9.11.2012

Ríkisfjármál og ESB V: Ríkisfjármálasamingur er skref – ekki lokaskref


Í fjórum greinum hefur verið farið yfir ríkisfjármálasamning ESB frá 2. mars 2012 og hann settur í samhengi við aðrar sameiginlegar ákvarðanir ESB-ríkjanna allra eða evruríkjanna sérstaklega til að leysa skuldavandann sem herjað hefur á evrusvæðið af miklum þunga frá árinu 2010. Einnig hefur athygli sérstaklega verið beint að því hvernig að afgreiðslu málsins hefur verið staðið í Þýskalandi og Frakklandi, burðarríkjum ESB-samstarfsins.

Í þessari lokagrein um málið er bent á að vegferðinni til samræmdrar ríkisfjármálastjórnar innan ESB er síður en svo lokið.

Þótt ríkisfjármálasamningurinn hafi í stjórnmálaumræðum og fjölmiðlum verið kynntur til sögunnar sem mikilvægt bjargráð gegn skuldakreppunni kemur í ljós þegar betur er að gáð að þar er ekki í raun um nein ný úrræði að ræða. Málið snýst um hið sama og ákveðið var stöðugleika og vaxtarsamningnum á sínum tíma: ríki gæti jöfnuðar í ríkisfjármálum og skuldahlutfall ríkja miðað við verga landsframleiðslu (VLF) fari ekki út fyrir ákveðin mörk.

Þrátt fyrir þessi skilyrði kom til skuldakreppunnar á evrusvæðinu. Myntsamstarfinu hefur verið stofnað í hættu. Björgunaraðgerðir til þessa hafa ekki dugað.

Þegar grannt er skoðað leggja stöðugleika og vaxtarsamningurinn sem gerður var við upphaf myntsamstarfsins og „sex-kippan“ sem ESB-þingið samþykkti undir lok árs 2011 grunn að ramma um ríkisfjármál innan ESB og þó sérstaklega innan evrusvæðisins sem er í raun skýrari en ramminn í ríkisfjármálsamningnum. Í honum er ríkjum hins vegar gert skylt að búa þannig um hnúta í stjórnlögum sínum að þau knýi þjóðþingin til að fylgja „gullnu reglunni“ eins og Frakkar kalla markmiðið um jöfnuð í ríkisfjármálum. Frakkar töldu hins vegar ónauðsynlegt að breyta stjórnarskrá sinni vegna þessarar reglu, einfaldur meirihluti á franska þinginu nægir til að afnema hana.

Ríkisfjármálasamningurinn hefur í raun ekkert að segja um hvort ríki á borð við Spán, Frakkland og Ítalíu lofi að ná halla á fjárlögum niður fyrir 3% af VLF á ákveðnum tíma. Ríkisstjórnir landanna hafa sett sér þetta markmið þótt samningurinn hafi ekki tekið gildi.

Spánverjar hafa gripið til mikils niðurskurðar og Frakkar hækkað skatta til að brúa 30 milljarða evru gat. Án ríkisfjármálasamningsins gat framkvæmdastjórn ESB sett hollensku ríkisstjórninni skilyrði um niðurskurð á ríkisútgjöldum fyrri hluta árs 2012 sem leiddi til þess að ríkisstjórn landsins féll, þing var rofið og efnt til kosninga sem snerust að verulegu leyti um afstöðu til evrunnar. Allir hollensku flokkarnir tileinkuðu sér gagnrýnna viðhorf til evrunna en áður. Þeir flokkar sigruðu í kosningunum sem sýndu mesta íhaldssemi gagnvart breytingum á samskiptunum innan ESB.

Fræðimenn sem rýna í ríkisfjármálasamninginn spyrja: Hverju breytir þessi samningur í raun? Rætist sú von álitsgfjafa í Þýskalandi að samningurinn stuðli að meiri virðingu fyrir reglunum sem settar hafa verið um jöfnuð í ríkisfjármálum og skuldahlutfallið? Bent er á að heimild ESB-dómstólsins til að ákveða tiltölulega lága sekt sé brotið gegn samningnum kunni að hafa áhrif en hins vegar sé ekki að finna nein ákvæði í honum til að knýja fram efndir. Sama hætta sé fyrir hendi og áður að öflug ríki fari einfaldlega sínu fram. Fyrstu ríkin til að brjóta regluna um bann við meira en 3% halla í ríkisrekstri á sínum tíma voru Frakkland og Þýskaland.

Sebastian Dullien, sérfræðingur hjá European Council on Foreign Relations og prófessor í alþjóðahagfræði við háskólann HTW í Berlín, sagði um ríkisfjármálasamninginn:

„Það er því alls ekki ljóst hvort ríkisfjármálasamningurinn verði í raun (de facto) meira bindandi en “sex-kippan„, ákveði ríkisstjórnir síðar að því að fylgja honum ekki. Öll staðan er flókin vegna lögfræðilegrar uppbyggingar samningsins, þar er vísað til ESB-stofnana, hann stendur þó utan sáttmála ESB [...] Efnislega kunna áhrif ríkisfjármálasamningsins því að verða mun minni en margir harðlínumenn í ríkisfjármálum vona.“

Til sönnunar á réttmæti þessarar greiningar nægir að benda á að talsmenn aðhalds í ríkisfjármálum á evrusvæðinu og innan ESB ætla alls ekki að láta við ríkisfjármálasamninginn sitja.

Framkvæmdastjóri ríkisfjármála

Hinn 28. október 2012 lýsti Mario Draghi, forseti stjórnar Seðlabanka Evrópu, stuðningi við tillögu Wolfgangs Schäubles, fjármálaráðherra Þýskalands, um að komið verði á fót framkvæmdastjóra ríkisfjármála innan framkvæmdastjórnar ESB og hafi hann heimild til að beita neitunarvaldi vegna ákvarðana þjóðþinga um fjárlög. Schäuble telur að ríkisstjórnir verði að óttast vald hins nýja framkvæmdastjóra eins og þær óttist nú vald framkvæmdastjóra ESB sem fer með samkeppnismál og getur gripið til einhliða aðgerða telji hann brotið gegn samkeppnisreglum.

„Ég er eindreginn stuðningsmaður þessarar tillögu,“ sagði Draghi við Der Spiegel sunnudaginn 28. október. Litið er á hana sem framhald ríkisfjármálasamningsins. „Ef við viljum endurvekja traust á evru-svæðinu, verða ríki að framselja fullveldi sitt til samevrópskra stofnana,“ sagði Draghi.

Wolfang Schäuble vakti máls á nauðyn sérstaks framkvæmdastjóra innan ESB til að fara með fjárlaga- og gjaldmiðlavald þegar hann ræddi við blaðamenn í flugvél á leið frá Singapúr skömmu fyrir fund leiðtogaráðs ESB hinn 18. október 2012. Angela Merkel tók undir þessa skoðun fjármálaráðherrans. Í Brussel minntu menn á að Olli Rehn, efnahagsmálastjóri ESB og sérstakur evru-eftirlitsmaður, fylgdist náið með framvindu ríkisfjármála í ESB ríkjunum. Hann ber ábyrgð á að starfað sé í samræmi við reglurnar um „evrópsku önnina“. Talsmaður framkvæmdastjórnarinnar sagði að Rehn ynni starf sitt af kostgæfni, hann vekti þó ekki ótta meðal stjórnvalda ESB-ríkjanna heldur mikla virðingu!

Í fjölmiðlum var bent á að miðað við núgildandi reglur gæti Rehn aðeins komið með ábendingar og tillögur varðandi efni fjárlagafrumvarpa einstakra ríkja. Schäuble vildi hins vegar að hann hefði heimild til að hafna fjárlögum alfarið og gæti þannig gengið gegn vilja þjóðþings viðkomandi lands. Augljóst er að róttæk breyting í þessa veru verður ekki gerð nema að hróflað sé við Lissabon-sáttmálanum. Þegar breytingar á honum ber á góma draga Brusselmenn sig gjarnan inn í skel. Þeir vita sem er að öll ríkin 27 verða að standa að slíkri breytingu og tvö ríki, Bretland og Tékkland, standa utan við ríkisfjármálasamninginn. Þá eru Frakkar tvíbentir þegar spurninguna um að stíga skref til ESB-sambandsríkis ber á góma, þeir halda enn í 50 ára gamlar yfirlýsingar sem Charles de Gaulle Frakklandsforseti gaf um ESB sem samband þjóðríkja en ekki sambandsríki.

Þýska fréttastofan Deutsche Welle (DW) leitaði álits Janis Emmanouilidis, sérfræðings hjá hugveitunni European Policy Centre í Brussel, á tillögu Schäubles og tók hann undir með þýska fjármálaráðherranum.

„Ég tel óhjákvæmilegt að huga að þessari leið. Vilji menn í raun koma á fót efnahags- og myntsambandi þar sem leyst hefur verið úr stjórnkerfisvandanum verða menn að ganga lengra en gert hefur verið til þessa. Vilji menn ríkísfjármála- og bankasamband er þetta rétta leiðin,“ sagði Emmanouilidis við DW og taldi ekki hjá því komist að breyta sáttmálum ESB þótt það kynni að verða erfitt.

Margir tillögusmiðir

Tillögu Schäubles kann að vera teflt fram af hálfu Þjóðverja til að tryggja vígstöðu þeirra gagnvart tillögum sem Herman Van Rompuy, forseti leiðtogaráðs ESB, hefur haft í smíðum í umboði leiðtogaráðsins með forsetum stjórnar Seðlabanka Evrópu, framkvæmdastjórnar ESB og formanni evruhópsins. Þar eru á kreiki hugmyndir um evruskuldabréf og allsherjar sjóð á bakvið allar skuldugu evruþjóðirnar. Þjóðverjar vilja ekki samþykkta neitt slíkt.

José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, boðaði ESB-þingmönnum í stefnuræðu í september 2012 að hann hefði hugmyndir um breytingar á ESB til frekari samruna en hann teldi ekki tímabært að huga að þeim fyrr en eftir kosningar til ESB-þingsins sumarið 2014.

Martin Schulz, þýskur jafnaðarmaður, forseti ESB-þingsins, segir að á vettvangi þingsins sé einnig unnið að tillögum um framtíðarskipan mála innan ESB. Þar eru ákafir talsmenn frekari samruna og að til verði Bandaríki Evrópu eins og Guy Verhofstadt, formaður þingflokks frjálslyndra á þinginu, vill. Nafn hans er gjarnan nefnt þegar hugað er að eftirmanni Barrosos sem lætur af störfum forseta framkvæmdastjórnarinnar árið 2014 þegar hann hefur setið 10 ár í embættinu.

Schulz styður tillögu Schäubles um aukið miðstýrt ríkisfjárlagvald innan ESB sömu sögu er að segja um Daniel Cohn-Bendit sem situr fyrir græningja á ESB-þinginu. Hann telur að vísu að Schäuble gangi ekki nógu langt. Cohn-Bendit vill að vald fjárlagastjórans innan ESB sé styrkt með því að hann sé kjörinn af ESB-þinginu og starfi því í umboði þess.

Þótt tillögur Schäubles og tillögurnar sem kynntar verða af Herman Van Rompuy séu ekki samhljóða í öllum greinum eiga þær þó eitt sameiginlegt að vinna verði bug á skuldavandanum með aðgerðum í ríkisfjármálum, minni ríkisútgjöldum og/eða hærri sköttum, aðhaldi í félagslegum útgjöldum og launahækkunum til að tryggja samkeppnishæfni og traustan grundvöll fjármálastofnana.

Kjarni og jaðarríki

Niðurstaðan um þessar tillögur kann að lokum að ráðast af ákvörðunum um að hópur ríkja innan ESB taki saman höndum með Þjóðverjum og Frökkum og myndi kjarnahóp innan ESB þar sem ríki á borð við Bretland verði á jaðrinum með aðild að hinum sameiginlega markaði eins og EES-ríkin, Ísland, Noregur og Liechtenstein um þessar mundir.

Ágreiningur vegna fjárlagagerðar fyrir sameiginleg útgjöld ESB-ríkjanna og ESB-stofnana hefur skýrst undanfarið þegar leiðtogaráðsfundur ESB-ríkjanna um ESB-fjárlög 2007 til 2014 nálgast. Breska ríkisstjórnin segist ætla að berjast hart gegn öllum hækkunum á fjárlögum ESB. Deilur um þetta efna kunna leiða til þess að fjárlagagerðinni verði skipt milli evruríkja annars vegar og ESB í heild hins vegar. Hugmyndir eru um að breyta starfsháttum á ESB-þinginu í þessa veru, að þingmenn frá evruríkjum standi einir að afgreiðslu sumra mála.

Ríkisfjármáladeilunum innan ESB er ekki lokið og ríkjunum hefur alls ekki tekist að leysa skuldavanda evrusvæðisins. Ágreiningur er djúpstæður og ákall þeirra sem þarfnast aðstoðar magnast. Spenna milli þjóða eykst en ráðið sem eindregnustu talsmenn ESB-samstarfsins sjá er einfalt: þjóðirnar framselji meira vald til sameiginlegra stofnana. Þetta leiðir síðan til meiri spennu sem brýst fram í deilum um fjárlög ESB og sífellt fleiri mál.

Forráðamenn ESB eru sérfræðingar í að klæða ágreining í dularklæði. Þetta gagnast vel á meðan allt leikur í lyndi og þjóðir trúa að leiðin sé bein og greiðfær undir forystu Brusselmanna. Nú hefur annað komið í ljós og þá sést hvað að baki býr og myndin er ekki glæsileg, hver höndin er uppi á móti annarri og samstaða næst um yfirborðskennd úrræði á borð við ríkisfjármálasamninginn. Hann breytir í raun engu en er þó skref í átt til aukins sameiginlegs valds í höndum stóru meginlandsríkjanna innan ESB.

Misráðnar aðildarviðræður

Við þessar aðstæður vinnur íslenska stjórnkerfið að aðild Íslands að ESB í óþökk meirihluta þjóðarinnar. Eftir að alþingi samþykkti umsókn um aðild er látið eins og það sé „krafa þjóðarinnar“ eða jafnvel „réttur“ að fá að greiða atkvæði um hvað felst í því sem Brusselmenn telja hæfilegt í von um að sem flestir segi já við því í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Íslensk stjórnvöld tileinkuðu sér strax leikaðferðir Brusselmanna með því að tala um „samningaviðræður“ þegar í raun er um að ræða aðlögun að regluverki ESB og „sérlausnir“ þegar í raun er um að ræða tímabundna undanþágu af hálfu framkvæmdastjórnar ESB.

Íslensk stjórnvöld hafa ekki lagt fram neina greiningu á þróun ESB frá því að sótt var um aðild að sambandinu í júlí 2009. Utanríkisráðherra Íslands og forsætisráðherra hafa fagnað hverju skrefi sem Brusselmenn telja til björgunar evrunni og látið eins og allur vandi sé að baki og evran verði bara betri og sterkari mynt þegar Íslendingar fái að njóta hennar. Það sem sagt hefur verið hér í þessum greinaflokki sýnir að þessi greining utanríkisráðherra og forsætisráðherra stenst ekki. Evru-vandinn hefur ekki verið leystur.

Hvort sem menn eru hlynntir ESB-aðild Íslands eða ekki ættu allir að sjá hve fráleitt er að knýja á um aðildarviðræður á þessu stigi í þróun ESB þegar enginn getur sagt hvert samstarfið innan sambandsins þróast.

Málsvarar ESB á Íslandi neita að ræða breytingarnar sem orðið hafa á ESB síðan sótt var um aðild sumarið 2009. Þeir ætla að ganga til þingkosninga vorið 2013 í von um að þeir fái endurnýjað umboð til að halda áfram aðildarviðræðum að Evrópusambandi sem enginn veit hvernig verður og tekur líklega stakkaskiptum á næstu árum. Þetta er ekki stefna í þágu hagsmuna Íslendinga eða Íslands heldur ræðst hún af ESB-blindu af því tagi sem löngu er úr sögunni hjá öllum skynsömum mönnum, meira að segja innan Evrópusambandsins sjálfs.