24.7.2015

Makríll utan ESB – uppgjöf Grikklands

Morgunlaðsgrein 24. júlí 2015


Hér í blaðinu birtist fréttaskýring hinn 15. júlí um að Íslendingar hefðu landað hátt í milljón tonnum af markíl úr lögsögu sinni frá árinu 2006 þegar veiðarnar hófust. Verðmætið sem rekja mætti til makríls hefði „skipt þjóðarbúið gríðarlega miklu“. Ætla mætti að útflutningsverðmæti frysts makríls og mjöls næmi um eða yfir 120 milljörðum króna á tæpum áratug. Í ár er heimilt að veiða um 172.000 tonn af makríl í íslenskri lögsögu, meira en nokkru sinni.

Makrílveiðar í íslenskri lögsögu hófust áður en sótt var um aðild Íslands að ESB sumarið 2009. Íslendingum var þó haldið utan viðræðna um skiptingu makrílstofnsins í Norðaustur-Atlantshafi. Þeir sem sátu að aflanum töldu Ísland ekki strandríki. Þetta breyttist eftir að ESB-aðildarumsóknin var lögð fram. Íslendingar sátu fund sem fullgildir þátttakendur í fyrsta sinn í mars árið 2010.

ESB-menn, einkum Skotar, sýndu mikla andstöðu við markrílveiðar íslenskra skipa. Skoski ESB-þingmaðurinn Struan Stevenson sneri sér til dæmis sumarið 2010 að Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB, á málþingi á vegum ESB-þingsins í Brussel og spurði:

„Ég er undrandi á því að Íslendingar biðji okkur um að draga fram rauða dregilinn og fagna sér sem aðilum að ESB, þakkir þeirra felast í því að neita að greiða [Icesave] skuldir sínar, loka loftrými okkar vikum saman með eldfjallaösku og reyna nú að eyðileggja makrílveiðar okkar!

Þetta er fyrir neðan allar hellur og ég treysti því að framkvæmdastjórnin segi þeim afdráttarlaust að ESB láti ekki undan í þessu máli og við samþykkjum ekki svo ábyrgðarlausa framkomu?“

Tilraunir ESB til að stöðva makrílveiðar íslenskra skipa tóku á sig ýmsar myndir. Þær runnu út í sandinn. Eftir að aðildarviðræðunum lauk vegna ágreinings um sjávarútvegsmál og umsóknin var afturkölluð verða Íslendingar ekki lengur beittir neinum þvingunum sem ESB-umsóknarríki.

Hefðu Íslendingar sætt afarkostum ESB í makrílmálum er óvíst hver afli þeirra hefði orðið. Hlutdeildin hefur verið allt að 17% af ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknarráðsins en í viðræðum strandríkja var upphafsafstaða ESB og Norðmanna að 90% ráðgjafarinnar kæmi í þeirra hlut en Færeyingar, Íslendingar og Rússar skiptu 10% á milli sín. Kannski hefði makríl-aflaverðmæti Íslendinga verið 25 milljarðar króna frá 2006 í stað 120 milljarða. – Um 100 milljarðar króna hefðu verið fórnarkostnaður vegna ESB-aðildar?

Óbærileg skuldabyrði

Hugleiðing um slíkan fórnarkostnað smáþjóðar innan ESB minnir á fréttir um skuldavanda Grikkja. Skuldir þeirra nema um 200% af landsframleiðslu eftir að þeir hafa verið tæp sex ár í aðhaldsvindu ESB án sýnilegs árangurs. Grikkir ráða ekkert við þessa byrði hvað sem líður samkomulagi milli evru-ríkjanna sem var kynnt að morgni 13. júlí. Evru-leiðtogarnir fögnuðu þá að evru-samstarfið hefði ekki splundrast. Næstu skref til að tryggja þessa samheldni eru erfið.

Grikkir hafa enn orðið að herða aðhaldsólina. Meðal annarra evru-þjóða er leitað umboðs til að semja við Grikki um þriðja neyðarlánið, 82 til 86 milljarða evrur á þremur árum. Strax í byrjun þessarar viku var talið að fjárþörfin væri í raun 100 milljarðar evra. Grikkir fengu 110 milljarða neyðarlán í maí 2010 og síðan 130 milljarða í febrúar 2012. Áfram verður dælt til þeirra lánsfé í von um að nýir skattar, sala ríkiseigna undir forræði annarra og lækkun útgjalda til félagsmála bæti greiðslugetu þeirra.

 

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stendur utan við þriðju neyðarlánveitinguna til Grikkja. Hann sendi frá sér skýrslu eftir að evru-leiðtogafundinum lauk 13. júlí um að Grikkir gætu ekki borið núverandi skuldabyrði og því yrði að afskrifa hluta hennar. Sjóðnum væri bannað að lána svo illa stöddum ríkjum. Evru-reglur heimila ekki slíkar afskriftir skulda.

 

Afrifarík uppgjöf

 

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikkja, hlaut embætti sitt af því að hann barðist í janúar 2015 gegn aðhaldskröfum ESB. Hann lagðist einnig gegn þeim fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu hinn 5. júlí, naut málstaður hans stuðnings rúmlega 61% kjósenda. Yanis Varoufakis var fjármálaráherra Grikkja hinn 5. júlí en sagði af sér embættinu næsta dag.

 

Varoufakis sagði við BBC laugardaginn 18. júlí að Grikkir gætu ekki staðið við skilyrðin vegna þriðja neyðarlánsins. Hann sagði Grikki hafa gengist undir áætlun sem yrði skráð í söguna sem „the greatest disaster of macroeconomic management ever“ – hörmulegustu þjóðhagfræðilegu mistök allra tíma. Hann sagði áætlun leiðtoga evru-ríkjanna þegar runna út í sandinn. Tsipras hefði staðið frammi fyrir aftöku eða uppgjöf, hann hefði valið uppgjöf.

Sérfræðingar segja að evru-leiðtogunum hafi tekist að brjóta á bak aftur stefnu róttækra vinstrisinna um „hina evrópsku leiðina“, það aðra leið en aðhaldsstefnuna. Áhrifanna af kúvendingu og undirgefni Alexis Tsipras gætir strax hjá Podemos, fylkingu róttækra vinstri manna á Spáni. Í könnun í janúar 2015 mældist flokkurinn annar stærsti með 89 þingmenn en nú í júlí mælist hann þriðji stærsti með 41 þingmann.

Grikkir eru sakaðir um að hafa sýnt ábyrgðarleysi og falsað hagtölur til að komast inn í evru-samstarfið – þeim sé nær. Þeir tóku upp evru fyrir frumkvæði Frakka til að styrkja suðurvæng evru-svæðisins pólitískt. Grikkir halda í evruna fái þeir neyðarlán. Evru-leiðtogunum er metnaðarmál að evru-samstarfið springi ekki þess vegna lána þeir Grikkjum. Raunsæismaðurinn Wolfang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, er litinn hornauga bæði af Grikkjum og evru-leiðtogunum – honum er eignaður raunhæfasti kosturinn: Grikki út af evru-svæðinu.

Grikkir hafa fórnað fullveldi í ríkisfjármálum vegna evrunnar. Íslendingar hefðu fórnað fullveldi í sjávarútvegsmálum með aðild að ESB. Reikningsdæmið vegna makrílsins sýnir aðeins lítið brot af því sem er í húfi fyrir smáríki sem fórnar sérstöðu sinni og fullveldi.