20.5.2000

Listahátið í Reykjavík - 2000 setningarræða

Listahátíð í Reykjavík
setning 20. maí
2000


Mörg okkar sem erum hér í dag eigum minningar frá fyrstu Listahátíð í Reykjavík fyrir þrjátíu árum. Hátíðin vorið 1970 var ekki aðeins eftirminnileg fyrir okkur hvert og eitt, hún var einnig upphaf á einstaklega ánægjulegu ferðalagi, en á þessari ferð okkar höfum við áð annað hvort ár til að njóta og skapa eitthvað nýtt.

Nú er komið að því að nema staðar á aldamótaári og eiga stefnumót við tímann undir merkjum Listahátíðar í Reykjavík. Loftið er magnaðra en oft áður vegna annarra hátíðlegra merkisatburða og vegna þess að ný öld, nýtt árþúsund er að ganga í garð.

Sporin, sem voru stigin fyrir þrjátíu árum, báru í sér fyrirheit um betra mannlíf á Íslandi með nýrri áherslu á menningu og listir. Ég fullyrði, að Listahátíð í Reykjavík hafi á þrjátíu árum stuðlað að meiri framförum og nýjungum en nokkur þorði að vona. Aldrei hefur gróskan í listalífi þjóðarinnar verið meiri en einmitt núna.

Listahátíð er einstakt tækifæri til að meta á heimavelli eigin stöðu í samanburði við margt af því besta, sem er í boði á heimsmælikvarða. Eftirvæntingin vegna fyrstu hátíðarinnar átti ekki síst rætur að rekja til hins metnaðarfulla, alþjóðlega mælikvarða, sem setti svip sinn á allan undirbúning hennar. Þar gaf snillingurinn Vladimir Ashkenazy tóninn og dugnaður hans við að kalla til samstarfs framúrskarandi listamenn vakti verðskuldaða aðdáun og opnaði okkur nýjan heim.

Ég mun til dæmis aldrei gleyma því að hafa farið til Þingvalla í júní 1972 með Yehudi Menuhin og konu hans Díönu, en Matthías Johannessen, skáld og ritstjóri, bauð til þeirrar ferðar og lýsti henni síðar í Morgunblaðsviðtali, þar sem hann minnir á, að sumir hafi sagt Menuhin frægastan allra listamanna, sem komið hefðu til Íslands og hefur eftir honum, þegar við ókum í rykmekki fyrir austan Þingvallavatn: 6Þetta er stórkostlegt, svona eiga allir vegir að vera. Kindurnar eiga að geta hlaupið yfir þá með lömbin, eins og ekkert sé. & Vegirnir ættu að vera í samræmi við umhverfið og þjóðlöndunum mætti ekki breyta í asfalt.

Mikið vatn er síðan til sjávar runnið en Ashkenazy leggur hátíðinni lið sitt enn þann dag í dag sem heiðursforseti hennar. Verður þrjátíu ára framlag hans til Listahátíðar í Reykjavík aldrei fullþakkað.

Við höfum ekki einungis metið eigin stöðu með því að taka á móti góðum gestum á heimavelli. Í vaxandi mæli höfum við sótt meira út fyrir landsteinana á sviði menningar og lista. Að þessu sinni gefur Listahátíð í Reykjavík okkur tækifæri til að kynnast íslensku afreksfólki í listum, sem hefur náð langt í grein sinni á alþjóðlegan mælikvarða.

Hugtakið að vera heimsfrægur á Íslandi stenst ekki lengur, af því að inntak þess hefur misst gildi sitt í tímans rás. Á þessari hátíð gefst okkur hið einstæða tækifæri að sjá Svanavatnið í dansútgáfu Helga Tómassonar ballettdansara, flutt af San Francisco ballettnum, þar sem Helgi er listrænn stjórnandi og hefur leitt flokkinn til mikilla sigra. Helgi Tómasson er verðugur fulltrúi hinna mörgu, sem fylla okkur stolti vegna glæsilegs frama síns.

Jafnt í Norður-Ameríku og Evrópu getum við farið í óperuhús, tónlistarhús, listasöfn, kvikmyndahús eða bókaverslanir og söfn og fundið verk eftir Íslendinga eða flutt af Íslendingum. Síðustu daga hafa okkur borist fregnir af því, hvaða athygli Björk og aðrir Íslendingar hafa vakið í Cannes og mér er ógleymanlegt að hafa verið í París síðastliðið haust, þegar hin mikla yfirlitssýning á verkum Errós var opnuð í Jeu de Paume-safninu og á sama tíma mátti á öllum götuhornum stórborgarinnar sjá auglýsingaskilti til kynningar á kvikmynd Sólveigar Anspach., Hertu upp hugann. Þau eru nú bæði komin á meira flug, sýning Errós fer víða um lönd eftir að tugir þúsunda sáu hana í París og aðalleikkonan í Hertu upp hugann fékk frönsku Sesar-kvikmyndaverðlaunin fyrir framgöngu sína. Bestu verðlaunin að mati Sólveigar, því að hún hafði ekki áður stjórnað leikinni kvikmynd.

Listahátíð í Reykjavík er okkur hvatning til að missa aldrei sjónar á nauðsyn þess að byggja upp þjóðfélag á Íslandi, þar sem ungu fólki er skapað svigrúm til að þroska með sér listræna hæfileika og nýta þá. Með því að stofna Listaháskóla íslands var stigið mikilvægt skref á þessari braut. Nú í vor er skólinn að taka við leiklistarnáminu en hann hóf starf sitt síðastliðið haust með því að kenna myndlist, næst kemur tónlistin og síðan hvaðeina annað, sem eflir sköpunarmáttinn. Þegar fram líða stundir sé ég skólann fyrir mér sem jafnvel öflugri burðarás fyrir íslenskt listalíf en sjálf hátíð okkar hefur verið síðustu þrjátíu árin.

Við, sem höfum axlað ábyrgð á heimavelli, verðum að sjá til þess, að hér sé skapandi og spennandi vettvangur í öllum listgreinum. Næsta stórverkefnið í því efni er að reisa tónlistarhöll í Reykjavík og treysta forsendur menningarstarfs í landinu öllu.

Aldrei aftur snúum við til einangrunar, hvorki í listum né öðrum greinum. Aldrei aftur leitum við skjóls í þeirri trú, að með boðum og bönnum sé fólki haldið til búsetu eða starfa á Íslandi. Fjarlægðir eru horfnar, ekki síst í listrænni sköpun, eins og sannaðist á dögunum á eftirminnilegum tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem voru samtímis á tveimur stöðum undir einum stjórnanda.

Áskorunin, sem við stöndum frammi fyrir, við upphaf nýrrar aldar er skýr: Við verðum að búa þannig um alla hnúta á Íslandi, að þjóðfélag okkar standist samanburð og samkeppni á öllum sviðum. Að öðrum kosti höfum við ekki farið vel með þá arfleifð, sem við fengum. Síðustu ár tuttugustu aldarinnar sýna, að við erum á réttri leið, en það má aldrei slaka á kröfunum og í þeim anda hefur jafnan verið starfað við undirbúning listahátíða.

Ég færi Sveini Einarssyni, formanni framkvæmdastjórnar hátíðarinnar að þessu sinni, og öllu samstarfsfólki hans innilegar þakkir fyrir mikil og góð störf vegna hátíðarinnar með óskum um að hún höfði til sem flestra. Á þrjátíu ára afmælinu verða þáttaskil í skipulagi og yfirstjórn Listahátíðar í Reykjavík, þegar listrænn stjórnandi hefur verið ráðinn og mun hann bera hita og þunga starfsins framvegis. Óska ég Þórunni Sigurðardóttur velfarnaðar í því brautryðjendastarfi.

Góðir áheyrendur!

Við hófum ánægjulegt ferðalag fyrir þrjátíu árum undir merkjum Listahátíðar í Reykjavík. Hátíðin hefur gefið okkur tækifæri til að kynnast mörgum frábærum listamönnum og listaverkum. Hún hefur lyft anda okkar til hæða og opnað okkur sífellt stærri sjóndeildarhring.

Ferðinni er alls ekki lokið, þótt við stöldrum nú við og eigum stefnumót við tímann, kynnumst einkum íslenskri list, horfum til baka og fram á veg, um leið og sérstök áhersla er lögð á að höfða til barna.

Á þessari listahátíð eigum við ekki einungis stefnumót við tímann. Við eigum stefnumót við okkur sjálf, því að listahátíð er þroskatími, tækifæri til að opna hugann fyrir hinu nýja og framandi. Listahátíð er áfangastaður á okkar eigin vegferð í heimi, þar sem leiðirnar eru fleiri en nokkru sinni og tækifærin bíða þess eins að verða nýtt.

Ég lýsi yfir því, að Listahátíð í Reykjavík árið 2000 er hafin.