18.12.2001

Að læra af sögunni -ritdómur um bók Vals Ingimundarsonar


Ritdómur í Morgunblaðinu 18. desember 2001.

Uppgjör við umheiminn,
Höfundur: Valur Ingimundarson.
Vaka-Helgafell 2001. 421 bls.



Dr. Valur Ingimundarson gaf árið 1996 út bókina Í eldlínu kalda stríðsins um samskipti Íslands og Bandaríkjanna 1945-1960 og sendir nú frá sér framhald hennar undir heitinu Uppgjör við umheiminn, samskipti Íslands og Bandaríkjanna og NATO 1960-1974, íslensk þjóðernishyggja, vestrænt samstarf og landhelgisdeilan. Nafn bókarinnar rökstyður Valur með því, að árið 1973 hafi Íslendingar að nýju gert upp við umheiminn eins og 1949 og 1951, þegar þrjú mál sköruðust í fyrsta sinn: landhelgismálið, hermálið og NATO-aðildin. Hann segir í lok bókar sinnar: „Því uppgjöri lauk að hluta til með stjórnarskiptunum árið 1974, en ekki að fullu fyrr en eftir þorskastríðið við Breta árið 1976. Í þessu uppgjöri var aftur tekist á um grundvallarhagsmuni: eðli tengsla Íslands við vestræn ríki; aftur var öllum tiltækum vopnum beitt í þessari pólitísku baráttu og aftur lauk uppgjörinu með sigri þeirra þjóðfélagsafla sem vildu náin tengsl við Bandaríkin og bandalagsríkin í NATO.“

Niðurstaða Vals er með öðrum orðum sú bæði í fyrri bók hans og hinni síðari, að þeir hafi orðið undir í deilunni um íslensk utanríkis- og öryggismál, sem héldu fram málstað einangrunar frá vestrænum ríkjum og vildu slíta samstarf við þau í varnarmálum. Þessa niðurstöðu sína byggir Valur á rannsóknum í skjalasöfnum á Íslandi, Bandaríkjunum, Belgíu, Bretlandi og Kanada. Auk stjórnarráðsskjala leitar hann heimilda í gögnum félagasamtaka, stjórnmálaflokka, flokksblaða og tímarita. Hann leggur ekki upp úr viðtölum af ráðnum hug, eins og hann orðar það, þótt hann hafi leitað til einstakra þátttakenda í atburðum áranna til að afla frekari upplýsinga. Segist hann ekki hafa sérstaklega góða reynslu af viðtölum við slíka þátttakendur, minnið sé ekki aðeins brigðult heldur hafi breyttur tíðarandi bein áhrif á sögulegar minningar, þeir hafi eitt þröngt sjónarhorn. sem oft og tíðum markist af því að þeir hafi ekki upplýsingar frá öðrum hliðum. Þetta skal ekki dregið í efa en minnt á hitt, að skjallegar heimildir segja ekki alla söguna heldur og í stjórnkerfinu eru frásagnir stundum ekki síður samdar til að styrkja stöðu höfundarins innan kerfisins en veita hlutlægar upplýsingar. Fræðilegri könnun á þessum hluta Íslandssögunnar lýkur ekki fyrr en allar tiltækar heimildir hafa verið skoðaðar.

Í bókinni snúast 94 blaðsíður um tímabilið frá 1960 til 1971, það er viðreisnaráratuginn, þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks sat við völd. Á 146 blaðsíðum er gefin lýsing á uppnáminu, sem ríkti árin 1971 til 1974 í tíð fyrsta ráðuneytis Ólafs Jóhannessonar með þátttöku Framsóknarflokks, Alþýðubandalags og Samtaka frjálslyndra og vinstri manna. Í inngangi gerir höfundur grein fyrir efnistökum sínum og dregur síðan saman niðurstöður í lokin og fellir þær að nokkrum fræðilegum kenningum, sem eru honum leiðarljós við greininguna. Hér verður ekki fjallað sérstaklega um þennan fræðilega þátt, enda ekki forsendur til þess, þótt sú skoðun skuli látin í ljós, að þessi greining er til leiðbeiningar fyrir leikmann, þótt stundum virðist næsta langt seilst til að fella atburðarásina að kenningunum, einkum varðandi póstmódernismann og „kvenbundar myndir“ af dvöl Bandaríkjahers gagnvart „karllægum þjóðernisáróðri“.

*

Þegar þessi saga er lesin, blasir við, að samskipti íslenskra og bandarískra stjórnvalda hafa þróast og slípast á tveimur meginforsendum:

Í fyrsta lagi er hin pólitíska umgjörð varnarsamstarfsins skýr. Af hálfu Bandaríkjamanna var aldrei hreyft neinum efasemdum um pólitískt og hernaðarlegt gildi þess, að eiga tvíhliða varnarsamstarf við Íslendinga. Bandarísk stjórnvöld hafa leitast við að koma til móts við óskir ríkisstjórna Íslands í flestu tilliti, en þau hafa oftar en einu sinni staðið frammi fyrir því, að afstaða íslenskra stjórnmálamanna mótast ekki af gæslu öryggishagsmuna þjóðar sinnar heldur valdabaráttu heima fyrir. Sendiherrar Bandaríkjanna hafa einnig dregist inn í átök milli stjórnmálaflokka, sem í raun eiga ekkert skylt við eðli og efni varnarsamningsins eða samskipti Íslands og Bandaríkjanna.

Í öðru lagi létu íslensk stjórnvöld sér almennt í léttu rúmi liggja, hvað gerðist hernaðarlega í Keflavíkurstöðinni. Innan íslenska stjórnarráðsins var lítil ef nokkur sérfræðileg þekking á hernaðarstefnu NATO og framkvæmd hennar og aðgangur að öllum herfræðilegum upplýsingum hér á landi var takmarkaður, því að innra öryggiskerfi ríkisins samræmdist ekki kröfum NATO um þetta efni fyrr en á sjöunda áratugnum. Örfáir íslenskir stjórnmálamenn og embættismenn hafa í tímans rás lagt sig eftir þekkingu, sem dugar til að leggja sjálfstætt mat á þróun öryggismála frá hernaðarlegum sjónarhóli og ræða þau þannig á rökstuddum, íslenskum forsendum við annarra þjóða menn. Er í raun dapurlegt að kynnast því af frásögn Vals, hve þeir Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra og Einar Ágústsson utanríkisráðherra voru bjargarlausir í viðræðum um þessi mál við erlenda starfsbræður sína. Varnarleysisstefna vinstri stjórnarinnar 1971 til 1974 byggðist á andúð á Sjálfstæðisflokknum og Alþýðuflokknum. Stefnan gekk á hinn bóginn þvert á hernaðarlega þróun á Norður-Atlantshafi, þar sem mikilvægi Íslands jókst í réttu hlutfalli við vaxandi flug- og flotaumsvif Sovétríkjanna. Spyrja má: hvaða minningu skilur röklítil kröfugerð af hálfu íslenskra stjórnvalda árin 1971 til 1974 eftir innan bandaríska stjórnkerfisins eða á vettvangi NATO? Þótt enginn forystumaður íslenskra stjórnmála þessa tíma sé enn virkur á stjórnmálavettvangi, má geta þess, að Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, var til dæmis fastafulltrúi lands síns hjá NATO á þeim árum, þegar harðast var tekist á um varnarsamninginn og útfærslu landhelginnar í 50 sjómílur 1972 og kom hann verulega við sögu, þegar leitast var við að miðla málum á vettvangi NATO.

*

Af frásögn Vals blasir við, að allt frá því að bandaríski flotinn tók við rekstri Keflavíkurstöðvarinnar af flughernum árið 1961, hafa íslenskir ráðamenn, sem bera hag varnarsamstarfs þjóðanna fyrir brjósti, haft af því ábyggjur, að Bandaríkjamenn kunni að kalla orrustuþotur sínar frá Íslandi. Þær eru taldar sýnilegasta táknið fyrir Íslendinga um að land þeirra sé varið, þótt í hugum Bandaríkjamanna skipti kafbátavarnir frá Íslandi meginmáli. Þegar rætt er um orrustuþoturnar og veru þeirra hér, má ekki gleyma því, að hin öfluga þyrlubjörgunarsveit varnarliðsins er hér einkum vegna þeirra, en eins og nýlega kom fram eftir frækilegt björgunarafrek hennar, hafa starfsmenn sveitarinnar bjargað 300 mannslífum, á þeim tíma, sem hún hefur starfað hér.

Sérstaklega var talið fréttnæmt vegna bókar Vals, að á Keflavíkurflugvelli hefði verið reist afskekkt bygging, sem mátti nota til að geyma kjarnorkudjúpsprengjur fyrir kafbátaleitarvélar á sjöunda áratugnum. Var við öðru að búast, en þessar ráðstafanir hefðu verið gerðar miðað við hernaðarlegan viðbúnað á þessum tíma? Á hinn bóginn vita þeir, sem hafa verið í nálægð við geymslustaði fyrir kjarnorkuvopn, að aldrei hefur verið gripið til þeirra öryggisráðstafana í Keflavíkurstöðinni, sem einkenna slíka staði. Raunar segir Valur, að hann hafi ekki fundið vísbendingar um, að kjarnorkuvopn hafi verið hér á landi.

Valur lýsir ýmsum þáttum í samskiptum Íslendinga og varnarliðsins eins og vegna dvalar blökkumanna á Keflavíkurflugvelli og deilunum vegna Keflavíkursjónvarpsins auk þess sem hann rekur, hve fast íslensk stjórnvöld stóðu á hinum ströngu útvistarreglum liðsmanna í Keflavíkurstöðinni. Allt eru þetta börn síns tíma og segja meira um íslenskt þjóðfélag en Bandaríkjamenn og ótta okkar Íslendinga við samneyti við annarra þjóða menn. Getum við fetað okkur þannig áratugi og árhundruð aftur í tímann og undrast þær grillur, sem menn gerðu sér vegna hluta, sem þykja skrýtilegir nú á tímum, en skiptu áður miklu.

*

Á tímum viðreisnarstjórnarinnar í þingkosningum 1967 naut Framsóknarflokkurinn góðs gengis og fékk 28,1% atkvæða, en þá var Eysteinn Jónsson, formaður flokksins, og hallaðist hann æ meira til vinstri, einkum í utanríkismálum, fyrir þrýsting háværs hóps meðal ungra framsóknarmanna, sem laut forystu Ólafs Ragnars Grímssonar. Eysteinn vék úr formennsku í flokknum 1968 fyrir Ólafi Jóhannessyni, sem leitaðist við að sætta hina ólíku arma flokksins og stjakaði Ólafi Ragnari og félögum úr flokknum. Sama flokksþing og kaus Ólaf Jóhannesson formann samþykkti, að samið yrði við Bandaríkjamenn um brottför varnarliðsins á fjórum árum. Varð þannig samhljómur milli framsóknarmanna og Alþýðubandalagsmanna í andstöðu við Bandaríkjamenn og varnarsamstarfið á sama tíma og vaxandi óþreyju gætti í flokkunum eftir að komast í ríkisstjórn. Hannibal Valdimarsson klauf sig út úr Alþýðubandalaginu 1969 og stofnaði Samtök frjálslyndra og vinstri manna, sem einnig voru andvíg varnarsamstarfinu á þessum tíma. Í kosningabaráttunni vorið 1971 sameinuðust framsóknarmenn og alþýðubandalagsmenn um einhliða útfærslu landhelginnar í 50 sjómílur 1. september 1972 og síðar gerðist flokkur Hannibals aðili að þessu samkomulagi. Stjórnarandstöðuflokkarnir voru einnig þeirrar skoðunar, að hinn 10 ára gamli samningur viðreisnarstjórnarinnar við Breta um lausn deilunnar vegna útfærslu landhelginnar í 12 mílur, hefði verið svik við málstað þjóðarinnar. Þegar þessir þrír vinstri flokkar mynduðu ríkisstjórn að kosningum loknum, var einsýnt, að þeir mundu vinna að því að ná þessu tvíþætta markmiði í utanríkismálum, að færa einhliða út landhelgina og semja við Bandaríkjamenn um brottför varnarliðsins eða hugsanlega rifta varnarsamningnum einhliða.

Meginefni bókar Vals Ingimundarsonar fjallar eins og áður sagði um uppgjörið, sem varð vegna þessarar stefnu. Markmiðið náðist í landhelgismálinu en nýttist flokkunum þremur ekki sem skyldi til pólitísks framdráttar. Í fyrsta lagi vegna þess að samningurinn, sem Ólafur Jóhannesson gerði við Edward Heath, forsætisráðherra Breta, um lausn deilunnar haustið 1973, rauf trúnað milli framsóknarmanna og alþýðubandalagsmanna í ríkisstjórninni. Í öðru lagi þar sem þingflokkur sjálfstæðismanna tók árið 1973 af skarið um, að fiskveiðilögsögan yrði færð út í 200 sjómílur. Var það gert 15. október 1975.

Í þingkosningunum 1974 vann Sjálfstæðisflokkurinn góðan sigur og jók fylgi sitt um rúm 6% í 42,7% en flokkurinn barðist gegn varnarleysisstefnu vinstri stjórnarinnar, eftir að hafa verið andvaralaus í varnarmálum fyrir kosningar 1971 og tapað umræðunum um landhelgismálið þá. Snemma árs 1974 rituðu 55.522 kjósendur (ekki 55.222 eins og segir í bók Vals) undir áskorun Varins lands gegn brottför varnarliðsins, sem sýndi pólitískt haldleysi varnarleysisstefnunnar.

Heimildir Vals og mat hans sjálfs hnígur að því, að landhelgisdeilan hafi ógnað varnarsamstarfinu við Bandaríkjamenn og jafnvel aðildinni að NATO. Hafi svo verið, bendir stuðningur við Varið land og Sjálfstæðisflokkinn til þess, að á fáeinum mánuðum hafi afstaðan breyst vestrænu varnarsamstarfi í vil. Frá 1974 hefur engin ríkisstjórn haft brottför varnarliðsins eða úrsögn úr NATO á stefnuskrá sinni.

*

Allir eiga að vita, að þeir, sem læra ekki af sögunni, munu fyrr eða síðar lenda í ógöngum. Þann lærdóm má í fyrsta lagi draga af sögunni, sem Valur Ingimundarson segir í þessari bók, að það er tvíbent og hættulegt fyrir stjórnmálaflokk að fara af stað með mál, sem snertir lífshagsmuni þjóðarinnar út á við, ef sundrung er um málið innan hans. Er þá betur heima setið en af stað farið, eins og sést best á óförum Framsóknarflokksins við að framkvæma varnarleysisstefnuna 1971-1974. Að lokum varð það ekki höfuðmarkmið Ólafs Jóhannessonar að semja við Bandaríkjamenn í anda stjórnarsáttmála ríkisstjórnar sinnar heldur að slökkva þann eld, sem hann sjálfur kveikti við myndun stjórnarinnar, og var ekki aðeins að granda ríkisstjórninni heldur sjálfum Framsóknarflokknum.

Í öðru lagi er ekki unnt að leiða mál til lykta í viðræðum við annarra þjóða menn, ef samningsmarkmið og leiðir að þeim hafa ekki verið skilgreind og tryggt að þau njóti stuðnings á heimavelli. Framganga einstakra manna í ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar í viðræðum út á við um landhelgismálið og varnarmálin er með miklum eindæmum. Utanríkisráðherra gat oft ekki sagt neitt um stefnu ríkisstjórnarinnar í varnarmálum í viðræðum við erlenda starfsbræður og leitaði jafnvel ráða um það hjá bandaríska sendiherranum í Reykjavík, hvernig hann ætti að haga eigin málflutningi. Sendiherrar Íslands voru án fyrirmæla á mikilvægum fundum, til dæmis í NATO. Ráðaleysi stjórnmálamannanna og sjálfsbjargarviðleitni stjórnarerindreka varð til þess, að í sumum tilvikum gengu þeir lengra í túlkun sinni á stefnu ríkisstjórnarinnar en umboð þeirra heimilaði.

Í þriðja lagi veldur brotthvarf flokksmálsgagna á borð við Tímann, Þjóðviljann og Alþýðublaðið því, að allar opinberar umræður verða bragðdaufari en ella og sagnfræðingar missa heimildir, sem gegna til dæmis miklu hlutverki í þessari bók Vals Ingimundarsonar. Morgunblaðið kemur þó enn fyrir sjónar okkar, en framganga þess í varnar- og öryggismálum setur sterkan svip á þessa sögu alla. Stundum er látið að því liggja, að nú séu aðrir og betri tímar fyrir Morgunblaðið en á árum kalda stríðsins. Flest rennir á hinn bóginn stoðum undir þá skoðun, að einörð afstaða Morgunblaðsins gegn varnarleysisstefnu vinstri stjórna og í þágu íslenskra öryggishagsmuna á tímum kalda stríðsins verði talin sanna best mikilvægt hlutverk blaðsins á síðari helmingi tuttugustu aldarinnar, þegar Íslendingar urðu virkir þátttakendur í alþjóðastjórnmálum og urðu að gera upp við sjálfa sig stöðu sína á alþjóðavettvangi.

Í fjórða lagi sýnir þessi saga Vals, að Íslendingar eiga annars konar hagsmuna að gæta gagnvart Bandaríkjunum en Evrópuþjóðum. Innan íslenska stjórnkerfisins og meðal stjórnmálamanna er fyrir hendi meiri og betri reynsla af vinsamlegum, tvíhliða samskiptum um viðkvæm hagsmunamál þjóðarinnar við Bandaríkin en nokkurt annað ríki. Þetta nána, tvíhliða samstarf Íslands og Bandaríkjanna kæmi væntanlega til róttækrar endurskoðunar, ef Íslendingar ákvæðu að gerast aðilar að Evrópusambandinu.

*
Valur Ingimundarson sýnir mikla og lofsverða elju með þeim frumrannsóknum, sem búa að baki bóka hans, Ísland í eldlínu kalda stríðsins og Uppgjör við umheiminn. Hann sækir efnivið í mikilvægar heimildir, sem hafa ekki verið kannaðar með íslenskum augum áður og nær vel utan um það efni, sem er andlag rannsókna hans. Valur leggur kapp á að bregða upp sem víðastri mynd af innlendri stjórnmálaþróun með utanríkismál og einkum samskiptin við Bandaríkin að leiðarljósi. Efnið setur hann fram með hliðsjón af fræðilegum greiningarkenningum og textinn er ef til vill ekki alltaf árennilegur fyrir þann, sem þekkir lítið eða ekkert til málavaxta. Oft er mikið sagt í fáum orðum, enda efniviðurinn meiri en rými leyfir.

Með bókinni Uppgjör við umheiminn opnar Valur Ingimundarson okkur sýn á hluta íslenskrar stjórnmálasögu, sem hefur lítt eða alls ekki verið fyrr kannaður. Hann segir fyrsta orð sagnfræðings um marga þætti þessarar sögu en ekki endilega hið síðasta, því að marga þræði má rekja dýpra og vafalaust skýra í öðru ljósi. Það er mikils virði, að gengið sé til uppgjörs á samtímasögu okkar Íslendinga af jafnmiklum krafti og Valur gerir, án þess að draga nokkuð undan af því, sem hann telur máli skipta.