25.8.2001

Tilfinningar Björns - DV-viðtal

Víkjum fyrst að málefnum Árna Johnsens. Fékkst þú einhverju sinni ábendingu
um að hann væri að fremja lögbrot?

"Nei, ég fékk aldrei slíka ábendingu og hafði ekki heldur hugboð um það. Mál
byggingarnefndarinnar voru aldrei rædd við mig á þeim forsendum að menn kæmu
til mín og segðu óttast að verið væri að fremja lögbrot undir hatti
byggingarnefndar Þjóðleikhússins. Ég held að enginn sem hefur starfað með
Árna Johnsen, hvorki ég né aðrir, hafi grunað Árna um að misfara með
opinbert fé. En allir vissu af dugnaði hans."

Var ekki áfall fyrir þig sem vin Árna Johnsens þegar þetta mál kom
upp?

"Verst er fyrir hann sjálfan að hafa farið inn á þessa braut, en þetta var
áfall fyrir mig, eins og alla sem þekkja Árna Johnsen. Það er oft sagt að
þeir sem kynnist sorg fari í gegnum mismunandi stig á ferlinu, til dæmis
reiði og sárindi. Ég hef gengið í gegnum það í þessu máli, sem
vekur sömu tilfinningar og sorg."

Hefurðu talað við Árna eftir að þetta gerðist?

"Já, við hittumst einu sinni heima hjá mér, eftir að hann hafði lýst yfir því, að hann hygðist hætta þingmennsku. Við töluðum saman lengi. Það
var vináttusamlegt samtal en alvarlegt um erfið mál."

Hafa þá ekki orðið vinslit að þinni hálfu?

"Hvers vegna vinslit? Eins og ég sagði, í máli eins og þessu gengur maður
í gegnum ákveðið ferli sem hefur mismunandi áhrif á tilfinningalífið og
skapar vanmáttarkennd gagnvart ýmsu því sem gerist. Ferlinu er ef til vill
ekki lokið. Mér finnst, að vinslit eigi ekki að vera lokapunkturinn á
málinu í samskiptum okkar Árna. Vinátta felst ekki í því að bregðast mönnum,
þegar á reynir vegna erfiðleika."

Margrét Frímannsdóttir sagði á dögunum að afsögn af þinni hálfu ætti að
koma til greina. Ertu sammála því?

"Samfylkingin gaf út yfirlýsingu þar sem sagt var að ég þyrfti að upplýsa
málið undanbragðalaust, en þar var þess ekki óskað að ég segði af mér.
Vinstri grænir komust greinilega að niðurstöðu um að óskynsamlegt væri
að gera kröfu um afsögn mína að höfuðatriði, enda held ég að það sé ekki
aðferðin við að ræða málið á efnislegum forsendum. Í fjölmiðlum sögðu
prófessorar í
stjórnmálafræði og lögfræði, að málið væri ekki þannig vaxið að krefjast
ætti afsagnar ráðherra.

Mér finnst eftirá, þótt ekki sé langur tími liðinn, að orð Margrétar um
afsögn mína hafi á fáeinum dögum verið dæmd sem fljótræði."

En hefur þetta mál ekki skaðað þig?

"Ég dæmi ekki um það, á hinn bóginn hef ég ekki hikað við að ræða alla
þætti málsins, lagt spilin á borðið og lýst sjónarmiðum mínum. Á vettvangi
menntamálaráðuneytisins hef ég á fundum með stjórnendum þess farið yfir
þann lærdóm, sem ég tel, að ráðuneytið geti dregið af málinu. Hann felst
meðal annars í því að tryggja sem best, að fylgt sé öllum formsatriðum í
fjármálalegum samskiptum vegna byggingarframkvæmda eða viðhaldsverkefna.
Vandinn er sá, að í sumum tilvikum er alls ekki við neinar formlegar reglur
að styðjast, en slíkt skapar ávallt óvissu í stjórnsýslunni. Unnið er að
því að bæta úr þeim regluskorti. Reynsla af þessu tagi, þótt erfið sé,
getur orðið gagnleg, ef rétt er við brugðist og ég hef lagt áherslu á það
við samstarfsmenn mína, að það verði gert. Gleymum því ekki, að það er
fremur talið manndómsmerki að standast áraun en að gefast upp."

Á forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins að víkja vegna þessa máls?

"Ég hef ekki sagt, að nokkur ætti að víkja vegna þessa máls. Menntamálaráðuneytið greiddi framkvæmdasýslunni tæpar 24 milljónir króna árið 2000 fyrir þjónustu og eftirlit, sem ráðuneytinu er skylt að fela stofnuninni. Við erum sem sagt að kaupa af henni sérþekkingu á hennar starfssviði. Hitt finnst mér
óeðlilegt, að af þessum viðskiptum leiði deilur
um stjórnsýslulega þætti á milli menntamálaráðuneytisins og
framkvæmdasýslunnar. Framkvæmdasýsla ríkisins er stofnun sem á að sinna
lögskipuðum verkefnum um einstakar framkvæmdir og þar eru menn ráðnir til
starfa með sérþekkingu til að sinna þessum verkefnum. Þar er ekki krafist
sérþekkingar í stjórnsýslu. Hún er miklu frekar fyrir hendi í
menntamálaráðuneytinu, því að hér erum við hvað eftir annað að úrskurða um stjórnsýsluleg álitaefni.

Hjá ríkisendurskoðun hafa menn sérþekkingu til að
úrskurða um reikningshald og reikningsskil en ekki stjórnsýslu. Þegar
menntamálaráðuneytið fékk
skýrslu ríkisendurskoðunar til umsagnar voru gerðar athugasemdir varðandi
stjórnsýsluþáttinn. Við erum ekki verr í stakk búnir en ríkisendurskoðun
til að hafa skoðun á því hvernig eigi að standa að vandaðri stjórnsýslu. Þess
vegna fullyrði ég að okkar skjal sé jafngilt skjali ríkisendurskoðunar,
þegar kemur að stjórnsýsluþættinum."

Nú hefur skipulagsstofnun lagst gegn Kárahnjúkavirkjun. Hver er þín skoðun
á þeim úrskurði?

"Mér finnst töluverðir meinbugir á niðurstöðu skipulagsstofnunar,
meðal annars með hliðsjón af kröfum vandaðrar stjórnsýslu. Þarna eru gífurlegir hagsmunir í húfi, mörg
hundruð milljarðar króna sem liggja undir. Nokkrum klukkustundum
eftir að skýrsla skipulagsstofnunar er lögð fram keppast menn við að segja að stofnunin
hafi sent frá sér mjög vandað og gott álit. Mér þykir þetta fljótfærnisleg ályktun. Ég hef staldrað við og spurt
sjálfan mig að því, hvernig stofnunin geti á þeim
forsendum, sem hún kynnir í niðurstöðum sínum, komist að jafn
afdráttarlausri niðurstöðu og við blasir. Ég hef miklar efasemdir um, að vinnubrögð skipulagsstofnunar í þessu máli falli undir vandaða stjórnsýslu.

Þegar rætt er um sjálfstæði ríkisstofnanna almennt og mikilvægi þeirra
verður
um leið að gera sér grein fyrir því hvert verkefni þeirra er. Þess gætir um of, að menn túlki hlutverk ríkisstofnana þannig að þær hafi
jafnmikið vit á
öllum hlutum, ekki bara þeim verkefnum sem þeim er sérstaklega ætlað að
sinna."

Ætlar þú að demba þér í borgarstjóraslag?

"Ég tek aldrei ákvörðun fyrr en ég tel það tímabært. Mér finnst ekki
komið að
því að taka ákvörðun í þessu máli. Ég fylgist með umræðunni. Það hefur
satt að segja komið mér á óvart hvað R-listinn virðist njóta lítils
hljómgrunns hjá mörgum sem ég hélt að væru eindregnir stuðningsmenn hans.
Það hefur runnið æ betur upp fyrir mér hvað það hefur raunverulega lítið
áunnist í borginni á þessum árum sem R-listinn hefur verið við stjórn. Því
sárara þætti mér ef hann næði
endurkjöri næsta vor. Hann á það ekki skilið miðað við doðann, sem einkennir störf hans og setur æ meiri svip á borgarlífið.

Sem menntamálaráðherra hef ég margsinnis rekið mig á það, hve erfitt er að fá fram
niðurstöðu frá borginni. Oft er leitast við að skjóta sér undan ábyrgð með
útúrsnúningum og jafnvel óbilgirni sem ég hef ekki kynnst í samskiptum
við aðrar
sveitarstjórnir."

Nú virðist Ingibjörg Sólrún njóta mikils trausts, er ekki vonlaust að fella
hana?

"Þú veist að í stjórnmálum er ekkert vonlaust. R-listinn á allt undir því

Ingibjörg sé þar í forystu og þar er ekkert kappsmál að beina athyglinni að
öllu því margflokka liði sem stendur á bak við hana. Það fer heldur ekki framhjá manni
að Ingibjörg á öfluga málsvara á fjölmiðlunum."

Eins og hverja?

"Menn þurfa ekki annað en að lesa eða hlusta til að verða varir við það."

Víkjum að Ríkisútvarpinu. Á það að fara af auglýsingamarkaði?

"Það er ljóst að það þrengist um á auglýsingamarkaði og keppinautar
ríkisútvarpsins eru að hagræða hjá sér. Það sama verður ríkisútvarpið að
gera. Þar eiga menn ekki sjálfkrafa að líta svo á að tekjutapi eigi að mæta
með því að hækka afnotagjöldin. Ég hef ekki orðið var við að dagblöðin mæti
tekjutapi með því að hækka
áskriftargjöldin. Það er ekki stefna mín, að ríkisútvarpið eigi að fara af
auglýsingamarkaði. Ég vil, að því verði breytt í hlutafélag í eigu ríkisins
og að innan þess eigi að hagræða, eins og gert er á hinum almenna markaði."


Hvað með að setja Ríkisútvarpið á fjárlög?

"Ég tel að það séu þrjár leiðir til að innheimta tekjur ríkisútvarpsins,
fyrir utan tekjur af auglýsingum. Það eru afnotagjöldin, það er nefskattur
og að ríkisútvarpið verði eins og hver önnur fjárlagastofnun. Þá myndu
skattgreiðendur borga í ríkissjóð og
ríkissjóður og alþingi deildu síðan ákveðnu fé til ríkisútvarpsins.
Innheimtukostnaður ríkisútvarpsins er mjög hár og fólki er illa við þessar
svokölluðu njósnir um eigendur á sjónvarpstækjum. Með því að setja RÚV á
fjárlög myndum við draga úr þessum afskiptum. Í skoðanakönnun hefur komið
fram, að 42,9% vilja að ríkisútvarpið fái opinberar tekjur með almennri
skattheimtu, eða á fjárlögum, 33,7% vilja afnotagjaldið.

Það stendur þróun ríkisútvarpsins fyrir þrifum, að ekki er pólitískur
meirihluti til að breyta fyrirkomulagi þess. Þeir sem telja sig helstu
talsmenn ríkisútvarps í almannaþágu eru að verða helstu óvinir þess ef þeir
leyfa fyrirtækinu ekki að þróast í samræmi við
breyttar aðstæður."

Þú ert með heimasíðu sem þú virðist sinna mjög vel, fer ekki óskaplegur
tími í hana?

Það er afstætt en mér finnst hann ekki mikill, vegna þess að ég hef ánægju af
því að sinna síðunni. Í blaðamennskunni í gamla daga var ég oft á
ferðalögum og vandist því að setjast síðan niður og skrifa lýsingu á
atburðum. Pistlaskrifin á heimasíðunni eru framlenging af þessu. Þau eru ekki
kvöð heldur skemmtun. Það eru mörg hundruð áskrifendur að síðunni þannig
að það hafa fleiri gaman að
þessu en ég."

Nú hefurðu verið gagnrýndur fyrir harkaleg skrif, sumum finnst ekki við
hæfi að menntamálaráðherra gagnrýni menn jafn rösklega og þú gerir oft og
tíðum í þínum skrifum. Tekurðu gagnrýni nærri þér?

"Ef svo er, snertir það mig helst illa að sæta gagnrýni á
ómálefnalegum forsendum og með sleggjudómum. Málefnalegar rökræður finnst mér hins vegar
skemmtilegar. Hvers virði er að sinna stjórnmálum án þess að hafa skoðun og
láta hana í ljós? Kappsfullir vinstrisinnar óttast mest um
framtíð R-listans, vegna þess að einhverjir í baklandi listans ætli að leggja rækt við stjórnmálasannfæringu sína.
Sumir þeirra finna einnig að því, að ég skuli hafa skoðanir og láta
þær í ljós. Stjórnmálamenn ganga fram á völlinn til að takast á um hugmyndir, markmið og leiðir. Þeir verða því að gera grein fyrir afstöðu sinni. Seta í embætti á ekki að hindra þá í að gera það eða svipta þá réttinum til að svara fyrir sig. Ég hef nýtt mér upplýsingatæknina í því skyni og sé síður en svo eftir því."


Því var vikið að mér að þú værir mikill hasarmyndaáhugamaður? Nú er Bruce
Willis uppáhaldshasarhetjan mín, hver er þín?

Ég er sammála þér, Bruce Willis er með þeim betri. Ég fer yfirleitt að sjá
hans myndir. Sjötta skilningarvitið er til dæmis mynd sem ég var hrifinn
af, hún kom mér skemmtilega á
óvart. Ég hefði viljað vera í sporum vinar míns sem fór til Parísar fyrr í sumar
og sagðist hafa verið þar á kaffihúsi þegar Bruce Willis kom inn og settist við næsta
borð. Ég sé á þér, Kolbrún, að þú hefðir líka viljað vera þar."

Hvernig hasarmyndir líka þér best?

"Matrix þótti mér mjög góð mynd. Líka Enemy of the State og svipaðar
myndir
þar sem er verið að sýna, hvernig nútímatækni er virkjuð til að
fylgjast með fólki. Ef svona myndir eru vel gerðar þá sýna þær
athyglisverða hlið á okkar samtíma. Margt af því sem þarna er
verið að sýna er til í raunveruleikanum. Dæmi um þetta er lögreglumaðurinn
með tetra kerfið í bíl sínum, sem gerði yfirmönnum hans kleift að fylgjast
með öllum hans hreyfingum.

Crouching Tiger, Hidden Dragon er líka mynd sem ég hafði mikla ánægju af,
enda
hef ég lagt mig dálítið eftir því að kynna mér undirstöðurnar í þeirri bardagalist
sem þar er sýnd. Það eru mjög einfaldar æfingar sem búa þarna að baki en
sagt er að menn sem hafi náð mestri þjálfun í þeim, eins og til dæmis
tíbetskir munkar hafi getað myndað svo mikla orku innra með sér að
þeir
hafi svifið. Í þessari mynd var einnig mystískur boðskapur, sem mér
virðist hafa farið framhjá mörgum kvikmyndagagnrýnendum."

Ef þú værir ekki að vasast í stjórnmálum, hvað myndirðu þá vilja gera?

"Þá myndi ég vilja lifa á því að skrifa. Skriftir kalla á mig enda sérðu að
það eru þær sem ég gef mér helst tíma til sinna, fyrir utan fjölskyldu mína og
starfið. Ég á auðvelt með að skrifa, og ef svo ber undir
skrifa ég ekki síður bréf en embættismenn í menntamálaráðuneytinu. Það má næstum telja á fingrum annarrar handar ráðherraræðurnar, sem ég hef ekki skrifað sjálfur og oft þykir mér verst að hafa ekki
meiri tíma til að sinna þessum þætti í starfi mínu.. Skriftir gefa mér
mikið og nú í haust er fyrsta bókin mín væntanleg hjá Nýja bókafélaginu undir ritstjórn Jakobs F. Ásgeirssonar. Við höfum ákveðið að kalla hana Í hita kalda stríðsins, og þar verður einkum að finna greinar um utanríkis- og öryggismál
frá Morgunblaðsárum mínum - en Kolbrún, ég lofa þér því, að ég ætla ekki að leggja fyrir mig smásagnagerð."