21.8.2015

Harka hleypur í Rússaviðskipti

Morgunblaðið 21. ágúst 2015

Í ársbyrjun 2014, skömmu áður en dró til alvarlegra tíðinda í Úkraínu vegna yfirgangs Rússa, var í Reykjavík efnt til samráðsfundar fulltrúa Íslands og Rússlands um tvíhliða viðskipti og samstarfsverkefni. Í tilkynningu utanríkisráðuneytisins (30.01.14) sagði að fulltrúar ríkjanna hittust einu sinni eða tvisvar á ári til að ræða fjölbreytt málefni til að stuðla að og greiða fyrir viðskiptum á milli landanna. Á fundinum hefði verið rætt um ferðaþjónustu, matvæli, fjarskipti, fjárfestingatækifæri og orkumál auk nýsköpunarverkefna. Tekið var fram að sendiráð beggja landa ynnu ötullega að því að fylgja þessu málum eftir í samstarfi við atvinnulífið.

Skjótt skipast veður í lofti. Í febrúar og mars 2014 sóttu aðskilnaðarsinnar, hollir Rússum, í sig veðrið í austurhluta Úkraínu og á Krímskaga. Rússar innlimuðu skagann í land sitt og efndu hinn 16. mars til þjóðaratkvæðagreiðslu sem ráðamenn á Vesturlöndum töldu brot á alþjóðalögum. Í aðdraganda innlimunar Krím í mars 2014 kallaði utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson sendiherra Rússlands á sinn fund og sagði grundvallaratriði að Rússar stæðu við skuldbindingar sínar samkvæmt alþjóðalögum og drægju herlið sitt í Úkraínu til baka.

Hinn 7. mars 2014 lýsti utanríkisráðherra yfir stuðningi við alþjóðlegar aðgerðir í þágu Úkraínu og sagði hinn 17. mars 2014, daginn eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna á Krím, að allþjóðasamfélagið þyrfti að senda skýr skilaboð til stjórnvalda í Rússlandi. Íslendingar gætu á grundvelli EES samningsins tekið þátt í refsiaðgerðum ESB og ættu að gera það. Hinn 20. mars 2014 eftir samráð utanríkisráðherra við utanríkismálanefnd tilkynnti utanríkisráðuneytið að ráðherrann hefði þann sama dag staðfest „þvingunaraðgerðir gegn rússneskum og úkraínskum einstaklingum sem tengjast aðgerðum Rússa á Krímskaga“. Utanríkisráðherra fordæmdi innlimun Rússlands á Krím og ítrekaði fyrri yfirlýsingar sínar um ólögmæti þjóðaratkvæðagreiðslunnar frá 16. mars.

Að mál færu á þennan veg var ekki í samræmi við tvíhliða viðskiptaviðræður Íslendinga og Rússa í lok janúar 2014. Hvorki hafa borist fréttir af sambærilegum viðræðum síðan né að ramminn um þær sé horfinn. Viðskiptaþvinganir ESB/EES-ríkjanna sem boðaðar voru eftir innlimun Krímskaga snerust um þátttöku Rússa í G8 samstarfinu, ferðabann á nokkra tugi lykilmanna í Rússlandi, bann við nánar skilgreindum fjármálasamskiptum og sölu á vopnabúnaði til Rússlands. Allt er þetta utan við hefðbundin viðskipti Íslendinga og Rússa.

Ánægja á þingi


Á sama tíma og utanríkisráðherra gekk til verks á þann veg sem að ofan er lýst beindust öll spjót að honum vegna tillögu hans um að afturkalla ESB-umsóknina. Þjóðfélagið logaði í illdeilum vegna hennar og svikabrigsla í garð forystumanna ríkisstjórnarflokkanna. Þrátt fyrir þann mikla ágreining naut ráðherrann stuðnings á þingi fyrir andstöðu sína gegn Rússum eins og kom fram í þingumræðum um skýrslu um utanríkismál hinn 20. mars 2014. Þar lét Óttarr Proppé, þingmaður Bjartrar framtíðar, meðal annars þessi orð falla:

„Það væri úrættis fyrir þá þjóð sem braut blað að mörgu leyti í heimssögunni með því að vera fyrst til að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna að láta ekki heyra kröftuglega í sér á alþjóðavettvangi [vegna örlaga Úkraínu]. Þess vegna fagna ég afstöðu hæstv. utanríkisráðherra og legg að honum að halda þessu áfram á lofti á alþjóðavettvangi, t.d. á vettvangi NATO, ÖSE og norðurskautsins.“

Gunnar Bragi fór til Kænugarðs og af því tilefni lýsti Elín Hirst, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hinn 25. mars 2014, ánægju með framgöngu ráðherrans í þingræðu og sagði:

„Íslendingar eiga að láta heyra til sín á alþjóðavettvangi og innan alþjóðastofnana sem við tilheyrum þegar ríki fara fram með þeim hætti sem Rússar gera. […] Hver einasta rödd skiptir máli. Það er von mín að Íslendingar láti ekki hagsmuni sína í Norðurheimskautsráðinu gera það að verkum að þeir kikni í hnjáliðunum gagnvart Rússum. Framganga utanríkisráðherra með för sinni til Úkraínu lofar góðu um framhald hjá þessari ríkisstjórn gagnvart þjóðum sem brjóta grundvallarmannréttindi.“

Spurning um samstöðu

Á Sovéttímanum var bann við sölu á hátæknibúnaði til Sovétríkjanna. Bann við fjármálasamskiptum eða ferðabann á sovéska lykilmenn að auki hefði þá þótt beinlínis skrýtið vegna sovéskra stjórnarhátta. Íslendingar áttu á þessum árum tvíhliða viðskipti við Sovétríkin og líklega hvarflaði aldrei að neinum að hátæknibannið mundi bitna á þeim. 

Utanríkisráðuneytið hefur nú verið gagnrýnt fyrir skort á framsýni við ákvörðun um aðgerðirnar í mars 2014. Skort hafi mat á hugsanlegar afleiðingar þess að skipa sér fyrirvaralaust í hóp annarra ESB/EES-ríkja. 

Furðulegt er ef ekkert minnisblað um þessar ákvarðanir, rökin að baki þeim eða áhrif þeirra er til í skjalasafni ríkisstjórnar eða utanríkismálanefndar. Á hinn bóginn má spyrja: Gat nokkur reiknað með því í mars 2014 að Vladimír Pútín Rússlandsforseti teldi sér helst til bjargar að gera aðför að erlendum matvælum í Rússlandi? Bann við fiskinnflutningi frá Íslandi er liður í þessari aðför og rýfur um 70 ára viðskiptatengsl þjóðanna. Ekki skal þó útiloka enn eina kúvendingu Rússa – til að ávinna sér vinsældir meðal Íslendinga.

Í leiðara Morgunblaðsins þriðjudaginn 18. ágúst sagði: „Auðvitað er það umhendis að þurfa að hverfa frá meintri þátttöku í refsiaðgerðum gegn Rússum. Ekki vegna þess að rétt væri að hlaupa í þær, þegar hnippt var í Íslendinga þegar ákvarðanir annarra lágu fyrir. Eins og komið er væri hægt að saka Ísland um að rjúfa samstöðu og að skera sig úr leik.“

Undir þessi orð skal tekið. Miðað við aðdraganda málsins vaknar hins vegar spurning um hvort nokkur hafi „hnippt“ í Íslendinga, réttmæt reiði vegna drottnunargirni Rússa hafi einfaldlega ráðið ákvörðunum utanríkisráðherra og stuðningi alþingismanna.

Við mat á óvild Kremlverja gegn erlendum matvælum er ekki unnt að líta fram hjá meiri hernaðarlegri hörku þeirra um þessar mundir. Um er að ræða stigmögnun sem enginn veit hvert leiðir þá.