5.5.2001

Farsælt varnarsamstarf kallar á verkaskiptingu - Morgunblaðið 5. maí 2001



   


Farsælt varnarsamstarf kallar á verkaskiptingu

Morgunblaðið, 5. maí, 2001.




SIGMUND, hinn ágæti teiknari og stjórnmálarýnir Morgunblaðsins, setur mig gjarnan í brynju á myndum sínum.

SIGMUND, hinn ágæti teiknari og stjórnmálarýnir Morgunblaðsins, setur mig gjarnan í brynju á myndum sínum. Tilefnið er, að í september 1995 flutti ég erindi á alþjóðlegri ráðstefnu í Reykjavík um öryggis- og umhverfismál á Norður-Atlantshafi og hvatti til þess, að Íslendingar litu varnir sínar nýjum augum og ræddu, hvað þeir ættu sjálfir að leggja af mörkum í því skyni.

Þegar ritstjórn Morgunblaðsins býður mér að taka þátt í að fagna þeim merkisatburði, að hinn 5. maí 2001 eru 50 ár liðin síðan ritað var undir varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna, ætla ég að líta að nýju á hlut Íslendinga í eigin vörnum, þótt viðbrögðin haustið 1995 hafi staðfest þá skoðun mína, að um ýmsa þætti íslenskra öryggismála vilji menn helst ekki ræða og þar á meðal, hver eigi að vera hlutur okkar Íslendinga sjálfra við gæslu eigin öryggis. Kýs ég að endursegja erindið að verulegum hluta, því að það hefur aldrei birst á íslensku, og lesendur munu auk þess sjá að á sviði öryggismála sem öðrum fer því fjarri að stöðnun einkenni umræður auk þess sem efnistök stjórnvalda breytast í samræmi við nýjar kröfur.


Harðar deilur
Umræður um varnir Íslands hafa fylgt mér frá blautu barnsbeini, því að faðir minn, Bjarni Benediktsson, var löngum í fremstu röð þeirra, sem mótuðu stefnu Íslands í utanríkis- og öryggismálum. Hann ritaði í senn undir Atlantshafssáttmálann, stofnskrá Atlantshafsbandalagsins (NATO) fyrir Íslands hönd hinn 4. apríl 1949 og varnarsamninginn 5. maí 1951. Óeirðir urðu á Austurvelli hinn 30. mars 1949 og kommúnistar réðust með grjótkasti á Alþingishúsið, þegar aðildin að NATO var samþykkt. Þá þótti skynsamlegt, að við Guðrún, systir mín, værum á heimili frændfólks í öryggisskyni og um nokkurt skeið var sérstök öryggisgæsla við heimili okkar vegna hinnar pólitísku spennu, sem ríkti.

Kóreustyrjöldin, umræður um hættuna af kjarnorkumætti Sovétríkjanna í upphafi sjötta áratugarins og átökin um það 1956, hvort bandaríska varnarliðið ætti að hverfa af landi brott vöktu mikinn áhuga hjá mér og höfðu mótandi áhrif. Í upphafi sjöunda áratugarins varð síðan Kúbudeilan og mannkyn stóð nær því en nokkru sinni fyrr eða síðar, að gripið yrði til kjarnorkuvopna í samskiptum Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Sannfærðist ég um, að það væri ekki háð tímabundnu mati á einstökum atburðum á alþjóðavettvangi, hvort gera þyrfti ráðstafanir til að tryggja öryggi og varnir Íslands, heldur væri þar um varanlegt viðfangsefni að ræða. Engin þjóð gæti leyft sér að vera eins og strúturinn og stinga höfðinu í sandinn, ef hættu bæri að höndum. Líta bæri á ráðstafnir til að gæta ytra öryggis þjóða sömu augum og einstaklingar gera, þegar þeir semja við tryggingafélag eða nú við öryggisgæslufyrirtæki til að tryggja eigið öryggi sem best.

Festa ríkti í varnarmálunum á viðreisnaráratugnum. Hér var haldinn utanríkisráðherrafundur NATO í fyrsta sinn árið 1968 og kom ég að því á Morgunblaðinu að vinna að útgáfu sérstaks blaðs í tilefni af honum.

Kynntist ég þá fyrst stefnu bandalagsins náið en lengi var talað um merki NATO frá Reykjavík, þar sem annars vegar var lögð áhersla á að NATO mundi halda úti öflugum vörnum en hins vegar leita eftir viðræðum um takmörkun vígbúnaðar við Varsjárbandalagsríkin. Á þessum árum vildi faðir minn, að íslensk stjórnvöld leituðu til erlendra sérfræðinga til að leggja mat á öryggishagsmuni Íslands og hvaða ráðstafanir væru nauðsynlegar til að gæta þeirra, en á sjöunda áratugnum fóru sovéskar herflugvélar að láta að sér kveða í nágrenni Íslands og kafbátafloti þeirra á Norður-Atlantshafi stækkað jafnt og þétt. Geta menn rétt ímyndað sér, hvað gerst hefði í Kúbudeilunni hér á Atlantshafi, ef Sovétmenn hefðu þá ráðið yfir þeim úthafsflota, sem þeir hófu að smíða á sjöunda áratugnum. Hernaðarlegt gildi Íslands í samskiptum austurs og vesturs jókst ár frá ári í samræmi við spennuna í vígbúnaðarkapphlaupinu.

Árið 1971 tók vinstri stjórn við af viðreisnarstjórninni og hún vildi eins og vinstri stjórnin frá árinu 1956 draga úr vörnum landsins.

Sjálfstæðisflokkurinn snerist gegn þessari stefnu. Flokkurinn breytti innra skipulagi sínu á þessum árum og kom á fót málefnanefndum, þar á meðal utanríkismálanefnd og varð ég formaður hennar og tók virkan þátt í umræðunum um varnarmál. Vegna útþenslu Sovétmanna á Norður-Atlantshafi beindist athyglin meira en ella að varnarleysisstefnu íslenskra stjórnvalda. Hingað komu sérfræðingar og blaðamenn til kynna sér aðstæður og hitti ég marga þeirra, þar á meðal Johan Jörgen Holst, sem síðar varð varnarmálaráðherra og utanríkisráðherra Noregs. Fyrir hans tilstilli tók ég til við að rita greinar um íslensk utanríkis- og öryggismál í erlend tímarit og bækur um þessi efni og taka þátt í ráðstefnum um þau víða um lönd. Frá þessum árum er mér einnig minnisstæð ferð, sem Geir Hallgrímsson, Matthías Á. Mathiesen, Styrmir Gunnarsson og ég fórum til Noregs til að kynnast stefnunni í varnar- og öryggismálum og ræða um hana við forystumenn á sviði stjórnmála og varnarmála. Höfðu þeir áhyggjur af því, ef Íslendingar hættu þátttöku í þeirri öryggiskeðju sem varnarsamstarfið myndaði með aðild okkar frá Norður-Ameríku til Noregs.

Nýlega skýrði norska blaðið Aftenposten frá því, að á árunum 1971 til 1974, sömu árin og ríkisstjórn undir forsæti Ólafs Jóhannessonar gældi við að láta varnarliðið hverfa úr landi í áföngum, hefðu farið fram viðræður milli Finna og Sovétmanna, um að sovéskt herlið og hergögn fengju fastan samastað í Norður-Finnlandi og Finnar veittu Sovétmönnum aðstoð við hugsanlega innrás í Noreg. Byggðist fréttin á rannsóknum finnsks blaðamanns á austur-þýskum Stasi-skjölum. Hvort sem norsk stjórnvöld höfðu grun um þetta hernaðarbrölt Sovétmanna við austurlandamæri sín eða ekki á sama tíma og íslensk stjórnvöld vildu stuðla að varnarleysi fyrir vestan Noreg á Norður-Atlantshafi, þarf engan að undra, að þau höfðu miklar áhyggjur af því, sem hér kynni að gerast.

Þáttaskil urðu í pólitískum umræðum um veru bandaríska varnarliðsins vorið 1974, þegar fyrir lá í undirskriftasöfnun Varins lands, að 55.522 íslenskir kjósendur vildu ekki hrófla við stefnunni í varnarmálum. Er eftirminnilegt að hafa tekið þátt í þeirri miklu fjöldahreyfingu og kynnast því af eigin raun af hve mikilli vandvirkni var að framkvæmd hennar staðið, þótt forsvarsmenn söfnunarinnar fengju á opinberum vettvangi á sig blóðugar skammir frá andstæðingum hins góða og vinsæla málstaðar. Líklega sauð þar upp úr í málefnasnauðum áróðri þeirra, sem mæltu varnarleysi Íslands bót en sagan sýnir okkur nú, að bein og óbein tengsl þeirra við andstæðinga Vesturlanda í kommúnistaríkjunum voru meiri en þá var unnt að leiða í ljós með haldbærum gögnum. Sumarið 1974 vann Sjálfstæðisflokkurinn góðan sigur í þingkosningum og ríkisstjórn var mynduð undir forsæti Geirs Hallgrímssonar.

Hún batt enda á óvissuna í varnarmálunum á fyrstu mánuðum sínum.

Síðustu 15 árin, þar til Sovétríkin og valdakerfi þeirra í Austur-Evrópu liðu undir lok árið 1991, leituðust andstæðingar varnarsamstarfsins við Bandaríkin einkum við að gera það tortryggilegt með því að ala á grunsemdum, um að kjarnorkuvopn væru á Keflavíkurflugvelli. Er það kapítuli út af fyrir sig að rifja þá sögu upp og hverjir létu mest að sér kveða í henni. Tók ég mikinn þátt í umræðum um þau mál hér á síðum Morgunblaðsins sem blaðamaður þess. Þáttur Morgunblaðsins í þágu varnarsamstarfsins hefur verið mikill síðustu 50 ár og styrkurinn, sem blaðið sýndi í hörðum deilum kalda stríðsins, er ein af forsendum þess trausts og trúverðugleika, sem það nýtur enn þann dag í dag meðal þjóðarinnar.


Íslensk öryggissveit
Í erindinu 1995 spurði ég, hvort við gætum treyst því, að hin farsæla stefna í varnar- og öryggismálum, sem Íslendingar hefðu fylgt í rúm 50 ár sem sjálfstæð þjóð, mundi veita þeim sama skjól á nýrri öld. Svaraði ég á þann veg, að við gætum varla vænst þess. Ég taldi, að áfram myndum við geta treyst á aðild okkar að NATO og varnarsamninginn við Bandaríkin en á hinn bóginn kynni afstaða NATO og Bandaríkjamanna til varnarstöðvarinnar að breytast á þann veg, að þar yrði minni liðsafli og viðbúnaður en áður og það tæki lengri tíma en verið hefði að kalla út þann herstyrk, sem kynni að þurfa til að verja landið. Íslensk stjórnvöld myndu áfram óska eftir öryggistryggingu frá Bandaríkjastjórn á hættutímum, en vandasamt kynni að verða að fá með skömmum fyrirvara landher til að verja lykilmannvirki í landinu.

Síðan 1995 hafa engar meginbreytingar orðið á varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna. Það hefur reynst rétt, sem við talsmenn þess héldum fram eftir lok kalda stríðsins, að bæði íslensk og bandarísk stjórnvöld líta á það sem varanlegan lið í að gæta öryggishagsmuna þjóða sinna að eiga samstarf í varnarmálum. Spurningar hafa hins vegar vaknað um, hvernig staðið skuli að framkvæmd þess.

Varnarsamningurinn frá 1951 hefur ekki gildi nema með rökum sé sýnt fram á, að gerðar séu ráðstafanir til að sinna skyldum í samræmi við efni hans. Það verður ekki gert nema unnt sé að fylgjast með skipaferðum við Ísland, halda uppi vörnum í lofthelgi Íslands, hafa tiltækar áætlanir um varnir landsins og æfa framkvæmd þeirra. Einnig þarf að sýna með áætlunum og viðbúnaði, hvernig unnt er að tryggja öryggi þeirra, sem lenda í lífsháska á Íslandi eða í nágrenni við landið.

Hinn 4. janúar 1994 var í fyrsta sinn gengið frá sameiginlegri bókun milli ríkisstjórna Íslands og Bandaríkjanna um framkvæmd varnarsamningsins til næstu tveggja ára. Var gildistími bókunarinnar framlengdur til fimm ára hinn 9. apríl 1996. Er því enn kominn tími til þess að huga að þessari bókun. Að mínu áliti er þetta fyrirkomulag ekki skynsamlegt, enda í andstöðu við hefðir í samstarfi þjóðanna frá 1951 til 1994 og það eðli varnarsamningsins, að hann gildi, þar til annar hvor aðili hans vill rifta honum. Samkvæmt samningnum ber að standa að vörnunum í samræmi við sameiginlegt mat á öryggishagsmunum hverju sinni. Með hina sameiginlegu og varanlegu hagsmuni í huga hafa Bandaríkjamenn hag af því að halda hér úti þeim liðsafla og tækjakosti, sem er nauðsynlegur til eftirlits í og á hafinu og dugar til fyrstu viðbragða á landi og í lofti. Ef fallið yrði frá því að framkvæma varnarsamninginn með þessum hætti, skapaðist sú pólitíska aðstaða, að á hættustundu kynnu ákvarðanir um slíka grunnþætti að leiða til hættulegrar stigmögnunar og skapa spennu í samskiptum þjóðanna og út á við.

Vitna ég þá enn til þess, sem ég sagði í erindinu í september 1995. Benti ég á, að það væri frumskylda sérhverrar ríkisstjórnar að sýna fram á, að hún hefði gert áætlanir til að verja borgara sína og land. Ekki væri til frambúðar unnt að setja allt sitt traust í þessu efni á Bandaríkjamenn.

Þegar rætt hefði verið um aukinn hlut Íslendinga í eigin vörnum, hefði á liðnum árum því verið borið við, að hann kæmi ekki til álita vegna fámennis þjóðarinnar og fátæktar. Þetta ætti ekki lengur við sem röksemd.

Íslendingar væru meðal ríkustu þjóða heims, þeir stæðu ekki undir neinum útgjöldum vegna eigin varna og hefðu raunar frekar hagnast á þeim fjárhagslega en hitt í samstarfi við Bandaríkjamenn. Til langframa væri erfitt að sjá rök fyrir því, að staða Íslendinga í þessu efni yrði önnur en til dæmis annarra Norðurlandaþjóða, sem verðu milli 2 og 3% af þjóðarframleiðslu sinni til eigin varna. Ég minnti á það, að í nýlegum viðræðum milli bandaríska varnarmálaráðuneytisins og fulltrúa íslensku ríkisstjórnarinnar hefði megináhersla verið lögð á að spara og hagræða í störfum varnarliðsins en Íslendingar hefðu neitað að leggja fram fé til að standa undir kostnaði vegna dvalar varnarliðsins. Sagðist ég styðja þá afstöðu heilshugar, því að greiðsla til Bandaríkjahers jafngilti í raun skattgreiðslu til Bandaríkjanna vegna eigin öryggis þeirra, eða það sem verra væri, herafli þeirra fengi stöðu málaliða á Íslandi. Ef við ættum að axla fjárhagslegar byrðar vegna eigin varna, skyldum við gera það með því að taka sjálfir að okkur skilgreinda þætti þeirra.

Ég vék að íbúafjölda landsins og sagði, að með því að nota þumalfingursreglu mætti ætla, að unnt yrði að kalla 8 til 10% þjóðarinnar til að sinna vörnum landsins á hættustundu eða milli 20.000 og 28.000 manns, án þess að efnhags- og atvinnulíf þjóðarinnar lamaðist. Við slíkan fjölda væri miðað í Lúxemborg, þar sem um 1000 manns sinntu störfum í her landsins á friðartímum. Unnt yrði að þjálfa fámennan hóp Íslendinga, 500 til 1000 manns, til að starfa að vörnum landsins, án þess að setja vinnumarkaðinn úr skorðum. Með því að hafa slíkan liðsafla í þágu landvarna gætu íslensk stjórnvöld brugðist við með öðrum hætti en ella væri. Til dæmis yrði unnt að gæta öryggis mikilvægra mannvirkja um land allt án þess að kalla þyrfti liðsauka frá Bandaríkjunum, ef ekki væri um stórhættuástand að ræða. Þá mætti nota liðið til að bæta almannavarnir og í því skyni að bregðast við náttúruhamförum.

Röksemdirnar í erindinu frá 1995 halda enn gildi sínu og fleiri hafa komið til sögunnar, sem hníga til sömu áttar. Nefni ég þar sérstaklega þátttöku okkar Íslendinga í alþjóðlegri friðargæslu. Hún hefur aukist ár frá ári og er orðin liður í gæslu öryggishagsmuna okkar eins og þátttaka í hermálanefnd NATO og aðild íslenskra stjórnvalda, þar á meðal sérsveitar á vegum ríkislögreglustjóra, í heræfingum hér á landi annað hvert ár.


Íslenska friðargæslan


Í nóvember 2000 skilaði starfshópur um þátttöku Íslendinga í friðargæslu skýrslu, en í honum sátu fulltrúar nokkurra ráðuneyta undir forustu utanríkisráðuneytisins. Í skýrslunni er minnt á, að síðan 1994 hafa fjárveitingar til þátttöku í friðargæslu verið fastur liður á fjárlögum en talið er, að launa- og ferðakostnaður vegna hvers Íslendings, sem tekur þátt í slíkum störfum sé 5 til 8 milljónir króna en heildarkostnaður ríkissjóðs af þátttöku hvers friðargæsluliða sé á bilinu 8 til 10 milljónir króna.

Síðastliðin sex ár hafa rúmlega 30 læknar og hjúkrunarfræðingar starfað á vegum Íslands í Bosníu og Kósóvó, fyrst með norska hernum frá 1994 en síðan með breska hernum frá 1996. Það ár gerðu íslensk og bresk stjórnvöld með sér sérstakt samkomulag um samstarf á sviði friðargæslu í Bosníu, sem fólst í því, að íslenskt heilbrigðisstarfsfólk fengi þjálfun í Bretlandi og starfaði í kjölfarið tiltekinn tíma með breska hernum í Bosníu.

Samkomulagið var endurnýjað á fyrri hluta árs 2000 og nær nú einnig til samstarfs í Kósóvó. Alls hefur á annan tug lögreglumanna starfað á vegum alþjóðlegu lögreglusveita SÞ (IPTF-International Police Task Force) í Bosníu frá árinu 1997 og í Kósóvó frá árinu 2000. Íslensku lögreglumennirnir starfa að jafnaði í 6-8 mánuði innan danskrar lögreglusveitar. Lögregluskrifstofa friðargæsludeildar SÞ hefur lofað mjög starf íslenskra lögreglumanna á Balkanskaga og óskað sérstaklega eftir því að íslensk stjórnvöld fjölgi þeim í allt að 8-10 manns á hverjum tíma, segir í skýrslu starfshópsins.

Þar kemur einnig fram, að friðargæsluliðar frá Íslandi sem starfandi eru innan breskra herdeilda í Bosníu og Kósóvó hafa verið einkenndir með búningum samstarfsaðila hverju sinni. Álitamál sé hvort æskilegt sé að íslenskir starfsmenn beri íslenskan einkennisbúning. Að vissu leyti gæti slíkt auðveldað aðkomu íslensks starfsliðs í erlenda hersveit og jafnframt gert framlag Íslands sýnilegra.

Í tillögum sínum leggur starfshópurinn til, að þátttaka Íslands í alþjóðlegri friðargæslu verði efld með það fyrir augum að Ísland geti, þegar þörf krefur, lagt af mörkum og kostað ákveðinn fjölda starfsfólks til friðargæsluverkefna á hverjum tíma. Stefnt verði að því, að á næstu 2-3 árum geti allt að 25 manns starfað við friðargæslu á vegum Íslands á hverjum tíma. Með aukinni þátttöku og reynslu af friðargæslu verði miðað við að fjölga friðargæsluliðum í allt að 50 manns. Til greina komi menn úr hinum ýmsu starfsstéttum, þ.á m. lögreglumenn, læknar og hjúkrunarfræðingar, lögfræðingar, stjórnendur og tæknimenntað starfslið. Er lagt til, að eftir auglýsinga- og kynningarstarf verði komið upp skrá eða lista yfir allt að 100 manns, undir heitinu Íslenska friðargæslan, sem séu tilbúnir til að fara til friðargæslustarfa með stuttum fyrirvara og gefa skriflega yfirlýsingu þess efnis. Þá vill hópurinn, að friðargæslu verði komið varanlega fyrir í stjórnsýslunni undir forystu utanríkisráðuneytisins í því skyni að hægt sé að standa sem best að ráðningu, þjálfun og tengslum við friðargæsluliða sem og stofnanir, innlendar- og alþjóðlegar sem tengjast málefninu.


Mat á núverandi hættu
Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra kynnti snemma árs 1999 greinargerð starfshóps innan utanríkisþjónustunnar, sem nefnist: Öryggis- og varnarmál við aldamót. Ein af megintillögum hópsins er þessi: "Kannaðar verða leiðir til þess að Íslendingar geti axlað stærra hlutverk, einir eða í samstarfi við önnur ríki, í vörnum landsins, þ. á m. á sviði löggæslu, varna gegn hryðjuverkum, almannavarna, björgunarstarfa, æfinga og eftirlits á hafinu kringum landið. Sjá verður til þess að mögulegt sé að nýta reynslu og þekkingu þeirra Íslendinga, sem starfað hafa að friðargæslu á erlendum vettvangi, í þágu varna landsins og öryggis eftir að þeir snúa heim." Þá leggur hópurinn til, að kannað verði, hvort það þjóni hagsmunum Íslands að taka þátt í alþjóðlegum herlögreglusveitum Atlantshafsbandalagsins (MSU) í Bosníu og Hersegóvínu, en hlutverk sveitanna er að bregðast við óvæntum atvikum, sem ekki krefjast afskipta herliðs, en eru ofviða óvopnuðum lögreglumönnum. Sérþjálfun lögreglu og öryggissveita við verkefni af þessu tagi kynni að mati starfshópsins að nýtast íslenskum stjórnvöldum við varnarstörf gegn hermdar- og hryðjuverkum.

Þá segir hópurinn, að meta þurfi þær raunverulegu hættur, sem Íslandi, þar með stjórnkerfi og mannvirkjum, kynni að stafa af hermdar- og hryðjuverkastarfsemi, skipulagðri glæpastarfsemi og útbreiðslu gereyðingarvopna. Mikilvægt sé, að stjórnvöld hafi sem mesta burði til að fylgjast með og bregðast við starfsemi öfgahópa í samstarfi við önnur ríki og haldi áfram uppbyggingu sérsveitar lögreglunnar. Með aukinni ábyrgð Íslands á alþjóðavettvangi, til dæmis með hugsanlegri aðild að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna kynni athygli misjafnra stjórnmálaafla að beinast að Íslandi á annan hátt en Íslendingar hafa vanist. Segir hópurinn, að huga þurfi sérstaklega að innra öryggi í landinu. Hér er með öðrum orðum bent á hættuna af því, að öfgahópar eða jafnvel hryðjuverkamenn beini athygli sinni að Íslandi, ef og þegar íslensk stjórnvöld láta meira að sér kveða á alþjóðavettvangi.


Engin stöðnun


Á áttunda áratugnum velti ég því fyrir mér, hvers vegna ekki væri efnt til heræfinga á Íslandi til að sýna Íslendingum og öðrum svart á hvítu fram á það, að fyrir lægju áætlanir um varnir landsins og að unnt væri að framkvæma þær. Minnist ég þess, að ýmsum þótti þetta fráleitt, slíkar æfingar yrðu aðeins til að espa almenning gegn varnarsamstarfinu.

Spurningum um aðild Íslands að hermálasamstarfi NATO var svarað á svipaðan hátt. Þótti sumum það ögrun í stjórnmálum heima fyrir, að Íslendingar ættu virka aðild að hernaðarlegu samstarfi í bandalagi, sem var stofnað til að styrkja sameiginlegar varnir. Nú er ekki lengur litið á heræfingar á Íslandi eða setu hermenntaðs fulltrúa Íslands í hermálanefnd NATO sem goðgá. Íslenskur fulltrúi hefur meira að segja tekið þátt í fundum kjarnorkuáætlananefndar NATO eins og við höfum fullan rétt til og eigum að gera.

Íslendingum ber sem sjálfstæðri þjóð skylda til að sýna og axla ábyrgð í varnar- og öryggismálum, annars eru þeir ekki fullgildir þátttakendur í samfélagi þjóðanna. Umræður um aukinn hlut okkar í eigin vörnum er hluti af þróun í þessu efni, þar sem aldrei má ríkja stöðnun og ávallt verður að skoða alla kosti til hlítar. Skýrslan og tillögurnar, sem ég hef rifjað upp hér að framan, eru til marks um að fyrir liggja rökstuddar ábendingar um það, hvernig á að sinna ábyrgð íslenska ríkisins á öryggi eigin borgara og vegna þátttöku Íslendinga í alþjóðlegri samvinnu. Þessum verkefnum verður ekki sinnt, nema hugað sé að því að þjálfa Íslendinga til öryggisstarfa.

Við getum alls ekki vænst þess, að bandaríska varnarliðið komi að þessum verkefnum í okkar þágu, þótt þau lúti að því að tryggja varnir og öryggi.

Með öðrum orðum er verið að ræða um sambærilega verkaskiptingu og ég gat um í erindinu árið 1995.

Á dögum kalda stríðsins var oft spurt: Gegn hvaða hættu þurfa Íslendingar að tryggja öryggi sitt? Er ekki varnarliðið sjálft segull, sem kallar á árás? Sagan sýnir, að full ástæða var til að grípa til öflugra ráðstafana í því skyni að koma í veg fyrir, að valdatómarúm skapaðast í öryggismálum Íslands. Varnarsamningurinn veitti tryggingu, þar sem öllu smáu letri var sleppt. Sovétstjórnin leitaði markvisst eftir að ná tangarhaldi, þar sem færi gafst. Kenningar um að ekki skipti máli, að hvoru stórveldi þjóðir hölluðu sér, af því að bæði væru jafnill, hafa fokið út í veður og vind.

Nú á tímum er einnig ástæða til að spyrja: Gegn hvaða hættu þurfa Íslendinga að tryggja öryggi sitt? Hvernig verður það best gert? Ég ítreka það, sem ég sagði í upphafi, að við eigum að líta á gæslu öryggishagsmuna þjóðarinnar sem varanlegt viðfangsefni en ekki meta nauðsyn hennar á forsendum einstakra viðburða á alþjóðavettvangi. Þessir viðburðir veita okkur hins vegar svör við því, hvernig öryggisins sé best gætt hverju sinni. Með því að treysta áfram á tvíhliða varnarsamstarf við Bandaríkin innan vébanda NATO og huga jafnframt enn frekar að eigin hlutdeild í gæslu innra öyggis er íslensku þjóðinni best borgið í þessum efnum.




© Morgunblaðið.