16.3.2001

Að gera söguna sýnilega - málþing



Að gera söguna sýnilega,
málþing,
Þjóðmenningarhúsinu,
16. mars 2001



Það er einstaklega vel við hæfi, að halda sýningu hér í þessu glæsilega
húsi um viðfangsefnið að gera söguna sýnilega. Er ánægjulegt, að menn eru í
vaxandi mæli teknir til við að ræða um ferðamál undir þessum formerkjum,
því að fátt er að mínu áliti betur til þess fallið að efla söguvitund
þjóðarinnar en tengja hana ferðamálum. Ég er einnig þeirrar skoðunar, að
aukin áhersla á sögustaði og sögulega atburði eigi eftir að efla
ferðaþjónustuna og gefa henni nýja og skemmtilega vídd.

Þjóðmenningarhúsið sjálft er til marks um viðleitni til að sameina annars
vegar virðingu fyrir sögu okkar og hins vegar þjónustu við almenning í því
skyni að upplýsa hann um sögulega arfleifð þjóðarinnar. Lá það ekki
endilega í augum uppi, eftir að Þjóðarbókhlaðan kom til sögunnar árið 1994
og Þjóðskjalasafnið fékk nýtt framtíðaraðsetur, að Safnahúsið við
Hverfisgötu fengi þetta hlutverk. Ýmsar hugmyndir voru reifaðar, áður en
niðurstaða fékkst. Rætt var um, að hæstiréttur flytti hingað eða skrifstofa
forseta Íslands, sumum þótti eðlilegt, að hér yrði aðsetur forsætisráðherra
og fundarstaður ríkisstjórnarinnar. Þá var því velt fyrir sér, hvort ekki
væri skynsamlegt, að handritin fengju hér samastað með flutningi
Árnastofnunar úr Háskóla Íslands.

Hér í húsinu er ein fundastofan helguð Hinu íslenska bókmenntafélagi, en
forseti þess, Sigurður Líndal prófessor, lét þau orð falla í ræðu, sem hann
hélt um varðveislu þjóðernis árið 1965, að sérhver menningarþjóð ætti sér
margar sameiginlegar stofnanir, byggingar og önnur mannvirki, sem mynduðu
eins konar ramma utan um þjóðmenninguna og yrðu oft eins og tákn
þjóðfélagsins eða þeirrar þjóðar, sem hlut ætti að máli. Taldi hann það til
marks um sljóleika okkar Íslendinga í þessum efnum, að við ættum ekki slík
hús, en öll vitum við af ferðum okkar til annarra landa, hve mannvirki af þessu tagi hafa mikið gildi. Hér er það hins vegar einkenni helsta
sögustaðar þjóðarinnar, Þingvalla, að þar hafa aldrei verið reist nein
varanleg mannvirki, sem tengjast beint hinum einstæða hlut staðarins í sögu
þjóðarinnar. Og í Skálholti og á Hólum er það ekki fyrr en um og upp úr
miðri síðustu öld, sem menn taka skipulega til við mannvirkjagerð í því
skyni að leggja rækt við sögulegt gildi staðanna. Hið sama má til dæmis
segja um Viðey eða Hrafnseyri.

Þegar Þjóðmenningarhúsið var opnað hinn 20. apríl árið 2000, líkti ég því í sínu
nýja hlutverki við önnur sameiningartákn þjóðarinnar eins og Þingvelli,
skjaldarmerkið, fánann og þjóðsönginn. Við sama tilefni komst Davíð Oddsson
forsætisráðherra þannig að orði, að hin íslenska þjóðarsál mætti gjarnan
eiga lögheimili sitt í Þjóðmenningarhúsinu um langa framtíð.

Í skemmtilegri ritgerð benti Ólafur Rastrick sagnfræðingur á það, að þessi
orð okkar forsætisráðherra væru á skjön við viðtekna skoðun sagnfræðinga,
enda hefðu skýrustu söguspekilegu þáttaskilin í íslenskum
sagnfræðirannsóknum á undanförnum árum falist í uppgjöri við þá
þjóðernissinnuðu söguskoðun, sem tengdist sjálfstæðisbaráttunni.

Taldi Ólafur, að nú þegar þessi endurskoðun hefði allt að því verið
kanóníseruð í sagnfræðinni, virtust hafa orðið skil á milli
fræðigreinarinnar sem fjallar um fortíðina og þeirrar sögu sem stjórnvöld
hefðu tekið að sér að miðla, eins og Ólafur orðar það. Á meðan sagfræðin
leitaðist við að draga úr þjóðhverfri nálgun sinni yrði sagan og
þjóðartáknið eitt í meðförum stjórnvalda eins og birtist með
afdráttarlausum hætti í orðræðunni um Þjóðmenningarhús og í táknum þess.


Ég drep á þetta hér til að árétta, að það er ekki vandalaust að gera söguna
sýnilegri, þótt það sé gert í góðum og göfugum tilgangi. Ég er ekki sammála
því, að það sé til marks um úrelta þjóðhverfa nálgun að lýsa sögu sinni með
þeim hætti, sem gert er í og með þessu húsi. Ég hallast frekar að þeirri skoðun,
sem Sigurður Líndal lýsti árið 1965, að við Íslendingar ættum að fara að
fordæmi annarra í slíkri ræktarsemi við fortíð okkar og sögu.

Í því sambandi vil ég bregða mér í formannssætið í Þingvallanefnd og minna
á, að nefndin hefur markvisst unnið að því undanfarin ár að efla kynningar-
og þjónustustarf í þjóðgarðinum . Verða þáttaskil í því efni nú, þegar
ráðinn verður sérstakur fræðslufulltrúi til að sinna verkefnum á þessu
sviði og ráðist verður í að reisa gesta- eða kynningarhús á Hakinu, þar sem
gengið er niður í Almannagjá. Umsvif í ferðaþjónustu á Þingvöllum hafa
vaxið jafnt og þétt og nýskipan í rekstri á vegum Þingvallanefndar á
síðustu árum, eftir að ráðinn var sérstakur framkvæmdastjóri, hefur skilað
miklu. Þróunarvinnu á Þingvöllum lýkur seint eða aldrei og er Þingvallanefnd
reiðubúin til samstarfs við alla, sem hafa góðar hugmyndir um að gera sögu
þjóðgarðsins sýnilegri innan þeirra ströngu reglna, sem um hann gilda.

Á stjórnmálavettvangi er vaxandi skilningur á öllu því, sem lýtur að gildi
sögulegra minja vegna þeirra sjálfra eða í þágu blómlegs mannlífs. Nægir að
nefna samþykkt alþingis á kristnihátíðinni á Þingvöllum um rannsóknir á
kirkjulegum sögustöðum. Við sjáum í Reykholti í Borgarfirði, að víðtækar
fornleifarannsóknir hafa ekki aðeins gildi í sjálfu sér heldur kalla á
fræðimenn og ferðamenn. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2001 hækkaði
líklega enginn liður meira í meðförum alþingis en sá, sem fellur undir
menntamálaráðuneytið og snertir varðveislu og sýningu á hvers kyns
menningarlegum og sögulegum verðmætum um landið allt.

Markvisst er unnið að því að búa Þjóðminjasafninu nýja og glæsilega
umgjörð, þá fjallar alþingi nú í fyrsta sinn um frumvarp til almennra
safnalaga, þar sem allri safnastarfsemi í landinu verður sköpuð vönduð
lagaleg og stjórnsýsluleg umgjörð.

Góðir ráðstefnugestir!

Tilgangur þess að þið ræðið um að gera Íslandssöguna sýnilegri er að kalla á fleiri ferðamenn, innlenda og erlenda. Við íslenska landkynningu hefur til þessa meiri áhersla verið lögð á náttúru landsins en menningu og sögu þjóðarinnar. Ég geri ekki lítið úr því að vekja athygli á íslenskri náttúru en tel þó vænlegra til mikils og vaxandi árangurs að leggja áherslu á mannlífið í nútíð og fortíð.

Um þessar mundir er miðaldasaga Íslands kynnt á viðamikilli víkingasýningu í Bandaríkjunum. Þessi sýning á rætur í Náttúrusögusafni Smithsonian-stofnunarinnar í Washington, þar sem hún hóf göngu sína síðastliðið vor. Setti sýningin aðsóknarmet í safninu og skoðuðu fleiri gestir sýningar Náttúrusögusafnsins á meðan víkingarnir voru þar en Flug- og geimferðasafnið. Hefur það ekki gerst áður á síðustu 14 árum og fyrir bragðið varð Náttúrusögusafnið mest sótta safn í heimi á þessum tíma. Samhliða því að hin góða aðsókn vakti ánægju allra, sem að sýningunni stóðu, fögnuðu þeir ekki síður hinum ótrúlega mikla áhuga fjölmiðla á víkingatímanum.

Ef við notum reynsluna af þessari sýningu í Bandaríkjunum sem mælikvarða, ættum við ekki að hika við að gera sögu okkar sýnilegri í þeim tilgangi að ná til mikils fjölda fólks. Ég lýsi þeirri von og
vissu, að málþing ykkar beri þann ávöxt.