2.12.2001

Aðventukvöld í Lágafellskirkju



Aðventukvöld,
Lágafellskirkju,
2. desember 2001,



Þegar við hugsum til jólanna minnumst við þess, sem er okkur kærast, og bregður birtu yfir líf okkar og reynslu. Fagnaðarboðskapur hátíðarinnar, vitundin um samveru með fjölskyldu og vinum og ljósin, sem varpa birtu á skammdegið, ilja okkur um hjartarætur og styrkja.

Þegar mér var boðið að koma hingað í kvöld og ávarpa ykkur hér að Lágafelli við upphaf aðventu hvarflaði hugur minn til þess, þegar ég ók oftar en einu sinni framhjá staðnum með föður mínum á sínum tíma og hann sagði mér frá stórbúi Thors Jensens að Korpúlfsstöðum, örlögum þess búskapar og benti mér síðan á húsið hér við hliðina, þar sem þau Thor og Margrét Þorbjörg kona hans hefðu búið síðustu ár farsæls hjónabands síns. Þau hjónin voru þjóðkunn og áttu ellefu uppkomin börn, og setja margir afkomendur þeirra svip á samtímann, eins og við vitum.

Faðir minn dáðist af Thor Jensen og til marks um það vitna ég í minningargrein, sem hann ritaði um Ólaf Thors son þeirra hjóna. Þar segir meðal annars:

„Þau Thor Jensen og Margrét Þorbjörg Kristjánsdóttir felldu hugi saman og giftust hinn 21. maí 1886. Thor Jensen varð einhver mesti, ef ekki mesti framkvæmdamaður, sem á Íslandi hefur lifað, frumkvöðull um innlenda verzlun, í útgerð, í ræktun og um menningarlega meðferð mjólkur. Hann var maður óvenjulega hugmyndaríkur, frábær reikningsmaður og undi sér helzt ekki nema hann stæði í stórframkvæmdum. Þau tæp 600 ár, sem samband Íslands og Danmerkur stóð, hefur trauðlega önnur betri sending komið hingað frá Danmörku en Thor Jensen. Margrét Þorbjörg var kona föst fyrir, rólynd og eiginmanni sínum hollur ráðgjafi.“

Þakklætið, sem í þessum orðum felst, til hins mikla athafnamanns er augljóst, og held ég, að fáir menn hafi betur opnað augu Íslendinga fyrir því, hve miklu einn maður fær áorkað með dugnaði sínum og þrautseigju en einmitt Thor Jensen, því að hann hófst til auðs og áhrifa á eigin forsendum og gafst aldrei upp, þótt móti blési. Lét hann að sér kveða, þegar losnaði um hin gömlu atvinnuhöft og nýtti sér tækifæri breytinganna með einstökum hætti.

Thor Jensen er að sjálfsögðu best þekktur fyrir athafnasemi sína en í kvöld vil ég beina athygli að annarri hlið á honum eins og henni er lýst í ævisögu hans af Valtý Stefánssyni, ritstjóra Morgunblaðsins:

„Fyrst er ég kynntist þeim hjónum, undraðist ég (segir Valtýr) það með sjálfum mér, hve nákvæmur hann var og kurteis í allri framkomu við konu sína. Á tímabili var mér nær að halda, að kurteisi hans og blíða í hennar garð gætu verið sprottin af einskonar fyrirtekt eða tilgerð. Ég hafði aldrei áður kynnzt manni, sem kominn var á áttræðisaldur, er daglega var tilbúinn, við hvert tækifæri sem honum gafst, að hrósa konu sinni, dást að henni og sýna í verki, hve mikils hann mat hana í öllum greinum. Með kurteisum, hæverskum tilsvörum, rétt eins og þau væru nýtrúlofuð, eftir um það bil 60 ára hjónaband. En að því kom, að ég varð að játa með sjálfum mér, að allar grunsemdir mínar voru á misskilningi byggðar. Allt smátt og stórt, sem kom fram á varir hans um ágæti húsmóðurinnar, og hve mikils hann mat hana, hve innilega hann tók þátt í öllum hennar málum, var runnið frá hjarta hans og sannfæringu. Þegar ég eitt sinn átti tal við hann um hið innilega samband þeirra hjóna, lýsti hann því með þessum orðum og lagði áherzlu á þau:

„Allt það, sem ég aðhafðist í lífinu og nokkru máli skipti fyrir mig og störf mín, var mótað af hennar anda. Það var hún, sem gaf mér styrkinn til að leggja út í stórræðin. Án hennar aðstoðar þótti mér ég vera hjálparvana og einmana, nærri að segja bjargarlaus í lífinu.““

Valtýr lýsir því í bók sinni, hve mjög það tók á Thor Jensen, þegar Margrét Þorbjörg andaðist hinn 14. október 1945. Hann treysti sér ekki í útförina heldur sat hér heima og hlustaði á hana í útvarpi og var þessi einbeitti maður þá lengi á eftir svo yfirkominn af harmi og trega, að honum svipaði að vissu leyti til ósjálfbjarga barns. Ævisögu Thors Jensens lýkur með eftirmála hans sjálfs þar sem hann segir meðal annars:

„Nú þegar ég hef látið af störfum og bíð þess eins að hérvist minni sé lokið, en hef nýlega orðið fyrir lífs míns óbætanlegustu sorg, að hún er horfin frá mér, sem var mér dýrmætari en sjálft lífið í brjósti mér, er það mín heitasta ósk, að öll minnisblöðin mín, allt líf mitt og ævisaga, geti borið þess gleggst merki, hvernig góð íslenzk eiginkona getur neytt krafta sinna til stuðnings manni sínum, aukið víðsýni hans í málefnum þjóðarinnar og örvað hann til að rétta bágstöddum hjálparhönd.... Forsjónin gefi, að sem flestar konur landsins megi að því er snertir gáfur og mannkosti sem mest líkjast henni, sem stóð við hlið mér um 60 ára skeið. – Rætist sú ósk mín, tel ég, að íslenzka þjóðin sé vel á vegi stödd.“

Svo mörg voru þau fögru orð og efast ég um, að í mörgum ævisögum mikilla framkvæmdamanna, sem þekktir eru fyrir ötula framgöngu á öllum sviðum opinbers lífs, sé að finna jafneinlæga ást, aðdáun og þakklæti í garð lífsförunautar síns og við kynnumst í þessum orðum. Þau segja ef til vill meira að lokum um manninn Thor Jensen en afrek hans í heimi fjármála og viðskipta og veita okkur dýpri skilning en ella á því, hvers vegna hann náði svo góðum árangri í athafnalífinu.

Ég vil þakka sr. Jóni Þorsteinssyni fyrir að gefa mér tækifæri til að rifja þessa fögru minningu upp með ykkur góðu áheyrendur hér í kvöld, og ég er viss um, að þið eruð sammála mér, að sú mynd, sem hér er brugðið upp á erindi til okkar allra enn þann dag í dag og einmitt á þessari stundu, þegar við hefjum undirbúning hátíðarinnar sem við höldum til að minnast fæðingar frelsarans og fyllumst eftirvæntingu vegna jólanna.

Framkvæmdamannsins Thors Jensens er almennt minnst fyrir annað en þá einlægni, sem kemur fram í orðum hans hér að framan. Þau segja okkur hins vegar meira um manninn en mannvirkin, sem hann reisti, eða auðurinn, sem hann skóp, og minnumst þess, sem Jesús Kristur sagði í fjallræðunni: „Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu, þar sem mölur og ryð eyðir, og þar sem þjófar brjótast inn og stela; en safnið yður fjársjóðum á himni, þar sem hvorki eyðir mölur né ryð, og þar sem þjófar brjótast ekki inn og stela, því að þar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera.”

Já, það er í hjartanu, sem fjársjóðurinn býr og í sömu ræðu sagði Jesús: Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá. Í þessum orðum felst engin málamiðlun, enginn ótti eða efi heldur fullvissa trúarinnar, sem veitir styrk og öryggi. Á slíku skjóli þurfum við öll að halda ekki síður en ástríki okkar nánustu.

Heimsbyggðin hefur staðið á öndinni undanfarnar vikur vegna ógnvekjandi hryðjuverka, og þau skapa öryggisleysi meðal allra þjóða. Fréttirnar, sem við fáum af Betlehemsvöllum, eru aðrar en fyrir 2000 árum, þegar himneskir herskarar birtust fjárhirðum þar á jólanótt og boðuðu þeim frið á jörðu, því að þeim væri frelsari fæddur.

Styrkur okkar felst í því, að við getum leitað trausts í þeim boðskap, sem jólabarnið flutti og hefur fylgt mannkyni alla daga síðan fyrstu jólin voru haldin, þótt ekki hafi öll jarðarinnar börn borið gæfu til að tileinka sér hann. Og við sjáum það vel nú, hve trúarlegt ofstæki og skortur á umburðarlyndi getur leitt mikla ógæfu yfir einstaklinga og þjóðir og hve miklu skiptir að leggja heilbrigða og skynsamlega rækt við kærleika og skilning á högum fólks af ólíku þjóðerni, með aðra siði og trú.

Það er ekki forsenda þess að ná árangri í hörðum heimi viðskipta eða stjórnmála að brynja sig gegn því að láta í ljós tilfinningar sínar, sorg, gleði eða þakklæti. Í hraða hins daglega amsturs leggjum við hins vegar gjarnan meiri áherslu á þessa brynju en hinn opna huga, stundum er engu líkara en menn haldi að þeir kalli fram friðarhönd með því að sýna krepptan hnefa. Við erum mörg enn í sporum Valtýs, áður en hann kynntist Thor, og teljum að kurteisi og blíða sé fyrirtekt eða tilgerð.

Góðir áheyrendur!

Samhliða því sem við sýnum festu í varðstöðu um þau gildi, sem eru ófrávíkjanleg í hugum kristinna manna og birtast hvað skýrast í fjallræðunni, ber okkur að sýna kærleika og umburðarlyndi í garð þeirra, sem viðurkenna ekki þessi sömu gildi. Friðsamleg framtíð okkar allra ræðst af því, að virðing og tillitssemi ríki í mannlegum samskiptum og ekki sé leitast við að niðurlægja neinn niðurlægingarinnar vegna heldur lifað í anda jólaboðskaparins því að þá erum við sífellt að lifa aðventuna, tíma eftirvæntingar og trúar um bjarta og blíða framtíð.


Ég lýk máli mínu með því að vitna í fyrra Þessalonikubréf Páls postula, þar sem hann segir:

Lifið í friði yðar á milli.
Vér áminnum yður, bræður:
Vandið um við þá, sem óreglusamir eru,
hughreystið ístöðulitla,
takið að yður þá, sem óstyrkir eru,
verið langlyndir við alla.
Gætið þess, að enginn gjaldi neinum illt með illu,
en keppið ávallt eftir hinu góða,
bæði hver við annan og við alla aðra.
Verið ætíð glaðir.
Biðjið án afláts.
Þakkið alla hluti,
því að það er vilji Guðs með yður í Kristi Jesú.