5.11.2000

Hærra til þín - Listasafn Sigurjóns Ólafssonar



Hærra til þín,
Listasafn Sigurjóns Ólafssonar,
5. nóvember, 2000.


Trúarleg minni í vestnorrænni list er undirtitill hinnar metnaðarfullu sýningar, sem er að hefjast hér í dag. Þess hefur í ár verið minnst víðar en hér á Íslandi, að um þessar mundir eru tíu aldir liðnar frá því að þjóðir við Norður-Atlantshaf komust í kynni við kristna trú eða tóku hana. Þó ekki væri nema af þessu tilefni er vel við hæfi að efna til sýningar á trúarlegum minnum. Hitt er ekki síður ánægjulegt að gera það með verkum góðra danskra, færeyskra, íslenskra og norskra listamanna.

Þegar litið er til uppruna listamannanna sést, að vestnorræna hugtakið er skilgreint víðar á þessari sýningu en við gerum á stjórnmálavettvangi, þar sem við lítum einkum til Færeyja, Grænlands og Íslands í þessu samhengi. Hefur þó jafnframt verið lögð á það rík áhersla að samstarf þjóðanna í þessum löndum megi ekki verða til að einangra þær í neinum skilningi.

Í sumar átti ég þess kost, að vera í Brattahlíð á Grænlandi og einnig að Görðum vegna hátíðarhalda til að minnast þess, að Leifur heppni fann Vínland og kristni festi rætur á Grænlandi. Allt fór það fram með þeim stórbrotna hætti, sem hæfir náttúru Grænlands og hinni hörðu lífsbaráttu Grænlendinga, sem sameina tvo menningarheima, Evrópu og heimskautasvæðin.

Í ferðinni gafst okkur íslenskum þingmönnum meðal annars tækifæri til að fara að Hvalsey, þar sem sjá má fornar rústir stórrar steinkirkju. Hún hefur ekki verið eins mikil og Magnúsardómkirkjan að Kirkjubæ í Færeyjum, en báðar þessar steinbyggingar til dýrðar drottni austan og vestan við Ísland vekja okkur Íslendinga til umhugsunar um það, hvers vegna við eigum ekki minjar um nein sambærileg mannvirki hér á landi frá þeim tíma, þegar norrænir menn voru þó jafnvel enn tengdari innbyrðis en nú er og þeir voru allir sæfarar og vildu sýna nýjum guði mesta virðingu.

Íslendingar reistu ekki steinkirkjur en þeir skráðu söguna, sem auðveldar skilning á hinum sameiginlegu örlögum forfeðra okkar, þótt ekki hafi enn fundist neinar haldbærar skýringar á því, hvers vegna þeir hurfu frá Grænlandi við upphaf fimmtándu aldar eða í síðasta lagi um hana miðja.

Á miðöldum tóku andleg viðfangsefni mið af kristinni trú og listamenn höfðu hana að leiðarljósi í öllum verkum sínum. Trúarleg minni eru því ríkur og sameinandi þáttur í arfleifð þjóðanna við Norður-Atlantshaf. Er vel við hæfi að bregða upp mynd af þessum þætti í listsköpun tuttugustu aldarinnar á kristniafmæli og aldamótaári og skemmtilegt, að það skuli gert með því að sýna verk þeirra, sem fóru hljótt með vinnu sína að trúarlegum listaverkum og unnu þau í leynum eins og segir í hinni glæsilegu sýningarskrá, sem kynnir okkur listamennina.

Samstarf Listasafns Sigurjóns Ólafssonar og Listasafns Reykjavíkur – Ásmundarsafns um þessa sýningu staðfestir áhuga góðra íslenskra safna á því að finna nýjar hliðar á sameiginlegum viðfangsefnum undir vestnorrænum merkjum. Vil ég óska söfnunum innilega til hamingju með þetta framtak. Sýningin er ekki aðeins lyftistöng fyrir menningarborg Reykjavíkur á þessu mikla hátíðarári heldur á hún eftir að bera hróður listamannanna og safnanna tveggja víða um lönd.

Ég lýsi sýninguna Hærra til þín í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar opna.