16.11.2000

Frá huga til hugar - Þjóðarbókhlöðu





Frá huga til hugar
Sýning í Þjóðarbókhlöðu,
16. nóvember, 2000.


Heiti þessarar sýningar vísar til lestrar og við fáum tækifæri til að skoða bækur, sem miðla okkur hugsun og boða trú. Okkur gefst einnig kostur á að kynnast sögu prents og bókaútgáfu á Íslandi, þar sem sérstök áhersla er lögð á útgáfu Biblíunnar.

Það gefur rétta mynd af þróun íslenskrar bókaútgáfu að leggja áherslu á hlut kirkju og kristni. Síðasti kaþólski biskupinn á Íslandi, herra Jón Arason, flutti fyrstu prentsmiðjuna til landsins árið 1530 og setti hana niður á Hólum. Þá voru um 85 ár liðin frá því að Jóhann Gutenberg hóf að prenta bækur með lausaletri í pressu. Elsta rit, sem vitað er, að hafi verið prentað hérlendis er Brevarium Holense frá árinu 1534, en aðeins eru varðveitt tvö blöð úr þeirri bók.

Grimmdarleg örlög Jóns Arasonar voru ráðin, þegar boðskapur Marteins Lúthers barst til landsins, en Lúther nýtti sér prenttæknina af miklum krafti til að breiða út boðskap sinn gegn páfanum en á grunni hins nýja siðar var Biblían síðan þýdd á íslensku, sem tryggði varðveislu tungunnar.

Með prentlistinni urðu þáttaskil í allri upplýsingamiðlun, bókum fjölgaði mikið og um 1500 voru talin um sex milljónir prentaðra eintaka í Evrópu og er sagt, að á um það bil hálfri öld hafi komið til sögunnar fleiri bækur í Vestur-Evrópu en til voru þar áður frá örófi alda.

Við vitum öll hver þróunin hefur orðið síðan, því að bókaútgáfa hefur vaxið jafnt og þétt og er ekkert lát á henni, hvorki hér á landi né erlendis.

Oft hefur verið lýst yfir því, að nú sé tími hins prentaða máls liðinn, hljóðbækur, myndbönd og nú síðast netið komið í þess stað. Víst er, að menn hafa tileinkað sér kosti netsins og veraldarvefsins með mun meiri hraða en prentvélarinnar fyrir 500 árum, en á þeim tæplega tíu árum, sem eru liðin, síðan vefurinn kom til sögunnar hefur orðið meiri breyting á leiðum til að koma vitneskju frá huga til hugar en nokkru sinni frá því að Gutenberg var uppi.

Þegar ég var hér síðast í þessu ágæta húsi var það til að rita undir samning við alþjóðlegt fyrirtæki um aðgang allra netvæddra Íslendinga að rafrænum gagnagrunnum, sem geyma meðal annars tæpleg þrjú hundruð þúsund rafrænar bækur.

Spurningin um það, hvenær rafrænar bækur taki við af þeim prentgripum, sem hér eru til sýnis, brennur á vörum margra og var hún til dæmis til umræðu á fundi evrópskra menningarmálaráðherra í Frankfurt fyrir skömmu. Þar fékkst ekkert svar við henni, hitt er ljóst, að meðal fjölmennari þjóða, þar sem allt er í fastari skorðum en hér hjá okkur, hafa menn nokkrar áhyggjur af fyrirsjáanlegum breytingum fyrir umsvifamikinn prentiðnað og stóra bókaútgefendur. Má færa að því rök, að litlar þjóðir með eigin tungu standi betur að vígi gagnvart breytingum tengdum nýju tækninni, en stórar þjóðir, enda gæti smáþjóðirnar þess að leggja rækt við tungu sína í hinum rafræna heimi.

Prentlistinn varð til þess fyrir tæpum 500 árum að festa íslenska tungu í sessi. Sé rétt á málum haldið, getum við nýtt róttækasta arftaka hennar, upplýsingatæknina, við miðlun hugsunar og trúar með sama hætti. Megi það vera markmið okkar, þegar opnuð er sýningin frá huga til hugar á degi íslenskrar tungu árið 2000.