6.11.2012

Ríkisfjármál og ESB II: Ríkisfjármálasamningur fæðist




Leiðtogar 25 af 27 ESB-ríkjum rituðu undir ríkisfjámálasamning ESB 2. mars 2012. Samningurinn tekur gildi gagnvart öllum sem hafa fullgilt hann fyrsta dag mánaðarins eftir að tólfta evruríkið hefur fullgilt. Komi ekki til fullgildinga 12. evruríkisins fyrr en eftir 1. janúar 2013 verður gildistakan afturvirk frá 1. janúar 2013.

Innan árs frá því að ríkisfjármálasamningurinn tekur gildi verða ríkin sem hafa fullgilt hann að hafa lögfest ákvæði þar sem lögbundið verður að ríkisfjármál þeirra verði í jafnvægi eða með afgangi í samræmi við skilgreiningu í samningnum. Í hinum nýju ákvæðum verður einnig að taka fram hvernig komið skuli í veg fyrir að við þau verði ekki staðið og hvernig við verði brugðist brjóti ríki gegn skilyrðum samningsins um þetta efni.

Jafnvægi í ríkisfjármálum

Í samningnum er jafnvægi í ríkisfjármálum skilgreint á þann hátt að almennur halli sé innan við 3% af vergri landsframleiðslu (VLF) og kerfislægur halli innan við 1% af VLF séu heildarskuldir innan við 60% af VLF, annars sé þessi halli innan við 0,5% af VLF. Í samningnum er mælt fyrir um hve hratt ber að lækka hlutfall skulda fari það yfir 60% af VLF niður fyrir þetta leyfða hlutfall. Séu ríkisfjármálin eða skuldamálin ekki innan þeirra marka sem ákveðin eru í samningnum verður viðkomandi ríki að takast á við vandann innan tímamarka og á þann hátt sem framkvæmdastjórn ESB telur nauðsynlegt. Aðildarríkjum að samningnum sem hlotið hafa neyðarlán er ekki skylt að hlíta hinum nýju ströngu skilyrðum fyrr en ári eftir að þau hafa fullnægt skilyrðum vegna neyðarlánsins.

Í samningnum er mælt fyrir um að ESB-dómstóllinn skuli hafa lögsögu um hvort farið sé að ákvæðum hans um efni fjárlaga og öðrum skilyrðum í texta hans. Þessi ákvæði stangast á við það sem segir í ESB-sáttmálum þar sem dómstólnum er ekki falið hlutverk af þessu tagi. Hvert ríki sem hefur fullgilt samninginn getur leitað til dómstólsins vegna annars ríkis sem hefur fullgilt samninginn sé talið að ríkið hafi ekki staðið við samningsskuldbindingar. Telji dómstóllinn að samningurinn hafi verið brotinn má sekta viðkomandi ríki um allt að 0,1% af VLF þess.

Unnið að ríkisfjármálasamstarfi

Ríkisfjármálasamningurinn er liður í því að skapa stöðugleika og styrkja evruna og auðvelda ráðstafanir til að koma í veg fyrir að í evruríkjunum skapist að nýju sama vandræðaástand og ríkt hefur frá árunum 2008 og 2009.

Seðlabanki Evrópu (SE) ákveður peningastefnuna á evrusvæðinu. Bankinn ákveður stýrivexti og peningamagn í umferð, ríkisstjórnir einstakra landa ákveða hins vegar ríkisútgjöld innan landamæra sinna, evruríkjunum ber í því efni að taka mið af stöðugleika og vaxtarsamningi hins sameiginlega myntsvæðis. Evrópusambandið hefur mótað sameiginlega peningamálastefnu en ekki ríkisfjármálastefnu, það er myntsamband en ekki ríkisfjármálasamband.

Jean-Claude Trichet, þáv. forseti stjórnar Seðlabanka Evrópu, lagði á árinu 2007 til að ESB legði áherslu á ríkisfjármálasamstarf til að tryggja viðunandi ríkisfjármálastefnu í öllum aðildarríkjunum. Fleiri hafa stutt sjónarmið af þessu toga.

Áhugi á nánara ríkisfjármálastarfi innan ESB og ekki síst á evrusvæðinu hefur alltaf blundað meðal þeirra sem vilja að ESB þróist frá ríkjasambandi til sambandsríkis. Raddir um nauðsyn sameiginlegs markmiðs í ríkisfjármálum fengu nýjan hljómgrunn þegar hugað var að leiðum til að sigrast á skuldavanda evruríkjanna sem er viðurkennt stórvandamál innan ESB frá árinu 2010. Við hlið myntsamstarfsins yrði ríkisfjármálasamstarf til þess að stíga lokaskrefið til efnahagslegs samruna þátttökuríkjanna.

Þrýstingur Þjóðverja

Vorið 2010 hófu Þjóðverjar markvisst að þrýsta á aðrar ESB-þjóðir með kröfu um að þær settu bindandi lagaákvæði um jafnvægi í ríkisfjármálum. Með því yrði spornað við opinberri skuldasöfnun, fjárlagagerð lyti ströngum skilyrðum og halli í ríkisrekstri hyrfi. Með því að koma á „skuldabremsum“ hvarvetna innan evrusvæðisins myndi agi í ríkisfjármálum verða meiri en felst í kröfunni um að hallinn sé innan 3% af VLF.

Síðla árs 2010 komu fram tillögur um að breyta nokkrum ákvæðum í stöðugleika og vaxtarsamningnum til að auka samræmingu í ríkisfjármálum. Frakkar og Þjóðverjar fluttu í febrúar 2011 tillögu um „samkeppnishæfni-samning“ til að samhæfa efnahagsstjórn á evrusvæðinu. Spánverjar studdu tillöguna. Angela Merkel Þýskalandskanslari talaði einnig fyrir hugmyndinni um ríkisfjármálasamband og hið sama gerðu fjármálaráðherrar ýmissa ríkja og forseti bankastjórnar SE.

Í mars 2011 var enn á ný hvatt til breytinga á stöðugleika og vaxtarsamningnum og skyldu þær miða að því að sjálfkrafa yrði gripið til refsinga gagnvart ríki sem bryti gegn ákvæðum samningsins um ríkissjóðshalla eða skuldahlutfall. Krafan um sjálfvirkni á þessu sviði var reist á reynslunni af því að ræða þessi mál í ráðherraráði ESB og leita eftir samkomulagi þar um aðgerðir sem óhjákvæmilega myndu bitna harðast á einu eða hópi aðildarríkja.

Undir lok árs 2011 stigu Þjóðverjar og Frakkar auk nokkurra smærri ESB-þjóða einu skrefi lengra og hétu því að koma á ríkisfjármálasambandi innan evrusvæðisins þar sem um yrði að ræða strangar ríkisfjármálareglur sem fylgja mætti eftir og gripið yrði til sjálfkrafa refsiaðgerða á grundvelli ákvæða í ESB-sáttmálum. Angela Merkel lagði einnig áherslu á að framkvæmdastjórn ESB og ESB-dómstóllinn ættu að gegna „mikilvægu hlutverki“ til að tryggja að ríki stæðu við skuldbindingar sínar.

Í þessu samhengi var vísað til þess að nákvæmt eftirlit framkvæmdastjórnar ESB með skattheimtu og ríkisfjármálastjórn mundi ganga nærri fullveldi aðildarríkjanna. Bentu menn á að ekki yrði unnt að stíga skref í þessa átt án þess að endurskoða Lissabon-sáttmálann. Kröfur Þjóðverja um strangt aðhald og afskipti ESB af ríkisfjármálum og efnahagsmálum væru á þann veg að þeim yrði ekki hrundið í framkvæmd án þess að breyta sáttmálunum.

Úrslitafundur í desember 2011

Leiðtogaráð ESB kom saman 9. desember 2011 í Brussel. Á sögulegum fundi þess samþykktu 17 leiðtogar evruríkjanna meginefni nýs milliríkjasamnings sem miðaði að því að setja strangar skorður við eyðslu og skuldasöfnun einstakra ríkja auk þess sem um yrði að ræða refsiákvæði gegn ríkjum sem færu ekki að samningnum. David Cameron, forsætisráðherra Breta, var eini forystumaðurinn sem stóð gegn þessum áformum og hafnaði aðild að hinum nýja milliríkjasamningi, 17 evruríki og 9 ESB-ríki án evru hétu þátttöku í gerð samningsins enda nyti þátttakan stuðnings á þingum viðkomandi landa.

Upphaflegu áform flutningsþjóða tillögunnar um ríkisfjármálasamninginn voru að ná markmiðum sínum með breytingu á sáttmálum ESB. David Cameron brá fæti fyrir þau áform. Hann vildi ekki að fjármálafyrirtæki í City of London yrðu að lúta nýju regluverki ESB og þar á meðal því sem fram kom í tillögum um nýjan ESB-skatt á fjármagnsfærslur.

Unnið var markvisst að smíði texta hins nýja ríkisfjármálasamnings, Bretar stóðu áfram utan við samstarfið og nú slógust Tékkar í lið með þeim. Niðurstaðan varð að öll ríki ESB sem vildu gætu hvenær sem þau kysu gerst aðilar að samningnum. Á fundi leiðtogaráðs ESB 2. mars 2012 var síðan ritað undir samninginn. Síðan hefur hann verið til umræðu á þjóðþingum þeirra ríkja sem eiga aðild að honum. Írar gengu til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild sína hinn 31. maí 2012 og var hún samþykkt með 60,3% atkvæða.

Eins og áður segir tekur samningurinn gildi þegar 12 ríki hafa fullgilt hann og í síðasta lagi 1. janúar 2013. Eftir að hafa fullgilt samninginn hefur ríki eitt ár, til 1. janúar 2014, til að setja bindandi ákvæði um jöfnuð í ríkisfjármálum. Ríki sem hafa sett slík ákvæði í lög fyrir 1. mars 2013 geta sótt um neyðarlán úr stöðugleikasjóði Evrópu,European Stability Mechanism (ESM).

Evrópski ríkisfjármálasamningurinn er milliríkjasamningur og ekki formlegur hluti af regluverki ESB. Í honum er hins vegar að finna ákvæði sem gera ráð fyrir að unnt verði að fella hann inn í sáttmálann um Evrópusambandið (SESB), Treaty establishing the Constitution of the European Union innan fimm ára frá gildistöku.

Í næstu grein verður rifjað upp hvernig staðið var að samþykkt ríkisfjármálasamningsins í Þýskalandi.