27.10.2001

Gunnlaugur Scheving - yfirlitssýning


Gunnlaugur Scheving,
yfirlitssýning.
Listasafni Íslands,
27. október, 2001.



Fátt hefði líklega verið fjarlægara Gunnlaugi Scheving, manni þögullar vinnu og endurminningarinnar, en hugmyndin um það, að samtímis yrði unnt að sjá 90 myndir hans hér í sölum Listasafns Íslands og skoða 1000 verk hans í stafrænum gagnagrunni safnsins, sem nú er í fyrsta sinn opnaður að hluta.

Skrefið sem Listasafn Íslands stígur í dag með því að veita gestum þennan aðgang að gagnagrunninum markar tímamót í sögu þess. Er ánægjulegt, að verk Gunnlaugs Schevings skuli vera hin fyrstu, sem eru kynnt með þessum hætti. Þau eru skýr vottur um þrotlausa elju listamannsins, aga hans og kröfur. Gunnlaugur gaf safninu 1800 verk eftir sinn dag og veitti því þar með einstakt tæki til að kenna þeim vönduð vinnubrögð, sem vilja ná árangri á listabrautinni. Nú gefst betra tækifæri til þess en nokkru sinni með hinni nýju tækni.

Fyrir réttum fjórum árum efndi listasafnið í fyrsta sinn til sýningar á hinni ómetanlegu dánargjöf Gunnlaugs, en sýningin, sem nú er opnuð, bregður ljósi á allan listferil hans og mörg verkanna hafa aldrei verið sýnd opinberlega áður.

Óska ég safninu til hamingju með hve myndarlega er að sýningunni staðið í öllu tilliti og nefni þá einnig hina stórfróðlegu grein Gunnars J. Árnasonar heimspekings um listamanninn í veglegri skrá þessarar sýningar.

Þar kemur skýrt fram hve Gunnlaugur Scheving skiptir miklu í hópi bestu myndlistarmanna þjóðarinnar á 20. öldinni. Gunnlaugur fór eigin leið með einstæðum efnistökum sínum og viðfangsefnum, þar sem landslagið er ekki takmark í sjálfu sér heldur vettvangur fyrir mannlífið. Og við lok fjórða og upphaf fimmta áratugs aldarinnar var hann í fylkingarbrjósti í baráttunni fyrir frelsi listmannsins til að móta verk sín á eigin forsendum en ekki samkvæmt forskrift stjórnmálamanna.

Gunnlaugur lagði lóð sitt á vogarskál frjálsrar hugsunar á þeim tíma með því meðal annars að myndskreyta Íslendingasögurnar, þegar ráðist var í að gefa sögurnar út með nútímastafsetningu til að mótmæla lögum um einkaleyfi ríkisins á útgáfu þeirra. Deilur af þessu tagi eru okkur sem betur fer fjarlægar nú á tímum, þótt hitt sé eilíft viðfangsefni að standa vörð um frelsi mannsins til sköpunar og tjáningar.

Er gleðilegt, að fá nú tækifæri hér í Listasafni Íslands til að sjá í öllum sölum þess og á rafrænum hátt svo mikla sýningu á verkum Gunnlaugs Schevings. Með því er honum sýnd verðug virðing fyrir ómetanlegt framlag til íslenskrar myndlistar og auk þess þakklætisvottur fyrir dánargjöf hans til safnsins, sem aldrei verður þó að fullu þökkuð.

Ég ítreka hamingjuóskir til Listasafns Íslands vegna þess hve vel og glæsilega hefur verið staðið að þessari sýningu á verkum Gunnlaugs Schevings. Ég lýsi sýninguna opna bæði hér í sölum safnsins og í gagnagrunni þess.