21.4.2001

Handritin heim - 30 ára afmæli

Handritin heim
fyrir 30 árum,
hátíðarsal Háskóla Íslands,
21. apríl, 2001.


Heimkoma handritanna frá Kaupmannahöfn fyrir þrjátíu árum, hinn 21. apríl 1971, er meðal stórviðburða Íslandssögunnar og hún gleymist okkur aldrei, sem vorum vitni að því, þegar danska varðskipið Vædderen lagðist að bryggju í Reykjavík og fylgdumst síðan með ferð Kongungsbókar Eddukvæða og Flateyjarbókar í Háskólabíó, þar sem Helge Larsen, danski menntamálaráðherrann, mælti fleygu orðin þrjú og afhenti dr. Gylfa Þ. Gíslasyni, starfsbróður sínum, þjóðardýrgripina.

Allt frá því að við Íslendingar fengum heimastjórn undir forystu Hannesar Hafsteins snemma á síðustu öld, hafði alþingi skorað á ríkisstjórnina að gera ráðstafanir til að endurheimta íslensk skjöl og handrit úr hinu einstæða safni Árna Magnússonar, sem hann safnaði um aldamótin 1700 og arfleiddi Kaupmannahafnarháskóla að daginn fyrir andlát sitt.

Í ræðu, sem dr. Gylfi flutti í hátíðarkvöldverði danska menntamálaráðherrans í Kristjánsborgarhöll vegna lykta handritadeilunnar sagði hann: „...[O]kkur Íslendingum finnst framkoma Dana í handritamálinu í okkar garð vera þannig, að vinátta Íslendinga í garð Dana hefur aldrei verið meiri en nú, að virðing okkar fyrir Dönum hefur aldrei verið dýpri. Við teljum hér vera um að ræða atburð, sem ætti skilið að vekja heimsathygli. Ef það hugarfar, sem mótað hefur lausn handritamálsins, ríkti í samskiptum stórþjóðanna, þá þyrfti mannkyn ekki að óttast um framtíð sína."

Þessi orð eiga við enn þann í dag, þegar við lítum á þennan einstæða atburð í samskiptum þjóða í sögulegu ljósi.

Formlega lauk handritamálinu með samkomulagi menntamálaráðherra Dana og Íslendinga, þeirra Bertels Haarders og Sverris Hermannssonar, sem ritað var undir á Þingvöllum hinn 1. ágúst 1986. Eftirmál hafa ekki verið nein, enda komu góðir og vandaðir fræðimenn að því að skipta handritunum og afhendingu þeirra lauk hinn 19. júní 1997.

Íslendingar lýstu yfir því, að þeir tækju ekki við handritunum til þess eins að eiga þau heldur til þess að andi þeirra og kjarni yrði áfram lifandi þáttur í íslensku þjóðlífi og þessi einstæði fjársjóður auðgaði menningu heimsins enn meira en áður.

Þessi heitstrenging er enn í fullu gildi og til að sinna henni verður að líta til margra þátta, eins og gert hefur verið síðustu þrjátíu ár.

Þegar ljóst var, hvert stefndi í Danmörku með vaxandi skilningi stjórnmálamanna þar á málstað Íslendinga, var hafist handa við það hér að búa í haginn fyrir rannsóknir á handritum og var æðsta menntastofnun þjóðarinnar, Háskóli Íslands, virkjuð í því skyni. Skólinn skipaði handritaútgáfunefnd árið 1958 og árið 1962 stofnaði ríkisstjórnin Handritastofnun Íslands undir forstöðu Einars Ólafs Sveinssonar prófessors til að stunda fræðilegar rannsóknir, en Stofnun Árna Magnússonar tók við hlutverki hennar árið 1972, en þá var Jónas Kristjánsson prófessor orðinn forstöðumaður og síðan hafa þeir prófessorarnir Stefán Karlsson og Vésteinn Ólason stýrt stofnuninni.

Vísindalegar rannsóknir og útgáfustarfsemi undir handarjaðri Árnastofnunar hafa borið hróður hennar víða og til hennar leita fræðimenn hvaðanæva að úr heiminum. Áhugi á efni handritanna erlendis er síst minni en áður eins og til dæmis sannaðist vel á síðasta ári í Bandaríkjunum, þegar efnt var til sýninga og málþinga þar eða á dögunum, þegar færri en vildu komust á Heimskringluþing í sendiráði Íslands í París. Í fyrsta sinn í sögunni hafa Íslendingasögurnar allar verið þýddar á ensku og það með samræmdum hætti. Er ekki vafi á því, að allt mun þetta vekja áhuga fleiri en áður á því að kynnast uppsprettunni sjálfri, handritunum. Verður það einnig sífellt auðveldara með því að nýta upplýsingatæknina og nú geta menn skoðað handrit í stafrænni útgáfu á vefsíðu Árnastofnunar.


Handritin voru örsjaldan til sýnis í Kaupmannahöfn en sýningar á handritum hafa verið fastur liður í starfsemi Árnastofnunar, þótt aðstaða í Árnagarði hafi aldrei verið mjög góð til að sinna þessu mikilvæga verkefni.

Í apríl árið 2000 skipaði ég nefnd til að móta tillögur um viðbyggingu við Þjóðarbókhlöðu sem jafnframt því að leysa úr þörfum Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns fyrir aukið rými yrði aðsetur Árnastofnunar og fleiri háskólatengdra stofnana, sem fást við rannsóknir á íslenskri tungu og bókmenntum og vinna að viðgangi þeirra.

Garðar Halldórsson arkitekt var formaður nefndarinnar, sem skilaði vandaðri greinargerð um síðustu áramót. Nefndin mælir með því, að fimm stofnanir, Árnastofnun, Íslensk málstöð, Orðabók háskólans, Stofnun Sigurðar Nordals og Örnefnastofnun flytjist í nábýli við Þjóðarbókhlöðuna. Það yrði fjárhagslega hagkvæmt, skapaði öfluga rannsóknamiðstöð á sviði íslenskra fræða og myndaði góða aðstöðu til að kynna íslensk menningarverðmæti og veita fræðslu um þau.

Vegna þessara nefndarstarfa hefur Árnastofnun skilgreint húsnæðisþarfir sínar við nýjar aðstæður og þar á meðal þörf fyrir aukið sýningarrými. Þriðjungur ferðamanna leggur leið sína hingað vegna áhuga á menningu og sögu þjóðarinnar. Sumir koma til Íslands eingöngu vegna þess, að þeir vita um Snorra-Eddu og skilja ekki, hvers vegna þeir fá ekki að sjá handrit hennar í glæsilegri umgjörð. Með endurreisn Þjóðminjasafns Íslands og nýrri byggingu til að kynna íslensk handrit og bókmenningu milli Þjóðminjasafns og Þjóðarbókhlöðu yrði hér helsta safnamiðstöð þjóðarinnar í tengslum við Háskóla íslands.

Ákvarðanir um að ráðast í smíði Þjóðarbókhlöðunnar voru teknar í tengslum við 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar og hið nýja hús var tekið í notkun hinn 1. desember 1994, árið sem 50 ára afmæli lýðveldisins var haldið hátíðlegt. Árið 2004 verður þess minnst, að 100 ár eru liðin frá því að heimastjórnin kom til sögunnar og Hannes Hafstein varð ráðherra. Yrði við hæfi að minnast þeirra tímamóta með ákvörðun um að reisa hús íslenskrar tungu við hlið Þjóðarbókhlöðunnar.

Þjóðmenningarhúsið við Hverfisgötu er minnisvarði um stórhug heimastjórnarinnar, reist til varðveislu menningararfsins. Þá var draumurinn um endurheimt handritanna enn fjarlægur. Hann hefur ræst og á nýrri öld skulum við skapa þessum einstæðu þjóðardýrgripum þá ytri umgjörð sem hæfir, samtímis því sem við höldum óumdeildu menningargildi þeirra hátt á loft fyrir okkur sjálf og heiminn allan.