29.5.2015

Sameiginlegar varnir á ný viðfangsefni NATO

Grein í Morgunblaðinu föstudag 29. maí.


 

Bandaríkjamenn tóku nýlega við pólitískri forystu í Norðurskautsráðinu af Kanadamönnum og fara með hana næstu tvö árin. Af fréttatilkynningu um fundinn má ráða að vilji aðildarríkjanna átta standi til þess að aukin spenna í samskiptum ríkisstjórna Vesturlanda við Rússa vegna hættuástandsins í Úkraínu verði ekki til að spilla samstarfi innan ráðsins. Þögnin um þessi málefni gerir Norðurskautsráðið þó dálítið hjárænulegt.

Finnska varnarmálaráðuneytið sendi á dögunum bréf til um 900.000 varaliða til að minna þá á skyldur þeirra ef til hernaðarátaka kæmi. Má með varaliðum fjölga í her Finnlands úr 16.000 í 285.009.  Önnur þjóð innan Norðurskautsráðsins, Svíar, kallar í fyrsta sinn í sögunni á bandarískar B-52 sprengjuþotur til æfinga og sendir þannig ráðamönnum í Moskvu skýr pólitísk skilaboð.

Norska sendiráðið í Reykjavík og Rannsóknarsetur um Norðurslóðir við Háskóla Íslands efndu þriðjudaginn 19. maí til málstofu í Norræna húsinu þar sem dr. John Andreas Olsen, foringi í flughernum og sérfræðingur norska varnarmálaráðuneytisins, kynnti viðhorf Norðmanna í öryggismálum á svæðinu sem fellur undir Norðurskautsráðið.

Sagði Olsen atvik í Rússlandi og á hafinu undan ströndum og utan lofthelgi Noregs aðeins minna á gamalkunn umsvif sovéska hersins. Nú væri her Rússa hins vegar mun öflugri en á Sovéttímanum og ásetningur þeirra að skapa kjarnorkukafbátum sínum skjól allt frá Íslandi að Kóla-skaga skýrari.

Norski sérfræðingur sagði gæði búnaðar rússneska heraflans mikil og herinn væri betur þjálfaður en áður. Rússar hefðu auk þess kynnt þá breytingu á kjarnorkuvopnastefnu sinni að notkun kjarnorkuvopna mundi ekki taka mið af stigmögnun átaka heldur yrði þeim beitt sem hluta af hernaðarátökum ef til þeirra kæmi. Þetta væri í andstöðu við stefnu sem fylgt væri af NATO.

Olsen sagði einnig áhyggjuefni hve Rússar efndu til tíðra heræfinga á norðurslóðum án þess að tilkynna fyrirfram um þær. Á þeim hvíldi að vísu ekki tilkynningarskylda hins vegar kæmi ekki neinum innan NATO til hugar að hefja heræfingu án þess að  segja frá henni fyrirfram. Það væri liður í að skapa traust milli ríkja.

Máttleysi Evrópu

Hinn 12. maí 2015 birti þýski ritstjórinn og öryggismálafræðingurinn Josef Joffe grein í Strategika, riti Hoover-stofnunarinnar í Bandaríkjunum, þar sem hann sagði leiðtoga ESB-ríkjanna vilja líta áfram á Evrópu sem „friðareyju“ þrátt fyrir váboða um að stríð og ofbeldi færðust æ nær álfunni.

Joffe minnti á að undir forsæti Baracks Obama hefði Bandaríkjastjórn minnkað útgjöld til varnarmála úr rúmlega 700 milljörðum dollara árið 2011 í 570 milljarða árið 2015. Þá vildi Obama draga markvisst úr aðild bandarísks herafla að átökum, hikandi aðild að hernaðinum gegn Íslamska ríkinu væri til marks um það.

Þýski ritstjórinn veltir fyrir sér hver muni fylla skarð Bandaríkjamanna, það verði ekki Evrópa þrátt fyrir að innan ESB séu 500 milljónir manna en 320 milljónir í Bandaríkjunum. Evrópuríki séu „aumkunarverð“ í hernaðarlegu tilliti. Árið 2011 hafi þau alls varið 267 milljörðum dollara til varnarmála, 38% af varnarútgjöldum Bandaríkjamanna. Reiknað sé með 250 milljörðum dollara á árinu 2015.

Þá segir  Josef Joffe, ritstjóri þýska mið-vinstra vikublaðsins Die Zeit:

„Í stuttu máli: Í Evrópu halda menn áfram að líta á álfuna sem „friðareyju“ en hún er ekki lengur öruggur staður. Útþenslustefna, hryðjuverk, og stríð færast nær – í átt að hjarta Evrópu og einnig að suð-austur jaðri álfunnar. Viðfangsefnin skýrast dag frá degi, hið sama verður ekki sagt um viðbrögðin. Við blasir aðeins hið sama og áður: í Evrópu hafa menn hvorki vilja né getu til að beita valdi til að tryggja hnattrænan stöðugleika. Jafnvel þótt menn í álfunni vildu það skortir þá nauðsynlegan vígbúnað.“

Evrópa stendur með öðrum orðum á hliðarlínunni í hinu stóra alþjóðlega samhengi.

Tengsl Íslands og Bandaríkjanna

Vegna hvalveiða Íslendinga eru hnökrar á pólitískum samskiptum Íslands og Bandaríkjanna. Þeir hafa þó ekki komið í veg fyrir að þrjár mikilvægar sendinefndir frá Íslandi hafa undanfarna mánuði hitt bandaríska embættismenn í Washington: hópur embættismanna úr utanríkis- og innanríkisráðuneytunum, utanríkismálanefnd alþingis og nú síðast Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sem ræddi við John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á einkafundi fimmtudaginn 21. maí.

Í frásögn utanríkisráðuneytisins af fundi ráðherranna segir að þeir hafi rætt varnarsamstarf þjóðanna og niðurstaðan sé þessi: „Samvinna ríkjanna á sviði varnar- og öryggismála hafi styrkst á ný á síðustu tveimur árum og mikilvægt sé  halda áfram á þeirri braut. Þá hafi þátttaka Bandaríkjanna og annarra bandalagsríkja í loftrýmisgæslu á Íslandi gengið vel.“  Eftir Gunnari Braga er haft: „Þá standa gagnkvæmar skuldbindingar ríkjanna í öryggis- og varnarmálum óhaggaðar og ríkur vilji er til að halda áfram á þeirri braut að styrkja það samstarf á grundvelli varnarsamningsins.“

Þetta er nýr tónn í frásögnum af þessu tagi. Um árabil hafa umræður utanríkisráðherra NATO-ríkja snúist um aðgerðir á vegum bandalagsins til að bregðast við hættuástandi á fjarlægum slóðum: í Afganistan, Írak, undan strönd Sómalíu eða í Líbíu. Nú snúast þær um gagnkvæma öryggishagsmuni og sameiginlegar varnir. Er þetta orðað þannig í frásögninni af viðræðum Gunnars Braga við Kerry: „Gunnar Bragi áréttaði að íslensk stjórnvöld tryggi rekstur og viðhald mikilvægs varnarviðbúnaðar á Íslandi sem sé hlekkur í sameiginlegum vörnum Atlantshafsbandalagsins.“

Sameiginlegar varnir NATO-ríkjanna eru á ný orðin þungamiðja í öryggisstefnu þeirra og þar skipta Bandaríkin og afstaða Bandaríkjastjórnar sköpum.