22.11.2001

Náttúruminjasafn

Ársfundur
Náttúrufræðistofnunar Íslands,
Hótel Örk, Hveragerði,
22. nóvember, 2001.



Ég þakka fyrir að vera boðið að sækja þennan ársfund og flytja hér ávarp. Mér er ljóst, að í boðinu felst von um, að ég geti sagt fyrir um það, hvernig staðið verði að því að koma Náttúruminjasafni Íslands á fót á skömmum tíma, eftir að það er orðið eitt af þremur höfuðsöfnum landsins. Safnið komst í þennan virðulega hóp 20. maí síðastliðinn, þegar alþingi samþykkti fyrstu safnalögin, sem hér hafa verið sett. Í lögunum er Náttúrminjasafn Íslands skilgreint sem höfuðsafn á sviði náttúrufræða og því falið að annast kynningu og sýningar á náttúru Íslands og nýtingu náttúruauðlinda.

Er eðlilegt, að áhugi sé á því á ársfundi Náttúrufræðistofnunar Íslands að fræðast um þetta mál, því að stofnunin fer nú með málefni safnastarfsemi á sviði náttúruminja. Hin nýja skipan krefst þess, að breyting verði gerð á lögum um stofnunina til að skilja safnið frá henni og þarf að leggja frumvarp um það efni fyrir alþingi veturinn 2002 til 2003, svo að sérlög um náttúruminjasafn komi til sögunnar, þegar tvö ár eru liðin frá gildistöku safnalaganna. Fram til þess tíma situr forstjóri náttúrufræðistofnunar í safnaráði, sem er nú að hefja störf undir formennsku þjóðminjavarðar.

Auk náttúruminjasafns eru Þjóðminjasafn Íslands og Listasafn Íslands skilgreind sem höfuðsöfn, en þau eru öðrum söfnum til ráðgjafar og stuðla að samvinnu safna og samræmdri safnastefnu hvert á sínu sviði. Þau skulu á fjögurra ára fresti semja sameiginlega stefnuyfirlýsingu fyrir það safnasvið, sem þau veita forstöðu, og skal stefnuyfirlýsing ásamt verkáætlun kynnt safnaráði.

Í greinargerð með safnalagafrumvarpinu kemur fram, að við gerð sérlaga um náttúruminjasafnið sé nauðsynlegt að tryggja aðild fulltrúa umhverfisráðuneytisins eða stofnana á þess vegum að starfi safnsins. Í þingskjölum kemur fram, að með safninu er ekki stefnt að því að reisa skorður við uppbyggingu þeirra gagna- og upplýsingasafna um náttúrufræði Íslands, sem unnið er að í setrum náttúrufræðistofnunar.


Fyrir því má færa mörg rök, að sú skipan sé tekin upp, sem mælt er fyrir um í hinum nýju safnalögum. Þau hafa að markmiði að varðveita og kynna menningarsögu íslensku þjóðarinnar og náttúrusögu Íslands. Fer menntamálaráðherra með yfirstjórn málefna minja- og listasafna, en til minjasafna teljast menningarminjasöfn og náttúruminjasöfn. Innan stjórnsýslunnar er eðlilegt, að öll höfuðsöfn starfi á sömu forsendum. Sömu faglegu kröfur eru gerðar til skráningar, varðveislu og sýningarhalds safna og innan ramma safnalaganna gefst náttúruminjasöfnum færi á að sækja um rekstrar- og verkefnastyrki.

Menntamálaráðherra ber að hafa frumkvæði að setningu sérlaga um Náttúruminjasafn Íslands og er unnið að því, án þess að verkefninu hafi verið hrundið af stað með formlegum hætti, til dæmis með skipun nefndar. Síðustu mánuði hefur hin nýja safnalöggjöf verið að komast í framkvæmd og skipulagi þjóðminjasafns hefur verið breytt í samræmi við hana. Nú er komið að því að móta stefnu varðandi inntak sérlaganna og jafnframt ákvarða þau markmið, sem náttúruminjasafni verða sett. Auk þess þarf að komast að niðurstöðu um húsnæði fyrir þetta nýja höfuðsafn.

Lög um náttúruminjasafn þurfa ekki að verða mikil af vöxtum og við smíði þeirra er eðlilegt að leita fyrirmynda í lögum annarra höfuðsafna. Safnið hlýtur að annast fastar sýningar, sérsýningar, safnakennslu og leggja áherslu á hvers kyns fræðslustarf fyrir almenning. Sýningar munu lúta að tegundum dýra, plantna og jarðlaga, landfræðilegri dreifingu náttúrufyrirbrigða, þróun lífsins, tengslum náttúrunnar við umhverfið, tengslum mannsins við umhverfi sitt, áhrifum á umhverfið, nýtingu náttúrunnar, auðlinda og auðlegðar, auk þess sem náttúrvernd nyti sín innan safnsins.

Náttúrufræðistofnun Íslands er fræðilegur bakhjarl náttúruminjasafns en í lögum er gert ráð fyrir, að stofnunin stundi undirstöðurannsóknir í dýrafræði, grasafræði og jarðfræði og skipulega heimildasöfnun um náttúru Íslands auk vísindalegra rannsókna á náttúru Íslands. Margt af þessu ef ekki allt er að sjálfsögðu einnig hlutverk Háskóla Íslands. Það virðist skynsamlegt að sjá fyrir sér framtíð þessara rannsókna og náttúruminjasafns á háskólasvæðinu. Ef til vill á hluti náttúrufræðistofnunar í raun heima í Háskóla Íslands og með þjónustusamningi menntamálaráðuneytisins við háskólann mætti styðja rekstur náttúruminjasafns, en mikilvægt er að haga verkaskiptingu þannig, að ekki sé verið að verja opinberu fé til sambærilegra verkefna á fleiri en einum stað.


Nefnd á vegum umhverfisráðherra hefur undanfarið fjallað um byggingu Náttúruhúss í Reykjavík. Tel ég eðlilegt, að menntamálaráðuneytið líti til þess, sem þar hefur verið unnið. Í störfum sínum hefur nefndin byggt á áliti starfshóps, sem skilaði niðurstöðum sínum 1991. Í áliti starfshópsins var gert ráð fyrir byggingu 6800 fermetra húss í Vatnsmýrinni, húsið yrði sameign ríkis, Reykjavíkurborgar, og ef til vill fleiri sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu svo og Háskóla Íslands. Gert var ráð fyrir 3000 fermetrum vegna Náttúrufræðistofnunar Íslands og 3800 fermetrum vegna náttúrusafns í Reykjavík, aðstöðu til sýninga og fræðslu og aðsetri fyrir Hið íslenska náttúrufræðifélag.

Nábýli við Háskóla Íslands var talið mikilvægt vegna kennslu og rannsókna hans í náttúruvísindum, enda gert ráð fyrir, að náttúrufræðistofnun geymdi í framtíðinni náttúrugripi og sýni, sem námsmenn, kennarar og vísindamenn við Háskóla Íslands söfnuðu. Í álitinu frá 1991 er einnig lýst hugmyndum um varanlegar sýningar, um tímabundnar sýningar eða sérsýningar, um vinnustofur eða tilraunastofur, þar sem gestir og nemendur, sem skoða safnið, gætu gert tilraunir og athuganir, um bókasafn og um metnaðarfulla fræðslustarfsemi með þátttöku nemenda í Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands. Auk þess að gera íslenskri náttúru skil væri fjallað um merkar náttúrminjar hvaðanæva, stjörnufræði, eðlisfræði, tölvuvísindi, geimvísindi, kynningu á hvers kyns rannsóknum á umhverfi og samfélagi, starfsemi fyrirtækja og atvinnuvega.

Miðað við hugmyndir um nær 4000 fermetra húsnæði fyrir náttúruminjasafnið eitt má reikna með a.m.k. 800 milljónum króna í byggingarkostnað. Rekstrarkostnaður umfram tekjur af aðgangseyri var 1991 áætlaður um 40 m. kr á ári, sem varla er unnt að reikna með að yrði nú minni en 60 m. kr., en heildarkostnaður um 100 m. kr. Þetta eru miklir fjármunir. Allar áætlanir um húsakost fyrir safnið verða að taka mið af þessum staðreyndum, horfum í ríkisfjármálum og þeim kostum, sem eru í boði.

Nú tíu árum eftir að þessar hugmyndir voru mótaðar liggja fyrir tillögur frá Háskóla Íslands um vísindagarða eða þekkingarþorp í Vatnsmýrinni. Er gert ráð fyrir því, að einkaaðilar komi að því að skapa þar aðstöðu fyrir fyrirtæki og stofnanir, sem sækjast eftir því að starfa í samfélagi við háskóla. Á þetta að sjálfsögðu vel við um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúruminjasafn. Spurning er, hvort í áformunum um þekkingarþorpið felist ekki æskilegasta lausnin á húsnæðismálum safnsins og kanna eigi þann kost til hlítar, áður en leitað er á önnur mið.

Fleiri kostir hafa vissulega verið nefndir, þegar hugað er að stað fyrir náttúruminjasafn, til dæmis Laugardalurinn með tengsl við grasgarðinn og húsdýragarðinn, Örfirisey og tengsl við hafið, Fossvogsdalur og tengsl við skógræktina, Elliðaárdalurinn og tengsl við árnar og gróðurinn þar. Að sjálfsögðu kemur enginn þessara kosta til álita nema í nánu samstarfi við Reykjavíkurborg og með metnaðarfullum vilja hennar til að búa safninu sem besta umgjörð. Af hálfu borgarinnar er nú glímt við að réttlæta kostnað af rekstri Perlunnar. Spyrja má, hvort koma mætti sýningum náttúruminjasafns fyrir fyrst um sinn í tönkunum í Perlunni. Flestir sýningargripanna geymast best í gluggalausu húsnæði, þar sem unnt er að stýra hita og raka. Skipa mætti safninu í deildir á tanka. Þátttaka Reykjavíkurborgar er mikilvæg vegna þessa safns og sýni hún ekki áhuga á aðild að því má enn spyrja, hvort unnt sé að hugsa sér Náttúruminjasafn Íslands með deildir eða sérsöfn í samvinnu við áhugasama aðila víða um land. Hugmyndir eru um að Sjóminjasafn Íslands verði dreift um um byggðir landsins - á hið sama við um náttúruminjasafn? Mætti kjarni þess til dæmis verða í Sandgerði?

Góðir fundarmenn!

Söfn hafa meðal annars þann tilgang að kynna okkur það, sem er þess virði að varðveita - og gamlar hugmyndir þróast um leið og nýjar vakna. Nú er réttur tími til að velta fyrir sér öllum hugmyndum, gömlum og nýjum, um Náttúruminjasafn Íslands, inntak þess, starfssvið og aðsetur

Ég vil biðja áhugamenn um safnið, sem hér eru staddir, að hika ekki við að kynna okkur í menntamálaráðuneytinu tillögur vegna safnsins. Starf innan ráðuneytisins næstu vikur mun miða að því að fá sem besta heildarsýn, áður en ráðist er í smíði sérlaga um safnið og aðra vinnu við stefnumótun. Vissulega kemur til álita að efna beinlínis til hugmyndasamkeppni um Náttúrminjasafn Íslands.

Frá mínum bæjardyrum séð skiptir mestu, að safnið standi undir þeim vætningum, að verða ein af undirstöðum þekkingar okkar Íslendinga á eigin landi og náttúru. Það hvetji til áhuga á umhverfinu, veiti í senn gleði yfir gjöfum náttúrunnar og þá öryggiskennd, sem felst í skynsamlegri varðveislu hennar.