10.7.2012

Makríll II: Réttarstaðan vegna makríls skýrð innanlands og gagnvart öðrum ríkjum

Makríl II af Evrópuvaktinni





Íslensk stjórnvöld gerðu sér grein fyrir því á árinu 2009 að ekki yrði hjá því komist að taka stjórnvaldsákvarðanir vegna makrílveiða á Íslandsmiðum og huga að stefnumörkun um framtíðarveiðar. Meðafli af makríl við síldveiðar á norsk-íslenskri síld í flotvörpu var um 30.000 tonn árið 2007 og um 112.000 tonn árið 2008.

Helstu lagaákvæði um veiðar á makríl er að finna í lögum nr. 151/1996 um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum. Lögin snúast fyrst og fremst um fiskveiðar íslenskra skipa úr nytjastofnum utan íslensku lögsögunnar. Í 5. grein þeirra er þó fjallað sérstaklega um stofna sem veiðast bæði innan og utan íslenskrar lögsögu og úthlutunarreglur þegar fyrir liggur ákvörðun um að takmarka heildarafla úr deilistofni.

Makríll er deilistofn við Ísland. Deilistofnar eru flökkustofnar, stofnar sem eru ekki staðbundnir heldur flakka á milli lögsagna og þar með veiðisvæða, má þar nefna norsk-íslensku síldina, kolmunna og úthafskarfa. Íslenskum fiskiskipum er heimilt á grundvelli samninga að veiða úr deilistofnum í lögsögum annarra ríkja vegna aðildar að Norðvestur-Atlantshafs fiskveiðistofnuninni (NAFO) og Norðaustur-Atlantshafs fiskveiðinefndinni (NEAFC).

Fiskistofa sér um útgáfu leyfa til veiða í lögsögu annarra ríkja og heldur utan um afla úr deilistofnum eftir veiðisvæðum. Makríl hafa íslensk skip heimild til að veiða í færeyskri lögsögu og á alþjóðlegu hafsvæði utan íslensku lögsögunnar.

Fyrsta reglugerðin um makrílveiðar

Hinn 13. mars 2009 gaf sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið út reglugerð um stjórn makrílveiða íslenskra skipa árið 2009. Þetta var fyrsta lögbundna stjórnsýsluákvörðunin um veiðar á makríl við Ísland. Tók reglugerðin til veiða í íslenskri lögsögu og á alþjóðlega hafsvæðinu. Þar sagði að færi heildarafli íslenskra skipa í makríl yfir 112.000 lestir, þar af 20.000 lestir á alþjóðlegu hafsvæði utan lögsögu ríkja, á árinu 2009 tæki ráðherra ákvörðun um hvort veiðar á makríl skyldu bannaðar eða takmarkaðar með einhverjum hætti. Kvótinn var með öðrum orðum ákveðinn í samræmi við það sem veiddist á vertíðinni árið 2008.

Ekki var kveðið á um úthlutun aflaheimilda á skip. Í tilkynningu ráðuneytisins vegna reglugerðarinnar var hins vegar hvatt til þess að hugað yrði að nýtingu makríls til manneldís. Á árinu 2008 hefði aðeins liðlega 5% af heildarmakrílafla íslenskra skipa farið í vinnslu til manneldis sem skilaði umtalsvert meiri verðmætum en færi aflinn til bræðslu og veiðar til manneldis væru auk þess meira í anda sjálfbærrar þróunar. Hvatti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sérstaklega til þess að útgerðir ynnu sem mest af aflanum til manneldis. Var gefið til kynna að ráðherrann mundi líta til þess hvort farið væri eftir þeirri hvatningu „þegar og ef“ til úthlutunar aflahlutdeildar kæmi og ræða þyrfti málefnalega „hvort taka eigi tillit til að hvaða marki veiðiskip hafi eða geti veitt makríl til manneldis og þá hvort þau njóti þess sérstaklega við úthlutun,“ sagði í fréttatilkynningu ráðuneytisins (9/2009).

Þegar í júlíbyrjun 2009 var makrílaflinn orðinn ríflega 90 þúsund tonn og hinn 8. júlí 2009 setti ráðuneytið þær skorður við veiðunum að makríll mætti aðeins vera meðafli norsk-íslenskrar síldar. Makrílaflinn 2009 varð um 116.000 tonn frá júní til október 2009 og á sama tíma var síldaraflinn um 225 þús. tonn.

Makrílveiðar íslenskra skipa árið 2009 voru svonefndar „ólympískar veiðar“, það er ekki reistar á aflamarki á skip. Sætti það gagnrýni í greinargerð um makrílveiðar árið 2009 sem unnin var á vegum sjávarútvegsráðuneytisins. Í lok hennar sagði að reynslan af fyrirkomulagi veiðanna hefði ekki verið góð og fullyrða mætti að veruleg verðmæti hefðu farið í súginn. Skipti því „öllu máli að betur takist til í framtíðinni og að skipulag og fyrirkomulag veiðanna verði með öðrum og betri hætti,“ sagði hópurinn sem samdi skýrsluna . Til að hámarka verðmæti makrílsins væri nauðsynlegt að útgerðir vissu hvað mikið magn af makríl þær hefðu til ráðstöfunar þannig að skipuleggja mætti veiðar og vinnslu sem best.

Kvótakerfi við makrílveiðar

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið gaf hinn 20. nóvember 2009 út reglugerð um stjórn makrílveiða árið 2010. Þar var hámark afla sett 130.000 tonn, yrði því náð ræki ráðherra ákvörðun um hvort veiðar skyldu bannaðar eða takmarkaðar á einhvern hátt. Önnur reglugerð um stjórn makrílveiðanna árið 2010 var gefin út 31. mars 2010. Með þeirri reglugerð var tekið upp kvótakerfi við makrílveiðar og horfið frá hinum „ólympísku veiðum“.

Heildaraflanum 2010, 130.000 tonnum, var ráðstafað til skipa með þrennskonar hætti: 112.000 tonnum samkvæmt veiðileyfum til skipa sem stunduðu makrílveiðar í flottroll eða nót á árunum 2007, 2008 og 2009. 3.000 tonnum var ráðstafað til skipa með línu, handfæri, net eða gildrur. Í þriðja lagi var 15.000 tonnum ráðstafað til skipa sem féllu hvorki undir flokk 1 eða 2 en sóttu um leyfi til makrílveiða eigi síðar en 30. apríl 2010.

Á þennan hátt var komið til móts við gagnrýni á veiðiaðferðirnar árið 2009. Vegna þess ágreinings sem orðið hefur í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og tilrauna tveggja sjávarútvegsráðherra ríkisstjórnarinnar, Steingríms J. Sigfússonar og Jóns Bjarnasonar, til að kollvarpa stjórnkerfi fiskveiða sem reist er á aflaheimildum, kvótakerfi, segir það mikla sögu um ágæti þess kerfis að þeir skuli hafa valið það til að tryggja hagkvæmustu nýtingu á nýjum, verðmætum fiskstofni sem gekk í verulegu magni inn á Íslandsmið í ráðherratíð þeirra. Að óreyndu hefði mátt ætla að þeir fikruðu sig inn á aðrar brautir þegar einstakt tækifæri gafst til þess.

Sátt á pólitískum vettvangi

Árin 2009 og 2010 unnu íslensk stjórnvöld að því að kanna og skýra réttarstöðuna inn á við og út á við varðandi réttinn til makrílveiða. Íslensk lög veittu heimild til að ákvarða heildarafla innan og utan íslenskrar lögsögu og ákveða hvaða aðferðum yrði beitt við skiptingu hans milli skipa, hvort skiptingin skyldi ráðast af keppni sem kennd var við Ólympíuleikana eða stjórnvaldsákvörðun samkvæmt meginreglum kvótakerfisins. Þá mæltu alþjóðalög og samningar fyrir um rétt Íslendinga til aðildar að samstarfi strandríkja um nýtingu og vernd hins sameiginlega fiskstofns.

Góð sátt ríkti um þessar meginreglur á íslenskum stjórnmálavettvangi og að frumkvæði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins var stuðlað að sátt við hagsmunaaðila með skipun vinnuhópa sem hafa samið greinargerðir fyrir ráðuneytið um makrílveiðar áranna 2009, 2010 og 2011. Þar er ekki aðeins að finna úttekt á rannsóknum, veiðum, vinnslu og markaðsmálum heldur einnig lýsingu á lögfræðilegum álitaefnum og stöðu mála gagnvart öðrum þjóðum. Hér verður sérstaklega hugað að þróun samskipta við önnur strandríki og stuðst við þessar greinargerðir.

Íslendingar settir til hliðar

Skilyrði þess að strandríki hafi heimild til að veiða úr deilistofni í lögsögu annars ríkis er að samkomulag hafi náðst um það á vettvangi viðkomandi alþjóðlegrar fiskveiðinefndar. Norðaustur-Atlantshafs fiskveiðinefndin fjallar um makríl og á árinu 2009 lá fyrir strandríkjasamkomulag á vettvangi hennar um makrílveiðar. Íslandi hafði hins vegar verið neitað um aðild að þessu samkomulagi. Fulltrúar Íslands mótmæltu því allt frá upphafi samkomulagsins að þeim væri haldið utan þess enda væri Ísland strandríki.

Þetta strandríkjasamkomulag um makríl á samningssvæði NEAFC náði til lögsögu Evrópusambandsins, Noregs og Færeyja. Lögsaga Íslands var utan samkomulagsins enda fulltrúum landsins haldið frá strandríkjaviðræðum um makríl. Íslensk stjórnvöld settu hins vegar takmarkanir innan lögsögu sinnar árið 2008 í samræmi við skyldur aðildarríkja NEAFC. Þau töldu sig eiga skýlausan strandríkisrétt innan NEAFC til aðildar að samkomulagi um makríl og vísuðu þar til 63. greinar í hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna og þess að makrílstofninn hefði viðkomu innan íslenskrar lögsögu og veiddist þar. Íslendingar hefðu fullan rétt til að nýta þessa auðlind innan efnahagslögsögu sinnar en bæru einnig skyldur samkvæmt hafréttarsáttmála SÞ og úthafsveiðisamningi til að leita eftir samvinnu við önnur strandríki til að vernda stofninn, sagði í greinargerð vinnuhóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins um makrílveiðar.

Íslensk stjórnvöld töldu það „ábyrgðarleysi“ Evrópusambandsins, Noregs og Færeyja að neita Íslandi árum saman um aðild að samningaviðræðum strandríkja um makrílinn. Þegar litið er til baka má hins vegar segja að þessi höfnun á Íslendingum hafi komið öðrum strandþjóðum í koll. Íslendingar höfðu allt aðra afstöðu til mikilvægis makrílveiða fyrir íslenska þjóðarbúið á árunum 2006 eða 2007 eða árin 2008 eða 2009, ekki vegna bankahrunsins og afleiðinga þess, heldur hins að líklega hefur fáa grunað að magn makríls yrði eins mikið innan íslenskrar lögsögu og sagan sýnir frá 2008. Hefði Ísland verið tekið í hópinn sem strandríki frá upphafi hefði hlutdeild þess í hinum sameiginlega stofni verið ákvörðuð með hliðsjón af því magni sem fannst af makríl þá á Íslandsmiðum. Þegar slíkt viðmið hefur einu sinni mótast í alþjóðasamningi er mjög erfitt að breyta því, jafnvel með sterkum rökum.

Þegar makríl-strandríkin fréttu af 112.000 tonna meðafla af makríl á Íslandi árið 2008 buðu þau íslenskum stjórnvöldum að senda áheyrnarfulltrúa á fund sinn í október 2008. Í júní 2009 var Íslendingum síðan boðið til viðræðna um stjórnun makrílveiða. Á fundinum reyndist hins vegar ekki vilji til þess að viðurkenna strandríkjarétt Íslands og semja á þeim grundvelli. Var fulltrúa Íslands þó boðið að sitja síðasta dag árlegs fundar strandríkja um stjórnun makrílveiða að þessu sinni fyrir árið 2010 sem haldinn var í lok október 2009. Íslensk stjórnvöld höfnuðu boðinu og sjávarútvegsráðuneytið birti 28. október 2009 harðorða fréttatilkynningu þar sem sagði um Evrópusambandið, Noreg og Færeyjar, strandríkin:

„Þau þverskallast við að viðurkenna Ísland sem strandríki, halda nú vikulangan fund um stjórn makrílveiða fyrir árið 2010 í Cork á Írlandi og hafa aðeins boðið Íslandi að sitja lokadag fundarins. Með þessu er ljóst að aðilarnir þrír hafna þeirri ósk Íslands að taka þátt í heildarstjórnun makrílveiðanna á næsta ári, sem við eigum fullan rétt á samkvæmt hafréttarsamningnum og úthafsveiðisamningnum. Með þessum aðgerðum eru íslensk stjórnvöld knúin til þess að taka enn á ný einhliða ákvörðun um aflahámark fyrir næsta ár.“ (Fréttatilkynning 36/2009.)

Íslendingum boðið til viðræðna

Eins og áður sagði gaf sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hinn 20. nóvember 2009 út reglugerð um stjórn makrílveiða árið 2010. Þar var hámark afla sett 130.000 tonn. Hinn 1. desember 2009 sendi ráðuneytið frá sér tilkynningu um að Evrópusambandið, Noregur og Færeyjar hefðu boðið Íslandi „til viðræðna um heildarstjórnun makrílveiða í Norðaustur-Atlantshafi í mars 2010“. Hefði Jón Bjarnason ráðherra þekkst boðið enda væru aðilar sammála um „að strandríkin fjögur, sem öll eiga hagsmuna að gæta, komi á sameiginlegri stjórnun veiða úr þessum mikilvæga stofni til að tryggja sjálfbæra nýtingu“. Tekið var fram að á fundinum yrði meðal annars rætt um aflahámark, skiptingu afla milli aðila, aðgang að lögsögu, vísindasamstarf og eftirlit með veiðum. (Fréttatilkynning 44/2009.)

Sátu fulltrúar Íslands fyrsta fund sinn með fulla viðurkenningu í makrílviðræðunum í Álasundi í Noregi 16. til 18. mars 2010. Þar náðist ekki samkomulag um skiptingu heildarafla makríls milli ríkjanna og sagði í tilkynningu íslenskra stjórnvalda að „mikið“ bæri í milli aðila en reynt yrði áfram að ná samkomulagi og næsti fundur hefði verið boðaður í Reykjavík 19. og 20. apríl 2010. (Fréttatilkynning 19/2010.)

Skömmu eftir fundinn í Álasundi eða hinn 31. mars 2010 gaf sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra út fyrrnefnda reglugerð um stjórn makrílveiða íslenskra skipa árið 2010, það er innleiðingu kvótakerfis við veiðar íslenskra skipa. Í tilkynningu ráðuneytisins var minnt á að ekki hefði náðst samkomulag milli strandríkja um fyrirkomulag eða leyfilegt hámark veiða á árinu 2010 og þess vegna yrðu leyfi til makrílveiða aðeins gefin út fyrir árið 2010. Þá var einnig sleginn sá varnagli að veiðar árið 2010 sköpuðu ekki grunn að veiðirétti í framtíðinni. Ekki lægi fyrir samfelld veiðireynsla í skilningi laga og mikilvægt væri fyrir þjóðarbúið að ekki verði „lokað fyrir möguleika á að aflað sé enn fjölbreyttari reynslu í vinnslu og veiðum en fyrir liggur nú“. Þá hefði ráðherra skipað vinnuhóp til að leggja fram valkosti um endurskoðun á fiskveiðilöggjöfinni. Ekki væri úthlutað varanlegum heimildum til fleiri ára. Framsal verði óheimilt en heimilt að flytja heimildir milli skipa sömu útgerðar. (Fréttatilkynning 23/2010.)

Þessi formáli Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að því að innleiða kvótakerfið í makrílveiðarnar endurspeglaði tvískinnunginn í afstöðu hans og ríkisstjórnarinnar í málinu sem áður var getið.

Samkomulag um heildstæða stjórnun makrílveiðanna á árinu 2010 tókst ekki og settu aðilar sér því einhliða kvóta fyrir það ár, ESB og Noregur raunar með samkomulagi sín á

milli. Kvóti Íslands var 130 þúsund tonn og samsvaraði hann 16-17% af samanlögðum kvótum strandríkjanna. Heildarafli árið 2010 fór töluvert fram úr því sem Alþjóða hafrannsóknaráðið ráðlagði sem var 572 þúsund tonn.

Hinn 17. maí 2010 efndu fulltrúar íslenskra stjórnvalda og útgerða uppsjávarskipa til fundar um áætlanir um veiðar og vinnslu á makríl á vertíðinni 2010. Þar kom fram að útgerðirnar ætluðu að ráðstafa mun stærri hluta makrílaflans til manneldisvinnslu en verið hafði. Með sameiginlegu minnisblaði Jóns Bjarnasonar ráðherra og Friðriks J. Arngrímssonar, forstjóra LÍÚ, frá 22. júní 2010 var staðfestur vilji aðila til að vinna að sameiginlegum markmiðum um manneldisvinnslu á makríl og að tryggt yrði áreiðanlegt og skilvirkt upplýsingaflæði um stöðu mála á viku fresti yfir vertíðina þannig að tryggja mætti sem best að markmiðin næðust.

Tilgangur þessa samkomulags var meðal annars að bregðast við gagnrýni erlendra aðila um að Íslendingar stunduðu ekki aðeins veiðar á makríl í krafti einhliða ákvarðana heldur héldu þeir þannig á málum að minnsti hluti aflans færi til manneldis. Þegar litið er á breytingar á vinnslu makríls hér á landi má hins vegar segja að á ótrúlega skömmum tíma hafi tekist að breyta henni í þágu manneldis.

Hér verða ekki tíundaðir fundir fulltrúa strandríkjanna árið 2010 en þá breyttist staða Færeyinga þannig að þeir gengu í flokk með Íslendingum og sættu eftir því sem leið á árið sífellt þyngri ásökunum um að sýna sama ábyrgðarleysi og Íslendingar við veiðar á makríl.

Ásökunum svarað

Í ágúst 2010 var svo komið að íslenska sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið sendi frá sér tilkynningu undir fyrirsögninni: Sameiginleg ábyrgð strandríkjanna fjögurra á stjórnun makrílveiða til að verjast ásökunum af hálfu hagsmunaaðila í veiðum og vinnslu á makríl í Noregi og ESB í garð Íslendinga og Færeyinga um óábyrgar veiðar og til að bregðast við hvatningum þeirra um að bannað yrði að flytja inn sjávarafurðir frá Íslandi og Færeyjum.

Í tilkynningunni var rakið að þrátt fyrir tvo samningafundi fulltrúa ESB, Færeyja, Íslands og Noregs hefði ekki náðst samkomulag um heildarstjórn makrílveiða árið 2010 en aðilar hefðu hins vegar orðið „sammála um það í lok síðasta fundar að hann hefði verið jákvæður og viðræðurnar hefðu farið fram í mjög góðum anda“. Vegna skorts á samkomulagi hefði hvert ríkjanna ákveðið aflahlutdeild sína og hafi Íslendingar riðið á vaðið. Því miður væru samanlagðir einhliða kvótar hærri en heildarafli að tillögu Alþjóðahafrannsóknaráðsins, ábyrgðin á því lægi ekki síður hjá ESB og Noregi en Íslandi og Færeyjum. Öll standríkin fjögur bæru sameiginlega ábyrgð á því að ná samkomulagi um heildarstjórnun makrílveiðanna og tryggja sjálfbærni þeirra. Þá sagði:

„Áskorun hagsmunaaðila í Noregi og ESB til þarlendra stjórnvalda um að setja bann við innflutningi á sjávarafurðum frá Íslandi og Færeyjum er því ekki á rökum reist. Enn fremur er mikilvægt að árétta að innflutningsbann og aðrar skyldar viðskiptaaðgerðir fælu í sér skýlaus brot á EFTA-samningnum, GATT-samningnum og EES-samningnum.“ (Fréttatilkynning 48/2010)

Lokatilraun strandríkjanna fjögurra til að ná samkomulagi um stjórnun makrílveiða og ákvörðun veiðikvóta fyrir árið 2011 reyndist árangurslaus á fundi í Osló 25. og 26. nóvember 2010. Í framhaldi af því ákvað sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að Ísland tæki sér óbreytta hlutdeild í makrílveiðum á árinu 2011, um 17% af heildarveiðunum, að teknu tilliti til aukningar í ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins.

Ráðið hafði lagt til að leyfilegur heildarafli árið 2011 yrði allt að 646 þúsund tonn. Beindi ráðherra því til ESB og Noregs að taka tillit til hlutdeildar Íslands við kvótaákvarðanir sínar með það í huga að heildarveiðar á árinu 2011 færu ekki fram úr vísindalegri ráðgjöf. ESB og Noregur virtu tilmælin að vettugi og tóku ákvörðun um að makrílkvótar þeirra skyldu nema samtals 583.882 tonnum eða rúmlega 90% af ráðlögðum heildarafla. Kvóti Íslands árið 2011 var 154.825 tonn en 130.000 tonn árið 2010.

Í tilkynningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins um íslenska hlutdeild í makrílveiðunum 2011 sagði: „Kvótaákvörðun ESB og Noregs er því í raun ákvörðun um að heildarveiðar á makríl á næsta ári [2011] fari fram úr ráðlögðum heildarafla og er fullri ábyrgð vegna þessa vísað á hendur þeim.“ (Fréttatilkynning 76/2010.)

Orðalagið er harðort og ber með sér að mikið beri á milli aðila og íslensk stjórnvöld hafi fengið sig fullsödd af því að sitja undir ásökunum um að sýna ábyrgðarleysi í ákvörðunum sínum um kvóta fyrir íslensk skip.

Heildaraflinn á makríl reyndist um 930 þúsund tonn árið 2011 og fór því töluvert fram úr því sem Alþjóðahafrannsóknaráðið hafði ráðlagt, 646 þúsund tonn. Munaði þar mest um makrílkvóta ESB og Noregs samtals 583.882 tonn eða rúmlega 90% af ráðlögðum heildarafla.

Engin niðurstaða vegna 2012

Þróun viðræðna á árinu 2011 fyrir veiðiárið 2012 er lýst á þennan hátt í greinargerð vinnuhóps um makrílveiðar til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra frá því í apríl 2012:

„Samningaviðræður strandríkjanna fjögurra, auk Rússlands, sem veiðir úr stofninum í Síldarsmugunni, fóru fram í nokkrum lotum haustið 2011 og fram í febrúar 2012. Þar var leitast við að ná samkomulagi um stjórnun makrílveiðanna frá og með árinu 2012. Ísland lagði í viðræðunum áherslu á mikilvægi þess að ná samkomulagi til að tryggja sjálfbærar veiðar og koma í veg fyrir frekari ofveiði úr stofninum sem allir aðilarnir bæru sameiginlega ábyrgð á. Sanngjarnri lausn yrði ekki náð nema litið yrði til lögmætra hagsmuna allra aðila. Í því fælist m.a. að taka yrði tillit til þeirrar breytingar sem orðið hefði á göngumynstri makrílstofnsins, en hann hefði gengið í æ meira mæli til norðvesturs og inn í íslensku lögsöguna á undanförnum árum. Í því sambandi var sérstaklega vísað til niðurstaðna sameiginlegra vísindarannsókna Íslands, Noregs og Færeyja þess efnis að um 1,1 milljón tonn af makríl, um 23% stofnsins, hefði gengið í íslensku lögsöguna á árinu 2011 og dvalið í henni yfir fæðuöflunartímann, um 4-5 mánuði, og aukið þyngd sína verulega [í Fréttablaðinu 7. júlí 2012 var sagt að þyngd makríls hefði aukist um 650 þúsund tonn á Íslandsmiðum 2011]. Niðurstöðurnar hefðu verið nánast samhljóða niðurstöðunum árið á undan en þó væri ganga stofnsins til vesturs enn eindregnari.

Á strandríkjafundi í Bergen í janúar 2012 lögðu ESB og Noregur fram sameiginlega tillögu um skiptingu aflaheimilda frá og með árinu 2012. Þótt tillagan væri óraunhæf og óásættanleg fyrir Ísland leiddi hún til þess að gagntillaga var lögð fram af Íslands hálfu. Á lokasamningafundi aðila í Reykjavík í febrúar 2012 var þess vænst að ESB og Noregur myndu svara með því að leggja fram endurskoðaða tillögu. Það olli íslenskum stjórnvöldum því miklum vonbrigðum þegar það gekk ekki eftir. Þegar fyrir lá að samkomulag næðist ekki um skiptingu aflaheimilda frá og með árinu 2012 lagði Ísland til að allir aðilar drægju hlutfallslega jafnt úr makrílveiðum sínum á því ári, um 30%, til þess að veiðarnar það ár yrðu í samræmi við ráðgjöf Alþjóða hafrannsóknaráðsins. Því miður var ekki fallist á þá tillögu.

Íslendingar munu áfram leggja áherslu á að ná samkomulagi um stjórn makrílveiðanna en til þess að svo megi verða þurfa allir aðilar að leggja sitt af mörkum. Gert er ráð fyrir að viðræður strandríkjanna hefjist á ný haustið 2012 vegna veiðanna árið 2013.“ (http://www.sjavarutvegsraduneyti.is/media/Skyrslur/Makrilskyrsla-2012 bls. 16.

Í hinum tilvitnuðu orðum úr greinargerð vinnuhópsins er stöðunni út á við lýst eins og hún er á þessari stundu. Kvótakerfið er enn lagt til grundvallar við úthlutun veiðiheimilda til íslenskra skipa en gerð var tæknileg breyting vegna veiða á árinu 2011 sem miðaði að því að auka þann hluta makrílaflans sem færi til vinnslu og manneldis. Reglugerðin fyrir árið 2011 gerð ráð fyrir að ráðherra gæti stöðvað veiðar þegar 154.825 tonna hefði verið aflað. Ákveðið var að liðlega fimmtungi aflaheimilda yrðu ráðstafað til vinnsluskipa og tekið mið af afkastagetu þeirra við frystingu. Þá var öllum leyfishöfum skylt að ráðstafa 70% makrílafla einstakra skipa til vinnslu. Framsal aflaheimilda í makríl var áfram óheimilt en útgerðir máttu flytja allt að 10% aflaheimilda milli ára.

Fiskistofa greindi frá því 10. ágúst 2011 að samkvæmt tölum hennar færi innan við 9% af veiddum makríl til bræðslu og um 91% til vinnslu, þá voru um 99.000 tonn af 154.825 tonna heildarafla á árinu 2011 komin að landi.

Þegar makrílvertíðin hófst sumarið 2012 ríkti sátt innan lands um hvernig staðið skyldi að veiðum og vinnslu. Enn voru þó blikur á lofti út á við og gætti vaxandi hörku í garð Íslendinga af hálfu Evrópusambandsins.

Í næstu grein verða ólik viðhorf samningsaðla reifuð og einkum litið til afstöðu Norðmanna.