8.9.2001

Skólamálaþing -Reykjavík

Skólamálaþing
Reykjavík ,
8. september 2001.


Ég þakka fyrir boðið um að fá að ávarpa ykkur, góðir þinggestir, við upphaf
þessa skólamálaþings um fagmennsku kennara og einkavæðingu skóla. Þetta eru
spennandi viðfangsefni, sem ég lít síður en svo á sem andstæður.

Af kynnum mínum við kennara á undanförnum árum er mér ljóst, að þeim er mikið í mun, að starf þeirra einkennist af sem mestum metnaði og þar með fagmennsku. Kynntist ég þessu ekki síst, þegar mörg hundruð kennarar tóku þátt í því að smíða nýjar námskrár fyrir þrjú fyrstu skólastigin, leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Vegna þeirrar vinnu efndi ég til funda um nýja skólastefnu um allt land og ræddi meginþætti námskrárinnar og eftir að hún kom til sögunnar hef ég heimsótt marga skóla og setið fundi um framkvæmd námskránna meðal annars með kennurum og nemendum í öllum framhaldsskólum landsins. Rifja ég þetta upp til að minna á, að ég tala af nokkurri reynslu, þegar ég legg áherslu á þá skoðun mína, að metnaður og fagmennska setja sterkan svip sinn á störf kennara og vilja þeirra til koma sem best til móts við kröfur nemenda sinna.

Breytingar á skólastarfi snerta ekki aðeins innra starfið með nýjum námskrám heldur hefur einnig verið unnið að því að auka sjálfstæði skólastjórnenda og skapa nemendum meira valfrelsi. Þannig hefur sveigjanleiki og aukin sjálfsstjórn á öllum sviðum sett mikinn svip á breytingar á skólastarfi undanfarin ár. Til dæmis er ekki lengur gerð krafa um, að allir gangist undir samræmt grunnskólapróf, áður en innritast er í framhaldsskóla og ekki er lengur fylgt hverfaskiptingu, þegar framhaldsskólarnir taka á móti nemendum sínum, heldur tekið mið af getu nemandans og því, sem framhaldsskólinn hefur að bjóða.

Með nýju námskránum er sköpuð samfella milli skólastiga frá leikskóla að dyrum háskólans auk þess sem áhersla er lögð á það, að nemandinn átti sig á því, að í nútímaþjóðfélagi er nám í raun æviverk.

Skólastarf er í eðli sínu íhaldssamt og litlar og hægfara breytingar hafa orðið á því í aldanna rás. Ýmis teikn eru á lofti um, að breytingarnar verði meiri og örari á komandi árum en við höfum kynnst á liðnum áratugum eða árhundruðum. Líta menn þá til nýju upplýsingatækninnar og áhrifa hennar á starf kennarans.

Menntamálaráðuneytið hefur beitt sér fyrir umræðum um þessi mál undanfarin þrjú ár með því að efna til ráðstefna um upplýsingatækni og skólastarf og eru þessar UT-ráðstefnur ein fjölmennustu þing hér á landi, sem haldin eru um hina nýju tækni og áhrif hennar. Á þessum ráðstefnum hafa fjölmargir kennarar lagt mikið af mörkum og kynnt metnaðarfull verkefni á mörgum sviðum. Hið sama blasir við, þegar skoðaðar eru styrkveitingar til þróunarstarfs í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum. Verkefnin lúta ekki síst að því að finna leiðir til að greina sérþarfir nemenda og sinna þeim. Af hálfu menntamálaráðuneytisins hefur til dæmis verið lögð á það veruleg áhersla, að huga að lestrarfærni nemenda og auðvelda kennurum að átta sig á henni sem fyrst, því að rannsóknir sýna, að tengsl milli lestrargetu og almenns námsárangurs eru mikil. Er unnið að verkefnum á þessu sviði í leikskólum og einnig hafa lesskimunarpróf fyrir sex ára nemendur verið kynnt í öllum grunnskólum í samvinnu Kennaraháskóla Íslands og ráðuneytisins. Er það samdóma álit þeirra, sem að þessu verkefni hafa komið, að kennarar hafi sýnt mikinn áhuga á að nýta sér kosti þess.


Á UT-2001 flutti Patricia L. Rogers Fulbrightprófessor erindi um áhrif nýju upplýsingatækninnar á skólastarf og taldi, að hún mundi valda gjörbreytingu. Skólar störfuðu nú í umhverfi, þar sem markaðsöflin hefðu meiri áhrif en nokkru sinni fyrr auk þess sem aðferðir við að miðla þekkingu væru að taka miklum breytingum. Þessar breytingar sjást þegar nám er skipulagt þannig, að nemandinn getur valið þá þætti, sem nýtast honum best með hliðsjón af kröfum vinnumarkaðarins. Þá er einnig tekið mið af því, að nemandinn stundi nám á þeim tíma og við þær aðstæður, sem falla best að þörfum hans.

Menntamálaráðuneytið hefur kynnt stefnu, sem miðar að því, að kostir netsins séu nýttir sem upplýsingaveita fyrir allt skólastarf. Þar verði námsefni miðlað með markvissum hætti og
samskiptum komið á milli nemenda, kennara, skólastjórnenda, foreldra,
atvinnurekenda og allra, sem tengjast menntun. Í þessari sýn felst, að
hefðbundnir kennsluhættir þróist yfir í það, sem kalla má dreifmenntun og
nemendur stundi nám í dreifskólum.

Dreifskóli er stofnun, sem krefst ekki hefðbundinna bygginga,
er ekki með fasta stundatöflu og þar eru kennarar og nemendur ekki alltaf
samtímis á sama stað. Í þessum skóla er nemandinn miðpunktur og sækir nám
sitt eftir ýmsum leiðum og úr ólíkum áttum. Í dreifskóla er ekki gerður
greinarmunur á staðbundinni kennslu og fjarkennslu heldur samtvinnast
þessir kennsluhættir í dreifkennslu, þar sem jöfnum höndum er notuð
hefðbundin kennsla og þekkingu miðlað með notkun netsins.

Dreifkennari er hugtak, sem einnig er nauðsynlegt að skilgreina. Hann er vinsæll og góður kennari, allir vilja sækja námskeið hans og nýta sér það, sem hann miðlar með fjarkennslu eða efni á netinu. Ef fjármunir fylgja hverjum nemanda eins og að er stefnt, myndi mest koma í hlut þess kennara, sem hefur flesta nemendur. Spyrja má, hvort í slíkum kennara tengist ekki fagmennska og einkarekstur á skýrastan hátt í skólastarfi.

Og margar fleiri spurningar vakna við útfærslu á slíkri stefnu. Er til dæmis til nokkurs að vera að ræða um þriggja eða fjögurra ára nám til stúdentsprófs, þegar nemandinn getur ákveðið það sjálfur, hvar og hvenær hann stundar nám? Hvernig eigum við að haga lögverndun kennarastarfsins við slíkar aðstæður? Bæði þessi mál eru nú til skoðunar á vegum menntamálaráðuneytisins, það er lengd náms til stúdentsprófs, og hvaða ákvæði lögverndunarlaganna þarf að taka til endurskoðunar í ljósi reynslu liðinna ára. Ég tel, að afstaða manna til mála af þessu tagi muni fyrr en síðar mótast af því, að skólinn er að verða allt önnur stofnun en áður. Minnumst þess, að við upphaf þessa skólaárs hafa 2.700 nemendur innritað sig í fjarnám hér á landi við ólíka skóla. Fjölmennasti einstaki hópur fjarnema stundar nám við Kennaraháskóla Íslands.

Það er mjög ríkt í huga okkar allra, að ríki eða sveitarfélög hljóti óhjákvæmilega að hafa lykilhlutverki að gegna við rekstur skóla og fjármögnun menntunar. Okkur er ekki tamt að draga skil þarna á milli og eftir að fyrstu fræðslulögin komu til sögunnar hér á landi fyrir tæpri öld, hafa einkaskólar ekki átt miklu fylgi að fagna.

Michael E. Porter, prófessor í Harvard Business School, hefur í bók sinni
um samkeppnishæfni þjóða sýnt fram á, að þess séu fá eða engin dæmi, að
fyrirtæki í ríkiseign skari fram úr á alþjóðamarkaði. Sé aðeins eitt fyrirtæki eða fá starfandi á
heimamarkaði sé mun meiri hætta en ella á að stjórnendum þeirra takist að
útvega styrki frá stjórnvöldum, sem síðan slæva mátt fyrirtækjanna og vilja
til að framleiða góða og vandaða vöru á lágu verði. Þegar aftur á móti
fyrirtæki eru mörg og samkeppni þeirra á milli mikil komi þau hvert fyrir
sig í veg fyrir að önnur verði slíkra styrkja aðnjótandi.

Ég veit ekki, hvað ykkur finnst, ágætu kennarar, um að færa þessa kenningu yfir á skólastarfið, en mín skoðun er sú, að hún eigi ekki síður við, þegar rætt er um árangur þar en endranær. Það er, að á grundvelli samanburðar um árangur eigi að nýta opinbera fjármuni. Enginn vill, að fjármunum sé sóað eða illa með þá farið, að minnsta kosti ekki hans eigin fé.

Fjárhagsleg samskipti menntamálaráðuneytisins við framhaldsskóla og háskóla byggjast nú alfarið á grundvelli samninga, sem eru kenndir við árangursstjórnun. Þar er það sjónarmið lagt til grundvallar, að skólar fái fé miðað við fjölda þeirra nemenda, sem skilar sér til prófs. Kostnaður við einstakar námsbrautir hefur verið metinn og fjármunir ráðast af fjölda nemenda á einstökum brautum eða í háskóladeildum.

Að sjálfsögðu næst seint endanleg sátt um þær fjárhæðir, sem renna til einstakra skóla á grundvelli þessara samninga og nauðsynlegt er að endurskoða þá reglulega í samræmi við breyttar kröfur og þróun. Á hinn bóginn er reynslan af þessum aðferðum við fjárveitingar á þann veg, að ég held, að enginn vilji hverfa frá þessu kerfi í gamla farið að nýju. Frá mínum bæjardyrum séð er með samningunum stuðlað að því, að sjónarmið í anda prófessors Porters fái að njóta sín innan skólakerfisins.

Við gerð þessara samninga er ekki gerður greinarmunur á því, þegar metinn er kostnaður við nemanda, hvort um einkarekinn eða ríkisrekinn skóla er að ræða, en eins og kunnugt er Verslunarskóli Íslands einkarekinn framhaldsskóli og auk hans hefur hússtjórnarskólunum tveimur, í Reykjavík og á Hallormsstað, verið breytt í sjálfseignarstofnanir en þrír háskólar eru einkareknir: Viðskiptaháskólinn á Bifröst, Háskólinn í Reykjavík og Listaháskóli Íslands. Er meiri aðsókn að öllum þessum skólum en þeir geta sinnt. Hef ég orðið var við, að áhugi er á því hjá stjórnendum nokkurra framhaldsskóla að kanna, hvort breyta eigi stofnunum þeirra í sjálfseignarstofnanir, auk þess hafa forráðamenn í einstökum atvinnugreinum lýst áhuga á að taka að sér rekstur skóla á starfssviði sínu, á þetta til dæmis við um sjómannamenntun og málmiðnað.

Ég fjalla ekki í þessu sambandi sérstaklega um leikskólana og grunnskólana, en þess gætir í vaxandi mæli, að sveitarfélögin eru að þreifa fyrir sér um leiðir til að styrkja þá með meira samstarfi en áður við einkaaðila.

Einkarekstur í skólastarfi getur tekið á sig ýmsar myndir. Minni ég á, að iðnskólahúsið í Hafnarfirði var reist á skömmum tíma sérstaklega fyrir skólann af einkaaðilum á grundvelli einkaframkvæmdar. Eru uppi hugmyndir um að ráðast í fleiri slíkar framhaldsskólaframkvæmdir, til dæmis, þegar lóð hefur fengist fyrir Kvennaskólann í Reykjavík eða Menntaskólann við Sund.

Umgjörð skólastarfsins er þannig að taka breytingum með aukinni samvinnu við einkaaðila, ekki aðeins að því er húsnæði varðar heldur einnig til dæmis aðgang að tölvum og fjarskiptanetum fyrir þær. Fartölvuvæðing framhaldsskólanna í samvinnu við einkaaðila hefur gengið hraðar en ég vænti og ekki hefur síst verið ánægjulegt að sjá, hve kennarar hafa lagt sig fram um að tileinka sér nýja starfshætti vegna hennar og af mikilli fagmennsku. Hið nýja, rafræna menntakerfi krefst námsefnis af annarri gerð en áður og nú hef ég sett af stað viðræður milli fulltrúa menntamálaráðuneytisins og námsgagnastofnunar í skyni að fá tillögur um breytingar á útgáfu námsgagna, sem nauðsynlegar eru til að koma til móts við nútímakröfur og þarfir skóla á hverjum tíma. Skal sérstaklega taka mið af nýju námskránum fyrir grunn- og framhaldsskóla og stefnu ráðuneytisins um rafræna menntun, sem hefur verið kynnt undir kjörorðinu: Forskot til framtíðar. Einnig skal hópurinn móta tillögur um skipulag og rekstrarfyrirkomulag til að ná fram sem mestri hagkvæmni og skilvirkni í námsgagnaútgáfu.


Góðir áheyrendur!

Í umræðum um fagmennsku í skólastarfi er nauðsynlegt að hafa þessar breytingar allar í huga. Góður árangur byggist ekki aðeins á samskiptum nemenda, kennara og foreldra, hann á ekki síður rætur að rekja til hins almenna starfsumhverfis skólanna.

Ég ítreka þakkir mínar fyrir að fá tækifæri til að lýsa skoðun minni á því mikilvæga máli, sem er til umræðu á þessu skólamálaþingi. Vona ég, að umræður ykkar skili okkur fram á veg á þeim miklu breytingatímum, sem við lifum, og flýti för okkar að hinu sameiginlega og eilífa markmiði – að gera góðan skóla enn betri.