29.8.1998

Samvinnuháskólinn 10 ára - Bifröst

29. ágúst 1998

Samvinnuháskólinn á Bifröst
Í rúm þrjú ár hef ég starfað í húsinu við Sölvhólsgötu, þar sem Samvinnuskólinn var lengst, áður en hann fluttist hingað að Bifröst. Færi ég heillaóskir og góðar afmæliskveðjur úr gamla skólahúsinu. Við gafl þess er brjóstmynd af Jónasi Jónssyni frá Hriflu, stofnanda skólans, sem minnst er sérstaklega hér í dag.

Í hinni miklu ævisögu sinni um Jónas frá Hriflu segir Guðjón Friðriksson, að andstæðingum samvinnuhreyfingarinnar hafi runnið kalt vatn milli skinns og hörunds, þegar þeim var hugsað til Samvinnuskólans, þeim hafi staðið ógn af stóra hvíta húsinu austur undir Skuggahverfi, sérstaklega þó manninum á efstu hæðinni, þar sem skólinn var og Jónas bjó. Vafalaust stendur einhverjum enn ógn af þeim, sem stjórna í þessu stóra húsi.

Hvað sem því líður fer vel um menntamálaráðuneytið í gömlum höfuðstöðvum samvinnuhreyfingarinnar, ráðuneyti eru föst í sessi án tillits til húsbænda, húsnæðis eða heimilisfangs. Tilvist skóla er á hinn bóginn ekki eins örugg, margir skólar, sem rekja má til Jónasar Jónssonar, eru nú aðeins hluti af skólasögunni vegna breytinga í þjóðfélagi okkar. Það á hins vegar ekki við um Samvinnuskólann, honum hefur á farsælan hátt tekist að endurskilgreina hlutverk sitt sem einkarekinn háskóli, hann stendur öflugur á eigin fótum og laðar til sín nemendur og kennara.

Er gleðilegt hve vel hefur tekist hér á Bifröst að skapa lífvænlega og glæsilega umgjörð um Samvinnuskólann og nú síðustu 10 ár arftaka hans, Samvinnuháskólann.

Saga skólans og metnaðarfull þróun hans sýnir, að þéttbýli er ekki forsenda fyrir því að byggja upp gott menntasetur. Höfuðmáli skiptir að bregðast við breytingum og nýjum kröfum á réttan hátt. Þetta hafa forystumenn skólans hér á Bifröst skilið og kunnað.

Í janúar 1997 birtist úttekt hlutlausra aðila á vegum menntamálaráðuneytisins á starfsemi Samvinnuháskólans á Bifröst og samanburður var gerður við aðra skóla, sem veita viðskipta- og rekstrarfræðimenntun. Kennarar og nemendur hér á Bifröst geta vel við þann samanburð unað. Skólanum er hælt fyrir nútímalega kennsluhætti, vel útfært skipulag, skýra, vel afmarkaða og trúverðuga stefnu, námsefnið er sagt í stöðugri endurnýjun og í takt við nýja strauma og bent er á, að áhersla sé lögð á að kynna hagnýta notkun í upplýsingatækni, loks er kennslufræðilegri uppbyggingu námsins lýst þannig, að hún sé mjög til fyrirmyndar. Um nemendur er sagt, að þeim gangi vel að fá vinnu, eftir þeim sé sóst, áður en þeir ljúka námi.

Allt hnígur þetta að þeirri niðurstöðu, að hér sé rekinn góður skóli. Þar að auki er hann fyrirmynd að ýmsu öðru leyti. Ég nefni þrennt. Í fyrsta lagi sést hér, hve miklu skiptir fyrir hina dreifðu byggð, að þar starfi hópur vel menntaðra einstaklinga. Starfsemin hér á Bifröst er til þess fallin að treysta almennar forsendur búsetu í Borgarfirði. Í öðru lagi hafa kennarar og nemendur skólans lagt sig fram um að tengja nám og atvinnulíf. Skólinn er virkur þátttakandi í atvinnulífinu bæði þegar litið er til næsta nágrennis hans og landsins alls. Í þriðja lagi hefur með starfi skólans verið sýnt og sannað, að einkarekinn háskóli dafnar utan þéttbýlis hér á landi, og það þótt skólagjöld séu há á okkar mælikvarða. Slíka þröskulda eru nemendur fúsir til að fara yfir, af því að þeir átta sig á gildi hinnar góðu menntunar, sem er í boði.

Samkeppni um nemendur á starfssviði Samvinnuháskólans eykst jafnt og þétt og nú síðast með nýjum Viðskiptaháskóla í Reykjavík, sem einnig er einkarekinn. Nýja upplýsingatæknin skapar háskólum hér gjörbreytt starfsumhverfi eins og hvarvetna annars staðar. Er ljóst, að stjórnendur Samvinnuháskólans átta sig á á þessum breytingum . Þeir kynna nú áform um fjarkennslu og þátttöku í miðstöð símenntunar á Vesturlandi. Hvort tveggja er í góðu samræmi við hina byltingarkenndu þróun í skólamálum, þar sem skólinn kemur frekar til nemandans en nemandinn í skólann.

Um þessar mundir er unnið að því að hrinda nýrri skólastefnu í framkvæmd undir kjörorðinu: Enn betri skóli. Tekur stefnan til þriggja fyrstu skólastiganna, leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Með nýjum námskrám, nýju námsefni og meiri endurmenntun kennara verður lagður enn betri grunnur að háskólanámi. Rökrétt framhald af framkvæmd hinnar nýju skólastefnu fyrir þrjú fyrstu skólastigin er að gera sambærilegt átak á háskólastiginu og efla enn frekar rannsóknir og vísindi.

Tíu ár eru nú liðin frá því að kennsla á háskólastigi hófst hér á þessum stað. Ég er þeirrar skoðunar, að af opinberri hálfu hafi þessu háskólanámi ekki verið búið hæfilegt öryggi eða eðlileg lagaleg umgjörð fyrr en í upphafi ársins 1998, það er 1. janúar síðastliðinn, þegar almenn löggjöf um háskólastigið tók gildi. Þar eru tekin af öll tvímæli um, að einkaaðilum er heimilt að stofna háskóla að fengnu samþykki menntamálaráðherra. Hin nýju lög skapa Samvinnuháskólanum nýjar og betri forsendur og auðvelda honum öll samskipti við aðrar menntastofnanir innan lands og utan. Í þeim er einnig mælt fyrir um höfuðþætti í samningi einkarekinna háskóla við menntamálaráðuneytið og forsendur fyrir greiðslum úr ríkissjóði til skólanna.

Samvinnuháskólinn á Bifröst hefur áunnið sér öruggan sess á háskólastigi. Hann nýtur viðurkenningar og trausts menntamálaráðuneytsins og hlýtur að eflast enn frekar , sé honum áfram stjórnað af framsýni og festu. Stjórnendum hans á ekki að þurfa að renna kalt vatn milli skinns og hörunds, þegar þeir hugsa til þeirra, sem nú starfa í stóra hvíta húsinu austur undir Skuggahverfi.

Því til staðfestingar og til að árétta heillaóskir mínar til skólans vil ég biðja Jónas Guðmundsson rektor um að taka við þessu umslagi, en í því er ávísun á fjárhæð, sem vonandi auðveldar skólanum nokkuð að nýta hina nýju upplýsingatækni í þágu menntunar.