22.5.2015

13. aðalfundur Aflsins 22. maí 2015  

Hér er skýrsla mín sem flutt var í Von, húsi SÁÁ í Efstaleiti

 Skýrsla formanns

Við komum í dag saman til 13. aðalfundar Aflsins. Félagið var stofnað 1. júní 2002.  Þá settum við því lög og er tilgangur þess að stuðla að kynningu á qi gong og efla samstöðu iðkenda á Íslandi.  Hefur Aflinn helgað sig þessu verkefni síðan.

Stórt skref í kynningarstarfi félagsins var stigið í október 2013 þegar bókin Gunnarsæfingarnar kom út. Þar er lýst æfingakerfinu sem Gunnar Eyjólfsson þróaði og við höfum mörg ástundað í um tvo áratugi.

Þorvaldur Ingi Jónsson var helsti hvatamaður þess að bókin var skráð og hann hefur síðan tekið upp og bætt við myndbandi þar sem hann sýnir æfingarnar. Má sjá það á vefsíðunni aflinn.org sem Berglind Halldórsdóttir opnaði síðsumars árið 2013. Hefur hún haldið síðunni úti í tæp tvö ár að nokkru í samvinnu við stjórn Aflsins en alfarið að eigin frumkvæði og dugnaði.

Þakka ég Þorvaldi Inga og Berglindi áhuga þeirra á að miðla þekkingu um qi gong. Stjórn Aflsins ákvað að veita Þorvaldi Inga 90.000 kr. styrk vegna gerðar myndbandsins.

Fyrir nokkrum vikum ákvað stjórnin að opna Facebook síðu undir nafni Aflsins og höfum við sett efni inn á hana en hún er enn sem komið er fyrir lokaðan hóp og í þróun.

Á sínum tíma beitti félagi okkar Árni Zophaníasson sér fyrir komu kvikmyndagerðarmanns hingað í Efstaleiti og tók hann upp æfingarnar undir leiðsögn Gunnars Eyjólfssonar. Ég veit að Árni hefur áhuga á að það efni verði aðgengilegt öðrum og vonandi verður það fyrr en síðar og með stuðningi Aflsins sé hans þörf.

Kjarnastarf Aflsins var eins og áður hér í Efstaleiti á síðasta starfsári. Nú hefur annað árið í röð verið staðið þannig að vali leiðara hverju sinni að stuðst er við lista frá Viðari H. Eiríkssyni, ritara félagsins. Reynslan af þessu fyrirkomulagi er góð og hefur aldrei fallið niður tími þótt stundum hafi verið fámennt í vondum vetrarveðrum.

Síðastliðið haust var tekið upp það nýmæli að flýta æfingum hér mánudaga, miðvikudaga og föstudaga um fimm mínútur, til klukkan 08.05. Miðvikudaga og föstudaga hafa verið hér æfingar klukkan 07.00 á morgnana.

Félagar héðan úr Efstaleiti láta að sér kveða annars staðar eins og í Hafnarfirði og Garðabæ. Qi gong félagar hittast reglulega til æfinga í húsakynnum ÍSÍ í Laugardal. Þá hefur hugleiðsla undir merkjum Aflsins verið boðin í húsakynnum Krabbameinsfélagsins við Skógarhlíð.

Er mikils metið starf unnið á þessum stöðum og vil ég þakka öllum sem leggja þar sitt af mörkum.

Gunnar Eyjólfsson bauð fyrst hugleiðslu hjá Krabbameinsfélaginu árið 2007 og var þar tvisvar í viku 30 mínútur í senn með hóp fólks. Eftir að Gunnar dró sig í hlé erum við fjögur, en að mestu þrjú, sem skiptum tímunum á milli okkar. Er þetta vel metið af þeim 20 til 30 manna hópi sem þarna kemur og gefandi fyrir okkur sem leiðum.  Þau eru Þóra Halldórsdóttir, Ástþór Runólfsson og Þórir Sigurbjörnsson auk mín.

*

Vegna starfsins þarna hef ég fylgst nokkuð náið með umræðum um hugleiðslu í ýmsum erlendum fréttamiðlum. Á ensku tala menn um mindfulness í stað meditation og á íslensku um núvitund eða gjörhygli í stað hugleiðslu.

Öðru hverju birtast fréttir um áhrifamátt hugleiðslu og eru þær reistar á læknisfræðilegum rannsóknum. Ég ætla að nefna tvær.

Hinn 27. nóvember 2014 birtist á vefsíðunni sciencedaily.com frétt um nýja rannsókn við háskólann í Lundi sem sýndi að hóp-hugleiðsla væri eins áhrifarík og einstaklingsbundin hugræn atferlismeðferð fyrir þá sem haldnir eru þunglyndi og kvíða. Er þetta fyrsta könnunin af þessu tagi sem gerð hefur verið.

Hinn 21. apríl 2015 birti breska blaðið The Daily Telegraph frétt úr læknaritinu The Lancet um rannsókn í stofnun við Oxford-háskóla sem sýndi að hugleiðsla dygði jafnvel eða aðeins betur en þunglyndislyf í glímunni við þunglyndi. Þar var einnig um að ræða tilraun sem reist var á hóp-hugleiðslu. Segir læknir að rannsóknin leiði í ljós að þunglyndissjúklingar eigi annan kost en stöðuga lyfjanotkun til að takast á við veikindi sín auk þess sem mun hagkvæmara sé að leiða hóp í hugleiðslu en að hver og einn kaupi sinn lyfjaskammt undir forsjá læknis.

Qi gong er einstaklega áhrifarík aðferð til hugleiðslu ekki síður en aðferðir kenndar við núvitund eða gjörhygli. Þegar ég leiði hjá krabbameinsfélaginu nota ég þrjár æfingar úr Gunnarsæfingunum: 30 djúpa andardrætti sitjandi, stöðuna í fljótinu og hleðslu innri líffæra – alls tekur þetta um 25 mínútur og er mjög öflug hugleiðsla.

Raunar lít ég á Gunnarsæfingarnar sem 40 mínútna langa hugleiðslu og frekari læknisfræðilegar rannsóknir eiga aðeins eftir að sanna enn betur líkamlegt og sálrænt gildi þeirra.

*

Í lögum Aflsins segir að félagið muni leitast við að koma fram fyrir Íslands hönd gagnvart alþjóðasamtökum iðkenda qi gong og fá fulltrúa þeirra hingað til lands. Með ræktun sambands við erlenda meistara hefur stjórn félagsins unnið að framkvæmd þessa ákvæðis laganna.

Hér á fundinum er sérstakur liður þar sem kynnt verður námskeið sem Kenneth Cohen, qi gong meistari frá Bandaríkjunum, ætlar að halda hér í byrjun september. Nú eins og árið 2013 þegar Cohen kom hingað til lands undirbýr félagi okkar Þóra Halldórsdóttir heimsókn hans. Þakka ég henni áhuga og elju við þetta kynningarstarf en haustið 2014 stóð hún fyrir að dr. Yang, sem var hér á vegum Aflsins árið 2012, kæmi aftur til landsins.

*

 

Undanfarin sumur hafa æfingar verið utan dyra í Grasagarðinum í Laugardal og njóta þær vaxandi vinsælda.  Er stefnt að því að þær hefjist, ef veður leyfir, þriðjudaginn 9. júní klukkan 11.00 og verði tvisvar í viku á þessum tíma, þriðjudaga og fimmtudaga.  

 

Góðir fundarmenn!

Skýrsla mín verður ekki lengri. Ég vil þakka Elsu og Viðari gott samstarf í stjórninni á liðnu starfsári. Þótt starfsemin sé í föstum og góðum skorðum er ávallt að ýmsu að hyggja til að allt gangi snurðulaust.

Þá vil ég færa Sigurði Guðmundssyni, félaga okkar, sérstakar þakkir fyrir þá alúð sem hann sýnir Gunnari Eyjólfssyni með því að gera honum kleift að koma hingað og hitta okkur á morgnana. Það er vinarbragð við Gunnar en ekki síður greiði við okkur hin sem metum mikils að hafa sjálfan höfund Gunnarsæfinganna og meistara hér með okkur.

 

.