4.9.1998

Viðskiptaháskólinn tekur til starfa

4. september 1998
Viðskiptaháskólinn í Reykjavík

Við komum hér saman í dag á gleðilegum tímamótum í íslenskri skólasögu. Nýr háskóli er að taka til starfa, Viðskiptaháskólinn í Reykjavík. Ég óska öllum, sem að skólanum standa og í honum starfa, innilega til hamingju með þennan merka áfanga.

Ákvörðunin um að stofna þennan skóla einkennist af sönnum stórhug og einlægum vilja til að leggja mikið af mörkum í þágu góðrar menntunar. Hinn mikli áhugi nemenda á því að innrita sig í skólann sýnir, að hann hittir í mark.

Skólinn eykur enn fjölbreytni í háskólanámi. Hann fer inn á nýjar brautir. Áhrifa þeirrar stefnu, sem stjórnendur hans móta, mun gæta í öðrum menntastofnunum landsins. Háskólar starfa í harðnandi innbyrðis og alþjóðlegri samkeppni. Þeir verða að laga sig að hertum kröfum nemenda og atvinnulífs.

Starfshættir háskóla eru sífellt að breytast. Þeir eiga senn að veita klassíska menntun byggða á rannsóknum og vera þátttakendur í átökum líðandi stundar. Leggja sitt af mörkum til breytinga í iðandi þjóðlífi. Nýta sér alla kosti þekkingar- og upplýsingasamfélagsins án þess að missa sjónar á forsendum framfara, áræði einstaklingsins og frelsi hans til athafna.

Að baki Viðskiptaháskólans í Reykjavík standa helstu talsmenn einkaframtaksins í Verslunarráði Íslands. Ráðið hefur staðið að rekstri Verslunarskólans með miklum glæsibrag. Innan þess skóla varð vísirinn að Viðskiptaháskólanum til undir merkjum hinnar nýju tækni upplýsingasamfélagsins, tölvunarfræðinnar.

Við þetta tækifæri vil ég fara fáeinum orðum um aðdraganda að stofnun skólans frá mínum bæjardyrum séð.

Þorvarður Elíasson, skólastjóri Verslunarskólans, sótti málið helst gagnvart mér. Hann hefur verið óþreytandi við að hrinda háskólahugsjóninni í framkvæmd. Líklega þarf ekki að fara mörgum orðum um það í þessum hópi, hve mikill málafylgjumaður Þorvarður er. Á einu stigi málsins greip hann til dæmis til þess ráðs að bregða sér í ráðuneytið með gyllta skóflu og sagði hana bíða þess eins, að ég tæki fyrstu stunguna fyrir hið nýja skólahús.

Í stuttu máli sagt hefur verið ævintýri líkast að sjá hugsjónina um nýjan háskóla breytast fyrst í byggingu og síðan þann lifandi veruleika, sem blasir við hér í dag. Er ótrúlegt, að þetta skuli allt hafa gerst á þeim stutta tíma, sem liðinn er síðan fyrsta skóflustungan var tekin 7. apríl 1997. Hefur hér enn sannast, hverju einkaframtakið áorkar, sé því gefið svigrúm og frelsi.

Helst sneri að menntamálaráðuneytinu að tryggja svigrúmið, veita hina opinberu heimild til að hefjast handa. Frá fyrsta degi viðræðna okkar Þorvarðar sagðist ég vilja hafa skýrt umboð frá Alþingi, svo að ég gæti veitt skólanum öruggt starfsleyfi. Til þess þurfti að setja ný lög og innan ráðuneytisins var samið frumvarp til laga um háskóla. Með samþykki ríkisstjórnarinnar var það kynnt á Alþingi um svipað leyti og fyrsta skóflustungan að Viðskiptaháskólanum var tekin. Síðan endurflutt haustið 1997 og samþykkt fyrir síðustu jól. Fyrsta íslenska heildarlöggjöfin um háskóla tók gildi 1. janúar 1998.

Með lögunum er einkaaðilum heimilað að stofna háskóla að fengnu samþykki menntamálaráðherra, veitir hann slíkum skóla starfsleyfi og hefur ráðherrann einnig heimild til að gera við skólann samning um að hann annist tiltekna menntun á háskólastigi gegn því að ríkissjóður greiði ákveðna fjárhæð fyrir þjónustuna.

Árni Árnason, formaður skólanefndar Verslunarskóla Íslands, og Friðrik Sophusson, þáverandi fjármálaráðherra, rituðu ásamt mér undir samning um rekstur háskóla hinn 12. desember 1997. Síðan staðfesti menntamálaráðuneytið skipulagsskrá fyrir sjálfseignarstofnun Verslunarráðs Íslands um viðskiptamenntun 29. maí síðastliðinn, en þar er Viðskiptaháskólanum í Reykjavík markaður sess. Í dag hef ég síðan gefið út starfsleyfi fyrir hinn nýja skóla, enda uppfyllir hann öll skilyrði nýju laganna um háskóla.

Góðir áheyrendur!

Guðfinna Bjarnadóttir, rektor Viðskiptaháskólans í Reykjavík, fyrsta íslenska konan, sem stjórnar háskóla, hefur sagt, að nemendur verði númer eitt í skólanum. Þannig á það líka að vera. Skólar eru til vegna nemendanna. Markið fyrir kennara og aðra starfsmenn er því sett hátt.

Kæru nemendur.

Þegar ég var í háskóla fyrir þrjátíu árum og lærði lögfræði, komst einn þingmanna þannig að orði í ræðu á Alþingi: 6Maður, sem hefur fjármálavit, hefur ekkert að gera með að læra hagfræði. Ég hef ekki orðið var við, að þessir viðskiptafræðingar okkar hafi gert miklar rósir á viðskiptasviðinu. Okkar bestu verslunarmenn hafa aldrei farið í viðskiptaháskóla. Hvað á maður, sem hefur fjármálavit, að gera með að dunda í þessu?"

Og nú eruð þið að fara að dunda í þessu, ágætu nemendur, en slíkar raddir heyrast ekki lengur um viðskiptanám og alls ekki á Alþingi. Að okkar bestu verslunarmenn stofna nú Viðskiptaháskólann í Reykjavík, sýnir þörfina fyrir vel menntað fólk í þeim greinum, sem þið ætlið að læra.

Menntun er mikils virði og ómetanleg á öllum sviðum. Hún er verðmæti, sem verður aldrei frá okkur tekið, hvað sem á reynir. Notið því æskuárin vel til að afla ykkur góðrar menntunar.

Þetta er stór stund í íslenskri skólasögu en stærst er hún fyrir þá, sem hér eru að hefja skólagöngu í dag og stíga heillaspor til eigin framtíðar.

Innilega til hamingju með daginn. Til hamingju með Viðskiptaháskólann í Reykjavík.