19.9.2014

Glíma óttans við óvissu og viljans til áhættu

Skotland V


 

Við ráðhúsið í Glasgow stóð um 30 manna hópur sambandssinna kvöldið fyrir kjördag. Þeir veifuðu breska fánanum og hrópuðu slagorð gegn sjálfstæði Skotlands. Handan götunnar á George-torgi voru tvö til þrjú þúsund sjálfstæðissinnar. Þeir skiptust í tvo hópa. Allir veifuðu stoltir bláhvíta fánanum með krossi St. Andrews – á öðrum enda torgsins hlýddu menn á ræður og horfðu á eldgleypa, á hinum endanum gerðu þeir hróp að sambandssinnunum sem voru umkringdir lögreglumönnum við ráðhúsvegginn.

Allt gerðist þetta í góðu en þó mátti greina spennu sem kynni að leiða til átaka. Til þeirra kom ekki enda var fjöldi foreldra með börn sín í hópi já-manna. Lögreglan benti vegfarendum í vinsemd að ganga í kringum nei-hópinn.

Aðför fjöldans að nei-mönnum skýrir hvers vegna ekki hafa sést nein kynningarborð þeirra á götum úti undanfarna daga. Nei-menn fá einfaldlega ekki frið til að kynna málstað sinn á jafnáberandi hátt og já-menn gera. Undanfarna daga hef ég aðeins séð einn vegfaranda með nei-merki í barmi sér.

Niall Ferguson, skoski sagnfræðingurinn, leggur áherslu á heiftartaugina í málflutningi já-manna í greinum í The Daily Telegraph og The Times á kjördag. Hann segir að sögulega séu Skotar ákafamenn í sundurlyndi sínu. Þessi skaphöfn verði til dæmis aldrei til þess að draumur Alex Salmonds „Skandi-Skotland“ verði að veruleika, það er norrænt velferðarsamfélag í Skotlandi.

Já-sigur í kosningabaráttu

Eftir að skoskir þjóðernissinnar fengu meirihluta á þinginu í Edinborg árið 2011 féllst David Cameron, forsætisráðherra Breta, á kröfu Salmonds um þjóðaratkvæðagreiðsluna. Cameron vildi aðeins eina spurningu: Kjósendur yrðu að svara já eða nei hvort þeir vildu sjálfstæði Skotlands.

Aðrir vildu fleiri spurningar, þar á meðal um aukið sjálfstæði Skota innan Sameinaða konungdæmisins. Nú hafa leiðtogar stóru flokkanna lofað því, segi Skotar nei við sjálfstæði. Í því felst viðurkenning á sigri já-manna í kosningabaráttunni. Að vísu segja málsvarar þeirra að ekkert sé að marka loforð flokksforingjanna. Segi Skotar nei, taki flokkarnir í Westminster til við að rífast um þetta eins og allt annað.

Í lokaræðu í Perth að kvöldi miðvikudags 17. september sparaði Salmond ekki stóru orðin þegar hann vék að hinum fjarlægu valdamönnum í Westminster og skeytingarleysi þeirra í garð Skota. Sigur já-manna í kosningabaráttunni er ekki síst reistur á neikvæðri afstöðu til ráðamanna í London – sérstaklega í garð Íhaldsflokksins sem þeir vilja uppræta í Skotlandi í eitt skipti fyrir öll.

Í leiðara The Times á kjördag segir: „Já-menn unnu kosningabáráttuna en töpuðu rökræðunum.“ Vísar þar til þess að þeim hafi mistekist að flytja sannfærandi röksemdir um gjaldmiðil, ríkisfjármál og stjórn efnahagsmála.

Hinn þögli meirihluti

Þjóðerniskennd allra Skota hlýtur að hafa vaxið við athyglina sem kosningabaráttan meðal þeirra hefur vakið um heim allan. Skömmu eftir að Alex Salmond hafði flutt lokaræðu sína var dagskrá fréttasjónvarps BBC rofin og sagt að Barack Obama hefði lýst á Twitter mikilvægi þess að hið góða samstarfsríki Bandaríkjanna, Bretland, væri öflugt og sameinað. Áður hafði Bill Clinton flutt svipaðan boðskap.

Undanfarna sólarhringa hefur George Brown, fyrrverandi forsætisráðherra Verkamannaflokksins, verið helsti málsvari sambandssinna. Flutti hann lokaræðu fyrir þeirra hönd í Glasgow að kvöldi 17. september. Í blöðum er henni lýst sem „rafmagnaðri“ og hinni bestu á ferli hans.

Hitinn og ofsinn í málflutningi Browns kann að auka baráttuþrek nei-manna á kjördag og duga til þess að spár um sigur þeirra rætist. Hitt er þó líklegra að ávallt hafi blundað með hinum þögla meirihluta Skota djúp sannfæring um að þeim sé best borgið innan hins Sameinaða konungdæmisins.

Sigri já-menn mun meirihluta Skota þykja sem hann vakni landlaus að morgni föstudags 19. september. Sigri nei-menn munu sjálfsstæðissinnar hugga sig við sigur í kosningabaráttunni.

Víki ótti Skota við óvissu á kjördag fyrir vilja til að taka áhættu verða söguleg pólitísk umskipti við Norður-Atlantshaf. Líklegast er þó að umgjörð Sameinaða konungdæmisins breytist ekki en innan þess verði þróunin í átt til sambandsríkis.