Þeir taka 10 herstöðvar í notkun að nýju og reisa fjórar til viðbótar, þeir láta sig Norður-Íshafið miklu varða, okkur líður dálítið illa umluktir þessu öllu.“

Ný skýrsla frá hugveitunni Center for Strategic and International Studies í Washington ber heitið The New Ice Curtain, Nýja ístjaldið, sem er vísan til járntjaldsins á Sovéttímanum og gefur til kynna óvinsamlegt framferði Rússa á Norður-Íshafi. NYT segir að yfirgangur Rússa í Úkraínu hafi svo gott sem bundið enda á samstarf ríkjanna í Norðurskautsráðinu. 

William E. Gortney aðmíráll, yfirmaður bandarísku Norðurherstjórnarinnar og loftvarnasvæðis Norður-Ameríku, segir að Rússar endurnýji nú búnað sinn eftir áralanga vanhirðu en í því felist enn sem komið er ekki nein marktæk ógn. Aðrir benda á að fyrir Rússum vaki að auka öryggi á Norðurleiðinni eins og þeir hafi lofað í Norðurskautsráðinu. Einkennilegt sé hins vegar að þeir telji sig þurfa loftvarna-eldflaugar í því skyni. Þær verði ekki notaðar nema gegn loftárásum. Hvort Rússar búist við að NATO-vélar geri þær?

Kuldi í samskiptum


Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sat fundi um norðurslóðamál í Anchorage aðeins nokkrum dögum áður en Barack Obama kom þangað. Má segja að hann hafi hitað upp fyrir komu Obama. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra fór fyrir íslensku sendinefndinni á ráðstefnunni mánudaginn 31. ágúst.

Ólafur Ragnar undirbjó á ferð sinni til Alaska Arctic Circle, ráðstefnuna sem er hugarfóstur hans. Hún verður haldin í þriðja sinn hér á landi 16. til 18. október.

Þar mun skýrast enn betur hver eru áhrif stækkandi ísbreiðu á Norður-Íshafi, samdráttar í siglingum, lækkaðs olíuverðs og hervæðingar Rússa. 

Barack Obama fór til Alaska til að leggja áherslu á aðgerðir gegn hlýnun jarðar. Hvað sem henni líður kólna samskiptin við Rússa í norðri eins og víðar.